Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

28. apríl 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Fjármálaráðherra skrifar um Evrópumál

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, birti grein um Evrópumál í vikunni á vefmiðlinum Smugan. Í greininni fjallar ráðherrann að mestu leyti um umræðuna hér á landi um málefni Evrunnar, Evrusvæðisins og Evrópusambandsins. Hér má lesa greinina í heild sinni sem birtist þann 26. apríl sl.

Víðsýn umræða um Evrópumál; -oft var þörf en nú er nauðsyn

 Efnahagslegir og sumpart pólitískir erfiðleikar á Evrusvæðinu og raunar í Evrópu í heild vekja nú áleitnar spurningar um hvert stefni. Ýmsar innri mótsagnir og veikleikar Evrópusamstarfsins verða ljósari þegar harðnar á dalnum. Í umræðu hér á landi virðist sumum fara þannig að þeir fyllast Þórðargleði og útmála allt slíkt sem sönnun þess hvað Evran sé ónýtt og vonlaust fyrirbæri, uppgangur “sannra Finna” sé til marks um hvernig andúð á Evrópusambandinu fari vaxandi þar á bæ, vandræði Íra, Grikkja og Portúgala eru umsvifalaust gerð að rökum gegn því að Ísland eigi erindi inn í Evrópusambandið.

Fremur er óskemmtilegt að sjá þannig rætt um raunveruleg og alvarleg vandamál þjóða sem ætti fremur að fjalla um af skilningi og hógværð. Uppgangur þjóðrembu-, sérgæsku- og einangrunarsjónarmiða er nákvæmlega jafn óskemmtilegur hver sem kveikjan kann að vera. Undarritaður hefur ótal sinnum á undanförnum misserum beðist undan því í viðtölum við erlenda fjölmiðla að fara í mikinn samjöfnuð um leið Íslands út úr kreppunni borið saman við vegferð Grikkja, Íra eða annarra. Við ættum hvað síðust þjóða að setja okkur á háan hest og telja okkur geta haft vit fyrir öðrum, eða höfum við ekkert lært af heimsku og hroka útrásar- og græðgisvæðingaráranna? Auk þess er nú rétt að ljúka verkinu og koma Íslandi endanlega fyrir vind og upp úr kreppunni áður en menn fara að hælast um. Þar hefur sannanlega mikið áunnist og horfur fara jafnt og þétt batnandi, þó að glímunni sé hvergi nærri lokið. Úthald og óbilandi trú á verkefnið er allt sem þarf, það eina sem getur bilað erum við sjálf eins og dæmin sanna. Framtíðarhorfur Íslands eru einhverjar hinar bestu allra Evrópulanda og þetta er umheiminum að verða æ betur ljóst, hvað sem okkur sjálfum líður. En við erum hluti af stærri heild, ekki síst Evrópu, og erfiðleikar þar geta fljótt orðið að erfiðleikum okkar. Þangað flytjum við út stærstan hluta okkar varnings, seljum þangað þjónustu og þaðan koma flestir erlendir ferðamenn til Íslands.

Ísland er Evrópuland

 Nei, það leysir engan vanda að smjatta á erfiðleikum annarra. Ekki heldur að búa til andstæðinga úr þeim sem okkur standa næst og eru okkur skyldastir hvað uppruna, menningu og þjóðskipulag snertir sem eru auðvitað hin Norðurlöndin og Vestur-Evrópa. Hitt er rétt og skylt að fara yfir og greina, málefnalega og með rökum hvort þróun mála á Evrusvæðinu og innan Evrópusambandsins að undaförnu, veikleikarnir sem nú birtast þegar taka skal á vandamálum einstakra ríkja, geri það ófýsilegara en áður virtist fyrir Ísland að ganga þangað inn. En það skulum við ræða af tillitsemi og samúð með þeim erfiðleikum sem við er glímt.

Í grunninn eru hinar veigamiklu röksemdir gegn því að það þjóni hagsmunum Íslands að gerast aðili að Evrópusambandinu hinar sömu og áður. Þar skipta mestu sérstaða okkar og sérhagsmunir á sviði sjávarútvegsmála, landbúnaðarmála og auðlindamála. Það eru lýðræðissjónarmiðin, sjálfsákvörðunarrétturinn, sjálfstæður samningsréttur, t.d. um hlutdeild í deilistofnum og sjálfstæð hagsmunagæsla almennt. Það er gagnrýni okkar frá vinstri á markaðsvæðingar- og stórfyrirtækjahagsmuni Evrópuveldanna svo fátt eitt sé nefnt.

Í ljósi framvindunnar bæði hér heima og úti á meginlandi Evrópu undanfarin tvö, þrjú ár má vissulega reyna að dýpka umræðuna og bætast þá við rök, e.t.v. að einhverju leyti með en þó að mínu mati ekki síður á móti aðild:

- Sjálfstæður gjaldmiðill hefur á ýmsan hátt nýst Íslandi vel og gert óumflýjanlega aðlögun að gerbreyttum efnahagslegum veruleika aðveldari en ella væri. Gengislækkun er að sjálfsögðu ekki án fórna, gengishrunið var vissulega hluti vandans en hinu verður ekki á móti mælt að hagstæð starfsskilyrði útflutnings- og samkeppnisgreina hafa dregið raunhagkerfið áfram og án þessa væri atvinnuleysi örugglega til muna meira en ella. Mótun gjaldmiðils- og peningastefnu með sjálfstæðan gjaldmiðil sem framtíðarvalkost er vissulega krefjandi verkefni, mun kalla á mikinn aga í ríkisfjármálum og efnahagsmálum og vönduð vinnubrögð, en er það ekki það sem þarf hvort sem er? (Við ætlum ekki að endurtaka mistökin fyrir hrun, aldrei að sýna þvílíkt ábyrgðarleysi aftur eða hvað?) Framtíðina til lengri tíma litið í gjaldmiðlamálum er erfitt að sjá fyrir, ekki aðeins í tilviki Íslands heldur heimsins alls, sbr. umræður þar um.

 - Innri mótsagnir og veikleikar Evrusamstarfsins, þegar kemur að því að takast á við vandamál ríkja með sérstöðu, eins og þeir sem nú birtast vekja ekki bjartsýni um að Íslandi myndi reynast vel að vera þar innanborðs ef á bjátaði.

 - Hverra hagsmunir ráða þegar kemur að útfærslu sameiginlegara björgunaraðgerða í þágu Evru eða ESB ríkja í vanda? Landa sem í hlut eiga eða stóru hagkerfanna, stórbankanna, stóru skuldabréfaeigendanna? Er það ekki þetta sem Grikkir, Írar og Portúgalir spyrja sig nú um?

 - Margt bendir til að viðbrögð ESB, eða a.m.k. Evruhópsins, verði krafa um aukna miðstýringu í efnahags- og jafnvel ríkisfjármálum til að tryggja framtíð Evrunnar. M.ö.o. meiri samruni, minni sjálfsstjórn. Það verður sem sagt ekki bæði sleppt og haldið. Eru menn þá til í það?

Gengisfellum ekki málstaðinn

Hér er aðeins tæpt á nokkrum hlutum sem gagnlegt er að greina og ræða miklu betur. Það er þarft að gera en því aðeins er sú umræða boðleg að hún sé ætluð til uppbyggilegs brúks. Málstað okkar sem teljum hagsmunum Íslands betur borgið án aðildar að Evrópusambandinu er ekki greiði gerður með innihaldslausum hræðsluáróðri, ekki með gamaldags þjóðrembu, ekki með einangrunarhyggju sem mun seint laða ungt fólk til fylgis og ekki með því að reyna að koma í veg fyrir að þjóðin sjálf taki ákvörðunina skapist til þess málefnalegar forsendur.

Sumir áköfustu talsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu gera sig seka um barnalega, næstum ja trúarlega óskhyggju um að flest ef ekki öll okkar vandamál leysist sjálfkrafa með aðild og upptöku Evru. Hefur þó sannast að það er nákvæmlega eins hægt að koma sér í vandræði og langleiðina setja sig á hausinn þó að gert sé upp í Evrum (ef ekki er tekið á krónískum fjárlagahalla, vandinn falinn með bókhaldsbrellum eða bönkum leyft að bólgna út þar til allt springur). Leyfum slíkum málflutningi að dæma sig sjálfan en föllum ekki í sömu gryfju.

Leiði þær viðræður við Evrópusambandið sem Alþingi ákvað í ljós að ekki fáist neinn sá frágangur á grundvallarhagsmunum Íslands er boðlegur geti talist, kemur upp staða sem Alþingi þarf að takast á við. Fyrr en á það hefur reynt í eiginlegum samningaviðræðum erum við engu nær. Forðumst á meðan að sundra röðum samherja með hendurnar fullar af afdrifaríkasta verkefni lýðveldistímans, sem sagt því að reisa Ísland úr rústum einkavæðingar- og nýfrjálshyggjustefnunnar.

Það er víðsýn og framtíðarmiðuð stefna sem sannfærir unga jafnt sem aldna með rökum um hvernig Íslandi sé best borgið er ein mun hafa sigur að lokum.

Steingrímur J. Sigfússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum