Hoppa yfir valmynd
04. apríl 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Verkin drifin áfram - grein forsætisráðherra 4. apríl

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs setti sér metnaðarfulla verkefnaáætlun þegar í upphafi starfs síns. Áætlunin var nefnd Endurreisn í þágu þjóðar. Nú er spurt hvað hafi áunnist og hvað ríkisstjórnin hafi gert. Lítum á stöðu mála.

Lýðræði, jöfnuður, upplýsingar

Rikisstjórnin vill auka lýðræði, jöfnuð og veita betri upplýsingar. Það hefur hún sýnt í verki allt frá upphafi síns ferils; reglulegir blaðamannafundir hafa verið haldnir og upplýsingagjöf á netinu hefur verið stóraukin. Dagskrár ríkisstjórnarfunda eru nú í fyrsta sinn birtar almenningi þegar að afloknum hverjum fundi. Ríkisstjórnin hefur sýnt að hún vill efla þátttöku almennings í stjórnmálalífinu í verki með því að leggja fram frumvarp um breytingar á stjórnarskrá sem meðal annars gerir ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál. Hið sama má segja um stjórnlagaþingið. Nái frumvarp um stjórnlagaþing fram að ganga mun stór hópur kvenna og karla sem að öllu jöfnu hefur ekki aðgang að ákvörðunum sem móta samfélagið nú öðlast þann aðgang og hafa raunverulega áhrif.

Endurreisn efnahagslífsins

Ríkisstjórnin hefur einsett sér að endurreisa íslenskt efnahagslíf og fá hjólin til að snúast að nýju eftir margra mánaða kyrrstöðu og ákvarðanafælni undir stjórn Sjálfstæðisflokksins sem stýrði ráðuneytum fjármála- og efnhagsmála. Ríkisstjórnin hefur sýnt kjark og dug til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Hún skipaði sérstaka framkvæmdanefnd um efnahagsstefnuna sem sér um að fylgja eftir hugmyndum og áformum, þannig að efndir fylgi orðum. Ríkisstjórnin er á réttri leið í þessum efnum, verðbólgan fer hríðlækkandi, vaxtalækkunarferlið er hafið og tiltrú erlendis á aðgerðir ríkisstjórnarinnar fer vaxandi. Í þeim efnum er þó enn gríðarlegt verk að vinna.

Endurskipulagning stjórnsýslunnar

Ríkisstjórnin hefur þegar hafist handa við þessa vinnu á kröftugan hátt. Skipt hefur verið um yfirstjórn í Seðlabanka Íslands og ráðið verður í stöður seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra eftir kosningar. Margir hæfir einstaklingar eru meðal umsækjenda. Skipt hefur verið um yfirstjórn í Fjármálaeftirlitinu. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur þegar tekið til starfa og unnið er að endurmati á reglum um skipan dómara. Allir ráðherrar hafa þegar gert grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum opinberlega og ríkisstjórnin hefur hrundið af stað vinnu við að móta siðareglur fyrir stjórnsýsluna.

Velferðin og heimilin varin

Ríkisstjórn Íslands er félagshyggjustjórn og treystir velferðarkerfið í sessi, þrátt fyrir þá erfiðleika sem við er að etja. Um það þarf enginn að efast. Ríkisstjórnin hefur afnumið dagdeildargjöld, afnumið innritunargjöld á sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir, sett á fót sérstaka öfluga velferðarvakt, lagt til hækkun á vaxtabótum um 25%, hafið útgreiðslu séreignarsparnaðar, frestað nauðungaruppboðum, innleitt greiðsluaðlögun sem tryggir aðlögun skulda að greiðslugetu einstaklinga, m.a. með niðurfellingu skulda og innleitt greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs hjá öllum fjármálafyrirtækjum á Íslandi. Öll heimili í vanda ættu nú að geta fundið úrræði við hæfi til að komast klakklaust yfir þær þrengingar sem þjóðin gengur nú í gegnum. Velferðarbrúin hefur verið byggð. Ríkisstjórnin hefur látið vinna fyrir sig sérstaka útttekt á vanda heimilanna í þeim tilgangi að hægt sé að miða aðgerðir til bjargar að þeim sem á aðstoð þurfa að halda.

Barist gegn atvinnuleysi

Menntamálin, sem eru tvímælalaust einn mikilverðasti hluti velferðarkerfins, hafa verið tekin föstum tökum, aðstoð við námsmenn hefur verið aukin og vinna er hafin við stefnumótun á sviði háskólamála og vísinda til að bregðast við breyttum aðstæðum. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að berjast gegn atvinnuleysi, greiddar bætur á móti hlutastarfi eða ýmsum verkefnum öðrum, atvinnuleysisbætur hafa verið hækkaðar og nú getur fólk stundað nám án þess að bætur skerðist. Allt er þetta gert til að styrkja fólk og efla sem misst hefur vinnu, þannig að það eigi auðvelt með að komast aftur á vinnumarkaðinn um leið og færi gefst.

Endurreisn atvinnulífsins

Ríkisstjórnin gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að fyrirtækin í landinu geti haldið áfram starfsemi sinni og áfram skapað störf fyrir allan almenning. Það er forgangsmál. Ríkisstjórnin vinnur nú eftir ítarlegri áætlun um að hér verði til á næstu mánuðum amk 6000 störf. Sérstök áhersla hefur verið lögð á tillögur sem bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og nú geta sprotafyrirtæki ráðið starfsmenn af atvinnleysisskrá án þess að þeir missi bætur. Fjármagn til þróunar og nýsköpunar hefur verið tryggt og athygli lánastofnana vakin á því hversu verðmætur stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki er. Skrifað hefur verið undir fjárfestingasamning vegna álvers í Helguvík sem áætlað er að skapi 2.500 störf á bygggingartíma. Ríkisstjórnin hefur einnig gripið til aðgerða sem styðja beint við fyrirtæki í fullum rekstri, til að mynda með lögum um greiðsluaðlögun sem mjög hafa verið lofuð af hálfu samtaka í atvinnulífi.

Endurreisn banka- og fjármálakerfisins

Ríkisstjórnin hefur látið hendur standa fram úr ermum í bankamálunum eftir kyrrstöðu undir stjórn Sjálfstæðismanna. Sérstök endurreisnarnefnd hefur verið starfrækt um nokkra hríð undir stjórn erlends bankasérfræðings. Starfsáætlun hennar var kynnt opinberlega eftir að hún var samþykkt af ríkisstjórn. Alþjóðlegir ráðgjafar vinna nú að því að meta eignir bankanna, breskir sérfræðingar hafa verið kallaðir til, til að verja hagsmuni almennings við uppgjör milli nýju og gömlu bankanna og lagt hefur verið fram frumvarp um stofnun sérstaks eignarhaldsfélags á vegum ríkisins sem leyst getur til sín illa stödd fyrirtæki sem gegna lykilhlutverki í samfélaginu. Unnið er að því að ljúka þeim verkum sem þarf svo hægt verði að endurfjármagna bankana þannig að þeir styðji við atvinnulífið eins og þarf.

Endurheimt trausts á alþjóðavettvangi

Ríkisstjórnin telur að stór hluti þess trausts sem Ísland hafði áður áunnið sér á alþjóðavettvangi, hafi því miður glatast á síðustu mánuðum. Með stöðugri og vandaðri vinnu er hægt að endurheimta þetta traust á ný. Ríkisstjórnin hefur sett sér skýr markmið í þessum efnum. Hún fylgir aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum, hún fylgir náið eftir stefnumótun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hún hefur skipað nýja samninganefnd með skýrt umboð í Iceasave málinu og aðra til að semja við Norðurlöndin og fleiri um lán sem veitt verða í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Aþjóðagjaldeyrissjóðsins. Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á gott samráð við erlenda kröfuhafa í bönkunum og einnig að hafnar verði viðræður við eigendur svokallaðra krónubréfa, en verðmæti þeirra getur haft mikil áhrif á stöðu þjóðarbúsins.

Endurreisn trausts á Íslandi

Ríkisstjórnin gerir sér fulla grein fyrir djúpstæðri óánægju almennings vegna bankahrunsins og ákvarðana sem teknar voru í aðdraganda þess. Ríkisstjórnin leggur því þunga áherslu á víðtæka rannsókn þessa máls eins og til hefur verið stofnað. Til að hraða rannsókn og gera hana öflugri hefur ríkisstjórnin fengið Evu Joly til liðs við sig, einn helsta sérfræðing Evrópu á sviði rannsókna á fjármálamisferli og endurheimt fjármuna úr skattaskjólum. Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp sem mun styrkja stöðu sérstaks saksóknara og eflt embættið umtalsvert. Kröftug rannsókn á vegum sérstaks saksóknara, rannsóknarnefndar Alþingis og annarra þeirra sem að málum koma er forsenda þess að hægt sé að byggja upp traust í íslensku samfélagi á ný. Almenningur á rétt á því að á þessum málum sé tekið af alvöru og festu. Framangreint yfirlit yfir mál ríkisstjórnar sem veittir voru 83 dagar til að hrinda málum í framkvæmd sýnir að enginn þarf að velkjast í vafa um að ríkisstjórnin lætur verkin tala.

Grein forsætisráðherra birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2009



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum