Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. febrúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðOddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2011-2012

Ræða fjármálaráðherra við opnun Verne gagnavers

Ágætu gestir / Ladies and gentlemen,

First I would like to say a few words in English for the English speaking stakeholders of Verne Global. On behalf of the Icelandic government I would like to congratulate you on this pleasant moment.  The Data Center project at Ásbrú has been in preparation since 2007 and there have indeed been various obstacles to overcome on the way. I can for example mention one financial meltdown and two volcanic eruptions. Nevertheless you are still here and we are grateful for that and for your sincere commitment in seeing this project through. This project is indeed an inspiration for us all to continue our work on the restructuring of new industries and job creation in Iceland, in full harmony with the environment and society.

Ágætu gestir,

Oft er bent á þá staðreynd að græna orkan, sem við Íslendingar erum svo rík af hafi byggt upp tiltölulega einhæft atvinnulíf, hingað til a.m.k.  Það má til sanns vegar færa og því er tilkoma gagnaversiðnaðar á Íslandi sérlega ánægjuleg tíðindi enda er græn orka ein helsta forsenda þess að þessi tegund iðnaðar eða þjónustu ratar hingað til lands.  Tilkoma alþjóðlegs gagnaversiðnaðar á Íslandi er í fullu samræmi við hina nýju heildstæðu orkustefnu sem unnið hefur verið að undanfarin ár og var nýlega lögð fram til kynningar á Alþingi.

Einnig fellur slíkur iðnaður vel að þeirri stefnumótun sem unnið er að varðandi beina erlenda fjárfestingu á Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að kynna Ísland sem áhugaverðan kost fyrir alþjóðleg gagnaver og er nú ánægjulegt að sjá þetta alþjóðlega gagnaver taka formlega til starfa. Við erum vongóð um að gagnaver Verne að Ásbrú verði ákveðinn ísbrjótur því ljóst er að möguleikar okkar eru miklir á þessu sviði.

Önnur forsenda verkefnisins er svo blessuð norðanáttin, sem við formælum þegar hún bítur okkur hressilega í kinnarnar.  En eins og þekkt er þá hefur búnaður þessa iðnaðar mikla kæliþörf og því er náttúrulegur kuldi honum mikill ávinningur.   Hafandi alist upp á vindasömum stöðum, bæði yst á Snæfellsnesi og svo í Garðinum hefur mér aldrei dottið í hug að kaldviðrinu væri hægt að koma í verð með þessum hætti.  Ætli Einari Ben hafi dottið slíkt í hug?

Í þriðja lagi byggir gagnaversiðnaðurinn á góðum og öruggum tengingum við ummheiminn.  En með lagningu Danice gagnakapalsins til Jótlands fyrir nokkrum árum var hrundið úr vegi þeirri ógn sem stafaði af ótryggri tengingu.

Fyrir hartnær tveimur árum tóku gildi lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.  Fyrir þá tíð voru slíkir samningar þungir í vöfum og þurftu samþykki Alþingis í hvert sinn.  Eingöngu allra stærstu fjárfestingarnar gátu farið þá leið.  Með hinum nýju lögum er regluverkið orðið mun gegnsærra og með markvissari hætti stuðlað að eflingu nýfjárfestingar í landinu. Verne Global var eitt fyrstu fyrirtækjum til að nýta sér þessi lög en í september á síðasta ári undirrituðu stjórnvöld fjárfestingarsamning við Verne vegna verkefnisins. Þrír aðrir fjárfestingarsamningar hafa verið undirritaðir á grundvelli nýju laganna og eru 10 nýfjárfestingarverkefni til meðferðar í stjórnkerfinu.

Ég vil einnig nefna að þessa dagana stendur yfir endurskoðun á löggjöf um virðisaukaskatt þessa iðnaðar til að tryggja samkeppnishæfni hans á alþjóða vettvangi.  Fjármálaráðuneytið hefur einmitt notið liðsinnis starfsmanna Verne Global og fleiri fyrirtækja á þessu sviði við smíði þeirrar löggjafar.  Það er von okkar að með löggjöfinni verði umgjörð þessa iðnaðar það aðlaðandi að Ísland eigi raunhæfan möguleika á að verða miðstöð gagnaversiðnaðar.  En eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ætlar Landsvirkjun sér stóra hlutdeild í þessum markaði.

Þrautseigja þess fólks sem að gagnaveri Verne Global standa er aðdáunarverð.  Heil fjármálakreppa á heimsvísu, gjaldeyrifhöft eða eldgos í tvígang hefur ekki hróflað við áætlun þeirra.  Með áræðni og úthaldi hefur ætlunarverkið tekist, og nú erum við hér saman komin til að fagna þessum merka áfanga.

Með tilkomu þessa gagnavers má segja að Íslenski gagnaversiðnaðurinn hafi slitið barnaskónum og orðið að unglingi.  Það er von ríkisstjórnarinnar að við séum aðeins að byrja á langri vegferð við að byggja upp nýja tegund tækniiðnaðar. 

Ég vil að lokum óska sveitungum mínum og nágrönnum hér á áhrifasvæði sveitafélagsins Garðs til hamingju með þessi tímamót. 

Þetta er góð byrjun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum