Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

21. maí 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðOddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2011-2012

Ávarp fjármálaráðherra við upphaf framkvæmda á nýju hjúkrunarheimili á Suðurnesjum

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar og aðrir sveitarstjórnarmenn, góðir gestir.

Fyrir rétt um hálfu ári síðan undirrituðu velferðarráðherra, fjármálaráðherra og bæjarstjóri Reykjanesbæjar samkomulag um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ.

Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu hjúkrunarheimila á landinu frá haustinu 2009 var ráðgert að byggja 30 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ. Var þá miðað við að gamli Hlévangur yrði áfram í notkun en fjölbýlum þar breytt í einbýli. Þeirri ákvörðun var breytt að ósk heimamanna og ákvörðunin um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis
innsigluð með undirritun samkomulags um framkvæmdir og fjármögnun þeirra.

Heimamenn annast hönnun og byggingu heimilisins. Sveitarfélaginu hefur verið tryggð fjármögnun framkvæmdanna með láni frá Íbúðalánasjóði en Framkvæmdasjóður aldraðra greiðir sveitarfélaginu húsaleigu til 40 ára sem nemur 85% afborgunar af leigunni. Árlegar greiðslur Framkvæmdasjóðs eru áætlaðar um 112 milljónir króna á ári.

Í fjárlögum ársins 2011 var hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum fjölgað um 20 og ákveðið að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja myndi annast rekstur þeirra þar til nýtt hjúkrunarheimili tekur til starfa. Með byggingu nýs heimilis samkvæmt samkomulaginu fjölgar hjúkrunarrýmum á
Suðurnesjum um tíu frá því sem nú er. 
Uppbygging hjúkrunarheimila í níu sveitarfélögum víðsvegar um land sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti haustið 2009, er í samræmi við framkvæmdaáætlun sem byggð er á mati fyrir þörf fyrir hjúkrunarrými í landshlutunum. Hvert og eitt sveitarfélag hefur síðan fléttað þá ákvörðun inn í sína eigin áætlun um aðbúnað aldraðra og aðgerðir innan málaflokksins eins og Reykjanesbær hefur gert. Þannig er tvöfaldur ávinningur með verkinu, bættur aðbúnaður fyrir aldraða Suðurnesjamenn ásamt aukinni atvinnu á uppbyggingartíma og einnig eftir að heimilið verður að fullu tekið í notkun.

„Þegar maður er ungur vill maður utan. Þegar maður er gamall vill maður heim“

Það að í heimabyggð sé góður og mannsæmandi aðbúnaður fyrir þá sem skilað hafa ævistarfi, teljum við vera sjálfsögð mannréttindi á 21. öldinni. Þrátt fyrir það höfum við Íslendingar hingað til varla getað státað okkur af því, a.m.k. ekki í öllum sveitarfélögum
landsins og því er það nokkuð sérstakt að einmitt í kreppunni sé hrint í framkvæmd svo metnaðarfullri áætlun, sem nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ er hluti af.
Sú áætlun hefði ekki orðið að raunveruleika nema fyrir góða samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Það er einmitt góð samvinna þessara tveggja stjórnsýslustiga, ríkis og sveitarfélaga sem bæði snúast um almannahag og um að gæta að velferð í samfélaginu, samvinna sem er íbúunum svo mikilvæg og því eigum við sem getum haft þar jákvæð áhrif að leggja okkur fram við það.

Þessi gleðilegi viðburður sem við erum nú vitni af á þessum bjarta degi í Reykjanesbæ er táknmynd góðrar samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil að lokum óska ykkur öllum til hamingju með þá von í brjósti að framkvæmdir muni ganga vel og slysalaust.

Takk fyrir



 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum