Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

27. maí 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Erindi fjármálaráðherra við Trinity háskóla í Dublin

Fjármálaráðherra flutti í gær erindi við Trinity háskólann í Dublin á Írlandi í fyrirlestraröð sem er tileinkuð Henry Grattan.

Í erindi sínu fjallaði fjármálaráðherra um leið Íslands út úr kreppunni og ástæður þess að landið lenti í þeim vandræðum sem náðu hámarki með bankahruninu í október 2008 og þeim erfiðu verkefnum sem íslensk stjórnvöld hafa þurft að glíma við í kjölfar þess. Fjármálaráðherra ræddi hvaða lærdóma megi draga almennt af kreppunni og eftir atvikum þeim aðgerðum sem íslensk stjórnvöld hafa ráðist í þó fara yrði varlega í allan samanburð milli landa sem byggu við ólíkar aðstæður.

Þá rakti fjármálaráðherra hvernig samspil einkavæðingar, skuldasöfnunar, útrásar og fasteignabólu endaði með þeim ósköpum á Íslandi sem heimsbyggðin fylgdist með í október 2008. Efnahagsstefnan hér eins og víða annars staðar hafi verið keyrð á hugmyndafræðilegum forsendum blindrar markaðshyggju og ónógs eftirlits í trausti þess að markaðurinn leiðrétti sig sjálfur.  Á endanum hafi bólan sprungið með skelfilegum afleiðingum. Tók hann sem dæmi að í kjölfar einkavæðingar bankanna hafi bankakerfið vaxið úr því að vera tvöföld landsframleiðsla í tífalda á aðeins um fjórum fimm árum.

Þá var rakið að þegar Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi útlitið verið afar dökkt enda umfang hrunsins margþætt og risavaxið. Vísað ráðherra m.a. til ummæla þáverandi yfirmanns sendinefndar sjóðsins þess efnis að staða Íslands væri fordæmalaus og þess að landið hafi í aðdraganda hrunsins verið all lengi á lista yfir þær þjóðir sem líklegastar væru taldar til að verða gjaldþrota.

Fjármálaráðherra útskýrði sérstaklega hugmyndina að baki neyðarlögunum og með hvaða hætti sú leið sé ólík þeim sem aðrar þjóðir hafa kosið að fara í glímu sinni við bankakreppur. Umfang bankakreppunnar á Íslandi gerði það að verkum að nánast enginn önnur leið hafi verið fær. Í dag væri búið að stofna nýja banka, endurfjármagna þá og verið væri að gera upp þrotabú gömlu bankanna. Þegar því yrði lokið myndi erlend skuldastaða þjóðarbúsins hafa batnað töluvert. 

Í erindi sínu fjallaði fjármálaráðherra einnig um glímuna við ríkisfjármálin sem hann dró enga dul á að hún hafi verið Íslandi mjög erfið en nú væri að koma í ljós að nauðsynlegar aðgerðir hefðu forðað efnahagskerfinu frá stórhættu. Sagði hann að ef hefði ekki verið gripið strax til aðgerða um mitt ár 2009 og síðan áfram hefðu vaxtagreiðslur ríkissjóðs á endanum sett hann á hliðina og niðurskurðurinn orðið óviðráðanlegur. Á árinu 2011 væri búist við að ríkissjóður nái jákvæðum frumjöfnuði og heildarjöfnuður eða hallinn náist niður í um 2,5%.  Þetta hafi tekist á sama tíma og helstu undirstöður velferðakerfisins hafi verið varðar.

Sagði fjármálaráðherra ljóst að það versta væri að baki á Íslandi og hagkerfið tekið að vaxa á nýju. Því til staðfestingar vísaði hann til þess að ný spá  Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) gerir ráð fyrir 2,2% hagvexti á árinu 2011. Stöðugleiki hafi myndast með lækkun vaxta, verðbólgu, stöðugu gengi krónunnar og því að komið hafi verið böndum á skuldasöfnun ríkissjóðs.

Að lokum kom fjármálaráðherra inn á að hann hefði fulla trú á að Írland myndi sigrast á kreppunni. Margt væri líkt með þeim vandræðum sem Írar væru nú í og þeim sem Ísland stóð frammi fyrir október 2008. Ísland hefði lent fyrr í kreppunni en Írland og væri því komið lengra áleiðis í glímunni við hana og að vinda ofan af þeim vandamálum sem henni fylgdu. 

Auk erindisins í Trinity háskóla átti fjámálaráðherra m.a. fund með Patrick Honohan, seðlabankastjóra Írlands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira