Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. mars 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2012-2013

Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar

Katrin-arsfundurLV
Katrin-arsfundurLV

*Birt með fyrirvara um breytingar við flutning ræðunnar

Ágætu fundargestir 

Það er mér gleðiefni að fá að vera með ykkur í dag á þessum ársfundi Landsvirkjunar nú þegar við erum að ljúka einu viðburðarríkasta kjörtímabili síðari tíma.  Síðastliðin fjögur ár hafa ekki síður verið viðburðarrík fyrir Landsvirkjun þetta fjöregg okkar Íslendinga.

Ég sagði hér síðast þegar ég ávarpaði ársfund Landsvirkjunar, árið 2011, að ef við gætum virkjað allt rifrildið í samfélaginu þá væri Fljótsdalsstöð bara peð í samanburðinum. Ég held að orkan sem varið hefur verið í rifrildi og illindi hafi aðeins aukist síðan.

Mig langar hér í dag að fara yfir aðeins yfir orkumálin og Landsvirkjun  á kjörtímabilinu sem nú er senn að ljúka.  Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að koma að þeim með tvennum hætti, fyrst sem iðnaðarráðherra og síðar sem fjármála- og efnahagsráðherra á þessum miklu umbrotatímum.

Ég segi umbrotatímum því þegar við horfum á á efnahagslegan grundvöll heils samfélags riða til falls með tilheyrandi sársauka og kostnaði er eðlilegt framhald að við stöldrum við, endurskoðum gildi okkar og mörkum okkur nýja stefnu.  Sá sem ekki staldrar við og metur stöðuna er dæmdur til að gera sömu mistök á ný.

Sökum eignarhalds þá hefur staða ríkissjóðs bein áhrif á stöðu Landsvirkjunar. Það skuldatryggingarálag á Ísland sem hér var við lýði í ársbyrjun 2009 hafði áhrif á lánsfjármöguleika Landsvirkjunar. Um tíma fór álagið upp í yfir þúsund punkta en er nú komið niður undir 150 sem er ekki ólíkt og fyrir hrun.

Hin stranga efnahagsáætlun stjórnvalda varðar miklu meiri hagsmuni en þá sem varða bara ríkissjóð. Þegar við tókumst á við fjárlagahalla sem áætlaður var 350 milljarðar á árunum 2009 til 2012 með blandaðri leið tekjuauka og niðurskurðar vorum við jafnframt í nauðvörn fyrir hagsmuni íslensks atvinnulífs. Áframhaldandi skuldasöfnun ríkissjóðs myndi bitna hart á trúverðugleika okkar og þar með fjármögnunarmöguleikum og fjárfestingum. Fjárlagahallinn fór hæst í 14,6% af landsframleiðslu, fyrir fjárlög þessa árs er gert ráð fyrir að hann muni nema um 0,2% af landsframleiðslu. Við sjáum fram á að við séum hætt að safna skuldum og séum farin að reka sjálfbæran ríkissjóð.

Það er stórt skref í þágu atvinnulífsins í landinu og til eflingar fjárfestingar.

Sú skýra stefnumörkun sem Landsvirkjun setti sér með nýrri forystu er gott dæmi um breytt gildismat og nýja stefnu sem er vörðuð í sátt við umhverfi sitt. Það sem mestu máli skiptir er um þessa stefnu ríkir sátt meðal þjóðarinnar, eigenda Landsvirkjunar.

Eitt af mínum fyrstu verkum sem iðnaðarráðherra var að hefja undirbúning að opinberri orkustefnu fyrir Ísland. Stefnan fór í umsagnarferli árið 2011 og voru lokadrög kynnt fyrir Alþingi vorið 2012.

Meginmarkmið orkustefnunar voru eftirfarandi: Orkuþörf almennings og almenns atvinnulífs verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Við nýtingu orkuauðlinda verði borin virðing fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins. Þjóðin njóti arðs af sameiginlegum orkuauðlindum. Þjóðhagsleg framlegð orkubúskaparins verði hámörkuð. Orkuframboð henti fjölbreyttu atvinnulífi og dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.


Ég held að við getum öll verið sammála um þessi meginmarkmið. Þau koma svo fram með öðrum hætti í nýlegri skýrslu McKinsey um vaxtafæri fyrir Íslands. Til að fylgja þeirri skýrslu og tillögum hennar eftir hefur þegar verið settur á fót þverpólitískur og þverfaglegur samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi. Það koma saman formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum. Vettvangnum er ætlað að stuðla að heildstæðri og málefnalegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið. Svo skemmtilega vill til að þetta samráð er leitt af aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, Rögnu Árnadóttur.

Landsvirkjun hefur einnig sjálf skilgreint hlutverk sitt á þann hátt að henni beri að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Við sjáum þess skýr merki að fyrirtækið starfar eftir þessari stefnu. Þeir samningar sem gerðir hafa verið á undanförnum árum eru gerðir á grundvelli viðskiptalegra hagsmuna og hagstæðra verða. Grundvallarforsenda þess að okkur takist að hámarka afrakstur orkulinda á grundvelli verðmætasköpunar og hagkvæmni er að við ráðumst ekki í ákveðin verk á forsendum stjórnmálanna og loforða gefnum þar. Orkuverð og samningar verða liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast, ella veikjum við samningsstöðu Landsvirkjunar. Því er mjög mikilvægt að stjórnvöld styðji við fyrirtækið í þessari viðleitni sinni en láti ekki undan stundarþrýstingi hagsmunaaðila. Í því liggur ábyrgð okkar.
Áherslur Landsvirkjunar eru líka í samhljómi við heildstæða auðlindastefnu fyrir Ísland þar sem verkefnið er að tryggja þjóðinni varanleg yfirráð yfir sameiginlegum auðlindum sínum á sama tíma og við hámörkum auðlindaarðinn sem aflvaka framfara og uppbyggingar.

 

Ég vil fagna því sérstaklega að Landsvirkjun hefur getað greitt eiganda sínum,  íslensku þjóðinni, arð í fyrsta skipti en  árið 2012 voru greiddir 1,8 milljarðar króna og samkvæmt áætlunum mun arðgreiðslan nema 2,5 milljörðum fyrir þetta ár. Nú er komið að þeim tímamótum að Landsvirkjun getur lagt ríkissjóði til arðgreiðslur í sameiginlegan sjóð okkar allra nú þegar ríkissjóður þarf hvað mest á því að halda.

Góðir ársfundargestir

Við erum búin að samþykkja Rammaáætlun frá Alþingi og það skiptir máli að nú skuli liggja fyrir hvar megi virkja og hvaða perlur við viljum friða. Við erum nú búin að tryggja skynsamlega leið verndunar og nýtingar sem sátt á að geta tekist um.

Í meðförum Alþingis var vikið frá tillögum verkefnisstjórnar og á þeim gerðar breytingar sem hafa verið gagnrýndar. Af því tilefni vil ég benda á að einu breytingarnar fólust í því að ákveðnir virkjanakostir voru færðir í biðflokk á meðan frekari gagna væri aflað og skilgreint í röksemdafærslu hvaða upplýsingar vantaði.

Eflaust má deila um þetta en að mínu mati er þetta fyrst og fremst vilji til að láta náttúruna njóta vafans meðan fyllri upplýsinga er aflað. 

En það er ljóst að ítarleg umfjöllun um rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur ekki valdið neinu stoppi í fjárfestingum tengdum orkuiðnaði. Hér höfum verið með óselda orku í kerfinu og þótt margir erlendir fjárfesta sýni því áhuga að kaupa endurnýjanlega orku til margvíslegra verkefna þá veldur óvissa í efnahagsmálum heimsins því að margir eru hikandi við að taka skuldbindandi ákvarðanir. Þetta þekkja orkufyrirtækin og þeir aðilar sem vinna að því að laða hingað beina erlenda fjárfestingu á borð við Íslandsstofu.

Vonandi sjáum við þó senn meiri hreyfingu. Þar horfa margir til norðausturhluta landsins. Mín trú er að þar munum við byggja eitt mikilvægasta  iðnaðarsvæði landsins. Ljóst er þó að það þarf að ryðja brautina með uppbyggingu innviða á nýju svæði. Því hafa stjórnvöld stutt rækilega við þau áform Norðurþings og liggur nú fyrir Alþingi frumvarp þess efnis. Það er mín staðfasta trú að þegar ísinn hefur verið brotinn inn á þetta nýja svæði, verði eftirleikurinn auðveldari. Fleiri fyrirtæki muni koma á svæðið og skila ríkissjóði skatttekjum og íslensku samfélagi verðmætum störfum og styrkja svæðið allt. 

Við nálguðumst Norðausturverkefnið með nýstárlegum hætti. Þegar ljóst var að staðfesting á byggingu álvers væri ekki á döfinni var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf iðnaðarráðuneytisins, sveitarfélaga á svæðinu, atvinnuþróunarfélagsins og Landsvirkjunar við kortlagningu innviða og tækifæra, m.a. út frá áhuga mögulegra fjárfesta. Verkefnisstjórn skilaði niðurstöðum sem síðan hefur verið unnið með af hálfu allra aðila og eru nú að skila sér í framkvæmdum við nýtt iðnaðarsvæði.

Við Helguvík á Reykjanesi eru ekki ólíkar aðstæður og þegar nýjasta viljayfirlýsingin var undirrituð um Norðausturverkefnið. Þar hefur ágreiningur um raforkuverð milli orkufyrirtækja og framkvæmdaaðila valdið töfum á undirritun skuldbindandi samnings og þar með ákvörðunar um hefja uppbyggingu álvers af fullum krafti. Aðrir fjárfestar hafa sýnt svæðinu áhuga. Af minni hálfu er fullur vilji til að mæta sveitarfélaginu, atvinnuþróunarfélaginu og orkufyrirtækjum á svæðinu með sama hætti og við gerðum á Norðausturlandi.

Þjóð sem er eins rík af auðlindum og við íslendingar verður í sífellu að vera vakandi yfir þeim tækifærum og ógnunum sem í nýtingunni felast.  Stjórnendur Landsvirkjunar hafa á undanförnum misserum vakið athygli á þeirri áhættu sem felst í tiltölulega fábreyttri  nýtingu raforkunnar sem nú er raunin en jafnframt  þeim tækifærum sem geta falist í því að tengja íslenska raforkukerfið við kerfi annarra landa um sæstreng.   Ákvörðun um slíkt er það stór fyrir okkar þjóð að nauðsynlegt er að kanna allar afleiðingar hennar sem kostur er fyrirfram.  Því er nú að störfum nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunasamtaka landsins auk þeirra fyrirtækja sem hlut eiga að máli.  En hlutverk hennar er að kanna þjóðhagsleg áhrif slíkrar tengingar.  Hún mun skila skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um miðjan maí og verður mjög spennandi að sjá niðurstöðurnar.

Katrin-arsfundurLV

 

 

 

 

 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum