Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

08. desember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðBjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra 2013-2017

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á tækni- og hugverkaþingi 4. desember 2015

Góðan dag, góðir fundarmenn. Ég þakka fyrir það fá tækifæri til að koma hingað til ykkar og ræða við ykkur um stöðu tækni- og hugverkafyrirtækja og þá umgjörð sem stjórnvöld geta skapað þessum mikilvægu og vaxandi atvinnugreinum.

Ekki þarf að líta mörg ár aftur í tímann til að rifja upp hvað eldsumbrot á Suðurlandi höfðu gríðarlega mikil áhrif á flug til og frá landinu og þar með lokaðist um tíma helsta komuhlið ferðamanna til landsins.

Síðla sumars á þessu ári lokuðust svo mikilvægir markaðir fyrir íslenskar sjávarafurðir þegar Rússar settu viðskiptabann á tiltekin matvæli frá Íslandi. Ekki sér enn fyrir endann á þeirri deilu.

Í miðri þessari viku vofði yfir að eitt þriggja álvera í landinu myndi stöðva starfsemi sína. Á síðustu stundu var því þó sem betur fer afstýrt.

Ég dreg þessa sérstöku atburði hér fram til að minna okkur öll á – það sem við vitum nú þegar - hvað það er mikilvægt, að í landinu séu skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf og verðmætasköpun á ólíkum sviðum. Það er og verður alltaf lítið vit í því að setja öll eggin í sömu körfuna.

Það er ánægjulegt að staða grunnatvinnuvega landsins sé góð um þessar mundir. Það hefur gagnast útflutningsgeiranum mjög vel að fá aukna samkeppnishæfni með lækkun krónunnar. Við höfum séð mjög mikinn viðsnúning á undanförnum árum í útflutningsdrifnum greinum. Framleiðni hefur vaxið í sjávarútvegi á undanförnum áratugum, uppbygging stóriðju og raforkusölu hefur heilt yfir tekist vel og vöxtur ferðarþjónustunnar á síðustu árum er hreint út sagt með ólíkindum.

Við erum í dag með almennt góð skilyrði í efnahagsmálum fyrir atvinnulífið. Grunnstoðirnar standa ágætlega og við erum líka með mörg dæmi um að fyrirtæki í þeim geira sem við beinum sjónum að hér standi ágætlega. Þetta gerir okkur kleift að ráðast í mikilvægasta verkefni stjórnvalda um þessar mundir sem er að afnema höftin. Þannig má segja að við séum í ákveðinni uppsveiflu í augnablikinu en það breytir ekki því að við stöndum áfram frammi fyrir mikilli áskorun um að halda áfram, verkefninu er aldrei lokið.

Verkefnið snerist aldrei eingöngu um að koma grunnatvinnuvegunum á réttan kjöl. Við þurfum að byggja áfram upp og eigum að leggja sérstaka áherslu á að fjölga stoðum atvinnulífsins. Það er brýn forsenda aukins stöðugleika og um leið velferðar í landinu.

Grunnatvinnuvegirnir eiga eftir sem áður mikil sóknarfæri ósótt hvort sem litið er til sjávarútvegs eða orkufreks iðnaðar. Við eigum að grípa þau tækifæri en samhliða að fá vöxt í tæknigeiranum og hátæknifyrirtækjum.

Kosturinn við þau fyrirtæki, eins og oft er bent á , er meðal annars sá að við erum ekki háð sömu náttúrulegu takmörkunum varðandi vöxt inn í framtíðina. Að verulegu leyti byggjum við hinar grunnstoðirnar á auðlindum sem eru ekki ótakmarkaðar. Auðlindin sem við getum virkjað i þágu tækni- og hugverkageirans er annars eðlis. Þessi auðlind byggir á getu einstaklinga til skapa eitthvað nýtt, nota á sér höfuðið, þekkingu, menntun, lífsreynslu eða bara áhugamál til að búa til verðmæti – eitthvað sem bætir líf annars fólks. Nýsköpun og tækniframfarir eru það sem hér um ræðir og hin nýja stoð í atvinnulífinu eru þekkingadrifnar greinar – alþjóðlegar, söluhæfar vörur og þjónusta sem við getum flutt út. Ég þykist vita að allir hér inni séu mér sammála en við þurfum að fá fleiri Íslendinga til að taka þátt í þessari áherslubreytingu sem þarf að verða hjá okkur. Það hafa náðst mikilvægir áfangur, við höfum mörg dæmi um að vel hafi tekist til á þessum sviðum og mörg dæmi um glæsileg fyrirtæki sem hafa rutt brautina og fært okkur sjálfstraust og um leið kraft til að halda áfram og við viljum sjá fleiri fyrirtæki skjóta rótum og dafna.

Sprotar eru viðkvæmir. Í samskiptum stjórnvalda við þetta þing og þá sem fara fyrir umræðu um þessi mál hefur maður einkum fundið fyrir þörfinni við stuðning við fyrirtækin á fyrstu skrefum þeirra. Þessir sprotar sem við viljum sjá dafna - við sættum okkur við að þeir muni ekki allir skjóta rótum, vaxa og blómstra en við eigum að gera allt sem við getum til þess að flestir þeirra eigi langlífi.

Þar er þetta spurning um að skapa réttu skilyrðin og ég ætla að koma inn á nokkur atriði sem ég tel að við getum á næstu misserum og mánuðum sett í framkvæmd til þess að gera betur á þessu sviði.

Fyrst nefni ég að árið 2014 var ákveðið að auka framlög í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð um 2,8 milljarða króna. Þessi aukning er liður í því að fjármagn sem varið er til vísinda og nýsköpunar nái alls 3% af VLF árið 2016. Í fjárlögum fyrir árið 2015 voru framlög í sjóðina aukin um 800 milljónir króna og í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 voru framlög aukin um 2 milljarða króna.

Ég tel tímabært að við hugum strax að því hvernig við getum gengið enn lengra, sett okkur enn metnaðarfyllri markmið og gert þau að hluta að heildstæðri áætlun um frekari stuðning við fyrirtæki á þessu sviði. Þetta er veruleg aukning í fjármunum en markar líka tímamót sem skilaboð um það að menn eru ekki bara hér að halda þing og með orðin tóm um hvað er mikilvægt að gera betur í framtíðinni. Strax á næsta ári sjáum við verulega mikla breytingu.

Oft er minnst á að skattaumhverfið valdi vanda þegar kemur að rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja. Það er alveg rétt að á sumum sviðum er skattkerfið hér þannig að það stenst ekki fyllilega samanburð við þau lönd þar sem best er gert við þennan geira. En margt er ágætt og við erum að fínstilla ýmis atriði. Það er einkum á þessu sviði sem ég ætla að koma inn á aðgerðir sem ég tel raunhæft að við grípum til á næstunni.

Nefnt hefur verið að í fjármálakerfinu felist ekki nægir hvatar til að fjárfesta í fyrirtækjum sem starfa í þessum iðnaði. Þá hafa aðrir veikleikar verið dregnir fram er snúa að takmörkuðu aðgengi að sérfræðiþekkingu og erlendum tengslum.

Ég hef á mínum tíma í fjármálaráðuneytinu skoðað þessi mál frá ýmsum hliðum. Við höfum verið með nokkur verkefni í gangi sem er tímabært að fara aðeins nánar yfir hér og nú.

Það fyrsta varðar erlenda sérfræðinga.

Það er einn liður í því að skapa gott umhverfi fyrir þennan geira að geta laðað til landsins erlenda sérfræðinga. Við erum ekki mjög fjölmennt land en við eigum samt sem áður vel menntað fólk. Til þess að bæta stöðuna frekar þurfum við að laga umhverfi fyrir erlenda sérfræðinga, en víða annars staðar gilda sérstakar „expat reglur“ um þessi mál. Ég tel að við getum gert breytingar hér sem gera það auðveldara bæði fyrir fólk að koma til landsins m.t.t. allra þátta löggjafarinnar. Eins þurfum við skoða skattalegu hvatana sem mörg lönd eru að keppa við okkur um í þessu sambandi.

Það er gríðarlega mikilvægt ef við viljum ekki tapa spennandi fyrirtækjum og frumkvöðlum úr landi, að þessi gátt inn til landsins sé opin, að við séum ekki með of flókið regluverk fyrir sérfræðinga sem fyrirtæki geta laðað til sín. Það snýr m.a. að regluverki vegna innflytjenda, þá vísa ég bæði til EES- reglna og ekki síður og kannski fyrst og fremst til þeirra landa sem eru ekki innan þess svæðis.

Við erum líka að skoða þetta út frá skattalegum forsendum. Ég stefni að því í vetur að leggja fram frumvörp sem tengjast okkar málefnasviðum til þess að bæta skattalegar forsendur fyrirtækja að þessu leytinu til.

Við finnum fyrir því að þetta er mál sem teygir sig yfir marga málaflokka. Ég er nefni hér skattalega hlutann og er búinn að minnast á það sem snýr að innanríkisráðuneytinu er varðar innflutningslöggjöfina. En þetta teygir sig líka yfir í menntamálin. Erlendir sérfræðingar horfa ekki eingöngu til vinnuumhverfsins heldur þátta sem skipta alla fjölskylduna máli. Það þýðir að við þurfum að hafa menntastofnanir sem geta tekið á móti börnum fólks sem er að koma hingað til starfa í geiranum. Í menntakerfinu þurfum við að gera betur til að fólk sjái það sem raunhæfan kost að koma hingað með alla fjölskylduna.

Annað atriði sem ég vil nefna varðar skattlagningu kaupréttar og umbreytanlegra skuldabréfa.

Frumkvöðlahugmyndir eru gjarnan fjármagnaðar á fyrstu metrunum í gegnum útgáfu á hlutafé sem leiðir óhjákvæmilega til þeirrar erfiðu stöðu að þurfa að verðleggja hugmyndina áður en varan eða tekjuflæði liggur fyrir. Það kemur því alltof oft fyrir á Íslandi að fjármögnun brotlendir strax í upphafi því frumkvöðlar og fjárfestar geta ekki komið sér saman um verðlagningu.

Mun algengara form sem vex sífellt í vinsældum er útgáfa umbreytanlegra skuldabréfa. Þá þurfa fjárfestarnir í raun aðeins að ákveða hvort þeim lítist vel á hugmyndina og mannskapinn á bak við hana og hvaða vaxtakjör og umbreytitímasetning eigi við.

Þetta er lítið notað á Íslandi og ástæðan er líklega skattalegs eðlis, enda eru umbreytanleg skuldabréf skattlögð við nýtingu breytiréttar. Ef skuldabréfið ber 20% afslátt við umbreytingu þannig að milljón króna lán breytist í 1200 þúsund krónu hlutafé þá eru 200 þúsund krónurnar skattlagðar við umbreytingu sem hagnaður. Þetta getur leitt til þess að fjárfestar þurfi að taka lán til að geta nýtt breytiréttinn svo þeir geti mætt skattbyrði.

Þetta þarf að lagfæra og mun ég beita mér fyrir því. Sama gildir í raun um kauprétti.

Umræðan á Íslandi um kauprétti hefur eiginlega fyrst og fremst snúst um svokallaða bankabónusa í fjármálakerfinu. Það er í raun allt annað mál en það sem hér um ræðir – og við eigum að geta rætt þessi atriði án þess að henda okkur beint í skotgrafahernað.

Kaupréttir geta nefnilega verið mikilvægt fjármögnunartól fyrir unga frumkvöðla sem vilja laða til sín hæfileikaríkt fólk, t.d. forritara, til að vinna að því að koma sprotafyrirtæki sínu á laggirnar. Frumkvöðlarnir sem eiga ekki fjármagn geta þá greitt forriturunum með kaupréttum og að sama skapi bundið hagsmuni forritarana betur við verkefnið.

Í núverandi skattaumhverfi eru kaupréttir skattlagðir sem tekjur. Telst mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur því til skattskyldra tekna.

Á þeim tímapunkti hefur ekki myndast neinn raunverulegur hagnaður fyrir starfsmanninn þar sem mögulegur hagnaður myndast ekki fyrr en bréfin verða seld. Í þessu fyrirkomulagi getur verið erfitt fyrir einstaklinginn að þiggja kauprétt ef hann hefur ekki burði til að standa undir skattbyrðinni.

Í þriðja lagi vil ég nefna skattaívilnanir vegna hlutabréfakaupa í sprotafyrirtækjum.

Ég hef skoðað mögulegar útfærslur á beitingu slíkra ívilnana, sérstaklega hvernig hægt sé að koma í framkvæmd skattaívilnunum til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti en í okkar vinnu komu fram hugmyndir að tilteknum skilyrðum, sem slík fjárfesting þarf að uppfylla, sem snúa að fjárfestingunni sjálfri, formi félagsins sem fjárfest er í og svo skilyrðum sem einstaklingurinn sjálfur þarf að uppfylla til að fá afsláttinn.

Ég hef lagt á það áherslu í ráðuneytinu að unnið verið að gerð frumvarps á grunni vinnu starfshóps um þessi mál og það er á áætlun mín að leggja það fyrir þingið á þessum vetri.

Ég tel þó mikilvægt að við nýtum okkur þann ramma sem leyfilegur er innan þessara reglna og séum samkeppnishæf við nágrannaríki okkar.

Síðasta atriði sem ég vil draga fram snýr að endurgreiðslum vegna rannsóknar og þróunar.

Fyrir rúmu ári lagði ég fram frumvarp á Alþingi sem framlengir til næstu fimm ára þann stuðning sem felst í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Í daglegu er sá stuðningur kallaður endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði til nýsköpunarfyrirtækja.

Í umræðu um þetta stuðningskerfi hefur verið bent á að nauðsynlegt sé að hækka þau viðmið eða þök sem gilda samkvæmt lögunum. Ég get tekið undir það að í ljósi þess árangurs sem rakinn er til þessa kerfis þá sé full ástæða til að stefna að því að hækka þau viðmið sem hér gilda. Það er hægt að gera slíkt í áföngum og við þurfum að skoða hvernig við nýtum best það svigrúm sem er til staðar á þessu sviði.

Okkur eru einhver takmörk sett vegna EES-reglna en við eigum að láta þann góða árangur sem fengist hefur fram til þessa verða okkur hvatningu til þess að halda áfram.

Ég tek eftir því að það er mjög misjafnt frá einum manni til annars hvaða leiðir menn velja í þessu. Þetta er ein útfærsla og við skulum ekki ganga út frá því að við höfum dottið niður á einu og langbestu lausnina. Ég nefni hér á eftir dæmi um það að við erum kannski ekki búin að finna upp síðustu bestu lausnina á þessu sviði heldur erum við í stanslausri samkeppni við önnur lönd.

Ég ætla að ljúka mínu máli á því að segja að ég tel á Ísland sé þegar í dag á margan hátt eftirsóknarverður staður til þess að byggja upp tækni- og hugbúnaðargeirafyrirtæki. Við höfum dæmin. Við höfum líka dæmi þar sem við höfum tapað störfum og misst fyrirtæki úr landi. Við þurfum að draga lærdóm af því sem vel hefur tekist, fyrirbyggja að við missum önnur og vera sífellt vakandi, en það er ýmislegt í íslenska umhverfinu sem við skulum alltaf vera meðvituð um að færir okkur ákveðna styrkleika og kannski forskot á aðra. Við þurfum sameignilega að halda þeim á lofti til þess að draga fjárfesta að utan inn í þennan geira. Hér er til dæmis tiltölulega einfalt að stofna fyrirtæki og hefja rekstur, hér eru sterkir samfélagslegir innviðir, það eru tiltölulega stuttar boðleiðir, við erum hérna tveir ráðherrar til dæmis inni í þessum litla fundarsal. Og hér er líka aðgengi að þróuðum markaði til að láta reyna á ýmsar hugmyndir. Við erum tilbúin til þess að hlusta og við erum að sýna það í verki að við erum meðvituð um hvert stefnir.

Á síðustu öld sáum við hvaða stakkaskiptum Ísland tók með því að fjölga stoðum undir efnahagslífið. Ísland fór úr því að vera eitt fátæktasta landið í Evrópu og byggja alla afkomu á fiskveiðum yfir í að nýta orku og loks byggja á ferðaþjónustu, sem nú er orðin þriðja stóra stoð efnahagslífsins. Velmegunin sem af þessu hefur leitt er sönnun þess að við eigum að halda áfram á þessari braut og fjölga þessum stoðunum.

Ég nefni samkeppni og dæmi sem ég rakst á nýlega. Írar voru að breyta skattalöggjöfinni hjá sér. Þeir segja að þeir séu með eitt besta skattaumhverfi fyrirtækja í Evrópu. 12,5% skattur er þar á fyrirtæki. Jafnvel þótt Írar séu með þetta lágan tekjuskatt á fyrirtæki sáu þeir ástæðu til þess að gera betur og eru að breyta lögunum hjá sér þannig að þeir ætla að helminga tekjuskatt á fyrirtæki sem vinna í tækniþróunar- og nýsköpunargeiranum og greiða þau þá 6,25% tekjuskatt. Þetta er það sem við erum að keppa við og þetta verður að vera hluti af umræðunni. Við erum í raunverulegri samkeppni, ekki aðeins á skattasviðinu og öllu sem viðvíkur þessu breiða sviði, svo sem menntakerfinu, innflutningsreglum og tekjuskatti einstaklinga.

Ísland á að skoða til þrautar hvernig hægt er að mæta samkeppni af þessum toga og fjölga störfum í þessum geira. Það kæmi til álita að vera með sérstakt skattþrep þar, okkar leið gæti verið 5% og 15%.

Verkefnið framundan er að taka á veikleikum og grípa tækifærin sem eru til staðar, stappa stálinu hvert í annað, halda á lofti styrkleikum okkar og keyra á fullri ferð á það að efla þennan geira þannig að allt efnahagslíf og velmegun almennt á Íslandi njóti góðs af.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum