Hoppa yfir valmynd

Ræður og greinar Jóhönnu Sigurðardóttur


Dags.Dags.TitillLeyfa leit
2013-04-26 00:00:0026. apríl 2013Það skiptir máli hverjir stjórna

<p>Senn lýkur einu viðburðaríkasta kjörtímabilinu í sögu lýðveldisins. Þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG tók við stjórn landsins blasti við afar dökk mynd af stöðu efnahagsmála; þjóðargjaldþrot var yfirvofandi.<br /> <br /> Fjármálamarkaðurinn var hruninn, verðbólga nálgaðist annan tug prósenta, atvinnuleysi, skuldir heimila og fyrirtækja og halli ríkissjóðs náðu fordæmalausum hæðum. Gjaldmiðill landsins og kjör almennings voru í frjálsu falli. Ísland var einangrað frá alþjóðlegum fjármálamarkaði, rúið trausti eins og lánshæfismat og skuldatryggingarálag ríkissjóðs sýndi.<br /> <br /> Að fjórum árum liðnum blasir við gjörbreytt mynd. Hagvöxtur hefur verið tvö ár samfleytt og er landsframleiðsla nú svipuð og hún var árið 2006. Hagvöxtur hefur verið meiri hér á landi en í okkar helstu samanburðarlöndum.<br /> <br /> Þrátt fyrir verri viðskiptakjör eru hagvaxtarspár talsvert jákvæðari fyrir Ísland en önnur Evrópuríki. Halli ríkissjóðs hefur minnkað úr 216 milljörðum í tæpa fjóra milljarða. Kaupmáttur hefur aukist þrjú ár í röð og hafa laun á hverja vinnustund ekki verið hærri frá hruni í samanburði við laun í helstu viðskiptalöndum okkar.<br /> <br /> </p> <h3>Minni verðbólga og atvinnuleysi</h3> <p>Verðbólgan er nú einungis þriðjungur af því sem hún var og atvinnuleysi hefur minnkað um tæpan helming. Eftir hrun var tæplega einn af hverjum tíu vinnufærum mönnum án vinnu. Nú er atvinnuleysi hið næstminnsta í allri Evrópu. Atvinnulausum hefur fækkað um meira en 12.000 og er það ekki síst aðgerðum stjórnvalda að þakka.<br /> <br /> Afkoma heimilanna og eignastaða hefur batnað jafnt og þétt undanfarin tvö ár. Gjaldþrotum fækkar og árangurslausum fjárnámum sömuleiðis. Frá miðju ári í fyrra hafa fleiri flutt til landsins en frá því. Góður afgangur er nú af utanríkisviðskiptum og ferðaþjónusta og hinar skapandi greinar eru í miklum vexti, ekki síst vegna stóraukins stuðnings stjórnvalda.<br /> <br /> </p> <h3>300 milljarða lækkun skulda heimila<br /> </h3> <p>Skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað um tæpan helming frá haustinu 2008. Sé litið til alls kjörtímabilsins hafa skuldir heimila og fyrirtækja lækkað sem nemur tvöfaldri landsframleiðslu, um 3.000 milljarða króna. Skuldir heimilanna hafa lækkað um meira en 300 milljarða króna og er skuldastaða þeirra nú svipuð og árið 2006.<br /> Skuldir hins opinbera lækka einnig þrátt fyrir áföll hrunsins og eru þær nú svipaðar og í ýmsum öðrum iðnríkjum á borð við Bandaríkin, Belgíu og Írland.<br /> <br /> Við stöðvuðum skuldasöfnun hins opinbera og endurreistum traust alþjóðasamfélagsins á íslensku efnahagslífi. Skuldatryggingarálag ríkissjóðs hefur ekki verið jafn lágt síðan á miðju ári 2008 og hafa öll alþjóðlegu matsfyrirtækin sett Ísland í fjárfestingarflokk.<br /> <br /> </p> <h3>Merkin sýna verkin<br /> </h3> <p>Enn blasa við krefjandi verkefni. Ríkisstjórnin hefur stigið mikilvæg skref til að ýta undir aukna fjárfestingu í landinu. Þær aukast um fimmtung á þessu ári samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Fjölmargir fjárfestingarsamningar hafa verið undirritaðir um lögfestar ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Gangi þau áform eftir til ársins 2017 væri um 2.200 ársverk að tefla í fjárfestingum fyrir meira en 290 milljarða króna.<br /> <br /> Sérstök þriggja ára fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar getur skapað 4.000 bein störf en á þessu ári verður yfir 10 milljörðum varið til verkefna vítt og breitt um landið í nafni hennar. Þá bind ég miklar vonir við það víðtæka samráð sem ég setti af stað á grunni skýrslu McKinsey um hvernig auka megi framleiðni og fjárfestingu á Íslandi.<br /> <br /> </p> <h3>Sterk staða Íslands<br /> </h3> <p>Efnahagslegur árangur ríkisstjórnarinnar hefur vakið heimsathygli enda tala tölurnar sínu máli. Það er einmitt á grunni þessa árangurs sem allir stjórnmálaflokkar landsins telja sig nú geta lofað auknum útgjöldum og skattalækkunum.<br /> <br /> Sterk staða Íslands til að leysa vandann sem við blasir vegna fjármagnshafta, snjóhengjunnar og uppgjörs vegna þrotabúa gömlu bankanna er einnig til komin vegna faglegrar vinnu ríkisstjórnarinnar og afdráttarlausrar lagasetningar sem kyrrsetti erlendar eignir kröfuhafanna í þrotabúum gömlu bankanna. Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn studdu þá lagasetningu þótt þeir byggi nú stórkarlaleg kosningaloforð á þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar og góðri stöðu Íslands.<br /> <br /> </p> <h3>Kjósum öryggi í stað áhættu<br /> </h3> <p>Ný ríkisstjórn getur glutrað niður þeim góða árangri sem þjóðin hefur náð á liðnu kjörtímabili með miklum fórnum allra landsmanna. Það skiptir því máli að þjóðin kjósi stjórnmálaflokka sem þeir geta treyst til að halda áfram uppbyggingarstarfi liðinna ára og sýna ábyrgð og festu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Aðeins á þeim grunni byggjum við velferð þessa lands.<br /> <br /> Munum að með stefnu sinni og aðgerðum, t.d. einkavæðingu bankanna, kölluðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skelfilegar afleiðingar hrunsins yfir íslensk heimili. Það voru líka þessir flokkar sem ollu hér meiri ójöfnuði en áður hafði sést. Það voru hins vegar jafnaðarmenn sem leiddu þjóðina út úr vandanum, komu Íslandi í hóp þeirra þjóða þar sem jafnrétti og jöfnuður eru hvað mest í heiminum og lögðu grunn að þeim eftirsóknarverðu tækifærum þjóðarinnar sem nú blasa við flestum.<br /> <br /> Kjósum öryggi í stað áhættu.<br /> <br /> Gleðilegt sumar!<br /> <br /> <a href="http://visir.is/thad-skiptir-mali-hverjir-stjorna/article/2013704269957"><em>(Jóhanna Sigurðardóttir - Birt í Fréttablaðinu 26. apríl 2013)</em></a><br /> <br /> <br /> </p>

2013-04-18 00:00:0018. apríl 2013Sóknarfæri í samskiptum við Kína

<p>Í opinberri heimsókn minni til Kína var undirritaður fríverslunarsamningur Íslands og Kína. Samningurinn er fyrsti fríverslunarsamningur sem Kína gerir við Evrópuríki. Hann færir íslenskum fyrirtækjum aukin tækifæri, enda voru hátt á fjórða tug fulltrúa íslenskra fyrirtækja með í förinni. Nokkrir þeirra gengu frá viðskiptasamningum, m.a. fyrir hönd Arion banka, Marorku, Orku Energy, Promens og Össurar.<br /> <br /> Samningurinn er líklegur til þess að blása lífi í viðskipti milli risaveldisins og eyþjóðarinnar. Ríkisstjórnin sýnir í verki að hún horfir vítt yfir sviðið í þágu atvinnulífsins og fyrirtækjanna í landinu, ekki aðeins til Evrópu eins og margir halda fram. Hún leitar sífellt leiða til að auka tekjur og bæta kjör þjóðarinnar.<br /> <br /> Ferðin hingað til Kína er líka ánægjulegt framhald heimsóknar forsætisráðherra Kína til Íslands fyrir tæpu ári þegar undirritaður var meðal annars rammasamningur ríkisstjórna Íslands og Kína um norðurslóðasamstarf. Og nú gefum við fyrirheit um aukið samstarf þjóðanna á ýmsum sviðum.<br /> <br /> Í því sambandi má nefna að fríverslunarsamningurinn greiðir ekki aðeins fyrir vöruviðskiptum heldur einnig fyrir þjónustuviðskiptum milli ríkjanna. Jarðhitasamstarf Kína og Íslands hefur fyrir löngu náð fótfestu en það snýst einmitt um þjónustuviðskipti, svo sem ráðgjöf um vinnslu og nýtingu jarðhita.<br /> <br /> Kínverjar nýta jarðhita sinn æ betur. Í samvinnu við íslensk fyrirtæki og íslenska sérfræðinga hafa þeir nú reist stærstu hitaveitu í heimi sem byggð er á grundvelli íslenskrar sérþekkingar.<br /> <br /> Samningurinn nær einnig til þróunarsamvinnu ríkjanna. Frá upphafi hafa um 80 Kínverjar útskrifast frá jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem starfræktur er hér á landi, og er það jafnframt fjölmennasti hópurinn.<br /> <br /> </p> <h3>Aukið samstarf og virðing</h3> <p>Mér er það mikið kappsmál að framfylgt sé þeim hugsjónum sem mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og viðeigandi alþjóðlegir mannréttindasáttmálar kveða á um. Það er því mikilvægt að í sameiginlegri yfirlýsingu minni og Li Keqiangs, forsætisráðherra Kína, er fært til bókar að ætlun ríkjanna sé að efla og vernda mannréttindi með virkum hætti.<br /> <br /> Í viðræðum mínum við leiðtoga Kína um mannréttindamál og alþjóðlegar skuldbindingar lýsti ég sérstakri ánægju með aukið samstarf ríkjanna á sviði jafnréttismála, sem komst á eftir heimsókn fyrrverandi forsætisráðherra Kína til Íslands á síðasta ári. Það er reyndar í samræmi við viljayfirlýsingu velferðarráðuneytis Íslands og Kvennamálasamtaka Kína (All-China Women<span>‘</span>s Federation of the People‘s Republic of China), en hún var undirrituð að lokinni þeirri heimsókn.<br /> <br /> Eftir fund minn með Li Keqiang forsætisráðherra síðastliðinn mánudag sammæltumst við um það í sérstakri yfirlýsingu að stuðla að enn frekari samskiptum og hagnýtu samstarfi um málefni norðurskautssvæðisins og viðfangsefni sem varða hafið, jarðvarma, jarðvísindi, umhverfisvernd og loftslagsbreytingar. Þetta verður gert á grundvelli rammasamningsins milli ríkisstjórnar Íslands og Kína um samstarf á norðurslóðum. Við áréttuðum stuðning okkar við umsókn Kína um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og ég veit að kínverskir leiðtogar eru þakklátir fyrir þann stuðning.<br /> <br /> </p> <h3>Vinnuvernd og vinnuréttur</h3> <p>Á svipaðan hátt og unnið hefur verið að jafnréttismálunum verður á næstunni unnið að vinnuverndar- og vinnuréttarmálum samhliða fríverslunarsamningnum sem borinn verður undir Alþingi næsta haust. Taka má fram að samningurinn breytir engu um aðgang kínversks vinnuafls að íslenskum vinnumarkaði. Hann breytir heldur engu um lög og reglur um fjárfestingar í íslenskum eignum.<br /> <br /> Við ætlum líka að auka samvinnu um menningarmál og ferðamál, svo nokkuð sé nefnt til viðbótar því sem að framan greinir. Tvíhliða samstarf á öllum þessum sviðum gefur tækifæri til stóraukinna samskipta og viðskipta okkar við Kína.<br /> <br /> Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem unnið hafa gott og mikið starf að gerð fríverslunarsamnings milli Íslands og Kína á undanförnum misserum. Um hann hefur ríkt full pólitísk samstaða og allir flokkar hafa komið að gerð hans á síðustu árum. Það er trú mín og von að fríverslunarsamningurinn skapi ný tækifæri og bæti hag þjóðarinnar.<br /> <br /> <a href="http://visir.is/soknarfaeri-i-samskiptum-vid-kina/article/2013704189983"><em>Jóhanna Sigurðardóttir - Fréttablaðið 18. apríl 2013</em></a><br /> <br /> </p>

2013-04-06 00:00:0006. apríl 2013Kynferðisbrot: Brugðist við neyðarástandi

<p>Nýverið sat ég fund með ungmennum þar sem þau lýstu afleiðingum þess að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi sem börn. Sá fundur var sá áhrifamesti sem ég hef setið, ekki síst fyrir þann mikla styrk sem ungmennin sýndu. Í lífsreynslu þeirra felst mikill lærdómur. Kynferðisbrot gegn börnum eru svartur blettur á íslensku samfélagi og mikilvægt er að við höfum burði til að bregðast við því ofbeldi sem og að sinna forvörnum til þess að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi. Þrátt fyrir öflugt starf síðustu ára til að vinna gegn kynferðisofbeldi og bætta málsmeðferð er því miður enn talsvert verk að vinna. Sú mikla umræða og uppljóstranir síðustu missera hafa leitt það í ljós svo um munar.<br /> <br /> Frá áramótum hafa leitað helmingi fleiri börn í Barnahús en gera að jafnaði á jafnlöngu tímabili. Undanfarna þrjá mánuði hafa leitað um tvö börn daglega í Barnahús. Í fyrsta skipti í sögu Barnahúss þurfa börn að bíða eftir þjónustu Barnahúss. Því blasir við neyðarástand vegna kynferðisafbrota gegn börnum.<br /> <br /> </p> <h3>Mikil fjölgun</h3> <p>Sé litið til þeirra mála sem lögregla hefur til rannsóknar blasir við sami vandi. Víðast hvar um landið hafa jafnmörg mál eða jafnvel fleiri verið tilkynnt til lögreglu á fyrstu þremur mánuðum ársins 2013 og voru tilkynnt allt árið í fyrra. Yfir 100 kynferðisbrot gegn börnum hafa verið tilkynnt til lögreglu frá áramótum en voru 141 allt síðasta ár. Um 470 tilkynningar berast til barnaverndarnefnda vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi á ári.<br /> Strax og vísbendingar fóru að berast um aukningu tilkynntra kynferðisbrota gegn börnum í janúarmánuði setti ég á fót sérstakan starfshóp fjögurra ráðuneyta undir formennsku Ágústs Ólafs Ágústssonar til að bregðast við vandanum. Nú hefur starfshópurinn skilað af sér viðamikilli skýrslu með 27 tillögum til úrbóta en af þeim voru 15 tillögur settar í forgang.<br /> <br /> Tillögurnar eru í góðu samræmi við þær áherslur sem þingmenn allra flokka sammæltust um á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis og kynnt var fyrr í þessari viku.<br /> <br /> Meðal forgangstillagna nefndarinnar eru kaup á nýju Barnahúsi, fjölgun sérfræðinga í Barnahúsi og fjölgun lögreglumanna og saksóknara sem sinna kynferðisbrotum. Þá er lagt til aukið samráð barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds, aukinn stuðningur fyrir aðstandendur brotaþola og við félagasamtök sem sinna þjónustu fyrir brotaþola og efling Vitundarvakningar gegn kynferðislegu ofbeldi í þeim anda sem UNICEF hefur kallað eftir í svokölluðu Ofbeldisvarnarráði. Einnig er lagt til að innleitt verði áhættumat og skráning á dæmdum kynferðisbrotamönnum hjá lögreglu.<br /> <br /> </p> <h3>Nýtt Barnahús<br /> </h3> <p>Til að bregðast hratt við neyðarástandinu sem nú ríkir hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita nú þegar um 190 milljónir kr. til að fjármagna forgangstillögur nefndarinnar. Með þessu verður m.a. unnt að tryggja strax 11 ný stöðugildi til að vinna gegn kynferðisbrotum gegn börnum. Skjót fjölgun sérfræðinga hjá Barnahúsi, lögreglu, ríkissaksóknara og hjá Fangelsismálastofnun mun mæta hinum stóraukna málafjölda og hafa áhrif til góða fyrir þau börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.<br /> Þá hefur ríkisstjórnin einnig samþykkt kaup á nýju Barnahúsi en sú tillaga er háð samþykki Alþingis. Núverandi húsnæði Barnahúss hentar ekki lengur hinum mikla málafjölda og takmarkar möguleika á bættri þjónustu við börn og aðstandendur þeirra. Hið íslenska Barnahús hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og yrðu það sérstaklega ánægjuleg tíðindi ef Barnahús fengi nýtt húsnæði á 15 ára afmæli sínu sem er í nóvember næstkomandi.<br /> <br /> </p> <h3>Verðum í fremstu röð<br /> </h3> <p>Aðrar tillögur nefndarinnar sem lagt er til að ráðist verði í strax á næsta fjárlagaári eru m.a. miðlæg stuðningseining fyrir brotaþola, ráðning sálfræðings fyrir fullorðna brotaþola, aukin meðferð fyrir kynferðisbrotamenn og aukin fræðsla, forvarnir og rannsóknir um kynferðisofbeldi. Þá er lögð til aukin þjálfun lögreglumanna sem og aukið eftirlit með kynferðisbrotamönnum. Þá eru ýmsar úrbætur nú þegar komnar til skoðunar hjá viðkomandi ráðuneytum og má þar nefna skýrslutökur barna, rannsóknarheimildir lögreglu og mótun tillagna að framtíðarskipan ákæruvaldsins.<br /> <br /> Heildarkostnaður við allar tillögurnar er um 300 milljónir króna, þar af 190 milljónir vegna aðgerða sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í, og er því ljóst að með framkvæmd þeirra allra tökum við sem samfélag þýðingarmikil skref í átt að aukinni vernd þolenda kynferðisofbeldis. Sú pólitíska sátt sem nú hefur skapast um mikilvægi slíkra aðgerða gefur fullt tilefni til að ætla að þær allar verði að veruleika strax á næsta ári. Það er og á að vera markmið okkar að Ísland taki sér stöðu á meðal þjóða sem eru fremstar þegar kemur að baráttunni gegn kynferðisafbrotum. Þau skref sem ríkisstjórnin hefur tekið nú eru tvímælalaust liður í því að svo megi verða.<br /> <a href="http://visir.is/kynferdisbrot--brugdist-vid-neydarastandi/article/2013704069995">(Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. apríl 2013.)</a><br /> <br /> </p>

2013-03-22 00:00:0022. mars 2013Kaflaskil í samskiptum ríkis og sveitarfélaga

<p>Um miðja síðustu öld voru sveitarfélög á Íslandi nærri 230 að tölu. Þau eru nú 74 og fjöldi íbúa er að meðaltali 4.300 íbúar og aðeins 2.700 ef Reykjavík er undanskilin. Þetta er ekki mikill fjöldi og áreiðanlega má færa fyrir því rök að einingarnar mættu og ættu að vera stærri. Meðalfjöldi í&nbsp; sveitarfélögum í Skotlandi er 162.000 íbúar í 32 sveitarfélögum. Meðalfjöldi í hverju sveitarfélagi í Danmörku er 53.000 íbúar.</p> <p>Á kjörtímabilinu, sem senn er á enda, hefur ríkisstjórn jafnaðar- og félagshyggjufólks&nbsp; beitt sér fyrir margvíslegum umbótum í stjórnsýslunni. Tilgangurinn er auðvitað sá að auka skilvirkni, bæta nýtingu fjármuna og auka jafnræði og gagnsæi. Til að mynda hefur ráðuneytum verið fækkað úr tólf í átta og ráðherrum hefur fækkað að sama skapi. Skrifstofur ráðuneytanna stækka, þær verða faglegri og skilvirkari og veita borgurunum vonandi betri þjónustu.</p> <h3>Aukin áhrif landshluta</h3> <p>Í þessu samhengi hefur ríkisstjórnin gengist fyrir merkilegri tilraun í samvinnu við sveitarfélögin og forsvarsmenn landshlutasamtaka sem ber heitið Sóknaráætlanir landshluta. Vinnan við þær hófst í byrjun ársins 2011 og hefur staðið samfellt síðan. Nú eru kaflaskil því í dag eru undirritaðir samningar milli ríkisins og átta landshluta um sóknaráætlanirnar. Að baki þeim er mikil vinna af hálfu sveitarstjórnarmanna og forsvarsmanna landshlutasamtaka sem og embættismanna innan stjórnarráðsins. Ég vil þakka þeim fyrir gott starf enda má segja að kerfisbreytingar og umbætur af þessum toga eigi líf sitt undir góðri samvinnu og trú á verkefnið.</p> <p>Eins og málum hefur verið háttað eru samningar um opinber fjárframlög til einstakra byggðaverkefna í höndum margra og hafa ekki hingað til fylgt neinu samstilltu skipulagi þótt Byggðastofnun gegni þar lykilhlutverki. Um 5 milljarðar króna renna nú til slíkra verkefna í öllum fjórðungum og samningarnir eru vart færri en 200 talsins.</p> <p>Hugmyndin að baki sóknaráætlunum landshlutanna er í rauninni einföld. Hún byggist á því að innan átta landshluta fái sveitarstjórnir og ýmis landshlutasamtök, sem fást við framfara- og hagsmunamál, þræðina í sínar hendur. Þau forgangsraði verkefnum á grundvelli sóknaráætlana og ákveði hvernig tilteknum fjárframlögum til landshlutans skuli skipt. Á hinum endanum er stjórnarráðið með sín átta ráðuneyti. Það skipar einskonar stýrinet með fulltrúum þvert á ráðuneytin sem annast samhæfingu áætlana og samninga um þær við landshlutana. Allt er þetta til einföldunar og til þess fallið að bæta nýtingu fjármuna. Auk þess má ætla að þetta verklag geti unnið gegn kjördæmapoti&nbsp; og geðþóttalegri fyrirgreiðslu. Frá mínum bæjardyrum væri það framfaraspor og merki um heilbrigðari stjórnsýslu en áður.</p> <h3>Aukin samvinna</h3> <p>Segja má að árið 2013 sé reynslutími þar sem sóknaráætlanir landshlutanna slíta barnsskóm sínum. Alls renna&nbsp; um 620 milljónir króna til þessa verkefnis á árinu. Það er aðeins brot af því fé sem gæti fallið undir þessa samninga ef fyrirkomulagið reynist vel. Engin ástæða er til að ætla annað en að þetta geti gengið. Ætla má að allt að 800 manns hafi komið nálægt undirbúningnum á mörgum fundum, bæði í landshlutunum og innan Stjórnarráðsins.</p> <p>Ég hef haft mikla ánægju af því að hitta sveitarstjórnarmenn og aðra forystumenn landshlutasamtaka á heimavelli þeirra á undanförnum árum. Ríkisstjórnin tók upp þá nýbreytni að halda ríkisstjórnarfundi á landsbyggðinni. Þeir hafa nú verið haldnir í öllum landshlutum, á Suðurnesjum, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og nú síðast á Selfossi. Alls staðar gafst ráðherrunum tækifæri til skoðanaskipta við forystumenn í hverjum landshluta. Ég á þá ósk að ríkisstjórnir framtíðarinnar geri þetta að venju enda eru ávinningarnir af beinum samskiptum og samvinnu við fulltrúa landshlutanna áþreifanlegir.</p> <p>Með undirritun sóknaráætlana landshlutanna hefur mikil undirbúningsvinna tekið á sig mynd og verið innsigluð. Samningarnir eru til þess fallnir að skerpa og skýra samskipti ríkis og sveitarfélaga og leggja grunn að nýrri hugsun í byggðamálum. Ég óska okkur öllum til hamingju með árangurinn.<br /> <br /> Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra&nbsp;<br /> <em>(Greinin birtist í DV 22. mars 2013)</em></p>

2013-03-20 00:00:0020. mars 2013Fjárfestingar í fullum gangi

<p>Mjög er rætt um að auka þurfi þjóðartekjur og hagvöxt og að besta ráðið til þess sé að örva fjárfestingar. En þar er við ramman reip að draga og ytri aðstæður hafa verið okkur mótdrægar. Hagvöxtur er lítill í helstu viðskiptalöndum og sums staðar neikvæður eins og í Bretlandi um þessar mundir.<br /> <br /> Sjálf neyðumst við til að beita gjaldeyrishöftum og heimilin í landinu líða fyrir óstöðugleika gjaldmiðilsins. Forystumenn í atvinnulífinu og raunar þjóðin öll skynjar æ betur að á vandanum verður að taka og engum dyrum má loka. Þannig vill nú 61 prósent þeirra sem tóku afstöðu í nýlegri könnun ljúka aðildarviðræðum við ESB.<br /> <br /> </p> <h3>Tíu milljarðar á þessu ári</h3> <p>Ríkisstjórnin getur borið höfuðið hátt í þessum efnum. Margvísleg verkefni og framkvæmdir, sem falla undir fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, eru nú hafnar eða eru á undirbúningsstigi. Þær eru fjármagnaðar með arði af eignarhlutum ríkisins í bönkunum og veiðigjaldi sem lögleitt var á síðasta ári. Samtals nema fjárfestingar í krafti áætlunar ríkisstjórnarinnar 10,3 milljörðum króna á þessu ári; 4,2 milljarðar króna renna til hennar af veiðigjaldinu en um 6,1 milljarður er arðgreiðslur vegna eignarhluta í bönkunum.<br /> <br /> Fjárfestingaráætlunin, sem kynnt var snemma sumars í fyrra, gerði okkur kleift að flýta samgöngubótum en áætlað er að 2,5 milljarðar renni til þeirra á þessu ári. Tilboð verða opnuð innan tíðar í Norðfjarðargöng og ráðgert er að hefja framkvæmdir síðsumars. Einnig verður 640 milljónum króna varið á þessu ári til framkvæmda við Landeyjahöfn og til hönnunar nýs Herjólfs.<br /> <br /> Framlag til rannsókna- og tækniþróunarsjóða hefur verið aukið um 1,3 milljarða króna. Ég veit að það mælist hvarvetna vel fyrir enda þurfum við í sífellt meiri mæli að treysta á sérhæfða kunnáttu og tækniþekkingu í atvinnulífinu.<br /> <br /> Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar var frá upphafi ætlað að örva skapandi greinar, auka veg græna hagkerfisins og efla hag ferðaþjónustunnar. Þannig hafa framlög til Kvikmyndasjóðs verið hækkuð um 82 prósent á þessu ári. Framlög til verkefnissjóða lista og skapandi greina hækka um 250 milljónir króna. Hálfum milljarði króna verður varið til uppbyggingar ferðamannastaða. Ekki er óalgengt að annað eins komi frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem mótframlag.<br /> <br /> Í nafni áætlunarinnar verður stofnaður grænn fjárfestingarsjóður með 500 milljóna króna framlagi. Hann verður vistaður í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og styður þar m.a. starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Þá er ráðgert að verja öðrum 280 milljónum króna á vegum forsætisráðuneytisins til að auka fjölbreytni atvinnulífsins og örva græna hagkerfið.<br /> <br /> </p> <h3>Menningin skapar verðmæti<br /> </h3> <p>Nýverið var tekin skóflustunga að nýju húsi íslenskra fræða við Háskóla Íslands. Þar verður Árnastofnun til húsa í framtíðinni, handritin okkar dýrmætu og menningardeild Háskóla Íslands. Opinbert framlag til framkvæmdanna er hluti fjárfestingaráætlunarinnar og nemur 800 milljónum króna. Aðrar 600 milljónir króna til verksins koma frá Happdrætti Háskóla Íslands.<br /> <br /> Þá hefur samist um leigu á Perlunni undir Náttúruminjasafn Íslands, en 500 milljónum króna verður varið til safnsins á þessu ári af fjármunum fjárfestingaráætlunarinnar.<br /> <br /> Margt fleira mætti nefna, eins og framkvæmdir við fjölsótta ferðamannastaði sem miða að vernd friðlýstra svæða. Það er líka ánægjulegt og viðeigandi nú í „Hönnunarmars" að jafnframt auknum framlögum til verkefnissjóða lista og skapandi greina hafa verið stofnaðir nýir sjóðir eins og Hönnunarsjóður og Handverkssjóður.<br /> <br /> Allt sem hér er nefnt snertir verkefni sem hafin eru eða eru í undirbúningi. Ríkisstjórnin hefur því ótrauð stuðlað að fjárfestingum og tekist að fjármagna þær með arði af eignum og auðlindum þjóðarinnar.<br /> <br /> <a href="http://visir.is/fjarfestingar-i-fullum-gangi/article/2013703209987"><em>(Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. mars 2013)</em></a><br /> <br /> </p>

2013-03-12 00:00:0012. mars 2013Nú er nóg komið !

<p>Nú er nóg komið er yfirskrift Kvennastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UN Women, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, í ár. Nú er nóg komið af ofbeldi gegn konum og stúlkubörnum, en ofbeldinu má líkja við heimsfaraldur. Talið er að á heimsvísu verði allt að sjö af hverjum tíu konum einhvern tíma fyrir kynbundnu ofbeldi. Um allan heim eru þolendur að rjúfa þögnina og krefjast þess af stjórnvöldum, réttarkerfi og almenningi að ofbeldið verði ekki liðið lengur. Víða hriktir í fúnum stoðum gamalla valdakerfa sem hafa falið ofbeldið og samþykkt það með þögninni. En þótt vandinn sé hrikalegur, sést árangur víða.<br /> <br /> </p> <h3>Kynbundið ofbeldi</h3> <p>Á síðustu árum hafa stjórnvöld á Íslandi stigið fjöldamörg skref í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Nauðgunarákvæði hegningarlaga hafa verið hert, fyrningarákvæði vegna tiltekinna kynferðisbrota gegn börnum felld niður, kaup á vændi gerð refsiverð, nektarstöðum úthýst og úrræði lögreglu til að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum komið á fót. Meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar hefur verið eflt. Nú stendur yfir þriggja ára átak um vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, en ýmsum verkefnum hefur verið hrint af stað undir merki hennar. Fyrsta aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali sem samþykkt var í mars 2009 hefur runnið sitt skeið og drög að endurskoðaðri áætlun hafa verið kynnt. Svona mætti áfram telja.<br /> <br /> </p> <h3>Kynbundið launamisrétti<br /> </h3> <p>Nú er nóg komið gæti allt eins verið þema dagsins vegna baráttunnar gegn kynbundnu launamisrétti. Um leið og ætla má að þolinmæði okkar flestra sé þrotin gagnvart því spyr ég mig hvers vegna ekki gangi hraðar að útrýma því. Í október síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun gegn launamun kynjanna með á þriðja tug aðgerða. Margar þeirra eru komnar vel á veg. Stofnaður hefur verið aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar. Þeim hópi er m.a. ætlað að kynna jafnlaunastaðalinn sem fullgerður var í árslok á síðasta ári og ná sátt um hvernig haga beri könnunum á kynbundnum launamun þannig að þær vísi betur veginn til raunverulegra umbóta. Samkvæmt áætluninni mun fræðsla um launajafnrétti kynjanna verða stórefld. Stjórnvöld eru að taka til í eigin ranni, m.a. með svokölluðum jafnlaunaúttektum og átaki til að skilgreina betur hvað teljast málefnalegar forsendur fyrir launasetningu í ríkisgeiranum. Ríkisstjórnin hefur sýnt í verki að bregðast þarf við rótgrónu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum, en ná þarf sátt um hvernig standa ber að endurmati á þeim.<br /> Kynbundið ofbeldi og launamisrétti er rótgróinn og þrálátur vandi. En þótt baráttan hafi á stundum virst löng og ströng skulum við ekki gleyma því að mikill árangur hefur náðst. Við munum halda henni ótrauð áfram.<br /> <br /> <a href="http://visir.is/nu-er-nog-komid-!/article/2013703089949">(Grein Jóhönnu Sigurðardóttur birtist í Fréttablaðinu 8. mars 2013)</a><br /> <br /> </p>

2013-02-16 00:00:0016. febrúar 2013Jafnaðarstjórn í fjögur ár: Orðspor og traust endurheimt

<div> Orðspor Íslands í samfélagi þjóðanna var ágætt fram að hruni. Allt breyttist þetta á svipstundu með falli bankanna. Ekki bætti úr skák að bresk stjórnvöld beittu umdeildum ákvæðum laga um varnir gegn hryðjuverkum til að frysta eigur íslenskra banka í Bretlandi og verja þannig sína hagsmuni. </div> <div> </div> <div> Lánshæfismat ríkissjóðs féll eins og steinn. Skuldatryggingarálag rauk upp úr öllu valdi. Stjórnvöld áttu á hættu að lenda í útistöðum við umheiminn vegna setningar neyðarlaga og gjaldeyrishafta, meðal annars með tilliti til EES-samningsins. Upp hófust erfiðar og flóknar milliríkjadeilur við Breta og Hollendinga um það hvort íslenska ríkið hefði fullgilt og fylgt með réttum hætti tilskipun ESB um innstæðutryggingar og bæri þar af leiðandi ábyrgð á almennum lágmarksinnstæðum erlendis. Auk þess voru stjórnvöld sökuð um að hafa mismunað innstæðueigendum eftir þjóðerni. Hratt og örugglega lokuðust flest sund Íslands á lána- og gjaldeyrismarkaði. Íslensk fyrirtæki voru krafin um staðgreiðslu og fáu treyst sem frá Íslandi kom. </div> <div> </div> <div> Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG tók við stjórn landsins 1. febrúar 2009. Þá blasti við að ómældum tíma og fé yrði að verja til þess að endurheimta lánstraust þjóðarinnar og orðspor. Samningar höfðu tekist um endurreisn í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem greiða skyldi út nauðsynleg gjaldeyrislán með reglulegu millibili að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Færeyingar voru fyrsta þjóðin sem veitti Íslendingum lán eftir hrunið í október 2008 og greiddi íslenska ríkið lánið upp í árslok í fyrra. Frændur vorir á Norðurlöndum sáu aumur á okkur, sumir fullir efasemda, og samþykktu stórfelldar lánveitingar. Það á líka við um Pólland. Nú hafa verið endurgreiddir 227 milljarðar króna af lánum frá AGS og Norðurlöndunum eða sem nemur 50–60 prósentum af upphaflegum lánum og fyrirliggjandi er ósk íslenskra stjórnvalda um lækkun vaxta á því sem eftir stendur. Allt er þetta gert til að draga úr vaxtakostnaði ríkissjóðs og efla traust á Íslandi. </div> <div> </div> <h3>Við reynum að semja</h3> <div> <span>Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir berum orðum að meðal meginverkefna á næstu árum verði að endurheimta orðspor Íslands á alþjóðavettvangi og byggja upp ímynd lands og þjóðar.</span></div> <div> </div> <div> Langvinnri þrautagöngu er lokið með sigri í Icesave-málinu. Ábyrgir stjórnmálamenn vita að nauðsynlegt var að setjast að samningaborði í deilum við erlendar þjóðir eins og ástatt var fyrstu mánuðina eftir bankahrunið. Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, orðar þetta svo í merkri grein sinni að loknu Icesave-málinu: „Hvaða íslensk ríkisstjórn sem væri hefði reynt að semja og reynt að halda málinu áfram í viðræðuferli – líka Sigmundur Davíð ef hann hefði verið ráðherra við þær aðstæður sem þá ríktu." </div> <div> </div> <div> Sigurinn í Icesave-málinu og fleira hefur jákvæð áhrif á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Ríkissjóður hefur í tvígang á undanförnum misserum sótt sér fé á erlenda lánsfjármálamarkaði, samtals 240 milljarða króna, og þar með fengið staðfest að aðgengi að erlendu lánsfé hefur verið endurheimt. Skuldatryggingarálag er nú hið lægsta sem um getur frá því fyrir hrun og alþjóðleg matsfyrirtæki, Fitch og Moodys, hafa hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs og breytt horfum úr óstöðugum í stöðugar.&nbsp; </div> <div> </div> <h3>ESB – kosið um aðildarsamning</h3> <div> <span>Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er eitt stærsta og umdeildasta verkefnið sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók sér fyrir hendur í upphafi. Eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafa miklar breytingar orðið á undanförnum árum á sviði utanríkis- og öryggismála. Þær breytingar ná einnig til viðskipta, stjórnmála og umhverfismála og kalla á nýja sýn og nýja nálgun í utanríkismálum.</span></div> <div> </div> <div> Liður í nýrri nálgun fólst í því að sækja um aðild að ESB og hefja samningaviðræður og leggja síðan fullbúinn samning í dóm þjóðarinnar. Frá upphafi hefur legið fyrir að stjórnarflokkarnir virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart ESB. </div> <div> </div> <div> Aðild að ESB leysir ekki öll vandamál. En hún er að minni hyggju nærtækasta leiðin í átt að stöðugleika í efnahagsmálum og betri lífskjörum á Íslandi sem fælust meðal annars í lækkun vaxta og verðlags. Aðild er einnig nærtæk leið til að auka stöðugleika, stuðla að afnámi verðtryggingar og gjaldeyrishafta og veikleikum krónunnar sem Seðlabankinn telur uppsprettu sveiflna. Við höfum ekkert að óttast og ættum að fagna því að geta í fyllingu tímans kynnt okkur efni aðildarsamnings og tekið afstöðu til hans í þjóðaratkvæðagreiðslu. </div> <div> </div> <div> Stefna Íslands á sviði utanríkisviðskipta hefur um árabil snúið að því að opna viðskiptatækifæri og leiðir fyrir íslenskan útflutning, vörur og þjónustu, með því að treysta og byggja upp net fríverslunarsamninga og viðskiptasamninga víða um heim. Nú þegar er Ísland aðili að 24 fríverslunarsamningum, sem ná til 33 ríkja með öðrum EFTA-ríkjum og viðræður eru í gangi við meira en tug ríkja til viðbótar. Ísland hefur einnig gert víðtækan fríverslunarsamning við Færeyjar.&nbsp; </div> <div> </div> <div> Fríverslunarviðræður Íslands og Kína eru einnig langt komnar. Í heimsókn forsætisráðherra Kína til Íslands í apríl 2012 var sammælst um setja aukinn kraft í að ljúka samningaferlinu, sem staðið hefur frá árinu 2007. </div> <div> </div> <h3>Lítum stolt um öxl</h3> <div> <span>Þótt efnahagsleg uppbygging sé nær ávallt í forgrunni er mikilsvert að stjórnvöld missi ekki sjónar á öðrum undirstöðuatriðum er varða mannréttindi og mannleg kjör hvar sem er og hvenær sem er.&nbsp;</span></div> <div> </div> <div> Mikil samstaða ríkti á Alþingi um liðlega milljarðs króna hækkun á fjárframlögum til þróunarmála á fjárlögum þessa árs. Hækkunin er liður í því að ná því marki að 0,7% þjóðarteknanna renni til þróunarmála á árinu 2019. Náist það mun Ísland skipa sér í fremstu röð í þróunarmálum á alþjóðavettvangi. Stærsta verkefni á sviði þróunarsamvinnu sem Ísland hefur nokkru sinni ráðist í hófst á síðasta ári þegar Ísland var útnefnt sem aðalsamstarfsþjóð Alþjóðabankans um jarðhitanýtingu í þrettán Afríkuríkjum. </div> <div> </div> <div> Nú er á annað ár liðið síðan utanríkisráðherrar Íslands og Palestínu staðfestu stjórnmálasamband milli þjóðanna. Áður hafði Alþingi, að tillögu utanríkisráðherra, samþykkt að Palestína yrði viðurkennd sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Ríkisstjórnin hefur stutt sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og var meðflytjandi að tillögu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þess efnis að Palestína fengi þar stöðu áheyrnarríkis. Sú tillaga var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á þingi SÞ síðastliðið haust. </div> <div> </div> <div> Ég tel að bærilega hafi tekist til við að endurreisa orðspor Íslands í kjölfar hrunsins. Velgengni okkar á ýmsum sviðum efnahagslífsins og áhersla á velferð og jöfnuð á skeiði uppbyggingarinnar hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Við getum litið stolt um öxl þótt enn sé verk að vinna. </div> <div> </div> <div> <em><a href="http://visir.is/jafnadarstjorn-i-fjogur-ar--ordspor-og-traust-endurheimt/article/2013702169965">(Birt í Fréttablaðinu 16. febrúar 2013)</a></em> </div> <div> </div>

2013-02-09 00:00:0009. febrúar 2013Jafnaðarstjórn í fjögur ár: Lýðræðið í öndvegi

<div> Þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG tók við stjórn landsins 1. febrúar 2009 þótti brýnt að huga vel að mannréttindum, lýðræðisumbótum og umbótum á sjálfu stjórnkerfinu. Í kjölfar bankahrunsins varð meðal annars að komast til botns í því hvort og þá hvers vegna opinberar eftirlitsstofnanir og stjórnmálin höfðu brugðist með örlagaríkum afleiðingum. Helstu stofnanir samfélagsins voru rúnar trausti og grunsemdir um spillingu og klíkuskap voru miklar. </div> <div> &#160; </div> <h3>Breyttir og betri siðir</h3> <p>&#160;Um misbeitingu valdsins eru til ágæt dæmi. Árið 2003 voru samþykkt umdeild lög sem veittu þingmönnum, ráðherrum, forseta Íslands, dómurum og æðstu embættismönnum forréttindi um lífeyrisgreiðslur. Þau veittu rýmri réttindi en almenningur nýtur til þess að hverfa frá störfum áður en tilskyldum eftirlaunaaldri er náð. Jafnframt gátu ofangreindir hópar haldið fullum lífeyrisréttindum þótt svo að þeir gegndu samtímis öðrum störfum fyrir hið opinbera.</p> <p>Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarflokkanna var að fella þessi lög úr gildi.</p> <p>Meðal siðmenntaðra þjóða þykir eðlilegt og sjálfsagt að upplýsingar um fjárframlög til stjórnmálaflokka og frambjóðenda séu opinberar og öllum aðgengilegar. Þessi háttur er hafður á meðal annars til að koma í veg fyrir dulin áhrifakaup auðmanna sem ógnað geta lýðræðinu. Ísland hafði dregið lappirnar í þessum efnum til ársins 2006 þegar ný lög um fjármál stjórnmálaflokka voru loks samþykkt. Fljótlega eftir fjármálahrunið gekkst núverandi ríkisstjórn fyrir því að fjárframlög til stjórnmálaflokka og frambjóðenda yrðu gerð opinber aftur til ársins 2005. Það leiddi meðal annars í ljós há framlög föllnu bankanna til einstakra stjórnmálaflokka og frambjóðenda.</p> <p>Margar aðgerðir af þessum toga láta ekki mikið yfir sér en fela þó í sér miklar umbætur og heilbrigðari og gagnsærri stjórnsýslu. Á yfirstandandi kjörtímabili hafa verið innleiddar siðareglur fyrir ráðherra og starfsmenn Stjórnarráðs Íslands. Tilgangur þeirra er að auka traust á stjórnsýslunni og veita leiðsögn um hvers konar háttalag hæfir starfsmönnum hennar og æðstu stjórnendum.</p> <p>Með breytingum á lögum og reglum hefur dregið úr hættu á að geðþótti ráði við embættisveitingar. Óheimilt er nú að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda. Hæfisnefndir fjalla nú auk þess um allar ráðningar æðstu stjórnenda innan Stjórnarráðs Íslands.</p> <h3>Faglegri stjórnun</h3> <p>Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið ráðist í umfangsmestu breytingar á Stjórnarráðinu í sögu lýðveldisins. Þessar breytingar voru meðal annars gerðar í kjölfar ábendinga í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.</p> <p>Ráðuneytum hefur verið fækkað úr 12 í 8 og breytingar samfara fækkuninni eiga að skila faglegri og skilvirkari þjónustu. Samhliða hefur stofnunum ríkisins einnig fækkað um rúmlega 30 og er nú fjöldi þeirra um 190.</p> <p>Við höfum fetað leiðina til gagnsærra og opnara þjóðfélags. Endurskoðuð upplýsingalög, sem tóku gildi nýverið, eru varða á þeirri leið. Þau ná nú einnig til upplýsingagjafar fyrirtækja sem eru að meirihluta í opinberri eigu eins og t.d. Landsvirkjun. Breytingarnar auðvelda jafnframt almenningi að óska upplýsinga og fá greið svör við spurningum. Meginatriðið er að við höfum fullan vilja til þess að mæta kröfum um greiðan aðgang almennings að upplýsingum, enda er það einn af hornsteinum lýðræðisins.</p> <h3>Mannréttindi</h3> <p>Vorið 2010 var ákveðið með lögum að greiða sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum og heimilum fyrir börn. Lögin kveða á um bætur allt að 6 milljónum króna til handa einstaklingum sem urðu fyrir varanlegum skaða vegna illrar meðferðar eða ofbeldis á tilteknum stofnunum eða heimilum.</p> <p>Stórt skref í réttindabaráttu samkynhneigðra var tekið árið 2010 þegar Alþingi samþykkti að ein hjúskaparlög skyldu gilda um allra, burtséð frá kyni eða kynhneigð. Óhætt er að segja að Ísland hafi nú skipað sér í fremstu röð að því er réttindi samkynhneigðra varðar.</p> <p>Nefna má að í fyrra voru samþykkt lög sem bæta réttarstöðu transfólks, þ.e. fólks sem á við kynáttunarvanda að stríða.</p> <p>Íslenskt táknmál er nú móðurmál þeirra sem ekki hafa næga heyrn til að tileinka sér íslenska tungu til daglegra samskipta. Þetta var lögfest fyrir að verða tveimur árum og er nú íslenskt táknmál fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra.</p> <p>Fleira má nefna sem snertir mannréttindi. Unnið er að endurskoðun laga um hælisleitendur og réttindi útlendinga hér á landi.</p> <p>Réttindagæsla fyrir fatlaða hefur verið leidd í lög. Þeir eiga nú meðal annars rétt á persónulegum talsmanni sem gætir hagsmuna þeirra.</p> <h3>Staða stjórnarskrármálsins</h3> <p>Frá árinu 2009 hafa umræður á Alþingi um stjórnarskrána tekið meiri tíma en flest önnur mál í sögu lýðveldisins. Vinnan utan þingsins frá þjóðfundi til þjóðaratkvæðagreiðslu er einnig gríðarleg um mikilvæg atriði frumvarpsins sem stjórnlagaráð skilaði af sér.</p> <p>Önnur umræða um þetta mikilvæga mál er þegar hafin og Alþingi hefur allar forsendur til að leiða málið til lykta með farsælum hætti. Ég vona að úthaldið bresti ekki á lokasprettinum þegar mikið ríður á að allir, sem stutt hafa málið á Alþingi, standi saman.</p> <p><em>(<a href="http://visir.is/jafnadarstjorn-i-fjogur-ar--lydraedid-i-ondvegi/article/2013702099997">Birt í Fréttablaðinu 9. febrúar 2013.)</a></em><br /> </p>

2013-02-03 00:00:0003. febrúar 2013Ávarp ráðherra við athöfn í Hörpu til heiðurs Vilborgu Örnu Gissurardóttur suðurpólsfara

<p>Kæra Vilborg og þið sem hér eruð viðstödd í dag með þessari heiðurskonu.</p> <p>Þjóðin fylgdist með langri ferð þinni af miklum áhuga, ekki síst á lokasprettinum. Ferð þín var merkileg ekki síst vegna þess að þú ert í senn fyrsti Íslendingurinn sem gengur einn síns liðs á suðurpólinn og fyrsta íslenska konan sem nær þessum áfanga. Þar að auki lagðir þú upp í þennan leiðangur með það að markmiði að styrkja aðra og styðja.</p> <p>Í mínum huga má setja ferð þína í samhengi við svo margt. Þú hefur sýnt hvers megnug hver manneskja er þegar hún undirbýr sig vel og setur sér krefjandi markmið en mér er sagt að þú hafir undirbúið þennan leiðangur í um áratug. Margir mættu taka það sér til fyrirmyndar að gefa sér svo langan tíma til að vinna að markmiðum sínum og ég vona að þú getir ekki síst orðið börnum og unglingum fyrirmynd að þessu leyti.</p> <p>Þú hefur á sama tíma sýnt hve samstaða og samhugur getur skilað miklu. Þú hefur unnið þitt afrek ein, en þó studd af svo mörgum sem hafa hvatt þig áfram. Þú lagðir upp í ferðina til þess að styðja félagssamtök sem styðja starfsemi sem flestir njóta og er gríðarlega mikilvæg. Þú valdir að takast á við sjálfa þig og erfiðar aðstæður um leið og styðja aðra um leið. Þú hefur sýnt konum hvers þær eru megnugar og að þeim eru svo sannarlega allir vegir færir og ert því ekki síst mikilvæg fyrirmynd að því leyti. Þú hefur sýnt jákvæðni og þrautseigju, sem ég leyfi mér að telja að haf jafnframt verið styrkleikar íslensku þjóðarinnar í gegnum tíðina.</p> <p>Kæra Vilborg, í tilefni af afreki þínu hefur ríkisstjórnin samþykkt að veita 3 milljóna króna styrk til Lífs styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans. Eins og væntanlega mun koma ítarlegar fram hjá öðrum hér í dag hefur Líf styrktarfélag þann tilgang að styrkja kvennadeild Landspítalans, bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Þá vinnur félagið að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna.</p> <p>Sterk hefð er fyrir því í íslensku samfélagi að styrktarfélög, hliðstæð Lífi, styrki margvíslega starfsemi, ekki síst á sviði velferðarmála. Með afreki sínu hefur Vilborg Arna í senn vakið athygli á Lífi styrktarfélagi kvennadeildar Landspítalans og mikilvægri starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss og styrktarfélaga á sviði velferðarmála.</p> <p>Það hefur verið ánægjulegt að sjá hve margir hafa brugðist við kalli Vilborgar með fjárframlögum. Ríkisstjórnin hefur fylgst grannt með þessu verkefni og hreyfst að sjálfsögðu með og samþykkti á fundi sínum á föstudaginn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og veita þriggja milljóna króna styrk til Lífs styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans.</p> <p>Mig langar að biðja Vilborgu og fulltrúa Lífs að koma hingað til mín og veita viðtöku skjali þessu til staðfestingar.</p>

2013-02-02 00:00:0002. febrúar 2013Jafnaðarstjórn í fjögur ár: Úr skuldafjötrum

<div> Hrun krónunnar og þrot fjármálafyrirtækja árið 2008 orsakaði gríðarlegan og áður óþekktan vanda nánast allra heimila og fyrirtækja í landinu. Verkefni stjórnvalda var að afstýra keðjuverkun og mögulegu þjóðargjaldþroti. Skuldir ríkissjóðs hlóðust upp. </div> <div> <br /> </div> <div> Sumarið 2007 námu heildarskuldir heimila 108 prósentum af landsframleiðslu. Í sínum hæstu hæðum árið 2009 námu skuldir heimilanna 135 prósentum af landsframleiðslunni. Nú bregður hins vegar svo við að skuldastaða þeirra er komin niður í 108 prósent á ný, eða sama hlutfall og 15 mánuðum fyrir bankahrunið. Lækkunin nemur yfir 300 milljörðum króna. </div> <div> <br /> </div> <h3>Lentum ekki í vítahringnum</h3> <div> <span>Þetta er auðvitað jákvæð þróun. Ríkisstjórnin getur horft um öxl og séð að henni tókst samtímis að létta byrðar tekjulægstu heimilanna og koma þeim yfir erfiðasta hjallann. Engu að síður finna menn fyrir fjármálahruninu og fæstir gátu búist við því að sleppa við áhrif þessara hamfara af mannavöldum.&#160;</span><br /> </div> <div> <br /> </div> <div> Hollt er að skoða þetta í samanburði við önnur lönd sem glímt hafa við hliðstæðan vanda undanfarin ár eins og gert er í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í apríl í fyrra. Þar var m.a. farið yfir viðbrögð stjórnvalda í nokkrum löndum við skuldavanda heimilanna og tekið fram að í öllum tilvikum hafi aðdragandinn einkennst af niðursveiflu og verulegri skuldasöfnun heimila. „Dæmið frá Íslandi sýnir hvernig fjölþætt nálgun getur létt skuldabyrði stórs hluta heimilanna og haldið aftur af vanskilum. Kveikjan að djörfum viðbrögðum stjórnvalda átti rætur í erfiðri skuldastöðu heimilanna og miklum félagslegum þrýstingi á stjórnvöld um að grípa til aðgerða." </div> <div> <br /> </div> <h3>Fjölþættar ráðstafanir</h3> <div> <span>Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin greip til voru margvíslegar. Hún hefur nú varið um 100 milljörðum króna í vaxtabætur og barnabætur sem hafa þann eiginleika að rata þangað sem þörfin er mest. Fasteignalán hafa verið færð niður um 46 milljarða vegna 110 prósenta leiðarinnar. Þá hefur greiðsluaðlögun einstaklinga, sértæk skuldaaðlögun og greiðslujöfnun sömuleiðis hjálpað þúsundum einstaklinga.</span><br /> </div> <div> <br /> </div> <div> Við erum ekki komin á leiðarenda. Enn er endurútreikningum gengislána ólokið og ekki hafa tekist samningar enn við lífeyrissjóðina um svonefnd lánsveð sem snerta drjúgan hóp fólks. Mér finnst einnig koma til greina að setja þak á verðtrygginguna ef um það getur náðst víðtæk sátt.&#160; </div> <div> <br /> </div> <h3>Lækkandi skuldir fyrirtækja</h3> <div> <span>Skuldir fyrirtækja nema nú 170 prósentum af landsframleiðslunni og samanlagt nema því skuldir þeirra og heimilanna nærri þrefaldri árlegri landsframleiðslu eða 280 prósentum.&#160;</span><br /> </div> <div> <br /> </div> <div> Samanlagt námu þessar skuldir liðlega fimmfaldri landsframleiðslu (510%) haustið 2008. Hér er því um ákaflega mikilsverðan viðsnúning að ræða enda viðurkennt að sligandi skuldir dragi úr eftirspurn og hagvexti. Í síðustu útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands er staðfest að skuldastaða heimila og fyrirtækja hafi lækkað um tvöfalda landsframleiðslu á einungis þremur árum. Afskriftir erlendra kröfuhafa gagnvart gömlu bönkunum eru ekki teknar með enda hefði lækkun skulda verið miklu meiri hefði verið tekið mið af þeim einnig. </div> <div> <br /> </div> <div> Fyrir ári voru bankarnir með ráðandi stöðu í um fjórðungi 120 stærstu fyrirtækjanna í landinu. Sem kröfuhafar og lánardrottnar réðu þeir nærri 70 prósentum þeirra árið 2009. Samkvæmt skýrslu Samkeppniseftirlitsins fóru innan við tíu prósent fyrirtækjanna í gegnum gjaldþrot eða nauðasamninga. Þetta er athyglisvert í ljósi þess hve fjárhagur þeirra var illa leikinn eftir hrunið. Við vitum vel að hér á landi ríkir fákeppni og samkeppni er ábótavant í þágu neytenda.&#160; </div> <div> <br /> </div> <div> Bankarnir urðu auðvitað að leggja mat á það hversu lífvænleg fyrirtækin væru þegar ákvarðanir voru teknar um líf þeirra, oft í óþökk keppinauta. Menn sýndu því skilning að þegar fyrirtæki voru lífvænleg og störf hundraða einstaklinga í húfi gátu miklar afskriftir verið réttlætanlegar. Þetta skilar sér þótt skuldsetning fyrirtækja sé almennt há enn þá.&#160; </div> <div> <br /> </div> <h3>Ríkissjóður einnig á réttri leið</h3> <div> <span>Rétt eins og heimilum og fyrirtækjum er lífsnauðsynlegt að stöðva skuldasöfnun og lækka skuldir eftir föngum þarf ríkissjóður einnig að gera slíkt hið sama. Það hefur gengið vonum framar um leið og tekist hefur að verja velferðina og halda uppi atvinnustiginu og þrátt fyrir að ríkið taki nú minna til sín af þjóðarkökunni en fyrir hrun. Árið 2008 nam halli ríkissjóðs 216 milljörðum króna. Árið 2011 var hann kominn niður í 46 milljarða og 21 milljarð króna árið 2012.&#160;</span><br /> </div> <div> <br /> </div> <div> Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að hann verði innan við fjóra milljarða króna. Engin ríkisstjórn hefur náð viðlíka árangri í aðlögun ríkisfjármála á svo skömmum tíma. Vegna þessa árangurs fara skuldir ríkissjóðs nú loksins lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu þótt háar séu og vaxtagjöld mikil. Lyktir Icesave-málsins eru einnig mikið gleðiefni fyrir þjóðina í þessu sambandi. Það endurspeglar einnig batnandi hag að skuldatryggingaálag Íslands lækkar jafnt og þétt og er nú hið allra lægsta frá hruninu. </div> <div> <br /> </div> <div> (Greinin birtist í <a href="http://visir.is/jafnadarstjorn-i-fjogur-ar--ur-skuldafjotrum/article/2013702029995">Fréttablaðinu</a> 2. febrúar 2013) </div> <div> <br /> </div>

2013-01-30 00:00:0030. janúar 2013Jafnaðarstjórn í fjögur ár: Jöfnuður og bætt lífskjör

<p>Jöfnuður og samfélagsleg ábyrgð eru pólitísk grundvallargildi. Það sama á við um markaðsfrelsi og trúna á að markaðurinn leysi öll helstu þjóðfélagslegu vandamálin. Við erum reynslunni ríkari um það hvert óheft og áhættusækin markaðshyggja getur leitt okkur.<br /> Í öllu uppbyggingar- og endurreisnarstarfi liðinna fjögurra ára hafa stjórnarflokkarnir lagt ríka áherslu á það hlutverk ríkisvaldsins að vernda mannréttindi og öryggi borgaranna og stuðla að félagslegu réttlæti, ekki síst til að auka jöfnuð.<br /> <br /> Fjöldi athugana sýnir að aukinn jöfnuður og betri lífskjör og lífsgæði haldast í hendur. Þess vegna er sú vegferð samfélagsumbóta, sem fyrsta meirihlutastjórn jafnaðarmanna og félagshyggjufólks stendur nú fyrir, afar merkileg.<br /> Breski fræðimaðurinn R. Wilkinson segir enda að ójöfnuður hafi verstu áhrifin á þá sem eru í tekjulægsta hópi samfélagsins, en aukinn jöfnuður feli einnig í sér ávinninga fyrir þá sem mest hafa handa á milli. Aukinn efnahagslegur jöfnuður færi öllum betri lífskjör.<br /> <br /> </p> <p><strong>Aukinn jöfnuður</strong><br /> Undir forystu jafnaðarstjórnar Samfylkingar og VG undanfarin fjögur ár hafa orðið gagnger umskipti í þessum efnum. Komið var böndum á ójöfnuðinn sem grafið hafði um sig á löngum valdaferli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Á innan við tíu árum hafði hlutur hinna ríkustu í heildartekjum þjóðarinnar aukist úr fjórum til fimm prósentum í um tuttugu prósent. Á sama tíma minnkaði skattbyrði þessa hóps stig af stigi en skattbyrði annarra jókst að sama skapi. Þessi stefna framkallaði á einum áratug meiri stéttskiptingu á Íslandi en við höfðum áður séð.<br /> </p> <p>Með margvíslegum aðgerðum hefur dregið svo mjög úr ójöfnuði að nú er hann með því minnsta sem gerist í heiminum. Ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu er um helmingi minni nú en árið 2007 þegar hann varð mestur. Á svonefndum GINI-kvarða varð ójöfnuður skattskyldra tekna heil 0,43 stig skömmu fyrir hrun en er nú kominn niður í um 0,23 (því meira sem talan nálgast 0 því meiri er jöfnuðurinn.)<br /> <br /> <strong>Sanngjarnari og minni skattar</strong><br /> Margir undrast að á sama tíma og jöfnuður eykst hér á landi dregur úr skattheimtu sem hlutfalli af landsframleiðslu. Ísland er í 16. sæti meðal 30 landa ESB og EFTA sem nýleg gögn Eurostat um skattbyrði ná til. Nærri 36 prósent landsframleiðslunnar renna nú til hins opinbera í formi tekjuskatts, virðisaukaskatts og launatengdra gjalda. Þetta hlutfall var yfir 40% árið 2007. Í hópi Norðurlandanna mælist skattbyrðin minnst hér á landi og nær allar viðskiptaþjóðir okkar í Evrópu innheimta meiri skatta sem hlutfall af landsframleiðslu en gert er hér á landi.<br /> Þrátt fyrir minnkandi hlutfall skatta hefur ríkisstjórnin varið stærri hluta ríkisútgjalda til velferðarmála og aukins jöfnuðar. Yfir 100 milljörðum króna hefur verið varið í barnabætur og vaxtabætur á kjörtímabilinu. Þá hafa íbúðaeigendur fengið um 35% vaxtakostnaðar vegna húsnæðislána endurgreiddan úr ríkissjóði og var þetta hlutfall næstum tvöfaldað á liðnum tveimur árum. Sé litið til tekjulægstu 10% heimila árið 2010 þá niðurgreiddi ríkið næstum því helming alls vaxtakostnaðar þess hóps.<br /> <br /> <strong>Réttlæti og minni fátækt</strong><br /> Alþjóðleg samanburðargögn sýna einnig að fátækt meðal barna er hvergi minni en hér á landi og hið sama á við um hættuna á fátækt og félagslegri einangrun landsmanna og fjölda þeirra undir lágtekjumörkum. Hvergi í Evrópu er staðan betri að þessu leyti.<br /> Ástæðu þessa má ekki síst rekja til þess hvernig stjórnvöld kappkostuðu að hlífa eins og kostur var þeim samfélagshópum sem lakast stóðu og færa byrðarnar sem mest á breiðari bökin.<br /> Samkvæmt skýrslu Þjóðmálastofnunar HÍ tókst þetta bærilega. Meðalrýrnun ráðstöfunartekna fjölskyldna árin 2008-2010 var um 20% en hjá lágtekjufólki rýrnuðu kjörin um 9%. Hjá millitekjufólki var kjaraskerðingin um 14% en hjá hátekjufólki um 38%.<br /> <br /> Það er ánægjulegt til þess að vita að þrátt fyrir skelfilegar afleiðingar hrunsins eru Íslendingar nú með allra ánægðustu þjóðum með líf sitt. Samkvæmt könnun sem Eurobarometer birti í desember síðastliðnum líta þeir nánustu framtíð bjartari augum í efnahagslegu tilliti en aðrar Evrópuþjóðir. Enn er þó margt ógert.</p> <p><em>(Jóhanna Sigurðardóttir - Fréttablaðið 30. jan. 2013)</em><br /> <br /> </p>

2013-01-27 00:00:0027. janúar 2013Jafnaðarstjórn í fjögur ár: Uppbygging atvinnulífsins

<div> Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og VG tók við stjórn landsins fyrir hartnær fjórum árum voru atvinnumálin þegar sett í forgang. Þörfin var enda brýn, eftir fordæmalaust hrun í íslensku hagkerfi þar sem 15-20 þúsund störf töpuðust. Síðan þá hefur atvinnuleysi minnkað um helming og hefur atvinnulausum fækkað um meira en 10.000. Nú eru fleiri starfandi konur en voru fyrir hrun og er atvinnuþátttaka á Íslandi ein sú mesta í heimi. </div> <div> </div> <h3>Atvinnuvegafjárfesting á uppleið</h3> <div> <span>Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand um allan heim hefur hagvöxtur verið viðvarandi á Íslandi undanfarin rúm tvö ár og það umtalsvert hærri en í flestum okkar helstu samanburðarlöndum.&nbsp;</span></div> <div> </div> <div> Fjárfesting í hagkerfinu er nú um 15% af landsframleiðslu en sameiginlegt markmið aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda hefur verið um 20% og þangað eigum við að sjálfsögðu að stefna. Það er ánægjulegt að atvinnuvegafjárfestingin er á uppleið og nálgast nú 30 ára meðaltal. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér.&nbsp; </div> <div> </div> <h3>Fjárfest fyrir um 200 milljarða</h3> <div> <span>Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir margvíslegum atvinnuskapandi verkefnum á kjörtímabilinu, bæði almennum og sértækum. Þúsundir starfa hafa þannig skapast hjá iðnaðarmönnum á grundvelli átaksins „Allir vinna" og á grundvelli laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga hafa þegar verið undirritaðir stórir fjárfestingarsamningar. Samtals er þar um 1.300 ársverk að tefla og samanlagt nema fjárfestingarnar í öllum verkefnunum 180 til 200 milljörðum króna.&nbsp;</span></div> <div> </div> <h3>Orkuöflun og skapandi greinar</h3> <div> <span>Stækkun álversins í Straumsvík skiptir einnig miklu máli en nú er auk þess unnið að framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun og stækkun Kárahnjúkavirkjunar með framkvæmdum við Sauðárveitu. Landsvirkjun hefur einnig unnið að ýmsum undirbúningsverkefnum vegna fyrirhugaðra virkjana í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum en í kjölfar alþjóðlegs útboðs var gerður 2,9 milljarða kr. samningur um ráðgjöf við hönnun og gerð útboðsgagna. Þá eru fjölmörg önnur fjárfestingarverkefni í vinnslu eða þegar hafin, s.s. við gagnaver, fiskeldi, kísilver og önnur mannfrek verkefni. Lög um endurgreiðslu skatta vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar hafa einnig reynst okkur vel og stuðlað að vexti fjölmargra fyrirtækja, ekki síst sprotafyrirtækja í hugbúnaðargeiranum.</span></div> <div> </div> <h3>Þúsundir nýrra starfa</h3> <div> <span>Á þessu ári verður yfir 10 milljörðum varið til sérstakra fjárfestingarverkefna samkvæmt fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Áætlunin á að örva hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi sem styðst við hugvit og nýsköpun, en á þremur árum má reikna með að hún skapi allt að 4.000 bein störf og enn fleiri óbein. Fjárfestingaráætlunin er liður í nýrri sókn eftir efnahagshrunið og er ætlað að treysta innviði og vöxt samfélagsins, ekki síst skapandi greinar í gegnum Kvikmyndasjóð og Verkefnasjóð skapandi greina og græna hagkerfið. Grænn fjárfestingarsjóður verður settur á fót með hálfum milljarði úr að spila á þessu ári og 1,3 milljarðar króna fara í stærstu opinberu rannsóknasjóðina, sem er um tvöföldun á fyrri framlögum.&nbsp;</span></div> <div> </div> <h3>500 milljónir í uppbyggingu</h3> <div> <span>Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt á kjörtímabilinu en hún aflar mikilvægs gjaldeyris og skapar fjölda starfa. Um fimmtungi fleiri ferðamenn komu til landsins í fyrra en árið áður, ekki síst vegna árangursríks markaðsstarfs ferðaþjónustunnar og stjórnvalda undir yfirskriftinni „Inspired by Iceland“. Samkvæmt fjárfestingaráætluninni mun hálfur milljarður renna í uppbyggingu ferðamannastaða á þessu ári og á grundvelli hennar verður einnig unnt að hefja framkvæmdir við Norðfjarðargöng á árinu. Þá hefur verið undirritaður 8,7 milljarða króna lánasamningur vegna framkvæmdar við jarðgöng undir Vaðlaheiði. Nýverið var enn fremur samþykkt að verja 400 milljónum króna í sóknaráætlanir sem skiptast milli átta landshluta.</span></div> <div> </div> <h3>Fleiri flytja til landsins</h3> <div> <span>Atvinnumálin eru og hafa verið forgangsmál þessarar ríkisstjórnar. Árangurinn sjáum við í viðvarandi hagvexti, fjölgun starfa, lækkun atvinnuleysis og bættum hag launafólks. Í síðustu viku birtist enn einn ánægjulegur vitnisburður þess að við séum farin að sjá til lands. Í fyrsta sinn frá hruni er fjöldi þeirra sem flytjast til landsins mun meiri en þeirra sem flytja frá landinu og í fyrsta sinn frá hruni fluttu fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því. Má telja það meðal ánægjulegustu merkja um bata íslenska hagkerfisins og aukna bjartsýni enda eru hagvaxtarhorfur betri hér á landi en víðast hvar í hinum vestræna heimi.</span></div>

2013-01-24 00:00:0024. janúar 2013Sóknaráætlanir landshluta - Ábyrgð og völd til landshluta

<p>Markmiðið með sóknaráætlunum landshluta er að færa aukin völd og aukna ábyrgð til landshlutanna við forgangsröðun og skiptingu almannafjár til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Tilgangurinn er að ná fram betri nýtingu fjármuna og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna. Landshlutarnir átta skila allir sóknaráætlunum um miðjan febrúar. Stofnað hefur verið til samráðsvettvangs á hverju svæði þar sem saman koma fulltrúar sveitarstjórna og hagsmunaaðila, undir forystu stjórnar landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þarna er vettvangur til að móta framtíðarsýn og stefnu og forgangsraða markmiðum og verkefnum.</p> <p>Í fyrstu verða verkefni á víðu sviði atvinnumála og nýsköpunar, markaðsmála og mennta- og menningarmála fjármögnuð í gegnum sóknaráætlun. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að aðrir þættir byggðamála s.s. velferðarmál og þróun innviða, falli undir sama verklag.</p> <p>Sóknaráætlanir landshluta er sameiginlegt þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga og byggir á samvinnu. Ráðuneytin skipa öll fulltrúa í hóp sem myndar stýrinet af hálfu Stjórnarráðsins. Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að stýrinetinu. Á milli þess og landshlutasamtaka sveitarfélaga er samskiptaás sem sóknaráætlanirnar og samskiptin fylgja. Með þessum hætti er tryggð góð samvinna stjórnsýslustiganna tveggja. Þetta verklag er&nbsp; nýsköpun í íslenskri stjórnsýslu og vinnur Stjórnarráðið sem ein heild með einn málaflokk, byggðamál.</p> <h3>Ný aðferð við skiptingu fjár</h3> <p>Í dag renna um 5,7 milljarðar króna milli ríkis og sveitarfélaga samkvæmt 192 samningum. Að mestu er þetta fé í formi styrkja og samninga til einstakra verkefna.<br /> Það er skýr vilji stjórnvalda að reyna nýtt verklag til þess að einfalda þessi samskipti og í því skyni hefur ríkisstjórnin samþykkt að setja 400 milljónir króna í sóknaráætlanaverkefni árið 2013 sem skiptast á milli landshlutanna átta eftir gagnsæjum viðmiðum. Hugmyndin er svo að færa hluta þess fjár sem bundið er samningunum 192 í þennan nýja farveg.</p> <p>Árið 2013 er reynsluár þar sem hverjum landshluta er falið að ákveða, á grundvelli sóknaráætlana, hvernig 400 milljónum króna verður varið. Því er það formið sjálft frekar en fjármagnið sem þarf að standast prófið þetta árið. Fjárupphæðin er þó engu að síður mikilvæg, en með því gefst gott tækifæri til að reyna verklagið.&nbsp;</p> <p>Til lengri tíma litið er markmiðið að fjármunir sem Alþingi ráðstafar af fjárlögum til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnumála og byggða- og samfélagsþróunar byggi á svæðisbundnum áherslum og markmiðum sem koma fram í sóknaráætlunum landshlutans. Þá er framtíðarsýnin sú að sóknaráætlanir verði hafðar til hliðsjónar þegar kemur að stefnumótun og áætlanagerð ríkisins og hafi gagnvirk áhrif á fjárlagagerð.</p> <h3>Ögrandi viðfangsefni</h3> <p>Til að ná settu markmiði, að færa aukin völd og aukna ábyrgð til heimamanna í hverjum landshluta, þarf að koma til breytt verklag stefnumótunar og áætlanagerðar, bæði í landshlutunum sjálfum og innan Stjórnarráðsins. Við sjáum nú þegar talsverðan árangur hvað þetta varðar með skipan stýrinets Stjórnarráðsins og samráðsvettvanga í hverjum landshluta. Við sjáum einnig bætta og markvissari nýtingu fjármuna með aukinni aðkomu og bættu samráði heimamanna.</p> <p>Sóknaráætlanir landshluta fara vel af stað en það er ljóst að verkefnið er ögrandi bæði fyrir ríki og sveitarfélög og reynir á samvinnu innan landshlutanna og milli þeirra og ríkisins. Það er mín trú að ef vel tekst til með sóknaráætlanir og þetta nýja skipulag hafi verið stigið eitt stærsta skref sem stigið hefur verið í byggðamálum síðustu áratugi.</p> <p>Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra</p>

2013-01-22 00:00:0022. janúar 2013Jafnaðarstjórn í fjögur ár: Sigrar í jafnréttismálum

<p>Hugsjónin um jafnrétti kynjanna er einn af hornsteinum ríkisstjórnarinnar. Til að tryggja að jafnréttismálin séu jafnan til umræðu í breiðum hópi ráðherra úr báðum stjórnarflokkunum er starfrækt sérstök ráðherranefnd um jafnrétti kynjanna undir forystu forsætisráðherra. Aldrei áður hefur jafnréttismálum verið gert jafn hátt undir höfði af nokkurri ríkisstjórn hér á landi. Einstök frammistaða Íslands á þessu sviði — og vaxandi árangur ár frá ári — hefur verið staðfestur af fjöldamörgum alþjóðastofnunum. Þeirra þekktust er Alþjóða efnahagsráðið sem hefur skipað Íslandi fjögur ár í röð í efsta sæti í mælingum sínum á jafnrétti í heiminum.</p> <h3>Fallnir múrar – brotin glerþök</h3> <p>Jafnrétti kynjanna snýst ekki bara um lagabókstaf og formleg réttindi heldur ekki síður um hvort konur eigi jafnan aðgang að völdum og hafi jöfn áhrif á mótun samfélagsins. Þar höfum við þurft að fella múra og rjúfa glerþök. Í fyrsta skipti í Íslandssögunni gerðist það á þessu kjörtímabili að hlutur kynjanna í ráðherraembættum varð jafn og í fyrsta skipti gegna konur embættum fjármálaráðherra og forsætisráðherra.<br /> Með lagabreytingum á árinu 2010 var konum ruddur vegurinn að stórauknum hlut í stjórnum hlutafélaga og lífeyrissjóða með lögum um 40% kynjakvóta sem taka gildi í september á þessu ári. Áhrifa þessarar lagabreytingar er þegar farið að gæta og konum í fararbroddi í atvinnulífinu fer fjölgandi. Núverandi ríkisstjórn er sú fyrsta í sögunni sem nær lögbundnum hlut kynjanna í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda.</p> <h3>Launamunur kynjanna</h3> <p>Þó dregið hafi úr launamun kynjanna á kjörtímabilinu er þar mikið verk óunnið. Búið er að taka á kynbundnum launamun í öllum ráðuneytum og nýlega var samþykkt ítarleg framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna sem inniheldur enn fleiri róttækar aðgerðir á sviði launajafnréttis. Starfandi er aðgerðahópur á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem samræmir aðgerðir í þeim efnum og vinnur að innleiðingu jafnlaunastaðals sem nú er tilbúinn, en unnið hefur verið að á undanförnum árum.</p> <h3>Ný sókn er hafin</h3> <p>Með skýrri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar var staðinn vörður um almannaþjónustuna og atvinnu kvenna og nú er það efnahagslega svigrúm sem skapast hefur nýtt til nýrrar sóknar m.a. til að hækka aftur fæðingarorlofsgreiðslur, barnabætur og lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Þá hafa styrkveitingar hafist að nýju úr Jafnréttissjóði, sem var tímabundið lagður til hliðar í kjölfar kreppunnar.</p> <h3>Gegn kynbundnu ofbeldi</h3> <p>Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi hefur frá fyrsta degi verið á forgangslista ríkisstjórnarinnar. Unnið hefur verið eftir fyrstu aðgerðaáætlun Íslands gegn mansali, alþjóðlegir samningar gegn mansali og gegn kynferðislegri misnotkun á börnum hafa verið fullgiltir og Evrópuráðssamningur gegn kynbundnu ofbeldi undirritaður af Íslands hálfu. Ákvæði sem heimila brottflutning ofbeldismanna af heimili, hin svokallaða austurríska leið, hafa verið leidd í lög. Kaup á vændi hafa verið gerð refsiverð og nektarstaðir bannaðir. Stutt hefur verið fjárhagslega við aðgerðir grasrótarsamtaka, s.s. stofnun Kristínarhúss og kaup Kvennaathvarfs á stærra húsnæði og á þremur árum verður 57 milljónum króna varið til vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Þá eru aðeins fáeinir dagar síðan ríkisstjórnin setti á fót samráðshóp til þess að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.<br /> <br /> Þannig vinnast sigrarnir í jafnréttismálum, hver á fætur öðrum, undir forystu okkar jafnaðarmanna.</p>

2013-01-16 00:00:0016. janúar 2013Sigur náttúru og þjóðar

<p>Eftir áralangar deilur samþykkti Alþingi rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Afgreiðsla þessa máls markar tímamót og mun tryggja fagleg vinnubrögð við undirbúning virkjanaframkvæmda og sporna gegn því að í framtíðinni verði viðkvæmum og verðmætum náttúrusvæðum fórnað á altari skyndigróða eða sérhagsmuna einstakra stóriðjuvera. Handahófskenndar ákvarðanir í virkjunarmálum án tillits til verndarsjónarmiða ættu nú að heyra sögunni til. Náttúran fær nú að njóta vafans og margar náttúruperlur Íslands settar í verndarflokk í þessari lotu.<br /> <br /> <strong>Stuðlar að aukinni sátt</strong><br /> Rammaáætlunin felur í sér skynsamlega og faglega aðferð við að ákveða hvaða svæði óhætt sé að virkja. Hún er þannig verkfæri í höndum okkar. Allt byggist á þeirri hugsun að það sem virkjað er í dag verður ekki verndað síðar. Í öðru lagi fá komandi kynslóðir tækifæri til að taka sínar ákvarðanir um náttúruna í krafti sjálfbærrar stefnu nútímans. Þriðji hornsteinn rammaáætlunarinnar er svo vitanlega sá að ef upplýsingar og rannsóknir skortir er hægt að setja umdeilda valkosti í biðflokk þar til öllum skilyrðum um faglegar rannsóknir og mat liggja fyrir. &nbsp;<br /> Athyglisvert er að deilurnar um rammaáætlun á Alþingi stóðu aðeins um 6 kosti af alls 67 í öllum þremur flokkunum; verndarflokki, biðflokki og orkunýtingarflokki. Þeir rötuðu í biðflokkinn meðal annars af þeirri ástæðu að margar rökstuddar efasemdir bárust þegar einstaklingum, hagsmunafélögum og fyrirtækjum gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ekki er við því að búast að allir verði á eitt sáttir um niðurstöðuna þegar yfir lýkur frekar en oft áður þegar umhverfisáhrif hafa verið metin og niðurstaða fæst. En við erum komin skrefinu lengra en áður við að meta kostina á faglegan hátt og stíga varlega til jarðar þegar náttúran á í hlut. Norðmenn hafa verið okkur fyrirmynd í þessu efni og reynsla þeirra er góð.<br /> Það er einnig skynsamlegt að bíða átekta og hafa rammaáætlunina í heiðri meðan allt að 100 megavött af raforku eru óseld miðað við núverandi framleiðslugetu orkufyrirtækjanna. Einnig má líta til þess að þau hafa næg verkefni að minnsta kosti næstu 5 til 6 árin.<br /> <br /> <strong>Stór áfangi á langri leið</strong><br /> Samþykkt rammaáætlunarinnar er mér sérstakt ánægjuefni, enda hef ég lengi fylgst með tilurð hennar. Þegar „Fagra Ísland“, umhverfisstefna Samfylkingarinnar, var samþykkt árið 2006 höfðu drög að henni verið í mótun allt frá ráðherratíð Össurar Skarphéðinssonar sem umhverfisráðherra á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Ferlinu var svo haldið til streitu í stjórnartíð Samfylkingarinnar eftir alþingiskosningarnar 2007.&nbsp;<br /> Leikreglur rammaáætlunarinnar, sem sprottið hafa upp af erfiðum pólitískum deilum um vernd og orkunýtingu landsvæða, verða nú leiðarljós okkar allra. Ég segi allra þótt 21 þingmaður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi verið andvígir þeim 36 þingmönnum sem studdu rammaáætlunina. Enda væri það mikið glámskyggni að kasta á glæ þeirri miklu vinnu sem lagt hefur grundvöllinn að henni og þar með stuðlað að andrúmslofti sáttar og samvinnu um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þótt í átökum síðustu missera hafi ekki allir á stjórnarheimilinu verið á eitt sáttir um kosti í atvinnu- og virkjunarmálum hefur meginsjónarmiðum stefnuyfirlýsingar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna verið framfylgt.<br /> <br /> <strong>Ábyrgð og breytt hagkerfi</strong><br /> „Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnahags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna,“ segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.<br /> Þessi stefna hefur svo verið undirstrikuð með fjárstuðningi við nýjar lausnir, aukin framlög til rannsókna- og tæknisjóða og fjárstuðningi sem ætlað er að örva grænar lausnir í atvinnulífinu og hraða þróuninni í átt til hagsældar á grunni aukinnar fjölbreytni.<br /> Það gefur því auga leið að samþykkt rammaáætlunar er eitt af mikilvægustu málunum sem núverandi ríkisstjórn hefur hrundið í framkvæmd. Ég óska landsmönnum til hamingju með það stóra skef inn í framtíðina sem rammaáætlunin markar.&nbsp;</p> <p>(Birt í <strong>DV</strong> 16. janúar 2013)</p> <p> <br /> <br /> </p>

2012-12-31 00:00:0031. desember 2012Framtíð án frjálshyggju

<p>Mikill árangur hefur verið af uppbyggingarstarfinu eftir hrun. Enn er þó verk að vinna, enn þarf að byggja upp og treysta innviðina, velferðina og byggðina í landinu. Við verðum að losa okkur úr álögum gjaldeyrishaftanna, ljúka uppgjöri fallinna fjármálastofnana og ná samstöðu um framtíðargjaldmiðil þjóðarinnar. Við megum ekki þrengja kosti okkar með óbilgjarnri einangrunarhyggju. Auknar fjárfestingar byggja ekki síst á alþjóðlegu samstarfi.</p> <p>Reglulega berast fréttir frá erlendum fjölmiðlum sem taka eftir árangrinum og stofnanir á borð við OECD og Norðurlandaráð færa þennan margvíslega árangur til bókar með samanburði á helstu hagvísum þjóðanna. Fréttirnar endurspegla þverrandi fjárlagahalla, stöðugan hagvöxt, minnkandi atvinnuleysi, aukinn kaupmátt, minnkandi skuldir, minni ójöfnuð og aukið lánshæfi.</p> <p>Fólki verður líka æ ljósara að róttæk frjálshyggja leiðir til ójafnaðar líkt og gerðist á löngum stjórnarferli Sjálfstæðisflokksins.&nbsp; Afgerandi viðsnúningur varð eftir að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG tók við stjórnartaumunum og nú er Íslandi í hópi þeirra landa í Evrópu þar sem ójöfnuðurinn er hvað minnstur.</p> <p>Þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum hafði ójöfnuður og stéttaskipting í samfélaginu aukist til muna enda gekk þeirra pólitíska stefna út á það leynt og ljóst. Þetta hefur gjörbreyst. Séu fjármagnstekjur taldar með hefur ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu minnkað um tæpan helming frá árinu 2007.</p> <p>Sjálfstæðismenn tala með lítilsvirðingu um aðgerðir til að draga úr ójöfnuði, heimta skattalækkanir fyrir þá sem hafa rúmt handa á milli og tala fyrir einkavæðingu líkt og áður. Þeir voru helstu talsmenn frjálshyggju fram að hruni og eru það enn. &nbsp;</p> <h3>Lærum af reynslunni</h3> <p>Snemma í nóvember samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Mikilvægt er að sú rannsókn fari fram enda er talið að þar liggi rætur bankahrunsins að verulegu leyti.&nbsp; Sjálfstæðisflokkurinn barðist gegn rannsókninni enda virðist hann ekkert hafa lært og einskis iðrast, þó blasir það við að hrunið og afleiðingar þess eru skilgetin arfleifð stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins – ekki síst þess tímabils þegar núverandi ritstjóri Morgunblaðsins stýrði málum í Stjórnarráði Íslands og Seðlabankanum.</p> <p>Á síðasta heila ári Sjálfstæðisflokksins við völd varð 216 milljarðar króna halli á ríkissjóði en á næsta ári verður hallinn tæpir fjórir milljarðar. Samanlagður halli ríkissjóðs vegna stjórnleysis Sjálfstæðisflokksins er yfir 540 milljarða króna og kostnaður ríkisins við gjaldþrot Seðlabankans undir forystu sjálfstæðismanna um 270 milljarðar króna. Samanlagt&nbsp; hljóðar þessi reikningur Sjálfstæðisflokksins uppá rúmlega 1,6 milljónir&nbsp; króna á hvern Íslending. Á vakt sjálfstæðismanna hrundi auk þess 90% af fjármálamarkaðinum, verðbólga fór upp í tæp 19% og gengi krónunnar féll um 50%. Eftir að ríkisstjórn mín tók við hefur viðsnúningurinn verið afgerandi. Núna er hagvöxtur á Íslandi meiri en víðast annars staðar í Evrópu og verðbólgan ekki fjórðungur af því sem áður var. &nbsp;</p> <p>Óstjórn sjálfstæðismanna í fjármálum bitnar ekki aðeins á ríkissjóði heldur einnig almenningi beint. Kaupmáttur heimila hrundi.&nbsp; Sé tímabilið 2008-2010 borið saman við 2009-2011 sést að ráðstöfunartekjur hafa hækkað meira en neysluútgjöld og ríkið tekur nú minna til sín af þjóðarkökunni en í tíð Sjálfstæðisflokksins og ver stærri hluta hennar til velferðarmála. Um 60% allra heimila eru með lægri eða sömu skattbyrði og þau voru með fyrir hrun. Í tíð Sjálfstæðisflokksins jókst hins vegar skattbyrði almennings til muna. Á árinu 2011 voru skattar á Norðurlöndum lægstir á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu.</p> <h3>Goðsögnin og hagstjórnin</h3> <p>Skuldir heimila og fyrirtækja jukust einnig vegna óstjórnar sjálfstæðismanna en nú hafa þær lækkað sem nemur um tvöfaldri landsframleiðslu á einungis þremur árum. Rétt rúmlega 200 milljarðar króna hafa verið afskrifaðar af lánum heimilanna og niðurgreiðsla ríkisins á vaxtakostnaði heimilanna hefur verið meira en tvöfölduð. Á síðasta ári stóðu vaxtabætur undir um 35% vaxtakostnaðar vegna húsnæðislána og hjá tekjulægstu 10% heimila nálægt 45%.</p> <p>Hagvaxtarhorfur hér á landi eru bjartari en meðal annarra iðnvæddra ríkja. Hagvöxtur hefur verið mestur hér á landi undanfarin tvö ár meðal þróaðra OECD-ríkja. Það er góður árangur sem ástæða er til að gleðjast yfir.</p> <p>Goðsögnin um ráðdeild sjálfstæðismanna í hagstjórn ætti því að vera endanlega dauð. Staðreyndirnar sýna svart á hvítu að það skiptir miklu máli fyrir Íslendinga hvort sjálfstæðismenn eða jafnaðarmenn eru við stjórnvölinn.</p> <h3>Auðlindir í eigu þjóðar</h3> <p>Undanfarin ár hefur sjávarútvegurinn notið gengisfalls krónunnar eins og aðrar útflutningsgreinar og árleg framlegð greinarinnar&nbsp; verið 70 til 75 milljarðar króna undanfarin tvö ár. Af þessari miklu framlegð í greininni á veiðigjaldið að skila landsmönnum allt að 13 milljörðum króna á næsta ári. Almenningur nýtur því loksins arðs af auðlind sinni en mikilvægt er að ná fram enn frekari breytingum á stjórn fiskveiða sem tryggja betur nýliðun og jafnræði í greininni.</p> <p>Með sérstakri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er þeim vilja lýst að þennan arð skuli nota að umtalsverðu leyti til að teysta innviði samfélagsins og örva nýsköpun í atvinnulífinu með tvöföldun á framlagi í vísinda og tæknisjóði ásamt því að veita umtalsverðu fjármagni í skapandi greinar og græna atvinnusköpun. Þannig er hafin ný sókn fjölbreyttara og sterkara atvinnulífs, sem tryggir betur atvinnumöguleika í framtíðinni, ekki síst unga fólksins.</p> <p>Vísbendingar sýna að hugverkaiðnaðurinn skilar nú þjóðarbúinu 20% af gjaldeyristekjum þess og vöxtur í þessum greinum hafi verið umfram hagkerfið í heild.</p> <p>Í byrjun næsta árs verður lögfest á Alþingi rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Samþykkt hennar felur í sér breytt vinnubrögð þar sem pólitískt handafl stjórnvalda heyrir sögunni til, en viðskiptaleg og umhverfisvæn sjónarmið ráða ferðinni.</p> <h3>Hvað varð um kjarkinn?</h3> <p>Það hefur ætíð verið sannfæring mín að rík aðkoma fólksins í landinu sé forsenda þess að unnt verði að ná fram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Tillögu þar að lútandi lagði ég fyrir Alþingi þegar árið 1994.&nbsp; Í tíð núverandi ríkisstjórnar&nbsp; mótaði Alþingi loks aðferðir sem miðuðu að þessu. Þær voru metnaðarfullar og þinginu til sóma.</p> <p>Nú liggur fyrir heildstæð tillaga um breytta stjórnarskrá. Og þá er líkt og eitthvert kjarkleysi grípi um sig í herbúðum stjórnarandstöðunnar og ekki laust við að örli á vantrausti í garð kjósenda eða þeirra sem kjósendur og þing völdu til verka. Sama virðist eiga við um aðildarumsóknina að ESB. Þar leggur stjórnarandstaðan allt kapp á að koma í veg fyrir að þjóðin hafi síðasta orðið um fullbúinn samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.</p> <p>Við verðum að hafa kjark til þess að horfast í augu við okkur sjálf og marka okkur leið inn í framtíðina. Það fer best á því að þjóðin hafi sjálf síðasta orðið um þessi mikilvægu mál, hvort heldur það snýr að stjórnskipan landsins eða sambúðinni við mikilvægustu viðskiptalönd okkar og Evrópu alla.</p> <p>Ég óska landsmönnum öllum gæfu og góðs gengis á komandi ári.</p> <p>&nbsp;</p> <p>Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra</p>

2012-12-31 00:00:0031. desember 2012Uppbygging kjarkmikillar þjóðar

<p>Undanfarin fjögur ár hafa verið einn viðburðaríkasti tími hagsögu Íslands. Þjóðin hefur gengið í gegnum miklar hremmingar. Hrunið á fjármálamarkaði er fordæmalaust og sögulegt á margvíslegan hátt. Verkefni þessarar ríkisstjórnar var því ærið. Því er ekki lokið en það er langt komið. Allir Íslendingar hafa þurft að færa fórnir en alþjóðlegir, hlutlausir aðilar hafa borið lof á árangur Íslands í kjölfar hrunsins og flestir ef ekki allir hagvísar sýna svart á hvítu að við erum á réttri leið.</p> <p>Eftir að botni kreppunnar var náð árið 2010 hafa ráðstöfunartekjur heimila hækkað, eignastaðan batnað og um 60% allra heimila eru með lægri eða sömu skattbyrði og þau voru með fyrir hrun. Í samræmi við forsendur kjarasamninga hækkaði kaupmáttur heimilanna bæði árið 2011 og 2012. Það er forgangsmál ríkisstjórnarinnar að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu og frið á vinnumarkaði. Þar er þróun gengis og verðlags lykilatriði.</p> <p>Ný skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar staðfestir að eftir að ríkisstjórn mín tók við hefur tekist að draga verulega úr verðhækkunum. Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og VG tók við var verðbólgan 18,6% en er nú 4,2%. Í skýrslunni segir berum orðum að á Norðurlöndum sé matarkarfan ódýrust á Íslandi og í Finnlandi. Skýrslan sýnir einnig að á Norðurlöndunum eru skattar sem hlutfall af landsframleiðslu lægstir á Íslandi.</p> <h3>Ráðdeild og réttlæti</h3> <p>Skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað sem nemur um tvöfaldri landsframleiðslu á þremur árum og er það ótrúlegur viðsnúningur. Rétt rúmlega 200 milljarðar króna hafa verið afskrifaðar af lánum heimila og sem hlutfall af landsframleiðslu eru skuldir þeirra nú svipaðar og í upphafi eignarbólunnar árið 2004. Eignastaða heimilanna batnaði um tæp 17% á milli áranna 2010 og 2011 og sú þróun hefur haldið áfram. Skuldastaða heimilanna er nú svipuð og hún var mitt árið 2007.</p> <p>Hrunið neyddi ríkissjóð til þess að ráðast í 300 milljarða króna aðlögun ríkisfjármálanna að raunveruleikanum. Þrátt fyrir það hafa skattar&#160; verið lækkaðir og útgjöld til velferðarmála verið aukin sem hlutfall af landsframleiðslu. Ríkið tekur því minna til sín af þjóðarkökunni og forgangsraðar velferðarmálunum með skýrari hætti en tíðkaðist í tíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Stjórnarráðinu.</p> <h3>Auknar fjárfestingar</h3> <p>Fjárfesting atvinnuveganna hefur tekið við sér og spáð er að innan tveggja ára nálgist hún meðaltal síðustu þrjátíu ára. Sömuleiðis er gleðilegt að viðskiptajöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð hefur að undanförnu verið einn sá mesti í áratugi.</p> <p>Ríkisstjórnin kynnti nýverið metnaðarfulla fjárfestingaráætlun sem gerir ráð fyrir yfir um 40 milljarða fjárfestingu í innviðum samfélagsins. Milljörðum króna er varið í græna hagkerfið, tvöföldun framlaga til rannsóknasjóða,&#160; sóknaráætlanir landshluta, eflingu ferðaþjónustunnar, samgöngubóta og eflingu skapandi greina s.s. í gegnum Kvikmyndasjóð og Verkefnasjóð skapandi greina. Við höfum ákveðið að veðja á hugvit íslensku þjóðarinnar og erum sannfærð um að það sé besta leiðin til framtíðar.</p> <p>Fjármögnun fjárfestingaráætlunarinnar byggir ekki síst á því að með lögfestingu veiðigjaldsins á árinu 2012 njóta landsmenn nú loks sanngjarnra tekna af fiskveiðiauðlindinni.&#160; Áætlað er að nýja veiðigjaldið muni skila landsmönnum allt að 15 milljörðum króna á því ári sem nú gengur í garð. Mikilvægt er að ná fram enn frekari umbótum á stjórn fiskveiða m.a. til að tryggja betur jafnræði og nýliðun í greininni.</p> <p>Miklu skiptir að hér á landi sé öflug gjaldeyrissköpun en í því sambandi má benda á að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað um 100 þúsund eða um rétt liðlega 19% fyrstu ellefu mánuði ársins frá sama tíma í fyrra.&#160; Þar gætir tvímælalaust áhrifa sameiginlegs markaðsátaks stjórnvalda og ferðaþjónustunnar.</p> <h3>Kjarkur og ögrandi ákvarðanir</h3> <p>Á liðnu kjörtímabili&#160; hefur Ísland stutt fullveldiskröfur Palestínu og kröfur um að rödd Palestínumanna fái að heyrast meðal þjóðanna svo eftir hefur verið tekið. Með stuðningi Íslands og tuga annarra ríkja var markverðum áfanga náð í nóvember þegar Palestína varð áheyrnarríki Sameinuðu þjóðanna.</p> <p>Merkar tilraunir okkar til að skrifa nýja stjórnarskrá í nánum tengslum við þjóðina sjálfa hafa vakið athygli utan landsteinanna. Eftir áratuga þóf sýndi Alþingi kjark, tók af skarið og setti málið í hendur fólksins í landinu. Þegar það tekur endanlega afstöðu til tillagna að breyttri stjórnarskrá verður til þess tekið að efnisleg meðferð og allur undirbúningur nýrrar stjórnarskrár var ekki aðeins í höndum sérfræðinga heldur einnig í höndum kjósenda og einstaklinga sem þeir völdu til verksins.</p> <p>Einnig er fylgst með aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu í skugga gjaldeyrishafta sem við ein búum við í allri álfunni. Verkefnið er stórt og ögrandi og íslenskir stjórnmálamenn verða að hafa kjark til þess að bera lokaniðurstöðuna undir þjóðina sjálfa. Það er einlægur ásetningur stjórnarflokkanna að standa við þau fyrirheit að þjóðin hafi síðasta orðið í þessum mikilsverðu málum sem setja munu mark sitt á framtíðina.<br /> </p> <p><br /> </p> <p>Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra</p>

2012-12-31 00:00:0031. desember 2012Áramótaávarp forsætisráðherra 2012

<div class="single-news__big-image"><figure><a href="/media/forsaetisraduneyti-media/media/frettir1/aramotaavarp2012.jpg"><img src="/media/forsaetisraduneyti-media/media/frettir1/aramotaavarp2012.jpg?proc=singleNewsItem" alt="Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra flytur áramótaávarp" class="media-object" /></a><figcaption>Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra flytur áramótaávarp</figcaption></figure></div> <p>Góðir landsmenn!<br /> Við þessi áramót, í lok kjörtímabilsins, er mér efst í huga þakklæti til þjóðarinnar, þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem lagt hafa mikið af mörkum og hönd á plóg við þá endurreisn íslensks samfélags, sem staðið hefur allt þetta kjörtímabil og reynst&nbsp; mörgum sár og erfið.</p> <p>Þjóðin hefur á þessum tíma sýnt styrk sinn og elju og hefur vaxið við hverja raun og ekki fallist hendur, þó á brattan hafi verið að sækja og um grýttan veg að fara.</p> <p>Nú, þegar mestu efnahagserfiðleikarnir eru að baki, getum við litið bærilega sátt um öxl og horft nokkuð bjartsýn fram á veginn.</p> <p>Í farteskinu höfum við nú dýrmæta reynslu og veganesti sem við getum byggt á til framtíðar og skapað hér betra og réttlátara þjóðfélag.</p> <p>Við erum á margan hátt ríkari nú en fyrir hrun, því margir hafa nýtt þennan umbrotatíma til að endurmeta hin samfélagslegu gildi og hvað það er sem skiptir máli í lífinu.</p> <p>Börnin okkar, fjölskyldan, dýrmætar samverustundir með okkar nánustu, sem ekki er unnt að treysta á að forsjónin gefi okkur&nbsp; tíma til að sinna á morgun.&nbsp; Náungakærleikur og virðing fyrir mannréttindum&nbsp; eiga að&nbsp; vera grunngildi hvers samfélags.</p> <p>Ég tel að árangur erfiðis okkar á síðustu fjórum árum megi m.a. sjá í að gildi jöfnuðar, mannúðar og samfélagslegrar ábyrgðar vega þyngra en áður. Krafan um traust, heiðarlegt og siðað samfélag, þar sem meira fjárhagslegt jafnræði og félagslegt réttlæti ríkir hefur fengið aukinn þunga. &nbsp;</p> <p>Þó sumum finnist á stundum að firringin frá 2007 sé aftur farin að skjóta upp kollinum er það mikilsverður árangur, að slík ógn við heiðarleg og sanngjörn samfélagsleg gildi á erfiðara uppdráttar og mun færri bandamenn en á árunum fyrir hrun. &nbsp;</p> <p>Það er ósk mín og von&nbsp; að&nbsp; á nýju ári&nbsp; berum við gæfu til að hafa að leiðarljósi gildin um jöfnuð, heiðarleika og samfélagslega ábyrgð, sem við þurfum svo sárlega á að halda nú þegar við mótum þjóðfélag okkar á komandi árum.</p> <p>Góðir landsmenn.<br /> Danski greiningaraðilinn, sem sá hrunið fyrir og varaði okkur við, vakti nýlega máls á því að líklega væri eitt helsta afrek Íslands að hér hefði þjóðin tekist á við afleiðingar hrunsins án stórkostlegra uppþota, verkfalla og átaka, sem í flestum öðrum löndum hefði verið raunin.</p> <p>Þetta vakti sérstaka athygli mína, enda hefur það almennt verið upplifun okkar Íslendinga að allt frá hruni hafi samfélagið einkennst af hörðum átökum og heift.</p> <p>Sannarlega er sú upplifun á rökum reist og ekki síst á vettvangi stjórnmálanna hefur verið tekist harðar á með orð að vopni en ég hef áður kynnst á mínum langa stjórnmálaferli. Hið sama má segja um suma fjölmiðla, jafnt netmiðla sem aðra.</p> <p>En líklega hefur danski sérfræðingurinn mikið til síns máls.</p> <p>Staðreyndin er sú að allt frá hruni hefur ríkt nánast fullkominn friður á vinnumarkaði, sömu flokkar hafa stjórnað landinu án pólitískra kollsteypa og óeirðir eða uppþot hafa engin orðið að því er heitið getur, eftir að núverandi ríkisstjórn tók við.</p> <p>Umræður hafa verið harkalegar, óvægnar og stormasamar á köflum, en það sýnir ótrúlegan styrk og yfirvegun þjóðarinnar, að við höfum þrátt fyrir allt mætt þeim áföllum sem rekja má til hrunsins af æðruleysi.</p> <p>Sannarlega hafa þó margir liðið vegna hrunsins og óánægjan verið mikil, en þau miklu og eðlilegu hagsmunaátök sem átt hafa sér stað hafa góðu heilli að mestu fundið sér farveg í samfélagslegri og pólitískri umræðu.</p> <p>Eins og danski sérfræðingurinn bendir réttilega á, þá eigum við Íslendingar að vera stolt af þessu afreki okkar, þó við séum ekki endilega fyllilega ánægð með stöðuna. Í þessu liggur að mínu viti ein af ástæðum þess að okkur hefur vegnað eins vel við uppbygginguna og raun ber vitni.</p> <p>Rétt eins og þegar við glímum við&nbsp; náttúruöflin, eldgos, óveður, jarðskjálfta og flóð,þá bitum við á jaxlinn og tókumst á við þessa miklu erfiðleika með óbilandi þrautseigju og kjarki.</p> <p>En muna menn hvernig staðan var í upphafi kjörtímabilsins, kæru landsmenn?</p> <p>Þjóðargjaldþrot virtist blasa við og mikil ólga, reiði og óvissa ríkti í samfélaginu. Fjármálaleg samskipti við útlönd voru í algeru frosti, fjármálakerfið var hrunið, halli ríkissjóðs var 216 milljarðar,&nbsp; spáð var 10-15% atvinnuleysi, verðbólgan var 18,6%, gengið hafði fallið um 50%.</p> <p>Stór hluti fyrirtækja og heimila landsins var tæknilega gjaldþrota vegna stökkbreyttra lána og fordæmalauss tekjutaps.</p> <p>Nú, fjórum árum síðar, hillir undir sjálfbæran ríkisrekstur, lok einhverrar umfangsmestu skuldaaðlögunar heimila og fyrirtækja sem sögur fara af og stöðugur hagvöxtur hefur mælst í rúm tvö ár.</p> <p>Eignastaða heimilanna hefur batnað um tæp 17% á milli áranna 2010 og 2011.</p> <p>Skuldir heimila og fyrirtækja hafa nú lækkað sem nemur um tvöfaldri landsframleiðslu á einungis þremur árum.</p> <p>Rúmlega 200 milljarðar króna af lánum heimila hafa verið afskrifaðar og niðurgreiðsla ríkisins á vaxtakostnaði þeirra hefur verið meira en tvöfölduð.</p> <p>Í rúm tvö ár hefur kaupmáttur heimila vaxið og ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu minnkað um helming frá árinu 2007.</p> <p>Hagur fyrirtækja er einnig að batna, atvinnuleysi hefur dregist saman um helming, störfum er farið að fjölga, atvinnuvegafjárfesting vex og vanskil og gjaldþrot fyrirtækja dragast hratt saman.</p> <p>Ekkert bendir til annars en að þessi góða þróun haldi áfram á komandi árum, verði rétt á málum haldið.</p> <p>Þó opinber umræða gefi ef til vill ekki tilefni til jákvæðni eða almennrar ánægju þá benda opinberar hagtölur, mat erlendra greiningaraðila og mælingar á raunverulegri líðan landsmanna allar til hins sama – hagur heimilanna batnar jafnt og þétt.</p> <p>Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD, Evrópusambandið og fjölmargir erlendir greiningaraðilar hafa lokið lofsorði á árangur uppbyggingarstarfsins og hægt og bítandi er Ísland að ávinna sér traust á alþjóðamörkuðum á nýjan leik.</p> <p>Lífskjarasóknin hér á landi er einnig kröftugri en í flestum löndum sem við helst berum okkur saman við.</p> <p>Hagvöxtur hefur á liðnum tveimur árum verið einna mestur hér á landi meðal þróaðra OECD-ríkja.</p> <p>Atvinnuleysi er minna hér en víðast annars staðar.</p> <p>Atvinnuþátttaka hér er með því mesta sem gerist&nbsp; í heiminum.</p> <p>Skattar sem hlutfall af landsframleiðslu eru lægstir á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.</p> <p>Góðir landsmenn.<br /> Vegna þrautseigju, æðruleysis og vinnusemi þjóðarinnar hefur okkur auðnast ótrúlega vel að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Við höfum alla burði til að verða í fremstu röð þjóða heims hvað lífskjör, umhverfisgæði og mannréttindi varðar.</p> <p>Það veltur mest á okkur sjálfum hvernig til tekst. En við verðum að vita hvert við viljum stefna – hvernig samfélag við viljum byggja upp á okkar gjöfula landi.</p> <p>Þar höfum við einnig lagt mikið af mörkum á liðnu kjörtímabili og mér er til efs að eins ítarlega hafi verið unnið í framtíðarstefnumótun fyrir land og þjóð og gert hefur verið á liðnu kjörtímabili.</p> <p>Ég nefni stefnumörkun um stórauknar erlendar fjárfestingar, í auðlindamálum, um vernd og nýtingu náttúrusvæða, um græna hagkerfið, um málefni Norðurslóða, um aðgerðir í loftslagsmálum og um langtímamarkmið í&nbsp; ríkisfjármálum og efnahagsmálum.</p> <p>Síðast en ekki síst nefni ég fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2015 sem markar nýja sýn stjórnvalda í atvinnumálum. Þar er á fimmta tug milljarða varið í stórfellda uppbyggingu á innviðum samfélagsins og vaxtarbrodda atvinnulífsins.</p> <p>Í nýsamþykktum fjárlögum eru stigin fyrstu skrefin á þeirri vegferð með tvöföldun framlaga til rannsókna og nýsköpunar, stórefldum framlögum til grænnar atvinnusköpunar, sóknaráætlana landshluta, skapandi greina, kvikmyndaiðnaðar og ferðaþjónustu.</p> <p>Þessi mikilvægu skref er m.a. mögulegt að stíga nú með tilkomu veiðigjalds sem nýtist í þágu þjóðarinnar allrar. Kappkosta þarf að ná fram enn frekari breytingum á stjórn fiskveiða til þess að tryggja betur sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar.</p> <p>Á þessu ári hófum við viðamikla vinnu til að meta stöðu Íslands&nbsp; og sóknarfæri til framtíðar. Sú vinna hefur nú verið þróuð áfram&nbsp; með aðkomu allra stjórnmálaflokka ásamt aðilum vinnumarkaðarins, háskólasamfélaginu og fulltrúum viðskiptalífsins. &nbsp;</p> <p>Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey, sem nýlega kynnti skýrslu um&nbsp; tækifæri&nbsp; hér á landi til að ýta undir vöxt og framtíðarstyrk hagkerfisins, kemur að þessu verkefni.</p> <p>Sérstaklega verður fjallað um drifkrafta á almennum markaði, vaxtarsprota í alþjóðlegu samhengi, vernd og nýtingu auðlinda og&nbsp; öfluga opinbera þjónustu.</p> <p>Góðir Íslendingar.<br /> Á liðnu hausti gafst okkur, kjósendum í þessu landi, á ný tækifæri til beinnar aðkomu að mótun nýrra grundvallarreglna fyrir landið okkar, þegar tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og tengd álitaefni voru borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.</p> <p>Niðurstöður voru afgerandi. Þjóðin kallar eftir breytingum á grunnreglum samfélagsins. Málið er nú í höndum Alþingis og ábyrgð þess gagnvart almenningi er mikil.</p> <p>Það er einlæg von mín að alþingismönnum auðnist nú að ná saman um breytingar á stjórnskipan landsins fyrir komandi alþingiskosningar.</p> <p>Framundan er einnig tími mikilvægra ákvarðana á vinnumarkaði, en endurskoðunarákvæði kjarasamninga eru opin nú í janúar. Gríðarlega miklu máli skiptir að samningalotan sem framundan er verði nýtt til að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn fyrir launafólk.</p> <p>Slík lífskjarasókn landsmanna byggir á áframhaldandi friði á vinnumarkaði og sátt um bætt kjör þeirra sem lakast standa.</p> <p>Þar þurfa menn að mínu mati að horfa sérstaklega til láglaunastétta og fjölmennra kvennastétta og endurmeta störf þeirra. Vonandi náum við líka árangri með því átaki sem stjórnvöld eru að ráðast í til að vinna gegn launamun kynjanna, í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og vinnumarkaðinn.</p> <p>Allir aðilar vinnumarkaðarins þurfa að koma að borðinu í þessum efnum – ríkið, sveitarfélögin, launþegahreyfingin og atvinnurekendur á almennum markaði. Allir þessir aðilar bera ríka ábyrgð á að tryggja hér áframhaldandi frið á vinnumarkaði og áframhaldandi lífskjarasókn.</p> <p>Góðir landsmenn.<br /> Það er í mörgu tilliti ástæða til að líta björtum augum til næsta árs.</p> <p>Við getum verið þakklát fyrir svo ótal margt, ekki síst fyrir það að vera friðsöm þjóð sem hefur verið svo lánsöm að vera laus við vopnaburð, átök stríðandi fylkinga og mannskæða atburði, sem því miður hafa verið of algengir víða um heim á árinu sem er að líða.</p> <p>Vissulega eiga ýmsir um sárt að binda hér á landi af ýmsum ástæðum og hugur okkar hefur verið hjá þeim nú yfir hátíðarnar. Öll þjóðin hefur fylgst með áhrifum veðursins undanfarna daga, ekki síst á Vestfjörðum, þar sem margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín yfir hátíðarnar vegna snjóflóðahættu. Mikill viðbúnaður hefur verið og björgunarsveitarfólk og starfsmenn almannavarna eiga heiður skilinn</p> <p>Góðir Íslendingar.<br /> Það er von mín og trú að við munum á næstu árum halda áfram að byggja hér upp samfélag samhjálpar og jöfnuðar, samfélag þar sem allir hafa tækifæri en ekki bara sumir, samfélag sem byggir upp þjónustu við þá sem minna mega sín.</p> <p>Það eru forréttindi að búa við menntakerfi og heilbrigðiskerfi sem er aðgengilegt öllum.</p> <p>Það eru forréttindi að tilheyra þjóð, sem ber virðingu fyrir mannréttindum og virðir ólík viðhorf mismunandi hópa samfélagsins.</p> <p>Það eru forréttindi að tilheyra þjóð sem er fremst í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna.</p> <p>Slíkri þjóð eru allir vegir færir.</p> <p>Ég óska ykkur farsældar á nýju ári og þakka fyrir samfylgd á krefjandi tímum.</p>

2012-12-18 00:00:0018. desember 2012Mörg tækifæri í sjónmáli

<p>Ríkisstjórninni er stundum legið á hálsi fyrir að sinna illa atvinnumálum og atvinnuuppbyggingu. Gagnrýnin kemur oftast frá þeim sem í sömu andrá krefjast lækkunar skatta og niðurskurðar ríkisumsvifa. Þegar gengið er eftir því hverju skuli fórnað verður stundum fátt um svör. Síst af öllu vilja menn draga úr velferðarþjónustu og menntun.</p> <p>En stjórnvöld hafa ríkum skyldum að gegna varðandi innviði alla og umgjörð atvinnulífs hvarvetna á landinu. Það getur verið pólitískt vandasamt að vega saman lífsgæði og jöfnun búsetuskilyrða og vandaða meðferð skattteknanna.</p> <p>Engum blöðum er um það að fletta að Norðausturkjördæmið mun á næstu misserum njóta ávaxta af undirbúningi ýmissa verkefna sem mörg hver hafa þó tafist m.a. vegna þeirrar óvissu sem alþjóðleg fjármálakreppa hefur bakað fjárfestum.</p> <p>Uppbygging atvinnulífs helst í hendur við góðar samgöngur. Fyrir skemmstu undirritaði Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, lánasamning vegna Vaðlaheiðarganga. Samningurinn heimilar ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast 8,7 milljarða króna lántöku vegna framkvæmdanna með samþykki Ríkisábyrgðarsjóðs.</p> <p>Í eystri hluta kjördæmisins er hafinn undirbúningur að Norðfjarðargöngum, langþráðri samgöngubót, sem fjármögnuð verður að miklu leyti með tekjum af sérstöku veiðigjaldi.&nbsp; Forval er nú afstaðið og ráðgert er að bjóða verkið út í upphafi næsta árs, eftir nokkrar vikur.</p> <h3>Sókn er besta vörnin</h3> <p>Á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að 400 milljónum króna verði varið til sóknaráætlana landshlutanna. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt skiptingu fjárins og forsendur skiptingarinnar. Tæplega 51 milljón króna kemur í hlut Norðurlands eystra og liðlega 35 milljónir króna í hlut Austurlands. Samtals rennur liðlega fimmtungur heildarupphæðarinnar því til Norðausturkjördæmisins.</p> <p>Sóknaráætlanir landshlutanna er merkileg tilraun sem unnið hefur verið að í meira en tvö ár í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.&nbsp; Þær byggjast á því að hver landshluti velji fulltrúa úr sveitarstjórnum, atvinnuþróunarfélögum og frá fleiri stofnunum í héraði sem mynda samráðsvettvang. Þannig ætti að verða til skilvirk eining sem kemur fram fyrir hönd landshlutans gagnvart stjórnarráðinu.&nbsp; Mótsvarandi samráðshóp (stýrinet) er síðan að finna innan stjórnarráðsins sem vinnur þvert á ráðuneytin.&nbsp; Hér skal tekið fram að ríkisvaldið hefur ekki í hyggju að koma með einhverjum hætti að ákvörðunum um það hvernig auknum fjármunum sóknaráætlana verður varið í framtíðinni. Það verður í höndum heimamanna undir því skipulagi sem samist hefur um.</p> <h3>Orkunýting og fjölbreyttara atvinnulíf</h3> <p>Tækifæri Norðausturlands leynast víða. Norðmenn hafa nú ákveðið að taka þátt í leit að olíu og rannsóknum milli Íslands og Jan Mayen. Þátttaka þeirra gerir rannsóknir á Drekasvæðinu eftirsóknarverðari og dregur athygli olíufélaga að Íslandi sem fýsilegum kosti til rannsókna og eftir atvikum vinnslu olíu í framtíðinni. Sú ákvörðun norska ríkisolíufélagsins Petoro að eiga fjórðungshlut í tveimur útgefnum leyfum til leitar og rannsókna undirstrikar trú Norðmanna á verkefninu. Viðbúið er að aukinna umsvifa vegna þessa taki að gæta á næstu misserum á norðaustanverðu landinu.</p> <p>Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytni í atvinnulífinu eins og vel kemur fram í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Einmitt það sjónarmið ræður því einnig að erlendum og innlendum fyrirtækjum var gefinn kostur á að gera áætlanir um kísilmálmframleiðslu&nbsp; við Húsavík, þeirra á meðal Thorsil og PCC. En þótt slík framleiðsla sé ekki eins stór í sniðum og álver á Bakka skapar hún hundruð starfa á framkvæmdatíma og vel á annað hundrað störf til frambúðar. Ótalin er þá orkuöflunin við Þeistareyki og í Bjarnarflagi en virkjunarkostnaður þar verður vart minni en 40 milljarðar króna og eru verklok áætluð 2014 á báðum virkjunarstöðunum.</p> <p>Við förum vitanlega að öllu með gát gagnvart náttúrunni. Rammaáætlunin um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem ég vonast til þess að unnt verði að afgreiða frá Alþingi á næstu vikum, ber vott um þá aðgát sem verður að hafa í umgengni okkar um náttúruauðlindirnar.</p> <h3>Skapandi greinar og ferðaþjónusta</h3> <p>Það er einnig sjálfsagt að halda því til haga að skapandi greinar og ferðaþjónustan hafa aukna tekjumöguleika yfir lengri tíma ársins en áður á Norðausturlandi. Gerð erlendra kvikmynda og sjónvarpsþátta hafa að hluta til farið fram í landshlutanum, jafnt sumar sem vetur, eins og sannaðist nú nýverið.&nbsp; Þessi umsvif hafa veitt fjölda manns tímabundna vinnu og skapað tekjur fyrir ýmis þjónustufyrirtæki heima í héraði.&nbsp; Áhugi erlendra kvikmyndafyrirtækja á landinu er m.a. til kominn vegna endurgreiðslu á 20% kostnaðar sem til fellur hér á landi. Skilyrði endurgreiðslu er að kvikmyndin eða sjónvarpsefnið sé til þess fallið að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru og stuðli að aukinni þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem standa að framleiðslunni.</p> <p>Það er augljóst að dreifbýli býr mannlífinu ekki sömu skilyrði og í þéttbýli. Það þarf þó ekki að þýða að skilyrðin séu lakari ef t.d. grunnþættir velferðarþjónustu og stoðir heilsugæslunnar eru í lagi. Fjölbreytni lífshátta er jafnvel æskileg. Meginatriðið nú er að bæta lífsgæðin og lífskjörin þannig að sóst verði eftir því að búa hér á landi&nbsp; hvort heldur í dreifbýli eða þéttbýli.</p> <p>Í heildina mega nærri 40 þúsund íbúar Norðausturkjördæmisins bærilega vel við una enda eru margvísleg og ögrandi tækifæri í sjónmáli.</p> <p>Ég óska íbúum á Norðausturlandi gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.</p>

2012-12-12 00:00:0012. desember 2012Ísland er ódýrast Norðurlanda

<p>Síðastliðinn mánudag fjallaði Ríkissjónvarpið um skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Fréttin var um að verðlag hefði hækkað meira hér á landi árin 2005-2011 en í hinum norrænu ríkjunum. Fréttin gaf að mörgu leyti villandi mynd af inntaki skýrslunnar þar sem ekki var fjallað um tvö lykilatriði hennar.<br /> <br /> Hið fyrra er sú staðreynd að langstærsti hluti hækkunarinnar varð vegna hrunsins og átti sér stað á árabilinu 2007-2009. Þá hækkaði verð á þeirri vöru og þjónustu sem könnunin nær til um 26%. Meginskýringin er sú að á þessu tímabili hrundi gjaldmiðill okkar og allur innflutningur og aðföng urðu miklu dýrari. Skýrslan sýnir svart á hvítu hversu kostnaðarsamt það er fyrir almenning í landinu að búa við krónuna eins og Samfylkingin hefur lengi bent á. Gengi gjaldmiðilsins hrundi ekki hjá hinum norrænu ríkjunum.<br /> <br /> Á valdatíma ríkisstjórnarinnar 2009 til 2011 sést að hækkunin er langtum minni eða um 9,6%. Aftur endurspegla þessar verðhækkanir að miklu leyti verðbólguna sem krónan skapar með óstöðugleika sínum. En hið ánægjulega er að eftir að ríkisstjórn mín tók við hefur tekist að draga verulega úr verðhækkunum.<br /> <br /> Seinna atriðið sem ekki er fjallað um í fréttinni er veigameira og breytir í raun algerlega þeirri mynd sem dregin var upp. Í skýrslunni er ágætlega fjallað um það hvernig bera eigi saman verð í mismunandi löndum. Sagt er skýrum stöfum að það eigi að bera verð saman á svokölluðu jafnvirðisgengi sem er iðulega gert þegar lönd eru borin saman. Þá er tekið tillit til mismunandi kaupmáttar gjaldmiðilsins á hverjum stað.<br /> <br /> Í þessum samanburði er sérstaklega tekið fram í skýrslunni að Ísland sé „ódýrast Norðurlandanna ásamt Finnum þegar kemur að matarkörfunni". Og sé litið til allrar vöru og þjónustu sem könnunin náði til er „Ísland ódýrast Norðurlandanna". Á þessar staðreyndir var ekki minnst einu orði í fréttinni.<br /> <br /> Að lokum vil ég minnast á enn aðra áhugaverða staðreynd sem kemur fram í þessari ágætu skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún er sú að á Norðurlöndunum eru skattar sem hlutfall af landsframleiðslu lægstir á Íslandi.<br /> </p>

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira