Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

06. desember 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2012-2013

Verðmætasköpun varðar leiðina

Eina leiðin upp úr samdrætti í efnahagslífinu, sem skilar bættum lífskjörum til frambúðar, er aukin verðmætasköpun. Hér á landi þurfum við að leggja sérstaka rækt við útflutningsgreinarnar og framleiðslu sem stuðlar að bættum gjaldeyrisjöfnuði. Ríkisstjórnin hefur stigið mikilvæg skref í þessa átt og boðar fleiri í framkomnu fjárlagafrumvarpi.

Stærsta einstaka hagsmunamál atvinnulífsins er ábyrgð og festa í ríkisrekstrinum. Stöðvun á frekari skuldasöfnun ríkissjóðs og svigrúm til að hefja endurgreiðslu lána skapar traust á hagkerfið og lækkar fjármagnskostnað. Bætt lánshæfi íslenska hagkerfisins stuðlar þannig að aukinni fjárfestingu í atvinnulífinu en hún er forsenda frekari verðmætasköpunar á næstu árum.

Hvatt til fjárfestinga

Hvorki ríkisstjórn né Alþingi skapa í sjálfu sér störf. Okkar hlutverk er að skapa skilyrði til vaxtar og nýsköpunar. Vexti okkar mikilvægustu auðlindagreina eru náttúruleg takmörk sett svo til framtíðar þurfum við í auknum mæli að reiða okkur á virkjun hugvitsins, einu raunverulega ótæmandi auðlindina. Stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og auðlindamálum tekur mið af þessu og í því fjárlagafrumvarpi sem nú er til afgreiðslu á Alþingi felast frekari tíðindi.
Fyrsta rammalöggjöfin um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi var sett sumarið 2010. Í kjölfarið hófst ítarleg úttekt á því hvernig staðið hefur verið að því að laða hingað til lands beina erlenda fjárfestingu. Útkoman varð fyrsta stefnumótun stjórnvalda um beinar erlendar fjárfestingar, samþykkt sem þingsályktun, sem nú er unnið að því að fylgja eftir. Þar er stefnan sett á aukna fjölbreytni og fjárfestingar sem flytja með sér nýja þekkingu og tækni til landsins.

Endurgreiddur þróunarkostnaður og efling samkeppnissjóða

Lög um endurgreiðslu skatta vegna rannsókna- og þróunarkostnaður hefur verið lyftistöng fyrir fjölmörg fyrirtæki og stuðlað að vexti þeirra. Hvatning til fjármögnunar nýsköpunarfyrirtækja gegnum skattafslátt vegna hlutabréfakaupa er í vinnslu eftir athugasemdir ESA við fyrri útfærslu. Efling Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarsjóðs um 750 milljónir kr. á ári og 500 milljónir kr. til markáætlana gefa fjölmörgum frumkvöðlum og nýsköpunarfyrirtækjum tækifæri til að þróa verðmæta vöru og þjónustu. Við sjáum mikilvægi stuðningsins við hugverkageirann m.a. í vexti skapandi greina á borð við kvikmyndaiðnaðinn og tölvuleikjageirann.

Efling stoðkerfis atvinnulífsins

Sameining smærri ráðuneyta í eitt öflugt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar skapar ný sóknarfæri til að einfalda og efla stoðkerfi atvinnulífsins og hvetur okkur til að líta á allar atvinnugreinar sem sóknarfæri til framtíðar. Í gegnum sóknaráætlanir landshluta er með fjárlögum verið að verja 400 milljónum kr. til verkefna sem heimamenn þróa sjálfir og ákveða forgangsröðun í samræmi við stefnumótun sem unnin er með fagráðuneytunum.
Við erum að leggja 500 milljónir króna í sjóð til fjárfestinga í fyrirtækjum sem falla undir græna hagkerfið en þar liggja mörg af sóknarfærum atvinnulífsins til frambúðar. Þá verður 200 milljónum króna varið til að styðja fyrirtæki við að þróa umhverfisvænni og grænni lausnir. Slíkt fellur að hinni verðmætu ímynd Íslands sem landi ósnortinnar náttúru, hreinnar orku og fyrsta flokks hráefnis í matvælageiranum. Þetta tengist meðal annars verkefninu Græna orkan sem miðar að því að draga úr innflutningi kolefnaeldsneytis vegna samganga og auka hlut innlendrar visthæfrar orku, m.a. með skattalegum hvötum m.a skattaafsláttar af rafmagnsbílum. 

Tjaldað til fleiri en einnar nætur

Heildstæð auðlindastefna og orkustefna miða að því að nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti og tryggja að auðlindaarðurinn renni til eflingar innviða og fjölbreyttara atvinnulífs. Markmið um ábyrgð í ríkisrekstri, niðurgreiðslu skulda og gjaldeyrisjöfnuð miða að því að skapa jákvæð skilyrði fyrir fjárfestingu og verðmætasköpun. Þetta samhengi útgjalda, tekna og áhrifa á allt atvinnu- og efnahagslíf er mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að deila um einstök útfærsluatriði í því mikla verkefni sem ríkisstjórnin hefur tekist á við allt frá hruni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum