Hoppa yfir valmynd
30. mars 2023 Forsætisráðuneytið

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands - 30. mars 2023

Formaður bankaráðs, Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar, starfsmenn Seðlabanka Íslands, góðir gestir.

Hér í upphafi langar mig að minnast Jóhannesar Nordal fyrsta bankastjóra Seðlabanka Íslands en hann stýrði bankanum í tæpa þrjá áratugi, frá stofnun hans árið 1961 fram til ársins 1993. Jóhannes er án efa einn af áhrifamestu mönnum í íslensku efnahagslífi á síðustu öld. Hann var efnahagsráðgjafi stjórnvalda og síðar mikilsvirtur í störfum sínum á vettvangi Seðlabankans og hafði þannig markverð áhrif á gang efnahagsmála hér á landi. Hann gegndi fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum, var m.a. stjórnarformaður  Landsvirkjunar og tók virkan þátt í uppbyggingu og vexti fyrirtækisins. Ég átti því láni að fagna að eiga nokkra fundi með Jóhannesi og hann var einstaklega hlýlegur maður sem hafði frá miklu að segja og naut þess að fylgjast með samfélagsmálum og umræðu.

Ég votta eftirlifandi börnum og barnabörnum og fjölskyldu mína dýpstu samúð.

Það er ekki laust við að maður hugsi til Jóhannesar þegar við horfum yfir áskoranir á sviði efnahagsmála nú og undanfarin misseri. Heimsfaraldur var meiriháttar álagspróf fyrir samfélagið allt og ég leyfi mér að segja að við öll höfum staðist það próf. Afkoma almennings og atvinnulífs var tryggð og innviðir efldir þannig að efnahagsbatinn var hraður og staðan á vinnumarkaði batnaði fljótt eftir að faraldrinum sleppti. Öflugar varnir skiluðu kröftugri viðspyrnu.

En eitt tók við af öðru þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og stríð hófst í Evrópu. Aukin óvissa á alþjóðasviðinu með hækkandi orku- og hrávöruverði olli hærri verðbólgu en sést hefur um árabil bæði austanhafs og vestan með tilheyrandi vaxtahækkunum og áhrifum á lífskjör almennings og rekstrarskilyrði fyrirtækja. Nýjar áskoranir í ríkisfjármálum og stjórn peningamála hafa tekið við. Við þetta bætast stórar áskoranir á heimsvísu hvort sem það er loftslagsváin, hraðar tæknibreytingar eða aukinn fjöldi fólks á flótta. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að hafa skýra sýn á stjórn efnahagsmála og traustan sjálfstæðan Seðlabanka sem hefur yfir að ráða nauðsynlegum stjórntækjum til að rækja hlutverk sitt.

Sameining SÍ og fjármálaeftirlitsins

Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum árum farið í gegnum miklar breytingar. Með sameiningu bankans og  Fjármálaeftirlitsins varð til ný, öflug stofnun. Eitt helsta markmið sameiningarinnar var að efla eftirlitsþáttinn í starfseminni og tryggja betri heildaryfirsýn yfir fjármálakerfið.

Heilt yfir hefur verkefnið gengið vel og við höfum nú skýrslur tveggja óháðra úttektarnefnda sem staðfesta að svo sé.

Sú fyrri, sem kom út í nóvember 2021 var ætlað að meta reynsluna af nýju nefndaskipulagi bankans. Mat skýrsluhöfunda er að rösklega hafi verið gengið til verks við sameininguna stofnananna og það með góðum árangri. Nefndarstörf bankans njóti samlegðarinnar og meiri samvinna sé nú á milli sviða bankans. Mikið hafi áunnist í upplýsingatæknimálum og gagnaúrvinnslu og enn frekari uppbygging sé í vændum.

Síðari skýrslan, sem kom út í lok janúar á þessu ári, var unnin af úttektarnefnd sem skipuð var á grundvelli 36.gr. laga um Seðlabankann og var ætlað að meta hvernig bankanum hefði tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits. Jafnframt var nefndinni falið að líta til annarra þátta í starfsemi bankans, svo sem skipulags, verkaskiptingar og valdsviðs. Í nefndinni sátu valinkunnir sérfræðingar á sviði efnahagsmála, alþjóðlegrar fjármálastarfsemi og rekstrar Seðlabanka, þau Patrick Honohan fyrrverandi bankastjóri Írlands, Joanne Kellermann fyrrverandi stjórnarmaður í hollenska Seðlabankanum og Pentti Hakkarainen fyrrum varaseðlabankastjóri Finnlandsbanka og formaður stjórnar finnska fjármálaeftirlitsins.

Í hnotskurn er það niðurstaða úttektarnefndarinnar að Seðlabanki Íslands hafi tekist á við sameininguna með skjótum og skilvirkum hætti. Það sé vissulega langtímaverkefni að koma á fót samhæfðri stofnun með fullkomlega skilvirkum verkferlum, yfirsýn og sameiginlegri stofnanamenningu – en jafnframt að starfsfólk hinnar sameinuðu stofnunar hafi rækt skyldur sínar eins og til er ætlast.

Seðlabankinn hafi brugðist við vaxandi verðbólgu með skýrum hætti og þjóðhagsvarúðartækjum hafi verið beitt til þess að varðveita fjármálastöðugleika og eftirlit hafi verið framkvæmt eftir reyndum ferlum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að sameiningin var rétt skref og ný stofnun hefur aukinn slagkraft til að takast á við þær áskoranir sem við blasa hverju sinni í efnahagslífinu og fjármálakerfinu.

Það er því full ástæða til að hrósa starfsfólki bankans fyrir góð störf í þágu hans í þessum umfangsmiklu verkefnum  og  ánægjulegt að fá slíka umsögn frá alþjóðlegum sérfræðingum á þessu sviði.

Báðar skýrslurnar benda hins vegar á ýmis úrbótatækifæri sem varða bæði ytri umgjörð , og ekki síður er varða innra skipulag hans og starf.

Hvað varðar þann þátt sem snýr að þeirri lagalegu umgjörð sem Alþingi markar bankanum má segja að báðar skýrslurnar hvetji til þess að gerðar verði breytingar á skipulagi og starfsemi fjármálaeftirlitsnefndar. Nokkrar sviðsmyndir eru settar fram í þeim efnum.

Meginskilaboð beggja nefnda eru þau að skýra þurfi betur hlutverk og valdsvið fjármálaeftirlitsnefndar og koma þannig í veg fyrir óskýrleika og mögulega réttaróvissu. Tvær leiðir séu færar. Önnur felur í sér að umboð og verkefni nefndarinnar yrði aukið með því að veita henni víðtækt hlutverk í mikilvægum áætlunum og stefnumálum. Hin leiðin er að þrengja umboð nefndarinnar frekar en nú er.

Eins og kunnugt er liggur nú fyrir Alþingi frumvarp sem ég mælti fyrir til að bregðast við ábendingum fyrri úttektarskýrslunnar – en þar var niðurstaðan mjög skýr í þá veru, að víðtækt starfssvið fjármálaeftirlitsnefndar væri óraunhæft. Í raun sé í núverandi kerfi brugðist við því með víðtæku framsali frá nefndinni til varaseðlabankastjóra sem fari með málefni fjármálaeftirlits. Það fyrirkomulag og hin lagskipta stjórnsýsla sem búin var til í kringum eftirlitsverkefni innan sömu stofnunar skapi flækjustig við ákvarðanatöku. Með því að afmarka nánar í lögum hvaða ákvarðanir nefndin skuli taka er stuðlað að auknum skýrleika í stjórnsýslu á sviði fjármálaeftirlits og er breytingunum ætlað að gera starf nefndarinnar markvissara og efla þar með eftirlitsstarfsemi Seðlabankans.

Það sem helst greinir á varðandi frumvarpið annars vegar og álit 36.gr. nefndarinnar  hins vegar snýr að aðkomu ytri nefndarmanna. Taldi nefndin að ef fjármálaeftirlitsnefnd fengi betur skilgreint, takmarkað umboð, væri óvíst að þörf væri fyrir utanaðkomandi nefndarmenn.

Þessu sjónarmiði er ég ekki sammála og  tel enn að aðkoma ytri nefndarmanna sé mikilvæg til að tryggja bæði valddreifingu og mótvægi við töku mikilvægra ákvarðana á sviði fjármálaeftirlits. Að auki tel ég þá sérfræðiþekkingu og yfirsýn sem ytri aðilar koma með að borðinu nýtast vel fyrir störf nefndarinnar.  Því hef ég lagt til við efnahags- og viðskiptanefnd að ekki verði gerð breyting á frumvarpinu hvað þetta atriði varðar en lagt er til í frumvarpinu að skipunartíma utanaðkomandi sérfræðinga í fjármálaeftirlitsnefnd verð breytt þannig að hann verði mislangur, frá þremur til fimm árum til að tryggja að allir utanaðkomandi sérfræðingar í nefndinni láti ekki af störfum á sama tíma og samfella verði í störfum og þekkingu innan nefndarinnar. Þá er í frumvarpinu lagt til að seðlabankastjóri verði formaður fjármálaeftirlitsnefndar en hann er formaður hinna tveggja fastanefnda bankans. Er tillagan í samræmi við það sem ég lagði til í því frumvarpi sem varð að lögum um Seðlabanka Íslands 2019 en úttektarnefndin benti á að þetta fyrirkomulagværi rökréttara þegar horft væri til hefðbundinna sjónarmiða um að ábyrgð fylgi ákvörðunum.

Og enn er von á úttekt alþjóðlegra sérfræðinga á þáttum er varða starfsemi Seðlabanka Íslands. Úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu þar sem lagt er mat á viðnámsþrótt þess er væntanleg á næstunni. Ekki er útilokað að hún kalli á frekari umbætur.

Hvað varðar aðrar ábendingar sem snú að innra skipulagi og starfi bankans vænti ég þess að stjórnendur bankans fari heildstætt yfir þær umbótatillögur sem fram hafa komið í þessum umfangsmiklu úttektum og leggi til leiðir til að mæta þeim. Bankinn hefur nú þegar hafið þessa vinnu og brugðist við ákveðnum þáttum og hef ég haft fregnir af því að frekari umbætur séu í undirbúningi.

Verðbólgan og efnahagsástandið

Efnahagsbatinn hefur verið hraður eftir faraldur, atvinnuástandið er gott, ferðaþjónustan hefur náð fyrri styrk og hagvöxtur er meiri en spár gerðu ráð fyrir, var raunar ríflega 6 prósent fyrra. Ummerki mikilla umsvifa í hagkerfinu má sjá hvarvetna. Heimilin standa heilt yfir vel eftir kaupmáttarvöxt síðustu ára þótt heldur hafi gefið eftir, skuldastaðan er góð bæði hjá heimilum og fyrirtækjum og vanskilatölur eru enn sögulega góðar. En verðbólgan er hins vegar meiri og þrálátari en vonir stóðu til og er nú orðið meginviðfangsefni hagstjórnar hér á landi eins og reyndar víðast annarsstaðar. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að við náum tökum á verðbólgunni – það er forsenda þess að við getum haldið áfram því verkefni að efla lífsgæði og velsæld fyrir okkur öll.

Það er sameiginlegt verkefni að vinna að því að ná böndum á verðbólgunni. Seðlabankinn hefur þar veigamiklu hlutverki að gegna enda eitt hans meginhlutverk að tryggja verðstöðugleika.

Bankinn hefur beitt stýritækjum sínum markvisst í því skyni að stöðva þessa neikvæðu þróun til að auka peningalegt aðhald og ná niður verðbólgu. Þetta hefur verið nauðsynlegt en hefur eins og gefur að skilja mikil áhrif á afkomu margra heimila og efnahagslífið allt.

Þá hefur sú breyting, sem gerð var á lögum á síðasta kjörtímabili til að tryggja bankanum fleiri stýritæki til þess að koma böndum á húsnæðismarkaðinn, reynst mikilvæg við núverandi aðstæður og hefur bankinn beitt reglum um veðsetningar- og greiðslubyrðahlutfall í þeim efnum. En við vitum mæta vel að enginn er eyland og að farsæl stjórn efnahagsmála krefst alltaf samspils hinna þriggja stoða peningamálastjórnar, ríkisfjármála og vinnumarkaðar.

Vinnumarkaðurinn

Það er því sérstakt fagnaðarefni að lokið hafi verið við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og í morgun fengum við góðar fréttir af samningum aðildarfélaga BSRB og BHM og ég geri mér því góðar vonir um að samningum verði lokið við öll félög á opinbera markaðnum innan tíðar. Þó einungis hafi verið samið til skamms tíma dregur það úr óvissu nú um stundir og skapar svigrúm til þess að tryggja þær forsendur sem þarf til að vinna að langtímasamningum. Til að greiða fyrir gerð samninganna kynntu stjórnvöld stuðningsaðgerðir til að styðja við markmið þeirra um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum með lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar eru fjölbreyttar en miða einkum að því að styðja við lífskjör lág- og millitekjufólks með markvissum umbótum í húsnæðismálum, auknum húsnæðisstuðningi við eigendur og leigjendur og auknum stuðningi við barnafjölskyldur þar sem barnabætur voru hækkaðar og ná nú til 3000 fleiri fjölskyldna en áður.

Mikilvægt er að aðilar vinni náið saman á næstu mánuðum m.a. á vettvangi þjóðhagsráðs þar sem saman koma fulltrúar stjórnvalda, Seðlabankans og aðila vinnumarkaðarins, að samstilltum aðgerðum til að tryggja að nauðsynlegar forsendur fyrir langtímasamningi verði hér fyrir hendi þegar gengið verður að samningaborðinu að nýju undir lok árs.  

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Aðgerðir og skilaboð stjórnvalda gegna að sjálfsögðu lykilhlutverki við þessar aðstæður og hefur ríkisstjórnin tekið það hlutverk alvarlega og aðlagað áætlanir sínar og sett fram aðgerðir til að sporna gegn þenslu og styðja við aðgerðir Seðlabankans í þeim efnum. Mörgum þykir eflaust ekki nóg að gert en verkefnið er í mínum huga tvíþætt. Við þurfum annars vegar að beita ríkisfjármálunum til þess að draga úr þenslu með aðgerðum á tekju – og gjaldahlið en tryggja um leið ákveðið jafnvægi sem felst í því að við verjum mikilvæga grunnþjónustu og styðjum þá hópa sem hafa minnst bjargráð til þess að mæta áhrifum verðbólgunnar. Þess vegna gripum við þegar í fyrra til ákveðinna aðgerða til að verja kjör viðkvæmra hópa eins og örorkulífeyrisþega og leigjenda og í fjárlögum þessa árs var einnig dregið úr halla ríkissjóðs umfram fyrri áætlanir með öflun nýrra tekna, aðhaldi í rekstri og frestun framkvæmda.

Í nýrri fjármálaáætlun sem kynnt var í gær höldum við áfram á þessari braut og stígum enn fastar til jarðar. Það er einkar gleðilegt að nú er útlit fyrir að í ár náist sá mikilvægi áfangi að frumjöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður í fyrsta sinn síðan 2019. Skilaboð okkar eru skýr, við munum grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja stöðugleika og sporna gegn verðbólgu og frekari vaxtahækkunum. Þannig munum við áfram beita ráðstöfunum á tekjuhliðinni, sækja nýjar tekjur og draga úr skattaívilnunum en einnig að auka frekar aðhald og fresta framkvæmdum að sinni þar til hægist á umsvifum í hagkerfinu.

Innlend smágreiðslumiðlun

Eitt af þeim verkefnum sem ég hef fylgst með af miklum áhuga á síðustu árum er skoðun Seðlabankans á á leiðum til að tryggja innlenda óháða greiðslumiðlun en þjóðaröryggisráð hefur m.a. látið sig þetta mál varðað enda getur högun greiðslumiðlunar ógnað þjóðaröryggi í starfrænum alþjóðlegum heimi auk þess sem veruleg tækifæri eru til að draga úr kostnaði fyrir allan almenning. 

Samkvæmt ágætri skýrslu um málið sem Seðlabankinn gaf út fyrr á þessu ári er kostnaður samfélagsins af notkun greiðslukorta hátt í 50 milljarðar á hverju ári, sem gerir um 1,39% af vergri landsframleiðslu. Sambærilegt hlutfall í Noregi er um 0,8% sem segir okkur að hér er hægt að gera mun betur. Vissulega liggur eitthvert óhagræði í stærðarmun þessara tveggja landa, en það skýrir ekki allan þennan mun og almennt er greiðslumiðlun hér á landi bæði óhagkvæmari og ótryggari.

Ef bara er litið til greiðslukortakostnaðar verslunar og þjónustu þá er hann nálægt 10 milljörðum árlega – og við vitum hvar sá kostnaður lendir.

Smágreiðslumiðlun hér á landi einkennist því af mikilli greiðslukortanotkun þar sem treyst er á erlenda innviði alþjóðlegra kortasamsteypa. Hér er mikil áhætta, t.d. ef netsamband við útlönd rofnar eða eigendur viðkomandi kerfa loka á viðskipti við Ísland.

Ég tel því afar mikilvægt að lokið verði við það verkefni hið fyrsta að koma hér á fót innlendu greiðslumiðlunarkerfi sem bæði skapar ávinning fyrir neytendur og tryggir öryggi og viðnámsþrótt kerfisins.

Til að styðja við þetta verkefni hef ég skipað starfshóp með fulltrúum Seðlabankans, fjármála- og efnahagsráðherra og míns ráðuneytis, en verkefni hans verður að vinna tillögur að lagabreytingum til að koma á innlendri óháðri smágreiðslulausn. Vænti ég þess að tillögur hópsins liggi fyrir eigi síðar en í maí lok og því verði unnt leggja fram frumvarp á næsta löggjafarþingi sem tryggi farsæla innleiðingu á slíku kerfi eigi síðar en um næstu áramót.

Lokaorð

Ég vil að endingu þakka Gylfa Zoega, sem lét í  af störfum í peningastefnunefnd nú í febrúar, fyrir góð störf þeirra í þágu bankans en Ásgerður Pétursdóttir hefur tekið sæti í nefndinni í hans stað og eru konur nú í fyrsta sinn í meirihluta í Peningastefnunefnd.

Þá vil ég einnig nota tækifærið og þakka Unni Gunnarsdóttur kærlega fyrir hennar störf í þágu bæði Fjármálaeftirlitsins gamla og Seðlabankans frá ársbyrjun 2020, en hún lætur af störfum sem varaseðlabankastjóri þann 1. maí næstkomandi. Nú stendur yfir ferli við val á  nýjum varaseðlabankastjóra. Að lokum vil ég þakka, bankastjórn, stjórnendum og starfsmönnum bankans fyrir góð störf í þágu bankans á umliðnu ári og óska ykkur velfarnaðar í vandasömum störfum ykkar framundan.   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum