Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. febrúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðOddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2011-2012

Ræða fjármálaráðherra á skattaráðstefnu

Ágætu fundargestir,

Ég vil byrja á að þakka fyrir það tækifæri sem mér er veitt hér við setningu þessa morgunverðarfundar á mínum allra fyrstu dögum í starfi fjármálaráðherra. Ef marka má fjölmiðlaumfjöllun og almenna umræðu það sem af er nýju ári virðast skattamálin vera mörgum ofarlega í huga. Hef ég þegar á tilfinningunni eftir rétta 10 daga í starfi að þessi mikilvægi málaflokkur ríkisfjármálanna muni taka verulegan hluta af mínum tíma sem fjármálaráðherra og ég tek því verkefni með opnum huga.

Skattar eru lagðir á til að fjármagna samneysluna. Einstaklingar njóta hennar í því nauðsynlega öryggisneti sem við gerum öll kröfur um; jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntastofnunum og ýmiss konar almannaþjónustu ásamt fjárhagslegum stuðningi við lífeyrisþega, öryrkja, fatlaðra og svo framvegis: þetta eru allt þættir sem greina siðmenntuð samfélög frá hinum.  Rekstur fyrirtækja nýtur einnig samneyslunnar: fyrirtæki hafa aðgang að menntuðu starfsfólki, þróuðu samgöngukerfi, traustri löggæslu og svo framvegis. Það er því ljóst að allir þurfa að greiða fyrir öryggisnetið, spurningin er einungis hvað er réttlátt í þeim efnum.

Heilbrigt skattkerfi leiðir ekki til þess að ákvarðanir í samfélaginu séu teknar einungis í þeim tilgangi að komast hjá skattlagningu. Þannig þarf að gæta jafnvægis milli skattlagningar á launum og tekjum af fjármagni á þann veg að skattlagning ráði ekki úrslitum um hvort teknar séu ákvarðanir um að fjárfesta eða fjárfesta ekki, t.d. í nýrri tækni eða öðru. Skattkerfið getur einnig gegnt félagslegum markmiðum í sjálfu sér, einkum á sviði tekjuskattlagningar einstaklinga. Það er gert með stighækkandi tekjuskatti í samspili við opinber bótakerfi. Hinir tekjuhærri greiði hlutfallslega hærri skatta af tekjum sínum en hinir tekjulægri.

Því verður ekki á móti mælt að samþykktar lagabreytingar á íslensku skattkerfi frá árinu 2007 er mýmargar, sumir telja yfir hundrað talsins, flestar leiða til hækkunar en þó leynast lækkanir innan um sem gleymist gjarnan að nefna. Má þar nefna lög um skattaívilnanir til nýsköpunar sem þegar eru farnar að sanna sig,  lög um skattalegan stuðning við nýfjárfestingar, auknar endurgreiðslur virðisaukaskatts tengdar byggingariðnaði til að sporna við frekara atvinnuleysi í greininni og örva framkvæmdir, sem og frádráttur einstaklinga frá tekjuskatti vegna viðhalds á íbúðarhúsnæði í sama skyni. Samhliða hækkun á fjármagnstekjuskatti kom til 100 þúsund króna frítekjumark vaxtatekna sem hafði það í för með sér að þeim sem greiða fjármagnstekjuskatt fækkaði um næstum 140 þúsund og hinn almenni launamaður greiðir nú engan fjármagns­tekjuskatt. Á sama tíma var gerð sú breyting að stofni leigutekna af íbúðarhúsnæði var breytt þannig að nú teljast einungis 70% teknanna til skattstofnsins.

Þá má ekki gleyma að þrátt fyrir að flestar breytingar á skattkerfinu hafi verið gerðar í þeim tilgangi að afla ríkissjóði aukinna tekna hefur skattlagningu á ökutæki og eldsneyti verið breytt á kjörtímabilinu og byggist nú öll út frá umhverfisverndarsjónarmiðum um  losun gróðurhúsalofttegunda án þess að um auknar tekjur sé að ræða.

Einnig er mikilvægt að af þeim skattbreytingum  sem tekist hefur að telja saman er stærsti hluturinn í raun ekki hækkun heldur breytingar á krónutölusköttum í þeim tilgangi að þeir haldi verðgildi sínu. Meðan verðbólgan er eins og hún hefur verið er nauðsynlegt að gera slíkar breytingar því annars er í raun um skattalækkanir að ræða sem ráðast af verðbólgunni en ekki ákvörðunum stjórnvalda.

Ljóst er að tíðar breytingar skapa ákveðna óvissu og þar eru skattbreytingar ekki undanskildar, eins og bent hefur verið á í umræðunni að undanförnu.  Þessar breytingar hafa hins vegar ekki komið til að ósekju eins og allir viðstaddir vita, heldur bar brýna nauðsyn til í kjölfar verstu efnahagskreppu sem gengið hefur yfir íslenskt samfélag í  manna minnum. Tekjustofnar ríkissjóðs hrundu samhliða stórauknum útgjöldum af vaxandi atvinnuleysi sem var nánast óþekkt fyrirbæri á Íslandi. Síðast en ekki síst þurfti ríkissjóður að taka á sig fjölmörg ný verkefni vegna efnahagskreppunnar og um leið aukin útgjöld vegna hruns íslenska bankakerfisins og vaxandi erfiðleika í íslensku atvinnulífi almennt. Það eru ekki margir góðir kostir í stöðunni fyrir stjórnvöld, hvort sem er hér á landi  eða  annars staðar þegar þjóðargjaldþrot er yfirvofandi !!!

Íslensk stjórnvöld brugðust hins vegar rétt við stöðunni með erfiðum ákvörðunum í formi blandaðrar leiðar niðurskurðar og tekjuöflunar. Margvíslegar breytingar voru gerðar á tekjuöflunarkerfi  ríkissjóðs og farið var út í sársaukafullan niðurskurð á útgjaldahliðinni á nær öllum sviðum.  En gleymum því ekki að þetta var gert til þess að koma í veg fyrir að sívaxandi skuldabyrði flyttist yfir á komandi kynslóðir, þ.e. börnin okkar og barnabörn. Í þessu erfiða verkefni var rauði þráður núverandi ríkisstjórnar þrátt fyrir allt ávallt sá að hlífa þeim sem minna mega sín og auka þannig á jöfnuð í íslensku samfélagi sem kostur er á erfiðum tímum. Dæmi um þetta er að skattleysismörk tekjuskatts og útsvars hjá einstaklingum hafa hækkað um 38,5% frá árinu 2007 á sama tíma og launavísitalan hefur hækkað um 27,5%. Þrepaskipting tekjuskattsins, þ.e. úr einu þrepi í þrjú þrep, er einnig skref í átt til aukins til jafnaðar. Aukin eignaskattlagning og skattlagning fjármagnstekna er einnig skref í þá átt, en passa þarf upp á að það skref verði ekki of stórt.

Ísland er ekki eina ríki Evrópu sem hefur þurft að hækka skatta á undanförnum árum. Í nýlegri skýrslu frá framkvæmdastjórn ESB, um skattabreytingar í aðildarríkjum ESB kemur fram að meginhluti aðildarríkjanna hefur gripið til skattaaðgerða í formi skattahækkana af margvíslegu tagi eins og hér á landi. Fullvíst er að framundan eru fleiri skattabreytingar í mörgum Evrópuríkjum, bæði hækkanir á sköttum sem fyrir eru og ný skattlagning.

Nóg um fortíðina að sinni, því það er nútíð og framtíð sem skiptir máli. Um það hljótum við öll að vera sammála. Endurreisn íslensks samfélags og þjóðarbúskapar er vel á veg komin eftir ótrúlega erfiða tíma og ýmis jákvæð teikn á lofti í íslensku efnahagslífi sem vonandi fjölgar á næstu mánuðum. Fyrir liggur áætlun um þróun ríkisfjármála fram til ársins 2015, en samkvæmt henni eru ekki fyrirhugaðar frekari breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs sem neinu nemur. Meginmarkmiðið á tekjuhliðinni verður áfram að stöðva tekjufall ríkissjóðs vegna gríðarlegs samdráttar í hagkerfinu en áfram verður staðinn vörður um  velferðarsamfélagið enda er það víðsjárvert að skera enn frekar niður útgjöld til velferðamála á erfiðum tímum. Aðgerðir á tekjuhlið hafa þó ekki eingöngu það að markmiði að stöðva tekjufall ríkissjóðs heldur einnig, að ná fram pólitískri forgangsröðun sem felst m.a. í markmiðum um jöfnuð, umhverfisvernd og ábyrgrar auðlindanýtingu með framsæknum áherslum í skattkerfinu. Í áætlun ríkisstjórnarinnar um stefnu í ríkisbúskapnum er heldur aldrei misst sjónar á markmiði ríkisstjórnarinnar um sjálfbærni í ríkisrekstri.

Þrátt fyrir linnulausa og oft á tíðum óvægna gagnrýni á þær tekjuöflunaraðgerðir sem gripið hefur verið til á undanförnum árum er staða Íslands alls ekki svo slæm í alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir nauðsynlegar aðgerðir til tekjuöflunar hefur samt náðst að hlífa lægstu launum við frekari skattlagningu og tekjubil á Íslandi minnkaði frá árinu 2009 til ársins 2010 þegar horft er til Gini–stuðuls og fimmtungastuðuls úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Tekjubilið hafði hins vegar breikkað árin þar á undan. Mat Hagstofunnar á frekari lífskjarajöfnun eftir hrun og minni skattbyrði lægstu launa hefur einnig verið staðfest með rannsóknum fræðimanna,af fjármálaráðuneytinu sem og í úttekt í Tíund, tímariti Ríkisskattsstjóra. Til að mynda lækkaði skatthlutfall í tekjuskatti við álagningu 2010 frá því sem það hafði verið 2009 fyrir einstaklinga með árstekjur allt að 5–6 m.kr. en hækkaði þar fyrir ofan. Þessi lækkun nær til um 60% allra gjaldenda.

Einnig stendur Ísland sig vel að því er varðar skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja. Þannig er tekjuskattshlutfall fyrirtækja hér á landi það næst lægsta af því sem ríkir í löndunum í kring um okkur: Einungis Írland er með lægra tekjuskattshlutfall fyrirtækja. Hið sama gildir um tryggingagjöld og önnur launatengd gjöld. Þar erum við fyllilega samanburðarhæf við nágrannalöndin. Íslenskt skattkerfi hefur verið metið mjög framarlega í samanburði við önnur lönd: það einkennist af breiðum skattstofnum, lágum skatthlutföllum og fáum frádráttarliðum og gefur þannig fremur litla möguleika til skattaskipulagningar, en slíkt er talið gæðamerki.

Með vísan til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við gerð kjarasamninga í maí sl. vor er sá árangur sem náðst hefur ekki síst að þakka nánu samráði og samvinnu stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins, og mun ég ekki liggja á liði mínu  í þeim efnum sem fjármálaráðherra  á komandi mánuðum. Í yfirlýsingunni er meðal annars fjallað um skatta á fyrirtæki og nauðsynlegar breytingar á því sviði sem í flestu hafa gengið eftir eða eru í vinnslu í góðri sátt og samvinnu aðila. Sem dæmi er starfandi vinnuhópur aðila sem ætlað er að fjalla um reglur um þunna eiginfjármögnun, sem fjallað verður síðar um á þessum fundi, en reiknað er með að tillögur hans liggi fyrir innan fárra vikna. Mín skoðun er sú að vinna sem þessi sé fordæmi til eftirbreytni. Í því sambandi er rétt að nefna að ég hef óskað eftir stöðumati frá starfshópi sem forveri minn skipaði til að endurskoða íslenska skattkerfið, í því skyni að fá betri yfirsýn yfir það sem þegar hefur verið gert og hvort frekari breytinga sé þörf. Að henni fenginni mun ég taka ákvörðun um það hvernig á því starfi verði haldið næstu mánuði, en í mínum huga er ljóst að sú vinna eigi sér staða í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins, jafnt launþega sem atvinnurekendur. Þar með taldir þeir aðilar sem standa að þessum morgunverðarfundi sem ég hlakka til að vinna með á komandi mánuðum.

Takk fyrir og gangi ykkur vel.

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum