Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. febrúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðOddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2011-2012

Erindi Oddnýjar á afhendingu viðurkenninga FKA

Kæru konur í atvinnurekstri !

Ég þakka ykkur kærlega fyrir boðið á þennan góða viðburð.

Hvatning er okkur öllum afar mikilvæg og við konur eigum að vera duglegar við að hvetja hverja aðra, líkt og þið gerið hér í dag.

Ég vil byrja á því að hrósa Félagi kenna í atvinnurekstri fyrir bæði tilveru sína og starfsemi og hvetja ykkur áfram til góðra verka sem stuðla að samstöðu og sýnileika kvenna í viðskiptalífi.

Áður en ég kom hingað rifjaði ég upp og las mér til um félagið ykkar og hnaut einmitt um markmið félagsins um að auka sýnileika og tækifæri kvenna í viðskiptalífinu, og einnig að stuðla að virðingu og  verðskuldaðri athygli samfélagsins á framlagi fyrirtækja sem rekin eru af konum. Mér finnast þessi markmið mikilvæg og þau segja okkur svo margt.

Ég hef rekið ríkisstofnun og sveitarfélag en ekki komið að fyrirtækjarekstri, en hef sem þingkona og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar og nú fjármálaráðherra fengið að kynnast ríkisfjármálunum og fjármálakerfinu. Í umræðum um þau mál eru konur ekki áberandi. Þar höfum við verk að vinna.

Ég vil hvetja ykkur konur til að taka aukinn þátt í samfélagsumræðunni því með ykkar reynslu hafið þið svo margt fram að færa. Það er hreinlega bráðnauðsynlegt að sjá og heyra í fleiri konum. Það gerir umræðuna líka heilbrigðari.

Við höfum vafalaust allar rekist undir glerþakið sem ætlað er að halda konum á sínum stað, en fundið glufur og bresti sem sterkar konur hafa búið til fyrir okkur hinar að brjótast í gegnum.

Ég get ekki nógsamlega þakkað öllum þeim konum sem rutt hafa brautina fyrir okkur. Það hefur sýnt sig hér og erlendis að menntun kvenna og mikil atvinnuþátttaka þeirra er nátengd hagvexti og betri lífsskilyrðum fólks. Frumkvöðlastarf kvenna á öllum sviðum er nauðsynlegt fyrir efnahagslíf ið.

Fjölbreytni í atvinnurekstri er það sem þetta þjóðfélag þarf á að halda. Enn frekari aðkoma kvenna að ákvarðanatöku í fyrirtækjarekstri er lærdómur sem við þurfum að draga af  efnahagshruninu og af því hvernig þessum málum var háttað hér fyrir hrun. Þess vegna þurfum við að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja eins og stefna stjórnvalda segir til um, ásamt því að hvetja fleiri til atvinnurekstrar.

Ef við stundum svokallaða ömmuhagfræði, þar sem sú einfalda staðreynd er höfð að leiðarljósi að tekjur og gjöld passi saman. Ef við leggjum okkur fram að skapa verðmæti og eyðum ekki um efni fram og heldur ekki þeim tekjum sem við höldum að hugsanlega komi í framtíðinni, þá erum við allar í góðum málum.

Ég efast ekki um að þær konur sem fá viðurkenningar hér í dag hafi lagt mikið á sig til að komast þangað sem þær eru. Þær eru vel að þeim komnar.

Með þessum viðurkenningum í dag vottið þið sjálfar störfum ykkar og annarra kvenna virðingu.

Það smitar út frá sér og gefur okkur hinum kraft til að halda áfram ótrauðar !
Gangi ykkur öllum vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum