Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á fundi Sóknaráætlunar 20/20 á Hótel Sögu 28. janúar 2010

Kæru fundarmenn!

Við vitum það af reynslu að framtíðin verður sjaldnast eins og við hefðum vænst eða gert okkur í hugarlund, en jafn víst er að það sem við gerum, hugsum og tölum í dag hefur áhrif á komandi tíma. Þess vegna er það samtal mikilvægt sem hér mun eiga sér í stað milli fulltrúa hefðbundinna hagsmunaaðila og samtaka annars vegar og grasrótarhópa og einstaklinga hins vegar. Hér verður horft til framtíðar fyrir atvinnulíf og samfélag og leitast við að svara grundvallarspurningum um traust í samfélaginu, endurreisnina og uppbyggingu öflugs atvinnulífs í sátt við umhverfið og hver séu brýnustu verkefnin framundan. Ég vil þakka ykkur öllum sem fallist hafa á að verja tíma ykkar til þessa fundar.

Í mínum huga er enginn vafi á því að brýnustu verkefnin framundan eru að komast áfram með efnahagsáætlunina og ná jafnvægi í ríkisfjármálum eins og hún gerir ráð fyrir, framfylgja stöðugleikasáttmálanum, gera breytingar á lögum sem tryggja örugga fjármálastarfsemi og ná skýrum áföngum í uppgjöri við bankahrunið til þess að skapa grundvöll fyrir endurnýjuðu trausti í samskiptum – bæði innanlands og við aðrar þjóðir. Það reynir mikið á langlundargeð allra þegar endurteknar tafir verða á tímasettum verkefnum á þessum sviðum sem nauðsynlegt er að ljúka svo vel fari.

Samt hefur okkur orðið talsvert ágengt og þar vil ég nefna sérstaklega að bankarnir ættu nú að vera í stakk búnir til þess að endurskipuleggja fjárhag lífvænlegra fyrirtækja í landinu. Það skiptir og miklu máli upp á atvinnustigið í landinu að stór verkefni komist í gang í byggingageiranum vegna þess að hann hrundi þegar þenslunni lauk. Það er hins vegar eðli stórframkvæmda að þar er um flókin ferli að ræða sem við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum er þrautin þyngri að ráða fram úr. Öll þau verkefni sem fjallað er um í Stöðugleikasáttmálanum, hvort sem um er að ræða endurnýjun í Straumsvík, undirbúning álvers í Helguvík, gagnaver Verne Holding, nýjan Landsspítala og Samgöngumiðstöð og samgönguframkvæmdir þokast þó áfram en afar brýnt er þau nái fram að ganga. Með úrskurði umhverfisráðherra vegna Suðvesturlínu er enn einni óvissunni eytt í þessum efnum.

Í mörgum atvinnugreinum öðrum en byggingariðnaði er talsvert góður gangur meðal annars annars vegna lágs gengis sem haldið er stöðugu með gjaldeyrishöftum. Það er mörgum fyrirtækjum tækifæri til skamms tíma en er skammgóður vermir þegar fram í sækir og alveg óviðunandi að ætlast til þess að Íslendingar sætti sig við að verða að láglaunaþjóð.

Fram að þessu hefur okkur tekist að halda atvinnuleysi í lægri prósentu en spáð var og samdrætti efnahagslífs sömuleiðis. Þar eiga m. a. hlut að máli virkar vinnumarkaðsaðgerðir og heimild til þess að ráðstafa séreignarsparnaði sem hefur verið nýtt á þann veg að jafngildir þeirri innspýtingu í efnahagslífið sem mörg önnur ríki hafa gripið til beint úr sínum ríkiskössum.

Þá er það afar ánægjulegt að frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi er stunduð af miklum krafti um þessar mundir og nýsamþykkt lög um ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja ýta undir þá þróun. Ég tel að það stuðningskerfi við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem byggt hefur verið upp á undanförnum árum sé í meginatriðum á réttri braut. Það sýnir að enda þótt við höfum fylgt röngum leiðarljósum í banka- og fjármálastarfsemi á liðnum árum, og stefnan í peningamálum hafi beðið skipbrot, þá hefur einnig margt verið vel gert sem við eigum að hlúa að og halda ótrauð áfram með.

Eins og fram kom hjá Seðlabankanum í gær halda verðbólga og vextir áfram að lækka en um leið er ljóst að óvissa í efnahagsmálum hefur aukist vegna frestunar á því að leysa deiluna um bætur til innistæðueigenda útibúa Landsbankans erlendis. Vaxtalækkun nú hefði orðið mun meiri en 0,5% ef Icesave hefði verið afgreitt. Við erum að glata dýrmætum tíma og tafir á framkvæmd efnahagsáætlunar Íslands og AGS, frestun á áætlun um afnám gjaldeyrishafta og takmarkanir á aðgengi Íslands að alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum munu verða okkur afar dýrkeypt ef fram heldur sem horfir. Meðan efnahagslíf á heimsvísu er á leið upp úr öldudalnum eigum við á hættu að keyrast enn lengra niður í öldudalinn. Seðlabankinn varar við því að linni óvissunni ekki á næstu vikum séu horfur á því að fjárfesting taki seinna við sér og samdráttur landsframleiðslu og atvinnuleysi verði meiri en nú er spáð. Í þessu sambandi verður að muna að við eigum gífurlega mikið undir því að stýring á skuldum ríkisins takist vel á næstu árum og hægt verði að halda utanum skuldirnar á viðráðanlegum kjörum.

Góðir fundarmenn!

Ég vil í upphafi þessa fundar vekja athygli ykkar á því að sú vinna sem nú er að hefjast með margvíslegum fundahöldum um land allt sem liður í mótun Sóknaráætlunar 20/20 hefur verið vel undirbúin. Henni til grundvallar liggur stöðuskýrsla Félagsvísindastofunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þróun íslensks samfélags síðastliðin 20 ár. Á vegum iðnaðarráðuneytis og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hafa verið unnar svokallaðar sviðsmyndir sem nýttar verða við stefnumótunarvinnu samkvæmt aðferðarfræði sem nýtur viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi. Og hugmyndir vantar ekki því frá Þjóðfundi sem haldinn var í nóvember sl. í Laugardalshöll koma 12 þúsundir hugmyndir og þúsundir tillagna um aðgerðir sem safnast í sarp sóknaráætlunar.

Önnur grunnstoðin er hagræn greining til næsta áratugar, greining á samkeppnishæfni og mótun atvinnustefnu. Fimm hópar, skipaðir sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnsýslu og háskólaumhverfinu, munu rýna í mælingar og gera tillögur til umbóta hver á sínu sviði. Einnig hefur verið skipaður samráðshópur til þess að halda utan um vinnu við mótun atvinnustefnu. Honum ber m.a. að hafa víðtækt samráð við atvinnulífið og félags- og hagsmunasamtök. Sóknarfæri hefðbundinna atvinnuvega verða skoðuð en megináhersla verður á ný tækifæri til sóknar.

Þriðja grunnstoðin er samþætting opinberra áætlana, endurskipulagning opinberrar þjónustu og efling sveitarstjórnarstigsins sem miða að því að efla atvinnu, menntun og opinbera þjónustu. Þannig verði stuðlað að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana, þvert á ráðuneyti.

Sóknaráætlun verður lögð fyrir Alþingi í haust og nær til landsins í heild en jafnframt verða unnar sóknaráætlanir fyrir einstök landsvæði, þar sem landinu er skipt í átta svæði, sem hvert um sig stefni að sameiginlegum markmiðum til samfélagslegrar uppbyggingar.

Af framansögðu er ljóst að hér er um metnaðarfullt verkefni að ræða. Það felst ekki síst í því að hlusta með opnum huga á það sem fólkið í landinu vill segja og gera, og setja þann vilja fram í formi sóknaráætlunar.

Ég þakka ykkur á ný fyrir ykkar framlag og ég óska ykkur góðra stunda hér í dag!

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum