Hoppa yfir valmynd
31. desember 2017 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp forsætisráðherra 2017

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra - mynd
Góðir Íslendingar,

Margir binda miklar væntingar við þetta síðasta kvöld ársins og vonast jafnvel til að þær óskir sem enn standa óuppfylltar í lok árs rætist. Miklar væntingar leiða þó sjaldnast til mikillar ánægju þannig að stundum verður gamlárskvöld kvöld vonbrigða þar sem tryllingurinn fær útrás og þá skal gengið eða jafnvel stokkið hratt um gleðinnar dyr. Það getur verið mikilvægt að fá útrás þó að orðið sjálft hljómi ekki lengur neitt sérlega vel í hugum okkar Íslendinga – hver veit nema að það verði breytt eftir nokkra áratugi. Mín reynsla er sú að með fjölgandi árum og minnkandi væntingum hafi gamlárskvöldið farið að verða skemmtilegra enda veitir það færi til að líta um öxl og horfa fram á veg, þakka fyrir hið góða og setja sér markmið um það sem gera má betur.
Þetta kvöld, gamlárskvöld 2017, er fyrirtaks tækifæri til þess. Við kveðjum viðburðaríkt ár og höldum inn í árið 2018 þar sem við munum fagna merkum viðburði í sögu íslensku þjóðarinnar, hundrað ára afmæli fullveldis Íslands. Fyrsti desember 1918 virðist mörgum okkar langt í burtu en samt eru nú á lífi hartnær 80 Íslendingar sem voru fæddir 1918. Eins gætu börn sem fæddust þessi jól skemmt sér við árið 2118 að hlusta á eftirmann minn – en aðeins auðvitað ef mannkynið heldur vel á sínum málum.
Árið 1918 var íslenskt samfélag talsvert fátækara og fábrotnara en nú, sumir Íslendingar geymdu þá enn allar veraldlegar eigur sínar í einum kistli, og ekki bætti úr skák að 1. desember 1918 hafði þjóðin orðið fyrir ýmsum áföllum: veturinn 1918 hefur sem kunnugt er verið kallaður frostaveturinn mikli, ógnvaldurinn Katla gaus í október, spænska veikin alræmda geisaði í nóvember og um 500 létust af henni og nýtt kuldakast skall síðan á í lok nóvember.
Hátíðahöldin á fullveldisdaginn 1918 voru því að vonum afar hófstillt. Forsætisráðherra Jón Magnússon var ennþá í Danmörku til að skrifa undir ný sambandslög ásamt kónginum og gat því ekki samfagnað með Reykvíkingum við stjórnarráðið. Sigurður Eggerz ráðherra flutti ræðu í hans stað og íslenski fáninn var dreginn að hún í fyrsta sinn — sá fáni sem við sem nú lifum lærum snemma að bera kennsl á, með eldinum, ísnum og fjallablámanum sameinuðum. Þegar þriðji ráðherrann, Sigurður Jónsson frá Ystafelli, hrópaði „Lengi lifi hið íslenzka ríki“ segir í blaðinu Ísafold að „húrrahrópsþörfin“ hafi orðið svo mikil hjá þeim sem voru mættir að fagna að húrrahrópin ætluðu engan enda að taka. Sá blaðamaður Ísafoldar þá ástæðu til að áminna þjóðina um að venjan hefði helgað ferfalt húrra sem íslenskt húrra og aðeins ferfalt húrrahróp ætti því við þegar minnst væri hins íslenska ríkis.
Árið 1918 tóku sambandslögin gildi og Ísland varð fullvalda ríki, eitt hið minnsta í heiminum þó að síðan þá hafi raunar talsvert fjölgað sjálfstæðum ríkjum í Sameinuðu þjóðunum sem eru fámennari en Ísland – þau munu nú í árslok 2017 vera 53. Í kjölfarið fluttist hæstiréttur til Íslands árið 1920 og aldarfjórðungi síðar gengu Íslendingar skrefinu lengra eins og þeir höfðu fullan rétt á samkvæmt sambandslagasamningnum og stofnuðu lýðveldið Ísland.
Hinar erfiðu aðstæður haustið 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki minna okkur á að miklu má áorka þó að ytri aðstæður séu ekki endilega hagfelldar. Saga fullveldisins einkennist af stórhug sem einkennt hefur þessa fámennu þjóð alla 20. og 21. öldina, með stofnun Háskóla Íslands, byggingu Landspítalans, uppbyggingu menningarstofnana en ekki síður með baráttu fjöldahreyfinga á borð við verkalýðshreyfinguna og kvennahreyfinguna sem hafa skilað sigrum sem hafa gerbreytt samfélagi okkar. Almannatryggingar, fæðingarorlof og fleiri slíkir sigrar hafa breytt samfélagi okkar til góðs. Metnaður, barátta og samstaða þegar á þurfti; allt hefur þetta einkennt sögu fullveldisins og skilað okkur því samfélagi sem við búum nú í og gjörólíkt íslensku samfélagi ársins 1918, svo stórfelldar hafa breytingarnar orðið á skömmum tíma. Af þessum ástæðum og fleirum er rík ástæða til að minnast fullveldisins á árinu sem senn rennur í garð.
Það getur reynst erfitt að sjá fram í tímann og gamlar framtíðarsögur þar sem faxtæki og svifbretti eru helstu tækniframfarirnar verða auðveldlega spaugilegar nokkrum áratugum síðar þegar. Það hefur ekki gengið eftir að allir fari á einkaflugvél í vinnuna þó að sannarlega hafi aldrei verið meira flogið til og frá Íslandi og ekki eru allir klæddir kafarabúningum sem eru algeng tíska í framtíðarbókmenntum. Þegar kafað er dýpra í sögur um framtíðina reynast þær iðulega vera sögur um nútímann eða jafnvel fortíðina þó að auðvitað megi stundum sjá óhugnanlega framsýni eins og þegar íslenskur verkfræðingur lýsti snjallsímum nútímans býsna nákvæmlega í viðtali við tímaritið Samvinnuna fyrir tæpum 50 árum.
En að því gefnu að framtíðarspár mannsins gefa oftast betri mynd af nútíðinni en framtíðinni þá er samt freistandi verkefni fyrir stjórnvöld og stjórnmálafólk að reyna að móta langtímasýn þannig að við getum hagað störfum okkar þannig að við búum sem best í haginn fyrir komandi kynslóðir og tekist á við stóru verkefnin sem eru framundan fremur en að týna sér í dægurþrasi.
Eitt af því sem blasir við er hið gríðarlega mikilvægt verkefni að sjá til þess að allir fái notið velmegunar á Íslandi. Vaxandi ójöfnuður í heiminum er af ýmsum alþjóðastofnunum metinn ógn við hagsæld en líka ógn við frið og lýðræði. Þó að jöfnuður á Íslandi hafi mælst hlutfallslega mikill í alþjóðlegum samanburði er full ástæða til að gera betur.
Í þessu ljósi verður að meta ákallið og umræðuna um að byggja upp innviði samfélagsins. Uppbygging menntakerfisins er ekki aðeins mikilvæg til þess að að hér verði til hagsæld grundvölluð á hugviti en ekki aðeins nálægð við náttúruauðlindir heldur er þar líka meginatriði að tryggja öllum tækifæri til að sækja sér menntun. Eins skiptir ekki aðeins máli að í heilbrigðiskerfinu sé til sem mest fagþekking heldur er ekki síður mikilvægt að tryggja að óhóflegur kostnaður hindri engan í að sækja sér heilbrigðisþjónustu.
Þegar glímt er við ójöfnuð er mikilvægt að líta til þess hvar ójöfnuðurinn er mestur en á Íslandi er það í eignatekjum. Þess vegna er hækkun fjármagnstekjuskatts sem samþykkt var nú fyrir áramót leið til að gera skattbyrðina réttlátari og auka jöfnuð. Þá skiptir máli að taka á skattsvikum og skattaundanskotum og tryggja þannig að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Endurskoða þarf samspil bóta- og skattkerfa og tryggja að barnabætur og húsnæðisstuðningur nýtist til að jafna kjörin. Allt skiptir þetta máli til að tryggja félagslegan stöðugleika og jöfnuð sem um leið er undirstaða þess að tryggja sátt í samfélaginu og á vinnumarkaði.
Ekki má heldur gleyma því að jafnrétti kynjanna er undirstaða fyrir raunverulegum jöfnuði. Þó að mikið hafi áunnist þá hefur nýliðið ár svo sannarlega verið okkur öllum áminning um það ofbeldi sem konur hafa verið beittar og eru enn beittar víða í íslensku samfélagi. Á þessu þarf að verða varanleg breyting og sú breyting er eitt stærsta samfélagslega verkefnið sem framundan er. Það er fyrsta skrefið að vekja athygli á ofbeldinu en síðan verður að spyrja: Og hvað svo?

Góðir landsmenn

Stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins um þessar mundir eru loftslagsbreytingar sem munu öllu skipta um hvernig framtíð mannkynsins verður næstu áratugi og aldir. Þetta er verkefni af því tagi að þar má ekki hugsa í þjóðum eða í átökum samfélagshópa heldur verður þar að koma til sameiginlegt átak alls mannkyns sem berst fyrir eigin tilvist. Mannkynið hefur varla staðið andspænis viðlíka verkefni og það krefst nýrra lausna þar sem þjóðríkið getur ekki verið í öndvegi heldur samhugur okkar þvert á landamæri.
Ísland er ekki stórveldi en við viljum taka þátt í þessu átaki og í því ljósi verður að skilja hið metnaðarfulla markmið um að Ísland verði kolefnishlutlaust samfélag ekki seinna en 2040. Hér er á ferð gríðarmikið verkefni og markmiðið næst ekki nema með samstilltu átaki allra í samfélaginu; stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, verkalýðshreyfingar, háskólasamfélags og almennings í landinu um annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem mun kalla á verulegar samfélagsbreytingar og hins vegar að auka kolefnisbindingu með breyttri landnotkun. Í þessu verkefni geta líka falist tækifæri en verkefnið sjálft verður ekki umflúið; loftslagsbreytingar eru stærsta ógn heimsbyggðarinnar og þar þurfum við öll að leggja okkar af mörkum; stór og smá. Það eru hin smáu eyríki á Kyrrahafi sem voru hvað sterkustu raddirnar þegar samkomulag náðist í París 2015 og við Íslendingar getum og verðum að leggja okkar af mörkum í þessu verkefni enda eru breytingarnar fyrir framan augun á okkur í hopandi jöklum og súrnandi sjó.

Framundan eru miklar tæknibreytingar sem eru stundum kallaðar fjórða iðnbyltingin. Gagnvart þessari byltingu dugar ekkert minna en þverpólitísk framtíðarsýn um það hvernig á að takast á við sívaxandi sjálfvirkni sem mun breyta öllu umhverfi okkar. Vinnumarkaðurinn mun breytast og fleiri störf verða færð í hendur véla; samfélagið mun breytast eins og það hefur raunar þegar gert. Æ fleiri eyða meiri og meiri tíma á samskiptamiðlum í eigu einkaaðila sem ráða yfir ótrúlegu magni upplýsinga um einkalíf fólks um heim allan. Þar vakna krefjandi spurningar, til dæmis um réttindi manna eftir því sem vélarnar ráða meiru og hvað um öll þau störf sem við sinnum en verður kannski sinnt af vélum. Þarna þurfum við að standa vaktina fyrir mennskuna, fyrir fólkið, og tryggja að tæknin verði okkur til góðs, að hún nýtist til að stytta vinnuvikuna og bæta lífsgæði um leið og öllum verður tryggð mannsæmandi framfærsla. Það er hægt en allt það sem við gerum nú um mundir getur skipt máli til að tryggja að þessi framtíð verði björt.

Núna á landinu eru börn sem gætu vel lifað á 22. öldinni. Það er okkar verkefni, okkar Íslendinga, að vinna að öllum þessum markmiðum og búa þeim friðsamlegt, gott og sjálfbært samfélag.

Þennan dag fyrir nákvæmlega tíu árum var ég stödd á fæðingardeildinni. Það var líklega hamingjuríkasta gamlárskvöld lífs míns þó að það væri sannarlega ekki áreynsluminnsti dagur sem ég hef lifað. Enda megum við aldrei gleyma því hvað það er sem skiptir mestu máli; ástin og lífið og þeir sem standa okkur næst. Þökkum fyrir það þetta gamlárskvöld og hugsum vel um okkar nánustu, vini og vandamenn, á nýju ári.
Kæru Íslendingar til sjávar og sveita, í borgum og bæjum, takk fyrir árið 2017 og ég óska ykkur gæfu og gengis á árinu 2018.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira