Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

19. maí 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Ávarp fjármálaráðherra á aðalfundi Samtaka lífeyrissjóða 18. maí 2010

Ég vil fyrst segja að það var mikil gæfa þegar menn rötuðu inn á það spor á Íslandi að hefja uppbyggingu söfnunarsjóða.

Þar urðu mikil tímamót í maí 1969 þegar samkomulag náðist um slíkt á almennum vinnumarkaði og í framhaldinu var því fylgt eftir með lagasetningu um skylduaðild að lífeyrissjóðum upp úr 1970. Fyrir voru lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna í sérstöku kerfi og nokkrir litlir sjóðir en án skylduaðildar. Á grundvelli þessa samkomulags og með löggjöf í framhaldinu var þetta svo þróað. Atvinnurekendur komu inn um 1980 með skyldu til að greiða mótframlag. 1996 voru síðan í grófum dráttum sett þau lög sem nú gilda og kerfið fest í sessi, má segja að hringnum hafi verið lokað með því að tryggja aðild allra að lífeyrissjóðum og þannig hefur kerfið verið starfrækt síðan. Þá eru sömuleiðis uppskiptin í LSR milli framtíðarinnar og þess sem orðið var sem lokað var inni í B-deildinni.

Ef við lítum á stöðu lífeyrissjóðakerfisins í heild um þessar mundir er hún þannig að þar hafa vissulega orðið áföll borið saman við stöðuna eins og hún var þegar hún var best í árslok 2007. Þá voru hreinar eignir lífeyrissjóðanna um 130% af vergri landsframleiðslu, sem ég hygg að sé besta viðmiðunin hér fremur en nafntölur. Í árslok 2008 er áfallið komið fram að verulegu leyti og þá er hrein eign lífeyrissjóðanna komin ofan í 109% af vergri landsframleiðslu en í árslok 2009, um síðustu áramót, hafði hlutfallið aftur hækkað í 119%. Það setur okkur á svipaðan stað í þessu og þær tvær þjóðir aðrar sem best standa í heiminum, þ.e. Ísland, Holland og Sviss skara fram úr í þessum efnum með lífeyrissjóðakerfi sem á um 120–130% af vergri landsframleiðslu í hreinar eignir. Til samanburðar eiga Grikkir 0% og margar aðrar þjóðir eru, eins og málshefjandi nefndi réttilega, í miklum erfiðleikum í þessum efnum. Almenn réttindi voru aukin umtalsvert í kerfinu hjá almennu lífeyrissjóðunum, sérstaklega á árunum 2006–2007, jafnvel í sumum tilvikum umfram skyldur með aukalífeyrisgreiðslum. Þau hafa nú verið skert aftur, því miður, og í flestum tilvikum eru menn eru aftur komnir á svipaðan stað um það bil hvað réttindin varðar og 2006 en þau hafa þó verið verðbætt síðan samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þannig er það t.d. hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna og ef skoðað er lengra tímabil jukust réttindin þar um 21,1% umfram verðlagsbreytingar á árunum 1997–2009 og eftir þá lækkun sem orðin er á þessu ári eru réttindin samt um 9% umfram verðlagsbreytingar á tímabilinu. Hjá lífeyrissjóðnum Gildi voru réttindi sjóðfélaga hækkuð um 10% umfram verðlagsbreytingar 2007 og 7% á árinu 2006. Með lækkunum núna og á síðasta ári hafa þessar hækkanir í raun verið teknar til baka en þó þannig að réttindin hafa haldist verðtryggð.

Hjá A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafa réttindin allan tímann tekið breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þau hækkuðu ekki á sama tíma og almennu lífeyrissjóðirnir juku réttindin umfram verðlagsbreytingar. Þau hafa heldur ekki lækkað núna. Í raun og veru má segja að staðan sé sú að hlutföllin milli kerfanna eru nákvæmlega þau sömu aftur og þau voru 2006 og hafa í báðum tilvikum fylgt verðlagi samkvæmt vísitölu neysluverðs. Stöðuna þekkjum við. Við vitum af þeim framtíðarskuldbindingum sem liggja í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og eru 350 milljarða áfallnar skuldbindingar og framtíðarskuldbindingar en þar við bætist Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga með um 40 og síðan vantar nokkuð upp á að A-deildin sé tryggingafræðilega rétt eins og kunnugt er. Það er sárgrætilegt þegar það er skoðað að sjá hversu lítið var greitt inn á skuldbindingarnar á árunum 2004–2007. Menn fóru vel af stað og gerðu það sem þeir ætluðu sér og greiddu umtalsvert inn á skuldbindingarnar 2000/2001 en svo dregur úr því einmitt þegar afgangur á ríkissjóði var mestur. Það er sorglegt þegar horft er til baka því að þrátt fyrir allt munar gríðarlega um þessar inngreiðslur eins og við sjáum á því að B-deildin mun eiga fyrir sínum skuldbindingum vel fram yfir 2020, án frekari inngreiðslna.

Þó svo að nú séu, og eðlilega mjög til umræðu, skerðingar í hinu almenna lífeyrissjóðakerfi má ekki gleyma þeirri mynd sem blasir við okkur; að lífeyrissjóðirnir eru eitt helsta akkerið í íslensku efnahagslífi og mun hjálpa okkur við að vinna úr þeim erfiðleikum sem við stöndum núna frammi fyrir. Eins og ég nefndi áðan að þá er staða okkar lífeyrissjóða giska góð og í rauninni allverulega góð í alþjóðlegum samanburði.

Þetta er mikilsverða atriði til að hafa í huga nú þegar lífeyrissjóðirnir eru harkalega gagnrýndir fyrir þátt sinn í að sprengja upp hlutabréfaverð í „útrásarfyrirtækjum” með fjárfestingamætti sínum. Ýmislegt í þeirri gagnrýni verða lífeyrissjóðir að taka til sín til að mynda óæskilegt samkrull aðila í fjárfestingum fyrir sjóðina og svo yfirmanna í þeim fyrirtækjum er fjárfest var í. Einnig að laun hafi vaxið fram úr hófi hjá yfirmönnum á þessum bóluárum. Það er nefnilega þannig að lífeyrissjóðir hafa veigamiklu samfélagslegu hlutverki að gegna. Og við núverandi aðstæður er mikilvægt að undirstrika það hlutverk og jafnframt horfa til framtíðar. Lífeyrissjóðakerfið þarf að starfa í góðri sátt við samfélagið og eigendurnir, þjóðin þarf að geti treyst því í orðið og á borði að þetta séu sjóðirnir okkar

Lífeyrissjóðirnir geta nefnilega augljóslega gegnt lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu sem framundan er í íslensku samfélagi. Og mín skoðun er sú að þeir eiga að gegna lykilhlutverki – það sé siðferðileg skylda þeirra og það sé einnig efnahagslega skinsamlegt fyrir þá sjálfa.

Eins og öllum er kunnugt að þá er núverandi ríkisstjórn að glíma við einhverjar erfiðustu aðstæður sem nokkur ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir á lýðveldistíma. Tekjur hafa dregist saman, halli ríkissjóðs er gríðarmikill og á hann hafa fallið miklar skuldir. Þetta verkefni glímum við nú við og hefur ýmislegt lagst með okkur en annað verið mótdrægt eins og gengur. En þetta er verkefni sem við stöndum frammi fyrir er ekki eingöngu vandamál sem stjórnvöld eða stjórnmálamenn standa frammi fyrir heldur við öll.

Lífeyrissjóðirnir hafa heitið því að koma hér að uppbyggingu efnahagskerfisins og ber að fagna því en ég vil gjarnan sjá meira frumkvæði frá sjóðunum um möguleg verkefni á vegum þeirra. Maður ehyrir víða sönginn um að beðið sé eftir ríkinu. En eftir hverju er verið að bíða og hvað er ríkið, það erum við? Staða lífeyrissjóðanna er sterk og fjárfestingargeta eða öllu heldur fjárfestingaþörf þeirra mikil. Það mikla fé þarf að vera í vinnu við að byggja efnahagslífið upp og leggja grunn að verðmætasköpun og velmegun til framtíðar. Það mun skila lífeyrissjóðunum því umhverfi sem þeim gagnast og um leið okkur öllum. Mér og ökkur öllum eru kunnar þær stífu arðsemiskröfur sem hafðar eru til viðmiðunar í fjárfestingum lífeyrissjóða, en eru þær e.t.v. of þröngt skilgeindar? Á samfélagslegur ávinningur að fá aukið vægi til hliðar við arðsemina? Á að horfa meira til langtímasjónarmiða um heildararðsemi og framtíðarvelgengni, fremur en kalt mat um metna arðsemi fjárfestinga í augnablikinu. En slíkt mat er mannanna verk eins og annað. Ekki stendur á mér að ræða þessa hluti og aðrar, þar með talið hvernig starfsemi og stjórn lífeyrissjóði verði best háttað þannig að góð sátt geti ríkt um þá og þeirra mikilvæga hlutverk.

Ég þakka áheyrnina og óska ykkur góðs gengis í ykkar störfum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum