Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

06. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðBjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra 2013-2017

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Samál 2015

Ræða Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Samál 28. apríl 2015.

Ég þakka ykkur kærlega fyrir það tækifæri að fá að koma hingað og ræða við ykkur. Eins og Ragnar fór ágætlega yfir í sínu erindi  þá er sannarlega stoð í áli fyrir íslenskt efnahagslíf.

Þetta er kröftugur iðnaður sem vaxið hefur myndarlega og náð miklum árangri að undanförnum árum og áratugum á sviði framleiðslu, þróunar, öryggis og umhverfismála.

Mikil gróska er í íslenskum áliðnaði, þar sem hundruð fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum koma við sögu, og lifandi dæmi um fjölbreytileikann er sýning Össurar á stoðtækjum hérna frammi.

En þetta er líka ungur iðnaður. Það er ótrúlegt, að ekki séu nema 50 ár frá því við vorum nánast á byrjunarreit í orkuiðnaði. Þá var tekin ákvörðun um að reisa Búrfellsvirkjun til að álverið í Straumsvík gæti tekið til starfa, Landsvirkjun var stofnuð og um leið lagður vísir að því öfluga raforkukerfi sem við Íslendingar göngum að sem vísu.

Samningur ríkisins og Swiss Aluminium  um álverið í Straumsvík markaði tímamót og um hann var talsvert deilt á Alþingi á sínum tíma þegar veita átti honum lagagildi. Það sama átti við um sambærilega fjárfestingasamninga síðar meir, jafnvel allt fram á þennan dag. Þó að aðstæður séu um ólíkar í dag, þá er góð áminning að rifja upp við hvaða veruleika við bjuggum á þeim tíma.

Ég ætla að vitna örstutt í þingræðu forsætisráðherra um þetta mál árið 1966 sem sagði: „Við höfum séð það, að sjávarútvegurinn er eilífum sveiflum háður. Hann hefur gert okkur efnaða í bili. Við skulum vona, að það standi sem lengst, en það er hygginna manna háttur að hugsa fyrir morgundeginum.“

Þetta er nú sem fyrr kjarni málsins. Ál- og orkuiðnaðurinn hefur á tæpri hálfri öld treyst grundvöll íslensks efnahagslífs svo um munar, gert verðmætasköpunina fjölbreyttari, gert okkur betur kleift að kljást við sveiflur í efnahagslífinu og opnað á fleiri tækifæri til framfara á sviði tækni, vísinda og nýsköpunar almennt.

Allt ber að sama brunni; Við þurfum sterkar stoðir fyrir efnahagslíf okkar. Áliðnaðurinn er ein slík meginstoð. Áður stóð sjávarútvegurinn nær einn undir afkomu þjóðarinnar. Nú búum við við gróskumikinn orkuiðnað, ferðaþjónustan er í örum vexti og fjölbreytni atvinnustarfseminnar fer vaxandi á fleiri sviðum. Erfðarannsóknir, lyfjarannsóknir, gagnaver og svo mætti lengi telja. Öfugt við það sem oft mætti ráða af umræðunni þá styrkir þetta hvert annað. Eftir því sem stoðunum fjölgar fáum við betri grunn undir stöðugleika og jafnvægi í þjóðarbúskapnum.  Það er aftur forsenda þess að enn fjölbreyttari starfsemi skjóti rótum og verðmætasköpunin haldi áfram.  Þetta er frjór jarðvegur fyrir framtíðarkynslóðir að sá í.

Vöxtur áliðnaðar undanfarna tvo áratugi hefur verið mikill með tilkomu  nýrra álvera og með stækkun álversins í Straumsvík. Ánægjulegt er að miklar framfarir hafa orðið í umhverfismálum á þessum tíma, til marks um það má nefna að losun gróðurhúsalofttegunda fyrir hvert framleitt tonn hefur dregist saman um 75% frá 1990. Álfyrirtækin hafa lagt út í mikla fjárfestingu til að ná þessum árangri og þar gegnir íslenskt hugvit og verkþekking hlutverki.

Þetta er lofsverður árangur og mikilvægt að haldið verði áfram á sömu braut.  Hér er sjálfsagt að bæta við að losun vegna raforkuframleiðslu fyrir þennan iðnað er með því minnsta sem þekkist, eins og nánar verður fjallað um hér í öðru erindi. 

Stofnun álklasans á síðasta ári og aukið samstarf við háskólasamfélagið, til að stuðla að frekari rannsóknum og tækniþróun, er mjög jákvætt skref í átt að frekari framþróun í greininni. Það stuðlar að aukinni framlegð og frekari samkeppnishæfni og mun til langs tíma skila þjóðarbúinu enn frekari ávinningi. 

Í mínum huga var það sannkallað gæfuspor fyrir Íslendinga að hefja uppbyggingu orkuiðnaðar fyrir fimmtíu árum. Nú stöndum við í þeim sporum að búa yfir einu öflugasta raforkukerfi í heiminum, orkuöryggi er með því besta sem þekkist, við vitum þó að víða er verk að vinna við að þétta kerfið enn frekar en orkuöryggið er engu að síður betra en víðast annars staðar, og vandfundið það land sem hefur lægri kostnað á framleidda einingu raforku.  Þetta hefur meðal annars skilað sér í lægra orkuverði til almennings – sem er þegar öllu er á botninn hvolft ákveðið form af arðgreiðslu til þjóðarinnar.

Uppbygging síðustu áratuga hefur skipað okkur í öfundsverða stöðu. Á grundvelli hennar erum við nú í færum til að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku frá fjölbreyttari kaupendahópi. Fjölmörg verkefni eru nú að komast á framkvæmdastig, þetta eru verkefnin sem munu að verulegu leyti halda uppi hagvexti og fjárfestingastigi á Íslandi næstu árin, þetta sýna hagspárnar.  

Um þessar mundir standa yfir kjaraviðræður, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði - endurnýjun samninga um kaup og kjör. 

Það er því ekki úr vegi að minnast á það hér hve nátengd þessi málefni eru.  Geta okkar til að bæta kjörin er háð getu okkar til að skapa aukin verðmæti.  Skynsamleg nýting auðlindanna og uppbygging öflugra fyrirtækja sem skapa landinu gjaldeyristekjur, fyrirtækja sem byggja á íslensku hug- og verkviti, er ein helsta forsenda þess að við getum mætt þessum kröfum og staðið jafnfætis eða framar öðrum þjóðum. 

Okkar bíður að finna jafnvægið milli frekari nýtingar orkuauðlindanna og þess að auka fjölbreytnina í atvinnustarfseminni. Að tryggja áfram hagstæð skilyrði fyrir orkufrekan iðnað um leið og við ryðjum brautina fyrir meiri fjölbreytni og frekari uppbyggingu þekkingarfyrirtækja. 

Svarið liggur fyrst og fremst í því að treysta stöðugleika í efnahagsumhverfinu og gæta að samkeppnishæfni gagnvart öðrum þjóðum. Það er viðvarandi verkefni.   

Að því sögðu langar mig að gera hér ívilnanir stuttlega að umtalsefni.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að stuðla að einfaldara, gegnsærra og skilvirkara skattkerfi. Það þýðir að draga ber úr undanþágum, afnema sérreglur og tryggja jafnræði meðal skattgreiðenda í landinu. Samhliða því verður þá skattbyrði allra lækkuð.

Fjárfestingasamningar ganga í eðli sínu gegn þessu meginmarkmiði en fram hjá því verður ekki litið að þeir hafa í gegnum tíðina þjónað mikilvægu hlutverki í atvinnuuppbyggingu landsins og gera enn. 

Augljóst er hve miklu getur skipt fyrir stór fjáfestingaverkefni sem greiða sig upp á löngum tíma að hafa fast land undir fótum, stöðugt rekstrarumhverfi og lágmarks óvissu um lykilþætti sem áhrif geta haft á arðsemi verkefnisins.

Án slíkra samninga er engum blöðum um það að fletta að stærstu verkefnin á sviði orkuiðnaðar hér á landi hefðu ekki orðið að veruleika. 

Í dag búum við að þessum blómlegu fyrirtækjum sem eiga sér áratugasögu.  Mörg þeirra voru frá upphafi umdeild, en hverju hafa þau skilað? Samhliða vexti þeirra og viðgangi höfum við öðlast þekkingu, fengið grunn að frekari uppbyggingu, sóknarfæri sem birtast okkur í nýjum fyrirtækjum í fjölbreyttri starfsemi. Mér verður hugsað til heimsókna í mörg slík fyrirtæki þar sem ég hef séð með eigin augum hvernig þekking sem byggst hefur upp í tengslum við starfsemi álfyrirtækja er orðin að útflutningsafurð og grunnur að þátttöku Íslendinga í útboðum víða um heim þar sem reynsla, kunnátta og verkvit er það sem við höfum fram að færa.

Fyrir Alþingi er frumvarp um nýja rammalöggjöf um þessi efni. Um leið og við fikrum okkur áfram í átt að nýjum tækifærum og áskorunum á þessu sviði skulum við hafa hugfast það meginhlutverk stjórnvalda sem ég vék að áður að treysta betur rammann fyrir atvinnustarfsemi í landinu almennt þar sem:

  • efnahagslegur og lagalegur stöðugleiki ríkir
  • menntakerfið verði í fremstu röð og styðji við þarfir atvinnulífsins
  • umhverfi nýsköpunar verði eflt með áherslu á rannsóknir og þróun
  • hagkerfið verði opnað frekar með endurskoðun tolla, sanngjörnu skattumhverfi  og rekstrarumhverfi sem styrkir samkeppni og eykur framleiðni í hagkerfinu.  Afnám raforkuskatts er forgangsmál sem fellur vel að þessari mynd.

Við erum á margan hátt í öfundsverðri stöðu.  Gangi hagspár eftir erum við að upplifa lengsta samfellda hagvaxtarskeið seinni tíma. Hagkerfið er í góðu jafnvægi og helstu atvinnugreinar í sterkri stöðu til að sækja fram.  En það eru margir óvissuþættir sem huga þarf að. Um leið og við leysum úr þeim viðfangsefnum sem nú um stundir eru efst á baugi skulum við ekki gleyma því að það er hygginna manna háttur að hugsa fyrir morgundeginum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum