Hoppa yfir valmynd
31. desember 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Áramótaávarp forsætisráðherra 2009

Góðir Íslendingar

Senn kveðjum við ár sem seint mun líða okkur úr minni – ár viðbragða við stóráföllum ársins 2008, falli krónunnar og hruni bankanna.

Árið 2009 hefur meðal annars einkennst af mótmælum, stjórnarskiptum og kosningum til Alþingis og flestum hefur það verið ár sársaukafulls uppgjörs og endurmats. Samt sem áður reyndist það ekki að öllu leyti jafn slæmt og spáð var um síðustu áramót. Atvinnuleysi hefur til dæmis orðið minna en búist var við og samdráttur í efnahagslífinu sömuleiðis.

Árið 2009 var einnig ár mikilvægrar stefnumótunar á mörgum sviðum – ár breyttra viðhorfa og lífsgilda. Það er trú mín að þegar frá líður verði þess ekki síður minnst sem tímamótaárs í þróun þjóðfélagsmála á Íslandi en árs kreppu og efnahagserfiðleika. Ársins þegar við Íslendingar sýndum að við gefumst ekki upp þótt á móti blási.

Mótlæti er aldrei gleðiefni. Margir hafa orðið fyrir miklum áföllum vegna atvinnumissis, fjárhagslegra skakkafalla og rýrnandi kjara – og slíku fylgja þungbærar tilfinningar sem erfitt getur reynst að vinna úr. Kenndir á borð við sorg, kvíða, reiði og vonleysi hafa við þessar aðstæður brotist út í hörðum orðum og hvatvísum dómum.

En mótlætið hefur einnig fært okkur nær hvert öðru. Árið 2009 hafa verið unnin ótal afrek sprottin af samkennd með þeim sem eiga um sárt að binda og hjálparsamtök hafa létt undir með fólki sem ekki nær endum saman. Og inni á heimilum þorra landsmanna hafa gömul og góð gildi verið hafin til vegs og virðingar á ný. Gildi á borð við nýtni og nægjusemi.

Góðir Íslendingar. Oft er haft á orði að við eigum saman tunguna, landið og samfélagið. En höfum við gætt þessara fjöreggja sem skyldi á undanförnum árum?

Á litlum málsvæðum heyja menn baráttu við heimstungurnar. Þess vegna er íslenskan „baráttumál“. Íslensk tunga er og verður undirstaða menningar á Íslandi og skapar okkur sérstakan tilverurétt í samfélagi þjóðanna. Því megum við aldrei gleyma.

Landið okkar góða, loftslagið og náttúran, hafa mótað okkur sem þjóð og við erum bundin því römmum taugum. Einnig þeir sem nú flytjast búferlum frá Íslandi í atvinnuleit vegna torveldra tíma. Landið kallar á okkur öll, þótt á ólíkan hátt sé. Sumum er hugstæðust fegurð og hreinleiki náttúrunnar, aðrir beina sjónum sínum fremur að nýtingu auðlinda til lands og sjávar. En víst er að umgengni okkar um landið, ásamt hóflegri nýtingu gæða þess, verður sífellt mikilvægara viðfangsefni íslenskra stjórnmála.

Efnahagskreppan hefur beint sjónum fólks inn á við og fyrir marga er það nánast ný uppgötvun hversu gjöfult Ísland er. Í ljósi skorts á hreinu drykkjarvatni á stórum heimssvæðum getum við Íslendingar meðal annars verið þakklátir fyrir þá dýrmætu auðlind sem fólgin er í vatninu okkar.

Vatnsskortur er ein helsta orsök fátæktar og sjúkdóma í heiminum. Meira en milljarður manna býr við skort á þeirri lífsundirstöðu sem fólgin er í hreinu vatni og hálfur þriðji milljarður hefur ekki aðgang að vatni sér til hreinlætis. Hatrammar deilur eiga þegar í dag rætur í baráttu um aðgang að vatni – og því er spáð að stríðsátök nýhafinnar aldar muni fremur snúast um vatn en olíu.

Það ætti því að vera eitt af okkar brýnustu verkefnum að þessi ómetanlega auðlind, íslenska vatnið, verði skilgreind í stjórnarskránni sem almannaeign – engu síður en fiskurinn í sjónum. Og sem þjóð þurfum við að beina sjónum okkar að því hvernig við getum nýtt ferskvatnslindir Íslands í þágu heimsins.

Það á einnig að vera markmið okkar og framlag til loftslagsmála í heiminum að skipta út kolefnasamböndum í orkubúskap þjóðarinnar og reka tól okkar og tæki á innlendri, endurnýjanlegri orku. Þannig mættu Íslendingar olíukreppunni af framsýni á áttunda áratug síðustu aldar. Það varð upphafið að virkjun jarðgufu og jarðhitaleit í stórum stíl sem sparað hefur þjóðinni sem svarar einni þjóðarframleiðslu ellefta hvert ár. Tæknin færir okkur í hendur möguleika á að stefna að kolefnislausum orkubúskap á næstu áratugum. Vilji er allt sem þarf.

Allir vilja búa í góðu samfélagi. Það gerir okkur sterk að þroskast í nærandi samskiptum við annað fólk, en þeir sem upplifa afskiptaleysi í æsku, hvað þá andlegt eða líkamlegt ofbeldi, eiga fyrir höndum erfiða daga. Þess vegna þurfum við að efla umræðu um hvað einkennir uppbyggjandi þjóðfélag og hvernig fjölskyldur okkar, félög og fyrirtæki geti orðið góð samfélög.

Í opinberum samskiptum og viðskiptalífi er nauðsynlegt að geta treyst á náungann og stofnanir samfélagsins. Allir finna þegar slíkt traust er ekki lengur fyrir hendi – en hrun bankakerfisins olli einmitt slíku trúnaðarrofi.

Stjórnvöld einkavæddu bankana en megnuðu síðan ekki að hafa með þeim eftirlit eða gæta heildarhagsmuna landsmanna með stefnu sinni í efnahags- og peningamálum. Hinn mikilsverði þáttur – traustið – gufaði þar með upp á augabragði. En glatað trúnaðartraust öðlast menn ekki að nýju nema með því að sanna að þeir séu traustsins verðir, skref fyrir skref.

Íslendingum hefur ekki gengið sérlega vel að taka farsælar ákvarðanir á grunni samheldni og samvinnu. Umræður snúast fljótt upp í þrætur, við deilum um tölur og tökumst á um fullyrðingar en sýnum tómlæti þegar hugmyndir og gildi ber á góma. Þess vegna var Þjóðfundurinn í Laugardalshöll gott fordæmi. Þar var reynt að komast að því hvað sameinar okkur og hvaða sameiginlega veganesti við kjósum að hafa.

Áhugaleysi um hugmyndir getur beinlínis verið hættulegt. Hugmyndir eru máttugar, bæði til góðs og ills. Þær geta orðið hreyfiafl frelsis og framfara en þær geta líka fest okkur í spennitreyju kreddu og tísku.

Þannig hefur sú hugmynd leikið okkur grátt að gróði og arður til hluthafa sé helsta stýriafl og drifkraftur fyrirtækja. Kjarni hennar er að hámörkun gróða og arðs tryggi farsæld og velsæld betur en allt annað. Og við létum það viðgangast að stjórnvöld beygðu sig undir þessa hugmyndafræði og stæðu álengdar á meðan hún sprengdi öll eðlileg efnahagsviðmið og –ramma.

Það er hörmuleg niðurstaða hins lánadrifna og skammsýna ofurkapítalisma, sem Íslendingar reyndu sig við, að stóru burðarfyrirtækin í atvinnulífinu urðu hvað verst úti í bankahruninu. Af þeirri dýrkeyptu reynslu má læra margt og einkum þetta:

Ríkið verður að setja skorður við sérhyggju og markaðshyggju. Við endurreisnina á árinu 2010 skulum við krefjast ábyrgra fyrirtækja sem leggja rækt við það samfélag sem þau eru sprottin úr.

Blómlegt atvinnulíf er keppikefli okkar allra og atvinnustarfsemi þrífst ekki án áræðni, áhættu og ágóða. En þeir eigendur og stjórnendur sem skilgreina hlutverk fyrirtækja sinna þröngt og svífast einskis til að hámarka gróða sinn eru lítils virði þegar til lengdar lætur.

Í upphafi nýs árs mun rannsóknarnefnd Alþingis skila viðamikilli skýrslu um orsakir hrunsins á Íslandi. Nefndin hefur fengið dýpri innsýn í gangverk fjármálastofnana og stjórnkerfisins en nokkur hefur áður haft. Vonandi tekst henni að rekja orsakasamhengi og veita heildarsýn sem skýrir atburðarásina og sker úr um álitamál. Boðað hefur verið að skýrslan færi okkur slæm tíðindi. Þeim skulum við taka með opnum huga – af auðmýkt, æðruleysi og yfirvegun – og ekki sópa neinu undir teppi.

Það getur hent flesta að gerast brotlegir – en þá er lykilatriði hvernig menn bregðast við. Þá reynir á manndóm og þrautseigju. Vonandi berum við gæfu til að læra af reynslunni, endurskapa traust og byggja hér upp betra og réttlátara samfélag.

Gerum árið 2010 að ári uppgjörs, réttlætis og sátta!

Glíman við ríkisfjármálin verður erfið á næstu misserum. Saman munum við sigrast á þeim vanda – en fórnirnar sem færa þarf eru af þeirri stærðargráðu að lífskjör okkar kunna að færast í svipað horf og þau voru áður en allt fór úr böndunum í offjárfestingu og gífurlegri skuldsetningu. Gleymum þó ekki að lítil eftirsjá er að ýmsu sem einkenndi þjóðlífið á Íslandi í uppsveiflunni og gjarnan er kennt við árið 2007.

Eftir allsherjar eignagleði og eyðslu er komið að gráum hversdagsleika skuldadaganna sem bitnar jafnt á þeim, sem tóku þátt í dansinum kringum gullkálfinn og hinum sem eyddu ekki um efni fram. Nú skiptir höfuðmáli að fá aftur fast land undir fætur og ná öruggri viðspyrnu – horfur eru á því að umskipti til hins betra verði á miðju næsta ári.

Við skulum því á árinu 2010 hefja nýja sókn til sjálfbærra og stöðugra lífskjara.

Framundan á nýju ári eru viðamikil verkefni sem meðal annars snúast um að ákvarða stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og tryggja okkur efnahagslegt sjálfstæði í traustu öryggissamfélagi með þeim þjóðum sem standa okkur næst. Það er vilji þorra landsmanna að Íslendingar eigi opin og frjáls viðskipti og samskipti við aðrar þjóðir. Þannig hefur okkur ætíð vegnað best.

Um þessi áramót er við hæfi að við stígum á stokk og sammælumst um að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma landi og þjóð upp úr efnahagslægð og doða. Það væri stórkostlegt að geta minnst þess að tvö hundruð ár verða liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, árið 2011, í fullvissu um að framundan sé hagsæld og betri tímar.

Góðir Íslendingar!

Ég þakka ykkur fyrir samfylgd og samvinnu, fórnfýsi og þrautseigju á árinu sem er að líða og óska ykkur árs og friðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum