Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

23. september 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Erindi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á fundi SA og VÍ um skattamál

Erindi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á fundi Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands um skattamál, 23. september 2010 (ath. að ræðan var stytt í flutningi og ýmsum ummælum bætt við).

Það er þakka vert að samtök atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands, efna til opinnar umræðu um skattamál, í þessu tilviki skattamál fyrirtækja. Tilefni slíkrar umræðu er ærið og umræðan þörf. Til þess að svo megi verða er hins vegfar nauðsynlegt að nálgast málin á réttum forsendum, leggja opið og raunsætt mat á hlutina og hefja umræðuna upp úr hjólfari þröngra eiginhagsmuna sem einkennir umfjöllun um skattamál allt of oft.

Skattar eru mikilvægir, skattar eru nauðsynlegir, skattar eru ómuflýjanlegir ef við ætlum að reka þróað nútíma samfélag. Ég legg áherslu á orðið samfélag, við erum með öðrum orðum saman í félagi. Með skattlagningu afmarkar ríkisvaldið annars vegar þann hluta þjóðarframleiðslunnar sem varið skal til samneyslu og sameiginlegra þarfa og leggur hins vegar línurnar um það hvernig kostnaðurinn af samneyslunni kemur niður á þjóðfélagshópa o.s.fr. Umræðu um þessi mikilvægu atriði er því miður oft fórnað á altari lýðskrumsins sem lofar öllu fögru, gullu og grænum skógum með einni saman lækkun skatta.

Áður en komið er að þeim tillögum sem, kynntar hafa verið af SA og VÍ, er nauðsynlegt að víkja nokkuð að ýmsum ranghugmyndum, sem litað hafa umræðu um skatta á síðustu misserum og virðast því miður setja nokkuð mark sitt á ykkar tillögur.

Fyrsta atriðið af þessum toga sem ég vil minnast á hefur ítrekað verið haldið fram m.a. af forystumönnum þessara samtaka í ræðu og riti. Í ræðum og skrifum þeirra sem kalla sig talsmenn atvinnulífsins hafa verið útmálaðar gífurlegar skattahækkanir sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir og sú mikla skattpíning sem hún hefur komið á. Því er haldið blákalt fram þvert á allar staðreyndir að litlar breytingar hafi orðið í ríkisfjármálunum og að það litla sem áunnist hafi sé allt gert með skattahækkunum, lítið hafi verið dregið úr útgjöldum. Og ýmsir óþroskaðir stjórnmálamenn hafa tekið undir sönginn. En hvað er hæft í þessu? Í stuttu máli ekki neitt.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum og greip til ráðstafana í ríkisfjármálum á miðju síðasta ári stefndi í að halli á frumjöfnuði ríkissjóðs, þ.e. án hinnar gífurlegu nýju vaxtabyrði, yrði um 9% af VLF. Hver er staðan nú hálfu öðru ári síðar. Hallinn á frumjöfnuði ríkissjóðs er áætlaður verða um 2,2% af VLF, þ.e. hann hefur lagast um 6,8% af VLF. Og hvernig skyldi það hafa gerst. Jú, skattar hafa vissulega hækkað og tekjur ríkissjóðs hafa aukist um sem svara 2,3% af VLF. Á sama tíma hafa frumgjöld ríkissjóðs lækkað um 4,5%. Þannig hefur lækkun útgjalda borið uppi aðhaldsaðgerðirnar og verið 2/3 hlutar þeirra en tekjubreytingar þriðjungur. Gangi áform ríkisstjórnarinnar vegna 2011 eftir að meðtöldum þeim hóflegu skattabreytingum sem í undirbúningi eru verður aðlögunin orðin nálægt 9,5% af VLF og um 78% hennar náð með gjaldalækkunum en 22% með tekjubreytingum.

Ár
Tekjubreyting uppsöfnuð % af VLF
Gjaldabreyting uppsöfnuð % af VLF
Aðlögun alls uppsöfnuð % af VLF
Tekjubreyting % af heild
Gjaldabreyting% af heild
2009
1,6%
- 0,8%
2,4%
68%
32%
2010
2,3%
- 4,5%
6,8%
33%
67%
2011
2,2%
- 7,5%
9,7%
22%
78%

 

Það er ekki síður fróðlegt að virða fyrir sér þróun gjalda og tekna ríkissjóðs frá því á árunum fyrir hrunið. Þá sést glöggt hvernig frumgjöld ríkissjóðs tóku að hækka á árinu 2007 og rjúka síðan upp á árunum 2008 og 2009. Eru vaxtagjöld og tap á eignum þó ekki meðtalin. Á árinu 2009 ná frumgjöldin um 33% af VLF og voru orðin nærri 4,5% af VLF hærri en þau voru að jafnaði á árunum 2005 - 2007. Með aðgerðum núverandi stjórnar verða frumgjöldin komin niður í um 29% á árinu 2010 og stefnt er að því að þau verði komin undir 26% á árinu 2011 og verði um 2% lægra en meðaltal áranna 2005 - 2007. Myndin sýnir einnig glöggt þróun frumtekna ríkissjóðs. Þær féllu um nálægt 7% af VLF úr 33,5% á árunum fyrir hrun í 26,3% á árinu 2009 og hafa haldist lítt breyttar síðan.

 

Frumtekjur og frumgjöld ríkissjóðs, hlutfall af VLF, 2005-2011

 

Þessar tölur og línurit sýna glöggt að staðhæfingar þess efnis að aðlögun ríkisfjármála hafi verið lítil og fyrst og fremst fólgin í hækkun skatta eru einfaldlega rangar.

Sama er að segja um staðhæfingar um skattpíningu í tíð núverandi ríkisstjórnar. Lítum á tölur og staðreyndir. Skatttekjur ríkisins á árinu 2010 og eftir þær breytingar sem ráðgerðar eru vegna ársins 2011 verða um 25,8% af VLF. Þetta hlutfall er langtum lægra en það var á árunum fyrir hrun t. d. á árunum 2005 - 2007 þegar það var nærri 6,4 prósentustigum hærra að meðaltali eða rúmlega 32% af VLF. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt fólk úr þessum ranni ásaka stjórnvöld á þeim tíma fyrir skattpíningu. Miklu fremur voru þau lofsungin fyrir skattalækkanir enda hafði svo til tekist hjá stjórnvöldum þess tíma að skattar voru lækkaðir á fyrirtækjum, eigendum þeirra, fjármagnseigendum og hinum betur stöddu en skattahækkanirnar sem ljóslega koma fram í tölunum voru lagðar á aðra.


Skatthlutfall af VLF 2005-2011

 

Breytingin á sköttum til lækkunar eftir hrunið og allt til þessa dags er næsta almenn fyrir flestar skatttegundir og er hún sýnd hér á eftir fyrir stærstu tekjustofna ríkisins. Eru skatttekjurnar á föstu verðlagi ársins 2009. Á föstu verðlagi hafa skatttekjur alls lækkað um rúm 20% frá meðaltali áranna 2005 - 2007. Tekjur af  einstökum sköttum staðið í stað eða lækkað. Undantekningin er tryggingagjaldið. Á föstu verðlagi lækkuðu tekjuskattar einstaklinga um 18%, virðisaukaskattur hefur lækkað um nærri 30% en tryggingagjald hefur hækkað um nærri 24%.

 

Skattatekjur 2005-2011

 

Skýringar á þessum breytingum eru margvíslegar og í takt við þær breytingar sem orðið hafa í efnahagslífinu en sýna einnig og staðfesta það sem áður er sagt að sama hvaða mælikvarði er notaður verður því ekki haldið fram með rökum að skattheimtan hafi aukist.

Ýmsir hafa orðið til þess að fullyrða að sérstaklega hafi verið sótt að fyrirtækjum og atvinnurekstri með skattabreytingum. Erfitt er að finna því stað. Í reynd er eina breytingin sem eitthvað kveður að og sneri að atvinnurekstri sú að skatthlutfall lögaðila var hækkað í 18% úr 15% sem það hafði verið í eitt ár en  ein helstu viðbrögð fyrri stjórnar við fyrirsjánlegu tekjufalli ríkisins eftir hrunið var að hverfa frá lækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga en láta lækkun hjá lögaðilum standa. Aðrar breytingar sem gerðar hafa verið lúta að lagfæringum, m.a. til að koma í veg fyrir skattasniðgöngu, og til tryggja íslenska hagkerfinu arð af auðlindum þjóðarinnar.

Þótt gjarnan sé talað um skattlagningu fyrtækja eða rekstrar er rétt að hafa það í huga að á endanum greiða eingöngu einstaklingar skatta. Á þeim lenda skattar sem fyrirtækjum er gert að skila. Óbeinu skattarnir á almenningi að mestu í gegnum vöruverð og beinu skattarnir á eigendum fyrirtækjanna. Skattlagning á fyrirtæki og rekstur er því nauðsynlegt að skoða m.t.t. þess hvaða áhrif hún hefur á grundvallaratriði í skattlagningu eins og jafnræði þegnanna og sanngjarna dreifingu skattbyrði. Ekki er vafi á því að skeytingarleysi um þessi sjónarmið við breytingar á skattlagningu lögaðila á síðustu árum hafði leitt til misræmis og ósanngirni sem ekki var við unað. Skattlagning manna réðist meira af því hvaða nafn tekjunum var gefið en hversu háar þær voru.

Rauður þráður í rökstuðningi fyrir lækkun á því sem kallað er skattlagning fyrirtækja er kenning um að lágir skattar á fyrirtæki og eigendur þeirra séu jákvæðir fyrir efnahags- og atvinnulífið. Þessar kenningar eru sjaldnast rökstuddar og enn síður hefur verið sýnt fram á virkni þeirra í reynd. Skattlagning fyrirtækja og eigenda þeirra hefur á síðustu árum verið til mikilla muna lægri hér á landi en í flestum vestrænum ríkjum.  Má sjá það m.a. í skýrslu um samkeppnishæfni íslenska skattkerfisins, sem unnin var fyrir fyrrverandi fjármálaráðherra. Breytingar skatta í þessa átt voru rökstuddar með því að fjárfestingar myndi aukast, erlendir aðilar sæju sér hag í að koma hingað með starfsemi o.s.fr. Lítið gætir þó hinna meintu jákvæðu áhrifa. Miklu fremur má ætla að þetta hafi stuðlað að neikvæðri þróun í ýmsum efnum. Árin fyrir hrun einkenndust af útstreymi fjármagns frá íslenskum fyrirtækjum til skúffufyrirtækja í útlöndum. Eignarhald á íslenskum fyrirtækjum var að stórum hluta til komið í hendur aðila sem voru erlendir að nafninu til og arður af íslenskri starfsemi fluttur til útlanda um leið og íslensk fyrirtæki voru skuldsett og notuð til að fjármagna umsvif fjárglæframanna. Því skal ekki haldið fram að skattlagningarreglur hér á landi hafi valdið þessu en svo mikið er víst að þessi þróun var í andstöðu við þau rök sem notuð eru til að réttlæta lága skattlagningu rekstrar og skattareglur voru útrásinni ekki til trafala.

Það er ekki hækkun skatta eða tekjuöflunin sem slík sem ein er mikilvægust við þær skattabreytingar sem gerðar hafa verið heldur breytt viðhorf til þess hvernig sköttum skuli jafnað niður. Skattbreytingar undanfarinna ára, þ.á.m. lækkun skatta á fyrirtæki, færðu vaxandi skattbyrði yfir á laun og lífeyri og íþyngdu fólki með lág laun og miðlungstekjur á sama tíma og hálaunahópum var ívilnað eða hlíft við hækkunum. Nú þegar afla þarf aukinna tekna er það gert með öðrum hætti. Launum, lífeyri og fólki með lág laun og millitekjuhópum er hlíft en eitthvað bætt í hjá hinum tekjuhæstu. Viðbrögðin skortir ekki hjá þeim sem nutu velvildar áður fyrr. Söngurinn um skattahækkanir hljóðnar ekki.

Sú breyting á dreifingu skattbyrði sem að framan er nefnd er þegar farin að koma í ljós. Við álagningu gjalda 2010 sem endurspeglar þær breytingar sem gerða voru um mitt síðasta ár kom þessi breyting glögglega í ljós. Í gögnum frá embætti ríkisskattstjóra kemur fram að tekjuskattar einstaklinga hafa lækkað í neðri hluta tekjuskalans en hækkað í efri hlutanum. Ef teknir eru saman allir tekjuskattar og auðlegðargjald sýnir sig að 60% hjóna með allt að rúmlega 9 m.kr. í árstekjur borga allt að 2,5% minna af tekjum sínum í þessa skatta við álagningu 2010 en þau gerðu 2009. Hjón með hærri tekjur borga allt að 2,5% meira nema hjá efstu 5% sem greiða um 7,5% meira en áður en ná þó ekki að vera nema 3% yfir meðaltali fyrir alla.

Álagning tekjuskatts og auðlegðargjalds á hjón 2009 og 2010 - hlutfall af heildartekjum

Ég hef varið nokkrum tíma í að hrekja og leiðrétta þær algengu en órökstuddu staðhæfingar að núverandi ríkisstjórn hafi lagt megináherslu á að hækka skatta og bæta þannig stöðu ríkissjóðs. Þær talanalegu staðreyndir, sem ég hef dregið fram, sýna annað.

Því er stíft haldið fram að aukin skattheimta dragi sjálfkrafa úr umsvifum í hagkerfinu og að betra sé að lækka ríkisútgjöld en að hækka skatta til að ná fram nauðsynlegri aðlögun í ríkisfjármálum. Alhæfingar sem þessar standa fræðilega á brauðfótum og eiga sér enga stoð í reynd. Aukin skattheimta sem notuð er til að auka útgjöld er líkleg til að örva hagkerfi sem er í lægð. Að því leyti sem skattar sem þannig er ráðstafað draga úr sparnaði auka þeir eftirspurn. Á það ekki síst við nú þegar ekki er skortur á lánsfé. Af þessu leiðir einnig að við þessar aðstæður er líklegt að niðurskurður útgjalda  í stað hækkunar á sköttum dragi úr umsvifum í efnahagslífinu en ekki öfugt. Allt er þetta þó háð ýmsu öðru þar á meðal útgjalda- og skattheimtustigi.

Af framangreindum ástæðum hefur það verið úrræði margra þjóða í yfirstandandi kreppu að auka ríkisútgjöld og það yfirleitt verið talið virkari leið til að hvetja efnahagslífið en að lækka skatta. Fræðimenn vestan hafs sem austan hafa gagnrýnt þau stjórnvöld sem um of hafa gripið til niðurskurðar vegna neikvæðra áhrifa sem það kann að hafa á efnahagslífið. Meira að segja Breska viðskiptaráðið hefur nýlega með hagfræðilegum rökum lýst áhyggjum af áformum bresku ríkisstjórnarinnar um niðurskurð opinberrar þjónustu.

Haldleysi þeirra kenninga að mikil ríkisumsvif leiði til minni hagvaxtar sést hvað best á því að í þeim löndum þar sem umsvif hins opinbera hafa verið mikil svo sem á Norðurlöndunum hefur hagvöxtur verið góður og raða þau lönd sér í efstu sæti flestra hagsældarlista. Skýringin er m.a. sú að starfsemi hins opinbera er ekki óarðbær. Stór hluti hennar er fjárfesting í menntun, og heilbrigði svo og efnislegum og félagslegum innviðum samfélagsins sem er nauðsynleg til að efnahagslíf og mannlíf dafni. Það ætti að vera orðið tímabært að leggja til hliðar gamlar kreddukenningar frjálshyggjunnar í þessum efnum.

Útgjöld ríkisins eru að stærstum hluta til heilbrigðismála, menntamála og félagsmála auk almennrar stjórnsýslu og innviðagerðar. Ljóst er að krafa um að halda hér uppi velferðarkerfi, veita þegnum landsins þjónustu á sviði menntamála og heilbrigðismála og byggja upp fyrir framtíðina verður ekki uppfyllt nema að tilteknu lágmarki af landsframleiðslunni sé varið til þeirra þátta. Í þessum efnum höfum við á ýmsum sviðum staðið jafnfætis þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við. Á öðrum sviðum höfum við staðið þeim að baki. Það er ljóst að við höfum fjarlægst, t.d. Norðurlöndin og þá viðmiðun sem við viljum hafa í þessum efnum. Samdrætti opinberrar þjónustu eru sett ákveðin takmörk af lágmarkskröfum velferðarsamfélagsins. Það ásamt neikvæð áhrifum niðurskurðar á umsvif í efnahagslífinu hlýtur að vekja spurningar um það hversu langt megi ganga í að rétta fjárhag ríkisins af með niðurskurði ríkisútgjalda án þess að það valdi skaða til langs og skamms tíma. Og því skal lýst yfir hér að gangi áform um sparnað í ríkisrekstrinum á árinu 2011 sem boðuð verða í væntanlegu fjárlagafrumvarpi í grófum dráttum eftir þá tel ég að við séum komin að neðri mörkum þess sem gerlegt og efnahagslega vitrænt er.

Að ósk minni gerði AGS úttekt á íslenska skattkerfinu með tillliti til tekjuöflunar og tekjujöfnunar. Í skýrslu AGS er að finna mjög gagnlegar upplýsingar, tillögur og hugmyndir. Íslenska skattkerfið hlýtur þá einkunn að grunngerð þess sé góð og styrkleikar þess margir. Hins vegar megi gera ýmislegt til að bæta virkni þess bæði til tekjuöflunar og tekjujöfnunar svo og til að losna við óhagkvæmni. Hvað varðar skattlagningu rekstrar bendir AGS á ýmis atriði sem til bóta geta orðið. Meðal þeirra eru ráðstafanir til að draga úr núverandi mismunun í skattlagningu tekna sem kemur fram í lágri skattlagningu félaga og arðs og í reglum um reiknað endurgjald. Þá mælir AGS með því að tekið verði til skoðunar að miða skattlagningu rekstrar meira en nú er gert við reikningsskil en slíkt myndi leiða til afnáms á ýmsum sérreglum einkum um fjármálagjörninga. Ennfremur er í skýrslu AGS vakin athygli á leiðum til að auka samræmi í skattalegri meðferð á arði og vöxtum. Þessar tillögur eru meðal þess sem verða mun til skoðunar hjá starfshópi á vegum fjármálaráðherra, sem vinnur að endurskoðun á skattkerfinu.

Þær tillögur sem SA og VÍ hafa kynnt hér í viðamikilli umgerð koma ekki á óvart en valda að vissu leyti vonbrigðum. Í megin atriðum eru þær að skatta megi ekki hækka, hlífa á fyrirtækjum við skattlagningu o.s.fr. Þær byggjast meira og minna á þeim viðhorfum sem gerð voru að umtalsefni hér á undan og eru í reynd ekkert annað en “gömlu, þreyttu” áherslurnar sem lesa má út úr ályktunum ykkar samtaka á síðustu áratugum og voru stjórnvöldum þess tíma leiðarljós. Gallinn var bara sá að hin fögru fyrirheit gengu ekki eftir. Að minnsta kosti uppskar íslenskt samfélag ekki mikla gæfu þegar leiðangrinum lauk en breytingarnar leiddu til mismununar og ójafnaðar. Engu að síður er það svo að ég hef farið rækilega í gegn um “óskalistann” ykkar og að sjálfsögðu er þar á köflum verið að ræða tæknileg atriði eða vandamál sem sjálfsagt er að skoða og ráðuneytið og skattayfirvöld eru sér vel meðvituð um að eru til staðar.

  • Bætt verklag við breytingar á skattalöggjöf
  • Skattaleg meðferð skuldaniðurfellinga fyrirtækja við okkar erfiðu aðstæður
  • Ívilnanir fyrir nýsköpunarfyrirtæki
  • Skattlagning gengishagnaðar á innlánsreikningum í erlendri mynt
  • Ákvæði um þunna eiginfjármögnun

Þetta og fleira get ég nefnt sem allt er fullgilt að þarfnast skoðunar. Ég er heldur ekkert feiminn við að endurskoða hluti sem breytt hefur verið á mínum tíma sem fjármálaráðherra ef í ljós kemur að eitthvað hefur verið misráðið eða aðrar leiðir eru betri til að ná settum markmiðum.

Hrunið og kreppan hefur opnað augu flestra fyrir því að kominn er tími til að horfast í augu við veruleikann og láta óskhyggju lönd og leið. Staðreyndin er sú að við þurfum að afla ríkissjóði tekna til að standa undir samfélagslegum verkefnum. Gerum við það ekki er framtíð okkar stefnt í voða. Þessara tekna öflum við ekki með því að setja upp gleraugu nýfrjálshyggjunnar á nýjan leik og halda að allt leysist af sjálfu sér. Við þurfum að setja okkur raunhæf og réttlát markmið í skattamálum og vinna að breytingum á skattkerfinu í samræmi við þau. Með það í huga verða tillögur SA og VÍ skoðaðar og úr þeim unnið. Við erum reiðubúin til samvinnu við samtökin og aðra í því verki. Ég fagna hressilegum skoðanaskiptum og reyni að leggja mitt af mörkum tæpitungulaust, eða hvað. Ég kem ekki hingað sem skoðanalaus maður til að hlýða á einhvern óskeikulan erkibiskupsboðskap, en ég virði ykkar sjónarmið, ég hlusta á efnisleg rök og ég er fús til uppbyggilegs samstarfs því hver hefur til síns ágætis nokkuð. Það gildir um ykkur og ætli geti ekki bara verið að það gildi líka eitthvað örlítið um mig.

Ég þakka áheyrnina!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira