Hoppa yfir valmynd
13. október 2011 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Samskipti ríkis og sveitarfélaga, verkaskipting milli aðila og þróun sveitarstjórnarstigsins í náinni framtíð

Ágætu sveitarstjórnarmenn, góðir gestir.
Í þeim þrengingum sem þjóðin hefur verið í undanfarin þrjú ár hefur mikið mætt á sveitarstjórnarstiginu. Þar þarf hið félagslega öryggisnet að vera þéttriðnast og þar er viðkvæm og nauðsynleg nærþjónusta veitt. Fyrstu skref ungs fólks á menntabrautinni, allt frá leikskóla til framhaldsskóla, eru á vegum sveitarfélagann og sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki er varðar húsnæðismál. Þá er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga mikilvæg þeim sem höllum fæti standa.

Sveitarfélögin eru í miklum tengslum við almenning og þáttur sveitarfélaganna í því að milda áhrif hrunsins hefur verið mikill og það ber að þakka af heilum hug. Í þessu sambandi vil ég jafnframt nefna velferðarvaktina sem hefur að mínu mati unnið afar mikilvægt og þarft verk við að vakta velferð landsmanna eftir hrun og leggja til úrbætur. Samstarf við sveitarfélögin er forsenda þess að velferðarvaktin geti rækt hlutverk sitt og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga eru þar virkir þátttakendur ásamt fulltrúa höfuðborgarinnar.

Ágætu sveitarstjórnarmenn
Samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa heilt yfir verið góð, þótt á stundum hafi verið tekist á.. Þessi samskipti eru svona eins og í meðal góðu hjónabandi, gæti ég trúað.

Á miklu veltur að samráð milli stjórnsýslustiga, milli ríkis og sveitarfélaga, sé árangursríkt og heiðarlegt. Með því móti skapast gagnkvæmt traust og það er mikilsverður þáttur í þeirri samfélagssátt sem við stefnum að. Það hefur því miður skort á að þessi samskipti hafi verið með eðlilegum hætti á mörgum undanförnum árum.

En ég tel að núverandi ríkisstjórn hafi brotið í blað í þessu efni á ýmsum sviðum og lagt grundvöll að nýjum samskiptareglum og - háttum. Fjöldi mála sem hafa verið óleyst og í hnút um langt árabil hafa verið tekin upp og afgreidd og góður gangur er í flestum ef ekki öllum helstu samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga um þessar mundir. Fyrir þetta vil ég þakka fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, enda þarf tvo til ef skapa á traust og gott samstarf um þau mikilvægu mál sem hér um ræðir.

Áður en ég horfi til framtíðar vil ég nefna hér stuttlega nokkur stór mál sem hafa verið í hálfgerðum hnút á milli ríkisstjórnar og sveitarfélaga um lengri og skemmri tíma, en hafa á undanförnum tveimur árum verið leyst með farsælum hætti.

Ég nefni að samkomulag náðist um uppgjör húsaleigubóta. Þótt það samkomulag hafi fallið úr gildi er unnið samkvæmt því.  Þá náðist samkomulag  um aðlögun sveitarfélaganna að hækkun tryggingagjalds á árinu 2010 og jafnframt hefur náðst samkomulag um að efla tónlistarnám og gera tónlistarnemendum kleift að stunda nám sitt óháð búsetu.

Síðast en ekki síst nefni ég flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun,  sem verið hafði  á dagskrá stjórnvalda í meira en áratug, án þess að mikið gerðist.

Þegar horft er til framtíðar ber auðvitað fyrst að nefna heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga sem ávöxt bar þann 17. september er  Alþingi samþykkti ný sveitarstjórnarlög.  Sú lagasetning er afrakstur víðtækrar og árangursríkrar samvinnu og samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga og einstakar sveitarstjórnir yfir tveggja ára skeið.

Í hinni nýju löggjöf er að finna margvíslegar umbætur sem til heilla horfa. Að líkum má ætla að hér á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga verði áhersla lögð á fjármálakafla nýju laganna. Ég fagna því sérstaklega að um hinar nýju fjármálareglur skuli hafa verið bærileg samstaða meðal sveitarstjórnarmanna.  Það ber góðan vott um styrk sveitarstjórnarstigsins.  

Í lögunum er fjármálum sveitarfélaga mörkuð ný umgjörð. Nauðsyn þess að hafa samræmdar reglur um hallalausan búskap sveitarfélaga og skuldaþak ætti öllum að vera ljós því ógöngur einstakra sveitarfélag hafa því miður haft áhrif á önnur og betur sett sveitarfélög. Það blasir við að þau sveitarfélög sem mest skulda munu þurfa all langan aðlögunartíma, hugsanlega lengri en þann áratug sem lögin kveða á um.  Á vegum innanríkisráðuneytis og sambandsins er nú unnið að reglugerð um aðlögunina.  

Við þurfum að horfa á fjármál hins opinbera í heild og hugsa til langs tíma.  Ríkisfjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur nýlega kynnt er liður í því.   Sú áætlun miðar að því að skuldir ríkissjóðs lækki verulega með markvissum hætti og verði 45- 50% af landsframleiðslu árið 2020.

Með sama hætti er ekki óeðlilegt að gera kröfu til sveitarfélag um að skuldir þeirra verði þá 12-15% af landsframleiðslu.

Lækkun opinberra skulda, það er ríkis og sveitarfélaga, um 35-40% af landsframleiðslu eða um 600 milljarðar króna, myndi spara vaxtaútgjöld sem nemur ríflega 32 milljörðum, meira en öll útgjöld til háskólamenntunar á yfirstandandi ári. Til viðbótar hefði lækkun opinberra skulda einnig í för með sér bætt lánshæfismat og aukið aðgengi að fjármálamörkuðum og aukna fjárfestingu.

Það er afar brýnt að ríki og sveitarfélög gangi samhent að því  mikla verki að tryggja sjálfbærni opinbers rekstrar og opinberra skulda. Hin nýju sveitarstjórnarlög leggja hér góðan grunn.  Þar  er kveðið á um gerð samstarfssáttmála milli ríkis og sveitarfélaga og skipan samstarfsnefndar. Efnahagsforsendur ríkis og sveitarfélaga verður lagðar með þjóðhags- og landshlutaspá sem sveitarfélögin skulu hafa hliðsjón af í sínum fjárhagsáætlunum.

Ágætu ráðstefnugestir.
Verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga er stöðugt viðfangsefni. Árið 2006 ráðstöfuðu  íslensk sveitarfélög um 30% opinberra útgjalda í heild en ríkið 70%. Dönsk sveitarfélög ráðstöfuðu um 65% útgjalda til opinberrar þjónustu en ríkið 35%. Þetta er auðvitað sláandi munur og umhugsunarverður.

Vitaskuld þurfum við að hafa í huga að hér á landi eru 76 sveitarfélög og meðalfjöldi íbúa 4.200  en til dæmis eru 98 sveitarfélög í Danmörku með um 57 þúsund íbúa að meðaltali.

Það er þó ljóst að verkaskiptingin og sameining sveitarfélaga eru náskyld viðfangsefni. Til þess að sveitarfélögin geti axlað ábyrgð á stórum málaflokkum þurfa þau að hafa fjárhagslega burði og getu er varðar stjórnsýslu og fleira. Ég hlýt því að hvetja minni sveitarfélög til að íhuga sameiningar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er því heitið að sveitarfélögin verði efld, meðal annars með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga á sviði málefna fatlaðra, aldraðra og heilbrigðisþjónustu. Þessi áform eru í góðum farvegi og hefur ríkisstjórnin góða reynslu af samstarfi við sveitarfélögin við yfirfærslu stórra málaflokka til þeirra.

Um síðustu áramót voru málefni fatlað fólks flutt til sveitarfélaganna. Þegar á heildina er litið tókst sú yfirfærsla mjög vel og góð samvinna hefur verið milli allra aðila sem að þessu hafa komið.

Ég tel fáa málaflokka jafn vel fallna til yfirfærslu til sveitarfélaga og málefni fatlaðs fólks og aldraðra, enda um nærþjónustu að ræða sem fellur ágætlega að öðrum verkefnum sveitarfélaga. Sameining heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis í eitt velferðarráðuneyti gerir sannarlega þessa yfirfærslu auðveldari.

Það er mikilvægt að undirbúningi að yfirfærslu málefna aldraðra verði hraðað eins og kostur er. Við treystum sveitarfélögunum mæta vel til þess að taka yfir þessa viðkvæmu málaflokka og reka þá af myndarbrag.

Varðandi yfirfærslu á heilsugæslunni,  sem einnig hefur verið til umræðu, er ljóst að aðstæður sveitarfélaganna til að taka við svo yfirgripsmikilli þjónustu eru  misjafnar og ljóst að samþætting við aðra heilbrigðisþjónustu kann að þurfa að útfæra með ólíkum hætti.

Þrátt fyrir hrunið og þann þrönga stakk sem það hefur sniðið fjármálum ríkis og sveitarfélaga hefur okkur lánast að halda uppbyggingu hjúkrunarrýma áfram. Er í því efni unnið í samræmi við áætlun sem samin var árið 2008, m.a. á grundvelli svokallaðrar leiguleiðar sem samkomulag varð um milli ríkis og sveitarfélaga. Framkvæmdir eru í fullum gangi í fimm sveitarfélögum.

Þá er undirbúningur hafinn að byggingu hjúkrunarheimila í fjórum sveitarfélögum til viðbótar. Alls er hér um að ræða nær 370 ný rými og  þannig stefnt að stórbættum aðbúnaði fyrir elstu kynslóðina, en jafnframt munu þessi verkefni skapa atvinnu í heimabyggð til lengri og skemmri tíma.

Þrátt fyrir umfangsmikinn flutning verkefna til sveitarfélaga á síðustu árum er hlutur sveitarfélaga á Íslandi í opinberri þjónustu mun minni en annars staðar á Norðurlöndum. Við eigum ekki að láta staðar numið hér varðandi yfirfærslu verkefna.

Marka þarf skýrar línur um verkaskiptinguna og horfa með opnum huga á hvaða opinber þjónusta er nærþjónusta og hvaða verkefni falla að öðrum verkefnum sveitarfélaga. Margir staldra eflaust við framhaldsskólana  með samfellu í skólastarfi í huga. Ég bendi einnig á tækifæri sem kunna að leynast í því að ríki og sveitarfélög, eitt, fleiri eða öll, geri með sér þjónustusamninga þannig að sveitarfélög taki að sér að veita tiltekna velferðarþjónustu í umboði ríkisins.

Þá má einnig velta því fyrir sér að taka á nýjan leik upp hugmyndafræði reynslusveitarfélaga, þannig að einstök sveitarfélög taki að sér  afmarkaða þjónustu á einstökum sviðum. Sú reynsla sem af slíkum verkefnum fæst getur verið afar gagnlegur vegvísir til framtíðar.

Ágætu sveitarstjórnarmenn
Aukin valddreifing er mikilvægur þáttur í nýjum samfélagssáttmála. Stefnumörkunin Ísland 2020 er liður í þeim áformum. Landshlutasamtökin hafa nú í samvinnu við ráðuneytin unnið að gerð sóknaráætlana fyrir alla landshluta. Fyrsta árið í þeirri vinnu er tilraunaár, þar sem samráðsferlið milli landshlutasamtaka og ríkis hefur verið reynt.

Niðurstaða samráðsins er sú að valin verða fjölbreytt verkefni sem samrýmast þeim viðmiðum sem lagt var upp með og lagt er til að veittir verði til fjármunir á fjárlögum fyrir árið 2012.

Áformað er að halda ráðstefnu með ráðuneytum, stofnunum og landshlutasamtökum í kringum áramótin og fjalla um þann lærdóm sem draga má af þessu tilraunaári áður en farið verður af stað í annað ferli sóknaráætlana landshluta. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka sveitarstjórnarmönnum fyrir þeirra mikla framlag til þessa verkefnis.

Ágætu sveitarstjórnarmenn
Sá eignabruni og sú ofurskuldsetning sem hrunið leiddi til kallar á nýja hugsun og nýja stefnu í húsnæðismálum. Stjórnvöld hafa nú mótað nýja húsnæðisstefnu í víðtæku samráði við fjölmargra aðila, ekki síst sveitarfélögin, og náð um það þverpólitískri samstöðu.

Markmiðið er að fjölga raunhæfum valkostum á  húsnæðismarkaðnum, m.a. með því að stórefla opinberan leigumarkað sem raunverulegan og öruggan valkost við séreignastefnuna og er þegar unnið að stofnun opinberra leigufélaga.

Fyrir liggja tillögur um að húsnæðisbætur leysi núverandi vaxta- og húsaleigubætur af hólmi í því skyni að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera milli ólíkra búsetuforma. Meginreglan á að vera sú að ríkið greiði almennan húsnæðisstuðning en sveitarfélögin veiti sérstakan húsnæðisstuðning vegna félagslegra aðstæðna.

Um útfærslu þessara hugmynda þurfum við að eiga gott samstarf á komandi mánuðum og strax á næsta ári þurfum við að sjá móta fyrir raunverulegum breytingum í þessa átt. Ég fagna í þessu sambandi nýsamþykktri húsnæðisstefnu Reykjavíkurborg til ársins 2020 þar sem meðal annars eru uppi áform um uppbygginu leigumarkaðar og átak í byggingu 500 nýrra íbúða fyrir ungt fólk.

Tekjur hins opinbera hafa lækkað á þeim þremur árum sem liðin eru frá hruni og samtímis hefur útgjaldaþörfin vaxið, einkum til velferðarmála. Um það hefur verið sátt bæði hjá ríkinu og sveitarfélögunum í landinu að hlífa útgjöldum til velferðarmála við niðurskurði eins og hægt er.

Staðreyndin er sú að ríkisútgjöld til velferðarmála eru nú um 11% af landsframleiðslu og hafa ekki fyrr verið jafn há. Ríkisstjórnin hefur komið til móts við sveitarfélögin til að milda áhrif hrunsins með ýmsum hætti, meðal annars með heimildum til útgreiðslu séreignasparnaðar, lengingu atvinnuleysisbótatímabils og hækkun bóta almannatrygginga.   

Til að mæta miklu tekjufalli hafa ríkið og sveitarfélögin þurft að lækka útgjöld svo tugmilljörðum nemur. Staðreyndin er sú að niðurskurðurinn er víða komin að þolmörkum og leiðin út úr því er; að auka atvinnu og hagvöxt. Það er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar og í sókn í atvinnu- og efnahagsmálum væntum við góðs liðstyrks sveitarstjórna um land allt.

Mörg verkefni, opinber eða hálfopinber, eru nú ýmist komin til framkvæmda eða í góðum undirbúningi. Þegar allt er talið er um að ræða 80-90 milljarða króna verkefni sem svara til um 7.000 ársverka. Ég hef þegar nefnt byggingu hjúkrunarheimila víða um land, en nefni einnig gangnagerð, byggingu stúdentaíbúða, snjóflóðavarnir auk byggingar nýs spítala.

En tækifærin liggja víðar. Ég nefni ríkulega möguleika í ferðaþjónustu um land allt þar sem ríkisstjórnin, ferðaþjónustan og sveitarfélög hafa tekið höndum saman um eitthvert umfangsmesta uppbyggingarverkefni síðari ára í atvinnumálum, undir merkjum Inspired by Iceland. Þar geta allir lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Metnaðarfull áform eru einnig uppi um uppbyggingu í orku- og iðnaðarmálum víða um land og miklu skiptir að þau verkefni hljóti brautargengi.

Ég nefni einnig hér að á komandi þingi mun ríkisstjórnin leggja fram frumvarp um jöfnun flutningskostnaðar til að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og á fjárlögum er þegar gert ráð fyrir um 200 milljónum króna til þessa mikilvæga verkefnis.

En það er auðvitað atvinnulífið en ekki hið opinbera sem þarf að leiða hagvöxt næstu ára. Hlutverk stjórnvalda er að skapa atvinnulífinu skilyrði með margvíslegum aðgerðum. Þar skipta sveitarstjórnirnar ekki síður máli.

Þið farið til að mynda með skipulagsvaldið og getið ráðið miklu um framgang atvinnumála innan ykkar svæða. Ég hvet ykkur til dáða í þessum efnum. Ef skjótur árangur á að nást verðum við öll að standa saman í uppbyggingunni og í því starfi ber okkur að setja hagsmuni heildarinnar í forgang.

Ágætu ráðstefnugestir.
Það er sannfæring mín að áframhaldandi gott samstarf ríkis og sveitarfélaga og aukin umsvif og ábyrgð sveitarstjórnanna á mikilvægum málaflokkum sé samfélagi okkar fyrir bestu. Ég færi ykkur því mínar bestu þakkir fyrir það góða samstarf sem ríkisstjórn mín hefur átt við sveitarfélögin í landinu og óska ykkur alls hins besta í störfum ykkar fyrir land og þjóð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum