Hoppa yfir valmynd
31. desember 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótaávarp 2003

Áramótaávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í ríkissjónvarpi 31. desember 2003


Góðir Íslendingar.

"Hvað boðar nýárs blessuð sól?" spurði sr. Matthías forðum, og sama hugsun býr nú með okkur, hverju og einu.

"Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð."

Þannig svaraði skáldið sjálfu sér. Matthías þurfti enga spádómsgáfu til þess að gefa þetta svar. Þetta var ekki spá, heldur vissa. Sr. Matthías hafði, þegar þarna var komið, sigrað efann sem ásótti hann stundum forðum. Hann var kominn fyrir þann vind. Honum var borgið, í öruggri vissu þess að:

"Í hendi Guðs er hver ein tíð
í hendi Guðs er allt vort stríð
hið minnsta happ, hið mesta fár
hið milda djúp, hið litla tár

Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf."

Ofanverð 19. öldin, megin starfstími Matthíasar Jochumssonar var ekki uppgangstími á Íslandi. Öðru nær. Flest þau ár voru hallæris- og hörmungarár og fátt til bjargar. Drjúgur hluti þjóðarinnar, bláfátækt bjargarlítið manndómsfólk sá enga útleið aðra en að yfirgefa landið og leita allslaus á vit hins óþekkta á sléttum Norður-Ameríku. Það var mikil blóðtaka.

En við lok þessa tímabils fær þjóðin loks fyrsta stóra skammtinn af frelsinu - heimastjórnina, sem verður eitt hundrað ára eftir réttan mánuð. Fyrsti ráðherrann, Hannes Hafstein, kom vígreifur til starfa í gamla Landshöfðingjahúsinu við Bakarabrekku. Nú finnst okkur sjálfsagt, í ljóma sögunnar, að Hannes hafi verið sjálfkjörinn til þessa nýja embættis. En því fór fjarri. Ekki eru efni til þess hér að rekja þá sögu eða lýsa þeim sviptingum og tilviljunum sem lituðu atburðarásina. En hvað sem aðdragandanum líður, er nú lítt deilt um að einkar vel var fyrir öllu séð með vali á fyrsta ráðherranum. Mér hefur vissulega oft þótt of mikið gert úr hlut þeirra einstaklinga sem gegna um skeið háum stöðum, þegar vegferð þjóða er skoðuð. Sagan er aldrei spunnin úr einum vef og sjaldan fáum. En um einstök atvik og afmarkaða þætti atburðarásar geta öflugir menn og fylgnir sér þó einatt haft úrslitaáhrif. Ef horft er til þeirra 24 manna sem farið hafa með þjóðarforystu síðastliðin eitt hundrað ár, er væntanlega hafið yfir vafa, að þeir voru allir margvíslegum hæfileikum búnir og þess vegna hafi þeir valist til forystu. En ég held að á engan sé hallað, þótt fullyrt sé að það skipti mestu, að sá fyrsti í þeirra röð skyldi vera svo kostum búinn sem hann var - svo óvenjulega vel af Guði gerður. Ýmsum finnst sjálfsagt, að margt megi betur fara í okkar þjóðfélagi. Og ef við drægjum í eina mynd lungann af því sem segir í aðsendum greinum blaðanna frá degi til dags, þá mætti ætla að þetta land væri ein allsherjar ræfildóms ruslakista. Óþarft er auðvitað að láta þess háttar nöldur ná til sín, svo fráleitt sem það er. En þegar Hannes Hafstein horfði út um gluggann sinn í hinu nýja stjórnarráði vissi hann ekki aðeins, rétt einsog við nú, að margt var ógert. Við honum blasti, hvert sem litið varð um landið, að það var nánast allt ógert. Samt ljómaði hann í sál og sinni þennan febrúarmorgun árið 1904. Af hverju? Af því að hann skynjaði að loksins var fengin forsendan fyrir framförum í því landi, sem svo lengi hafði staðið í stað. Og hver var hún forsendan sú? Frelsið. Frelsið var aflgjafinn sem svo lengi hafði vantað. Daufar vonir höfðu vissulega blundað með þjóðinni og hún átt drauma og þrár, en frumkvæðisrétturinn og framkvæmdaskyldan hvíldu ekki á réttum herðum fyrr en með heimastjórninni. Eignir þjóðarinnar voru ekki miklar og aflið virtist ekki beysið en það dró ekki móð úr fyrsta ráðherranum sem vissi í hjarta sínu að nú voru vatnaskil. Þetta skynjaði gamli skáldmæringurinn fyrir norðan líka, þar sem hann sat í Sigurhæðum. Úr bréfum hans til Hannesar Hafsteins má lesa væntingar hans - jafnvel sigurvissu, nú þegar þau lögðust á eitt, forsjónin, frelsið og hinn stórhuga, skarpgreindi skáldbróðir hans, sem falið hafði verið að hlaupa fyrsta spottann í langhlaupi hennar úr örbirgð til betra lífs. Forskot annarra þjóða á Íslendinga mældist ekki í metrum, heldur í áratugum eða öldum, en það gilti einu, því nú var Ísland komið af stað og hljóp loks með kyndil sinn á eigin forsendum.

Hannes mat hvatningarbréf sr. Matthíasar mikils. Hann var ekki orðinn ráðherra Íslands er hann svarar einu bréfanna meðal annars með þessum orðum.

"Við þurfum trú á mátt og megin,
á manndóm, framtíð, starfsins guð,
þurfum að hleypa hratt á veginn,
hætta við óláns víl og suð,
þurfum að minnast margra nauða,
svo móður svelli drótt af því,
þurfum að gleyma gömlum dauða,
og glæsta framtíð seilast í."

Forystuhæfileikar Hannesar Hafsteins, óbilandi kjarkur hans og bjartsýni, sefjandi sigurvissa gagnvart hvers kyns erfiðleikum var orkugjafi þjóðarinnar í upphafi nýrrar aldar. En meira að segja slíkir eiginleikar hefðu dugað skammt ef viðspyrnan, sem frelsið gaf, hefði ekki fengist. Þess er okkur hollt að minnast á þessum tímamótum. Því baráttunni um frelsið er ekki lokið og lýkur aldrei, þótt hún hafi breyst. Og nú er vandinn við að varðveita það og efla flóknari en nokkru sinni fyrr. Því nú er ekki lengur við fjarlægan, óbilgjarnan, erlendan andstæðing að eiga sem sameinar þjóðina til átaka. Nú snýr baráttan inn á við. Nú er við okkur sjálf að eiga og það er snúnara. Við þurfum sjálf að gæta þess að sá aflvaki og þróttur sem í frelsi manna býr fái að njóta sín. En frelsið verður gagnslítið, ef það er aðeins fárra en ekki fjöldans. Ef við kunnum ekki með það að fara, misnotum það eða misbeitum, þá þrengir smám saman að því, uns svo er komið að það skiptir engu, hvort rót þess er nær eða fjær, í Kvosinni eða Kaupmannahöfn. Þá værum við komin aftur á byrjunarreit.

Góðir Íslendingar.

Með sama hætti og fyrir nær hundrað árum hefur aukið frelsi til framtaks og athafna blásið miklum krafti í allt þjóðlífið nú um alllangt skeið. Sem betur fer hefur almennur hagur manna styrkst á sama tíma, sem aldrei fyrr. Það er frumskilyrði þess að sæmileg sátt megi ríkja í þjóðfélaginu að út af þessari vegferð verði alls ekki brugðið. Sáttin sjálf er svo aftur forsenda þess að viðvarandi verðmætaaukning sé í landinu. Nú standa yfir mestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Þær fengust ekki fram án átaka og deilna. Við skulum segja sem betur fer. Það væri einkennilegur doði yfir þessari þjóð, ef slík stórvirki hefðu ekki kallað á heitar umræður, rök og gagnrök. Öruggt er að við hinar miklu framkvæmdir er farið eins varlega gagnvart landinu og náttúru þess og fært er, meðal annars vegna þess, hve umdeild framkvæmdin var.

Þeir sem töldu það hafa úrslitaþýðingu fyrir þjóðarhag að ráðast í verkið fengu sitt fram að lokum. En hinir, sem voru öndverðrar skoðunar, börðust ekki til einskis fyrir sínum málstað. Þessar deilur eru nú komnar á sinn stað í sögunni, og þær verða ekki endir allra deilna. Stór mál og smá munu hér eftir sem hingað til kalla á átök. Um það er ekki að fást. Hitt skiptir öllu að okkar fámennu þjóð tekst að leiða mál til lykta og leggjast svo saman á árarnar. Þess vegna hefur okkur miðað svo vel sem verkin sanna, og erum í fremstu röð þjóða á flesta almenna mælikvarða.

Góðir Íslendingar.

Við gleðjumst saman yfir því, að skuldir ríkisins fara nú ört minnkandi og þar með vaxtabyrði þess. Þess vegna getum við sameiginlega varið meira fé til eftirsóknarverðra hluta, svo sem menntunar og heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að hækka skatta. Því hefur reyndar verið lofað að þetta kjörtímabil verði eitt mesta skattalækkunartímabilið. Við það verður auðvitað staðið. Það þýðir ekki að dregið verði úr þeirri þjónustu sem við erum sammála um að veita. Það þýðir hins vegar að stærri hluti þess hagvaxtar, sem fyrirsjáanlegur er, á að renna beint til fólksins í landinu án millilendingar í ríkissjóði. Því er með öðrum orðum trúað að fólk fari ekki endilega verr með fjármuni sína en þeir forystumenn sem það kýs á fjögurra ára fresti til að sinna löggjafarstörfum fyrir sína hönd. Í mínum huga er enginn vafi á að það traust er á gildum rökum reist.

Aldarminning heimastjórnar og hlutur fyrsta ráðherrans hefur verið mér hugleikinn á þessari samverustund með þjóðinni. Af annars konar tilefni - en vegna aldarminningar líka, orti Hannes Hafstein kvæði og þykir mér síðasta erindi þess hljóma þannig að viðeigandi væri að tala til hans sjálfs á þessari stundu:

"Þú, sem fyrr með ást og orku kunnir
efla mentir þessa klakalands,
fljetti nú það mál, sem mest þú unnir,
minning þinni lítinn heiðurskrans.
Biðjum þess, að íslenskt mál og mentir
megi hljóta þroska, rík og sterk.
Göngum allir fram sem braut þú bentir!
Blómgist æ þitt drengilega verk."

Góðir Íslendingar.

Ég hef nú í þrettánda sinn fengið að tala til ykkar í árslok. Á því verður nú breyting. Í því felast meiri tímamót fyrir mig en ykkur. Ég þakka samfylgdina á árinu sem er að líða og vona að nýja árið verði okkur öllum blessunar- og huggunarríkt. Gleðilegt ár.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira