Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. febrúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðOddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2011-2012

Erindi ráðherra á aðalfundi Félags atvinnurekanda

Kæru fundargestir,

Um leið og ég þakka gott boð um að halda hér ávarp á aðalfundi félags ykkar, fagna ég því að fá tækifæri til að tala til atvinnurekenda sem hér eru samankomnir í salnum.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum fyrir 3 árum í kjölfar  efnahagshruns  bæði hér á landi og í alþjóðlegu samhengi, setti hún sér metnaðarfull markmið til að rífa íslenskt samfélag upp úr þeim öldudal sem hrunið leiddi okkur í.

Meðal meginverkefna sem sett voru strax á oddinn á sviði efnahagsmála voru að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, endurreisa fjármálageirann og ljúka endurskipulagninu fjármála fyrirtækja.

Lagt var upp með að greiða úr skuldavanda fyrirtækja og heimila eins fljótt og mögulegt væri og fá bankana til liðs við stjórnvöld í því þjóðþrifaverki, leggja áherslu á að leysa vanda raunverulegra rekstrarfélaga til að draga úr skaðanum, að skapa hagstæð rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki landins, draga úr atvinnuleysi með markvissum aðgerðum og útrýma langtímaatvinnuleysi. Allt þetta til að skapa traustari grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar með nýsköpun og sjálfbærni að leiðarljósi með það að markmiði að skapa stöðugleika að nýju og endurheimta traust á landið í alþjóðasamfélaginu.

Og nú, 3 árum síðar spyrja margir sig hvernig til hefur tekist ? Hvernig hafa efnahagsmálin og ytri skilyrði atvinnulífsins þróast á þessum tíma ?

Það er engum blöðum um það að fletta að efnahagsbatinn hér á landi hefur verið góður og mun betri en bjartsýnasta fólk þorði að vona. 

Á þeim þremur árum sem liðin eru frá hruni hefur Ísland endurheimt efnahagslegt sjálfstæði sitt. Því ættum við öll að fagna þó svo að mörgum brýnum verkefnum sé ólokið enn.  Nýjustu tölur  frá Hagstofunni sýna að verg landsframleiðsla hefur vaxið um 3,8% frá því á sama tíma á síðasta ári, og spáð er 2,4% hagvexti á þessu ári sem og því að kaupmáttur launa hækki um 3,7%. Nýjustu tölur sýna enda að atvinnuleysi er á niðurleið, þó enn sé það of hátt. Vísbendingar eru um að ársverkum hafi fjölgað um 2.600 á síðasta ári. Á þessu ári er spáð aukningu í störfum sem gæti numið 2.700 ársverkum sem myndi þar með lækka atvinnuleysi um 1 prósentustig og gert er ráð fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að minnka á næstu árum.

En hvað hefur svo núverandi ríkisstjórn gert í atvinnumálum á þessum 3 árum ? Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til ?  

Ný könnun sem Viðskiptaráð Íslands lét framkvæma fyrir sig um viðhorf fólks til atvinnulífsins sýnir að  94% þeirra sem svöruðu telja íslensk fyrirtæki skipta öllu eða miklu máli þegar kemur að því að skapa góð lífskjör á Íslandi. Þetta rímar afar vel við áherslur ríkisstjórnarinnar. Atvinnumálin hafa verið forgangsmál þessarar ríkisstjórnar og verða áfram. Enda nærist ríkissjóður á atvinnulífinu. Gott atvinnulíf stendur undir velferðinni. Þegar litið er yfir aðgerðir yfirvalda til að efla atvinnulífið frá hruni má nefna fjölda atvinnuskapandi aðgerða sem ráðist hefur verið í af hálfu hins opinbera sem hafa borið árangur. Mér stendur næst að nefna helst þær skattaívilnunaraðgerðir sem borið hafa mjög góða raun;

Átakið „Allir vinna“hefur skilað góðum árangri og verið framlengt til ársloka 2012. Lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi frá árinu 2010 hafa verið fest í sessi og nú þegar hafa 4 fyrirtæki nýtt sér þau, má þar nefna:

  •  Álþynnuverksmiðja Becromal á Akureyri – eru að skoða frekari stækkun
  •  Kísilmálmsverksmiðja Thorsil  - samningaviðræður við LV um orku á NA-svæðinu
  • Kísilmálmsverksmiðja Íslenska Kísilfélagsins í Helguvík – framkvæmdir tafist, en hefjast vonandi í vor
  • Gagnaver Verne á Keflavíkurflugvelli – sem tók formlega til starfa í gær

      Að auki eru 10 sambærilegar umsóknir í vinnslu

Lög voru sett um 15% endurgreiðslu til sprota og nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar. Í því samhengi  má nefna fyrirtækið Kerecis á Ísafirði, fyrirtæki sem þróar lækningavörur úr fiskroði, sem skemmtilegt dæmi – endurgreiðslan skiptir viðlíka fyrirtæki sköpum.

Skattaumhverfi gagnavera er í endurskoðun – sem gert er til að efla íslenskan iðnað í alþjóðlegri samkeppni. Fyrirtæki í kvikmyndagerð njóta nú þess að 20% af framleiðslukostnaði fæst nú endurgreiddur og þá hefur ríkisstjórnin samþykkt að stefna skuli að skattaívilnunarkerfi til að auka hlutdeild grænna samgöngutækja. Þar með leggur hún sín lóð á vogarskálar til að greiða fyrir  orkuskiptum í samgöngum.

Að auki vil ég nefna Sóknaráætlun landshluta sem hefur verið ýtt úr vör í tengslum við Sóknaráætlunina 20/20 sem er gríðarlega metnaðarfull áætlun til að draga fram helstu sóknarmöguleika landsins í heild sem og landshlutanna sjálfa í atvinnumálum, menntamálum og opinberri þjónustu.

En það þarf líka áræðni í atvinnumálum.

Það hefur núverandi ríkisstjórn sýnt þrátt fyrir mikla gagnrýni um hið andstæða. Það sanna dæmi á borð við staðfestingu Alþingis á fjárfestingasamning um álver í Helguvík áður en almenn lög um slíka samninga tóku gildi,  samþykkt á fjárlögum að lána 2.000 m.kr. á þessu ári til framkvæmdar Vaðlaheiðagangna og umræða er um enn meiri aðkomu ríkisins til styrktar þess verkefnis sem er, vel að merkja, 10% af öllum áætluðum framkvæmdum á vegum hins opinbera til ársins 2015 og góð  innspýting inn í hagkerfið. Ríkið hefur ekki krafið Landsvirkjun um arðgreiðslur s.l. ár svo fyrirtækið eigi auðveldara með að fjármagna nýjar virkjanir s.s. Búðarhálsvirkjun, og jarðvarmavirkjanir á NA-landi. Undirbúningur við framkvæmd við Landspítala gengur vel, vinna við forhönnun er að mestu lokið og nú er beðið ákvörðun skipulagsyfirvalda og síðan umfjöllun fjárlaganefndar um kostnaðarmat. Íbúðarlánasjóði hefur verið gert heimilt  að lána til byggingar fjölda hjúkrunarheimila sem er í undirbúningi víðsvegar um landið og búið er að auglýsa hönnunarsamkeppni um nýtt gæsluvarðhalds og kvennafangelsi á Hólmsheiði.

Svona mætti telja áfram og ljóst að stjórnvöld láta hvergi deigan síga í eflingu og uppbyggingu atvinnulífs. Fyrirhuguð stofnun nýs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti rennir sterkum stoðum undir þá sýn. Það ráðuneyti mun taka til nær allra atvinnugreina og nýsköpunar og þróunar innan þeirra. Þar verða teknar ákvarðanir um nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ég ber miklar vonir til þess að það ráðuneyti verði framsækið á sviði atvinnusköpunar og atvinnuuppbyggingar og leiti allra leiða og samráðs til að auka og styrkja við fjölbreytni íslensk atvinnulífs til frambúðar.

Ég vil að auki minnast á opinber innkaup, því ég sé að á dagskránni hér í dag er það eitt af umræðuefnunum. Eins og við vitum öll, þá eru opinber innkaup stór og mikilvægur liður í rekstri hins opinbera en talið er að kaup hins opinbera á vörum, þjónustu og verkframkvæmdum nemi um 15% - 16 %  af landsframleiðslu eða sem samsvarar 220-240 milljörðum króna og þar af séu bein innkaup ríkisins 150-170 milljarðar. Ljóst er því að hagsmunir ríkisins, sveitarfélaga og einkaaðila eru miklir þegar kemur að opinberum innkaupum og mikilvægt að lagalegt umhverfi sé einfalt, gagnsætt og traust. Einnig að stefna ríkisins í innkaupamálum sé skýr og framkvæmd innkaupa sé byggð á þekkingu. Það er því mikilvægt að allir þátttakendur á markaðinum þekki leikreglurnar og virði þær.

Fjármálaráðuneytið er nú að leggja af stað í vinnu sem miðar að því að endurskoða innkaupastefnu ríkisins. Meðal þess sem verið er að skoða er hvernig unnt er að nýta opinber innkaup til nýsköpunar í atvinnulífinu þannig að kaupendur að opinberri þjónustu leiti eftir nýjum lausnum og gefi bjóðendum tækifæri til að þróa nýjar lausnir sem leiði til aukinnar hagræðingar og þróun á þjónustu.  Þá liggur fyrir að nauðsynlegt er að fara í stefnumótin í rafrænum innkaupum til að nýta hagræðingarmöguleika sem þar liggja. Einnig er mikilvægt að horft sé til þess hvort valið stuðli að jákvæðum áhrifum fyrir umhverfið okkar og þannig sé hugað að samfélagslegri ábyrgð.   Mikilvægt er líka að lagarammi opinberra innkaupa sé skilvirkur og traustur og að ákvæði séu skýr í lögunum ef brotið er gegn ákvæðum þeirra. Nú á vorþingi mun ég leggja fram frumvarp til laga á Alþingi til að styrkja viðurlög við brot á lögunum. Frumvarpið felur m.a. í sér innleiðingu á  tilskipun Evrópusambandsins er varðar eftirlit, viðurlög og fullnustu reglna á sviði opinberra innkaupa. Á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sér nú stað heildarmat á evrópsku löggjöfinni um opinber innkaup. Nú þegar liggja fyrir tillögur að breytingum og er megininntakið í þessum tillögum er að gera málsmeðferð einfaldari og sveigjanlegri.  Í tillögunum er lögð áhersla á að lítil og meðalstór fyrirtæki njóti góðs af endurskoðuninni á löggjöfinni þannig að aðgangur þeirra að opinberum útboðum aukist. 

Góðir fundargestir, þegar á botninn er hvolft þá er helsta hagsmunamál atvinnulífsins hér á landi, sem og annars staðar, að ríkissjóður sé við góða heilsu. Að áfram verði ástunduð öguð og skipulögð vinnubrögð við stjórn ríkisfjármála, að dregið verði alfarið úr skuldasöfnun ríkissjóðs og hallarekstur – sem ýtir undir vaxtastig í landinu – verði stöðvaður. Að traustum stoðum verði rennt undir atvinnulíf í landinu sem verður þar með sterkara og því fylgir að samfélagið okkar allra verði eftirsóknarverðara að tilheyra enda er uppbygging fjölbreytts atvinnulífs lykillinn að efnahagslegu öryggi.

Ég tel að við séum sammála um það að við þurfum öll að leggjast á árarnar til að halda áfram því mikilvæga verkefni sem við stefnum að. Það verkefni snýst um að auka fjárfestingu í landinu, ná niður atvinnuleysi og reka ríkissjóð af ábyrgð. Það verkefni snýst þar með líka um að  styrkjum  undirstöður velferðarsamfélagsins, ekki bara þær sem við viljum sjálf búa við, heldur undirstöður sem duga eiga til framtíðar. 

Takk fyrir og gangi ykkur vel.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum