Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

05. desember 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Ávarp ráðherra á Innkaupadegi Ríkiskaupa 2011

Fjármálaráðherra flutti ávarp á Innkaupadegi Ríkiskaupa þann 29. nóvember síðastliðinn. Í ávarpi sínu fjallaði ráðherra m.a. um markmið stjórnvalda er að halda áfram að þróa aðferðir til að auka gagnsæi og hagkvæmni við opinber innkaup og þá vinnu sem fjármálaráðuneytið er að leggja af stað með í því að endurskoða innkaupastefnu ríkisins en við þá vinnu verður hugað að ýmsum nýjum þáttum á borð við hvernig unnt er að nýta opinber innkaup til nýsköpunar í atvinnulífinu og samfélagslega ábyrgð með vistvænum innkaupum. Hér má lesa ávarpið í heild sinni.

Ágætu gestir

Það er mér ánægjuefni að koma hér á Innkaupadag Ríkiskaupa. Ég vona að þið hafið átt góðan fund hér í morgun og að umræða dagsins muni styrkja umhverfi opinberra innkaupa.

Opinber innkaup og umgjörð þeirra eru mikilvægt tæki til að efla ráðdeild og gagnsæi í opinberum rekstri og því nauðsynlegt að viðhalda stöðugri umræðu og fræðslu um þennan málaflokk. Mikilvægi opinberra innkaupa verður seint ofmetið og á  dagskránni hér í dag sést hvað málaflokkurinn teygir anga sína víða.

Rekstur opinberrar þjónustu, er eitt mikilvægasta verkefni sem stjórnmálamönnum er falið. Innkaup eru stór hluti af útgjöldum ríkisins. Talið er 14-16% af þjóðarframleiðslu falli undir opinber innkaup eða sem samsvarar 220-240 milljörðum króna og þar af séu innkaup ríkisins 150-170 milljarðar. Það er því ljóst að undirliggjandi hagsmunir af hálfu ríkisins eru miklir og mikilvægt að ítrustu hagkvæmni sé gætt og ástæða til veita málaflokknum fulla athygli í rekstri ríkisins.

Fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á undirbúningi löggjafar, almennri stefnumótun og eftirfylgni gagnvart ráðuneytum og stofnunum varðandi opinber innkaup. Í samskiptum ríkis og einkaaðila við innkaup þarf í meginatriðum að huga að þremur þáttum:

  • Lagalegt umhverfi þarf að vera einfalt, gagnsætt og traust.
  • Stefna ríkisins í innkaupamálum þarf að vera skýr og meðvituð af öllum sem annast innkaup af hálfu   ríkisins
  • Að lokum er nauðsynlegt að framkvæmd innkaupa sé byggð á sérhæfingu og þekkingu.

Innkaup ríkisins eru stór hluti af hagkerfinu og því skiptir máli hvernig þessum innkaupamætti er beitt. Við þekkjum það að stofnanir ríkisins búa við kröfu um hagræðingu og í mörgum tilvikum lægri fjárveitingar til að sinna verkefnum sínum. Þetta umhverfi kallar  á hagkvæmni í innkaupum. Af hálfu stjórnvalda er gerð krafa um að stofnanir nýti þau verkfæri sem í boði eru til að stuðla að þessu markmiði s.s. í gegnum magninnkaup með rammasamningum Ríkiskaupa. Þá hafa ýmis önnur verkfæri verið þróuð m.a. með lagabreytingu sem gerð var s.l. vor á lögum um opinber innkaup þar sem mótuð var umgjörð fyrir sameiginleg útboð í samstarfi við erlenda kaupendur á EES svæðinu. Slík sameiginleg útboð gera mögulegt að ná fram stærðarhagkvæmni ásamt því að afla tilboða frá fleiri fyrirtækjum og stuðla þannig að virkari samkeppni við opinber innkaup en mögulegt er við útboð hérlendis.

Markmið stjórnvalda er að halda áfram að þróa aðferðir til að auka gagnsæi og hagkvæmni við opinber innkaup.

Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum misserum sýnt opinberum innkaupum áhuga og birt skýrslur um úttektir sínar. Í þessum skýrslum hafa komið fram margar gagnlegar og réttmætar athugasemdir. Ábendingar Ríkisendurskoðunar eru til þess fallnar að styrkja umgjörð innkaupa hjá hinu opinbera. Ríkisendurskoðun hefur m.a. lagt áherslu á að auka þurfi vægi innkaupamála í starfsemi ráðuneyta og stofnana, að efla þurfi kynningu og eftirlit, að innkaupastefnu verði beitt sem virku stjórntæki, að meta þurfi árangur reglulega, samræma þurfi reglur um notkun rammasamninga og að setja þurfi siðareglur um opinber innkaup. Margar þessara athugasemda styðja við þá stefnumörkun og áherslur sem ráðuneytið og Ríkiskaup hafa lagt, og eru okkur mjög gagnlegar í eftirfylgni við framkvæmd innkaupa.

Ríkisendurskoðun hefur jafnframt birt skýrslur um framkvæmd innkaupa hjá ákveðnum stofnunum og bent á hvað betur má fara.

Ljóst er að það er ekki sér íslenskt fyrirbæri að ekki sé í öllu farið eftir innkaupareglum. Þannig hefur Evrópusambandið sett fram tilskipun sem varðar eftirlit, viðurlög og fullnustu reglna á sviðið opinberra innkaupa. Hér á landi verður þessi tilskipun innleidd í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins. Með innleiðingu þessarar tilskipunar verða miklar breytingar á umhverfi opinberra innkaupa.

Ákvæði tilskipunarinnar fela í sér meginreglur heildstæðs réttarvörslukerfis sem segja má að byggi á eftirfarandi grunnviðhorfum:

  • Kaupandi sem kaupir inn án útboðs má búast við því að samningur hans verði lýstur óvirkur með þeim afleiðingum að hann verði að endurtaka innkaup með löglegum hætti.
  • Kaupandi sem gerir samning án þess að bjóðendum gefist færi á að fá skorið úr lögmæti ákvörðunar hans má búast við því að samningur hans verði lýstur óvirkur með sömu afleiðingum.
  • Kaupandi sem brýtur gegn reglum með þeim hætti sem lýst er hér að framan án þess að skilyrðum sé fullnægt til að lýsa samning óvirkan má búast við álagningu stjórnvaldssekta og/eða styttingu samnings.

Skilaboð tilskipunarinnar til kaupenda eru því einfaldlega þau að brot gegn reglum um opinber innkaup borgi sig ekki. Að því er varðar innkaup sem gerð eru alfarið án útboðsauglýsingar og viðeigandi innkaupaferils eru núgildandi lög fáorð og því munu þessu lög breyta miklu um framkvæmd innkaupa. Þær breytingar sem hér er verið að innleiða munu hafa mikil áhrif á umhverfi opinberra innkaupa og hvet ég alla til að kynna sér þær vel. Nú sem endranær er mikilvægt að framkvæmdaraðilar þekki þær reglur og verkferla sem um opinber innkaup gilda.

Málefni opinberra innkaupa eru í stöðugri þróun. Það er hlutverk stjórnvalda að marka almenna stefnumótun en það er á ábyrgð stjórnenda og starfsmanna ríkisstofnana að innleiða markmiðin í sínum daglega rekstri.

Fjármálaráðuneytið er  nú að leggja af stað í vinnu sem miðar að því að endurskoða innkaupastefnu ríkisins. Við þá vinnu verður hugað að ýmsum nýjum þáttum sem nauðsynlegt er að skoða í samhengi við opinber innkaup. Vil ég sérstaklega nefna tvö atriði í þessu sambandi:

Í fyrsta lagi að skoða hvernig unnt er að nýta opinber innkaup til nýsköpunar í atvinnulífinu þannig að kaupendur að opinberri þjónustu leiti eftir nýjum lausnum og gefi bjóðendum tækifæri til að þróa nýjar lausnir sem til lengri tíma leiði til aukinnar hagræðingar og þróun á þjónustu. 

Í öðru lagi vil ég nefna samfélagslega ábyrgð þar á meðal vistvæn innkaup þar sem gerðar eru kröfur og hvatt til að lausnir sem bjóðast opinberum aðilum í innkaupum stuðli að jákvæðum áhrifum á umhverfið. Nú þegar hafa fyrstu skref verið stigin í að innleiða vistvæna innkaupastefnu hjá hinu opinbera. Á fyrsta stigi er m.a. gert ráð fyrir fræðslu til lykilfólks í innkaupum, að gerð sé innkaupagreining og á grundvelli hennar sett fram skýr markmið um vistvæn innkaup hjá hverri stofnun.

Oft er litið til opinberra innkaupa varðandi framgang tiltekinna markmiða við uppbyggingu í atvinnulífinu. Þetta er fullkomlega eðlilegt þar sem innkaup hins opinbera eru stór hluti af hagkerfinu eins og ég kom að hér áðan. Á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sér stað heildarmat á evrópsku löggjöfin varðandi opinber innkaup. Meðal tillagna er að einfalda regluverkið í kringum opinber innkaup og innleiða sérstök ákvæði í lagaumhverfi innkaupa um sérstakan aðgang smærri og meðalstórra fyrirtækja í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu þeirra. Fjármálaráðuneytið mun fylgjast vel með þessari þróun og miðla eins og kostur.

Eins og við vitum öll þá er málaflokkurinn opinber innkaup stór og mikilvægur liður í rekstri ríkisins. Í ljósi umfangsins eru hagsmunir ríkisins og markaðarins umtalsverðir. 

----------------------------

Á undanförnum árum hefur verið unnið ötult starf í því að auka þekkingu og skýra stefnumótun í þessum málaflokki. Þar hafa Ríkiskaup gegnt veigamiklu hlutverki. Ég vil að lokum fá að nota þetta tækifæri til að þakka Júlíusi Ólafssyni fyrir vel unnin störf sem forstjóri Ríkiskaupa en Júlíus lætur af störfum nú um áramótin. Á þeim átján árum sem Júlíus hefur stýrt Ríkiskaupum hafa orðið miklar breytingar á vettvangi opinberra innkaupa. Á þeim tíma hefur hann þróað Ríkiskaup frá því að vera innkaupastofnun yfir í það að vera framsækin eining sem hefur verið ötul við að þróa nýjar innkaupaleiðir og tækni. Við þá uppbyggingu skiptir miklu meðvitund hans um þau áhrif sem ríkið getur haft á markaðinn og að þær innkaupaleiðir sem valdar eru styðji við hann og efli samkeppni. Gott dæmi þar um er innleiðing rammasamningana sem þróaðar hafa verið þannig að þeir bæði styrkja ríkið sem kaupanda og stuðla jafnframt að uppbyggingu markaðarins á viðkomandi sviði. Ekki verður heldur hjá því komist að geta þess brautryðjendastarfs sem Júlíus hefur unnið í rafrænum innkaupum og lagður var með innkaupakorti og markaðstorgi. Sá grunnur mun gera okkur mun auðveldara að ná enn frekari frekari árangri á því sviði. Margt fleira mætti nefna en hafðu þakkir fyrir þitt framlag til þessa mikilvæga málaflokks.

Góðir fundarmenn. Ég vona að innkaupadagur Ríkiskaupa styrki og efli þennan mikilvæga málaflokk og tryggi markvissan árangur og skilvirkni í innkaupum.


Takk fyrir.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira