Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

08. júní 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Ræða fjármálaráðherra um kynjaða hagstjórn, flutt á vestnorrænni ráðstefnu um jafnréttismál 7. júní sl.

Kæru fundargestir

Íslendingar hafa löngum státað sig af því að vera meðal fremstu þjóða þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Samt er það nú svo, hér eins og annars staðar, að jafnrétti er langt því frá náð.

Launamunur kynjanna er enn töluverður. Verkaskipting á heimilum er ójöfn konum í óhag og enn eru viðhorf til verkaskiptingar að einhverju leyti íhaldssöm þar sem fyrirvinnuhlutverkið er sterkar tengt við karla og umönnunarhlutverkið við konur. Kynbundið ofbeldi er því miður útbreitt sem og staðalmyndir um hlutverk og áhugamál kynjanna. Náms- og starfsval er enn afar kynbundið eins og sést á kynskiptum vinnumarkaði.

Fyir einu og hálfu ári stóðum við Íslendingar frammi fyrir mestu efnahagshremmingum í sögu þjóðarinnar þegar efnahagskerfi okkar hrundi. Síðan þá höfum við glímt við það krefjandi verkefni að reisa þjóðfélagið við aftur. Í þeirri endurreisn má ekki missa sjónar á þeim gildum sem við viljum halda í heiðri í íslensku þjóðfélagi. Sjálfsögðum gildum á borð við jafnrétti kynjanna.

Því í sögulegu samhengi vitum við að á samdráttartímum er hætt við að niðurskurður, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, bitni verr á konum en körlum. Stafar það að hluta til af því að þegar skorið er niður í þjónustu hins opinbera færist sú vinna oft á tíðum á herðar kvenna í formi ólaunaðrar vinnu. Þegar hjólin fara aftur að snúast hefur einnig verið tilhneiging til að leggja meiri áherslu á atvinnuskapandi aðgerðir sem þjóna hagsmunum karla betur en kvenna.

Það er því mikið verk sem fyrir okkur liggur að stuðla að jafnrétti á Íslandi með öllum tiltækum ráðum og þar þurfum við að nýta þau verkfæri sem sýnt hefur verið að skili árangri.

Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking árið 1995 var samþykkt að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku. Ísland er aðili að þessari samþykkt og í okkar jafnréttislögum er kveðið á um að kynjasamþættingar skuli  „gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana er starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt.

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er hluti af kynjasamþættingu og á kvennaráðstefnunni í Peking var ekki eingöngu samþykkt að samþætta kynjasjónarmið í alla ákvarðanatöku, heldur voru ríkisstjórnir einnig hvattar til að fara yfir dreifingu opinberra fjármuna á kerfisbundinn hátt til að tryggja að kynin sætu við sama borð.

Á þessum tíma, fyrir 15 árum síðan, voru nokkur lönd þegar byrjuð að nýta aðferðir kynjaðrar hagstjórnar. Fyrsta verkefnið var framkvæmt í Ástralíu árið 1984 en þá voru fjárlögin greind út frá áhrifum á kyn. Fleiri þjóðir fylgdu á eftir og nú er svo komið að kynjuð hagstjórn er notuð í einni eða annarri mynd í yfir 50 löndum. Kynjuð hagstjórn byggir á þverfaglegri nálgun þar sem sameinuð er annars vegar þekking á fjármálum og áætlunum hins opinbera og hins vegar þekking á kynjamisrétti.

Á yfirborðinu virðast fjárlögin vera hlutlaus, þar er hvorki minnst á karla né konur. Hins vegar væri nær að  tala um að fjárlögin séu kynblind, þ.e. við gerum ekki grein fyrir mismunandi áhrifum fjárlaga á stöðu karla og kvenna. Kynjaðri hagstjórn er ætlað að bæta úr þessu. Með því að greina fjárlög út frá kynjasjónarmiðum til að skera úr um mismunandi áhrif þeirra á konur og karla er hægt að endurmóta stefnu og ákvarðanir stjórnvalda þannig að skipting fjármagns samræmist markmiðum okkar um jafnrétti kynjanna.

Eftir efnahagshrunið ákvað ríkisstjórn Íslands að setja á fót vinnuhóp til að meta áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna, enda einhuga um að við endurreisn íslensks efnahagslífs og uppbyggingu faglegra stjórnunarhátta verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi. Í vinnuhópinn, sem gengur undir nafninu Jafnréttisvaktin, voru skipaðir fulltrúar frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu.

Í áfangaskýrslu Jafnréttisvaktarinnar sem kynnt var í ríkisstjórn í mars 2009 er lögð áhersla á mikilvægi þess að stjórnvöld hafi ávallt jafnréttis- og kynjasjónarmið að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Þá var einnig lagt til að tekin yrði upp aðferðafræði kynjaðrar hagstjórnar í fjárlagagerð.

Í kjölfarið á þessu skipaði ég sem fjármálaráðherra verkefnisstjórn í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð. Hlutverk hennar er að vinna álit og tillögur um aðgerðir til að innleiða leikreglur kynjaðrar fjárlagagerðar. Eftir upplýsingaöflun, fræðslu og útgáfu handbókar um kynjaða hagstjórn var ákveðið að að leggja af stað með tilraunaverkefni. Í því felst að hvert ráðuneyti eða stofnun velur eitt eða fleiri verkefni sem nú þegar er til staðar og beitir aðferðum kynjaðrar hagstjórnar á það. Þannig byrjum við að byggja upp sérfræðiþekkingu inn í hverju ráðuneyti og þeim stofnunum sem taka þátt í tilraunaverkefnunum. Búið er að ráða inn verkefnastjóra til að halda utan um tilraunaverkefnin og vera ráðuneytunum innan handar á fyrstu stigum þess. Hvert og eitt verkefni verður kynnt núna í næstu fjárlögum og niðurstöðurnar í fjárlögum 2012.

Við vitum að okkar bíður krefjandi og erfitt verkefni. Sem fyrr segir sýnir reynsla annarra landa, sem og okkar eigin saga, að hætt er við að niðurskurður, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, bitni meira á konum en körlum, að ólaunuð vinna kvenna aukist sem og að atvinnusköpun verði frekar miðuð að þörfum karla en kvenna. Hætt er við að kynjamisrétti aukist í kreppum, sem og kynbundið ofbeldi, eins og við erum þegar byrjuð að sjá vísbendingar um. Þetta eru víti til að varast og við verðum að gera okkar besta til að læra af sögunni og koma í veg fyrir að hún endurtaki sig.

Eitt af þeim tækjum sem við getum og eigum að beita til að stuðla að jafnrétti er kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð. Það er ekki einvörðungu í samræmi við þá alþjóðasamninga sem við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja heldur einnig okkar eigin löggjöf og stefnu núverandi ríkisstjórnar sem hefur að yfirlýstu markmiði að vera norræn velferðarstjórn. En innleiðing kynjaðrar hagstjórnar er ferli sem tekur tíma. Byggja þarf upp þekkingu og þróa tól og tæki sem henta fjárlagagerð hvers lands fyrir sig. Lykilþættir í að stuðla að árangursríkri innleiðingu eru að pólitískur vilji sé til staðar. Veita þarf fjármagni í málaflokkinn og byggja þarf á mannauði, rannsóknum og fræðslu. Einnig þurfa góðar kyngreindar upplýsingar að liggja fyrir sem hægt er að styðjast við þegar áhrif stefnu og aðgerða eru metin.

Það verður að segjast eins og er að við værum betur í stakk búin til að takast á við þá erfiðu stöðu sem við nú stöndum frammi fyrir ef við hefðum byrjað fyrr að koma okkur upp þekkingu og þróa tæki og aðferðir kynjaðrar hagstjórnar sem henta fyrir Ísland. Við eigum til að mynda erfitt um vik að beita kynjaðri hagstjórn á niðurskurð í augnablikinu því okkur skortir tæki og nauðsynlega þekkingu. Okkur vantar líka ýmsar rannsóknir og kyngreind gögn sem við getum stuðst við til að meta áhrif ákvarðana. Góðu fréttirnar eru eftir sem áður þær að við erum lögð af stað í þessa vegferð og pólitískur vilji er til staðar til að sjá kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð verða að veruleika. Við gerum ráð fyrir því að við munum mæta að einhverju leyti sömu hindrunum og önnur lönd hafa staðið frammi fyrir, en þetta er ef til vill kosturinn við að byrja seint – við ættum þá að vera betur í stakk búin til að lágmarka hindranir eins frekast og kostur er.

Það er líka staðreynd að hingað til hafa fleiri karlar en konur komið að ákvarðanatöku í ríkisfjármálum Íslands og í efnahagsmálum ríkisins. Kannski einmitt vegna þessa ójafnvægis kynjanna við ákvarðanatöku hefur jafnréttissjónarmiðum ekki verið gert eins hátt undir höfði og nauðsynlegt hefði verið. Karlar og konur verða að koma saman að borðinu og taka ákvarðanir í sameiningu um fjármálin sem snerta okkur öll. Karlar, hvar sem þeir standa í stjórnmálum, verða líka að gangast við því að ákvarðanir um kynjaða hagstjórn er svo sannarlega alvöru mál og snertir með beinum hætti framtíð samfélagsins sem við erum að leggja grunninn að hér og nú. Öll gagnrýni á kynjaða hagstjórn og kynjaða fjárlagagerð sem hefur einkum heyrst frá körlum ber vott um þekkingarleysi á mikilvægi málsins. Karlar verða að gangast við þeirri ábyrgð sem þeim er falin til að byggja hér upp sanngjarnt samfélag og þeir verða að leggja sitt á vogarskálarnar til að opna fyrir aðkomu beggja kynja að þeirri uppbyggingarvinnu. 

Það er hægt að viðhalda óbreyttri stöðu, það er hægt að stuðla að auknu kynjamisrétti með fjárlögum, en það er líka hægt að stuðla að jafnrétti kynjanna með markvissum hætti. Forsenda þess er að við vitum hvað við erum að gera þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir. Kynjuð hagstjórn er hluti af góðri efnahagsstjórn. Hún er það tæki sem gerir okkur kleift að skapa nauðsynlega þekkingu sem hjálpar okkur að taka upplýstar, skynsamar og umfram allt, réttlátar ákvarðanir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum