Hoppa yfir valmynd
31. desember 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Þjóðin sýnir styrk sinn

Á pólitíska sviðinu urðu stórtíðindi á árinu þegar kom til stjórnarskipta eftir mikil og almenn mótmæli og síðan á ný þegar hrein jafnaðar- og félagshyggjustjórn hlaut brautargegni í kosningum og tók við völdum í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri græns framboðs hefur unnið af einurð og festu eftir heilsteyptri efnahagsáætlun og ekki látið hnika sér af markaðri braut þótt á ýmsu hafi gengið.  Jafnhliða þessu hefur stjórnin verið einhuga um að hrinda í framkvæmd miklum umbótum á mörgum sviðum opinbers reksturs og þjóðlífs.

Ríkisstjórnin hefur beitt sér  fyrir stefnubreytingu í skattamálum, jafnréttismálum og umhverfismálum. Einnig hefur verið lögð áhersla á bætt stjórnkerfi og skipulag fjármálastofnana og nánara samstarf ríkis og sveitarfélaga. Ennfremur hefur Ísland sótt um aðild að Evrópusambandinu. Ársins 2009 mun því sannarlega verða minnst sem árs umbreytinga við stjórn landsins.

Við þessi áramót er mér hinsvegar efst í huga þakklæti til almennings í landinu. Styrkur íslensks samfélags hefur komið vel í ljós í skynsamlegum viðbrögðum fólks við efnahagserfiðleikum í kjölfar gengishruns og falls bankanna. Við erum ung þjóð sem býr að ríkulegum auðlindum á landi og í sjó, góðu mennta- og heilbrigðiskerfi og við höfum sýnt fyrirhyggju með því að leggja til hliðar í lífeyrissjóði og séreignarsparnað. Við höfum því fullt afl til þess að takast á við þá tímabundnu erfiðleika sem við nú erum að ganga í gegnum.

Ég fullyrði að á árinu 2009 hafa verið unnin fjölmörg afrek í viðbrögðum við fjármálakreppunni - á heimilum við að ná endum saman, á vettvangi stjórnsýslunnar, við endurreisn föllnu bankanna, í fyrirtækjum sem eiga við ramman reip að draga og hjá hjálparsamtökum sem hafa létt undir með fólki í bráðum vanda. Í þessum afrekum er meðal annars fólgin skýringin á því að okkur hefur gengið mun betur á árinu 2009 en spár gerðu ráð fyrir um síðustu áramót þegar vandamálin virtust nánast óviðráðanleg.

Með samtakamætti þjóðarinnar og vegna skynsamlegra og skilvirkra aðgerða stjórnvalda blasir nú við að efnahagssamdrátturinn verður ekki jafnmikill í ár og í fyrstu var óttast. Útlit er fyrir að samdrátturinn verði nærri 7,5%, en ekki 10.6% eins og spáð var.  Þá var einnig spáð yfir 10% atvinnuleysi en nú stefnir það í að vera um 8%. Skuldir ríkissjóðs vegna bankahrunsins verða um 250 milljörðum króna lægri en spáð var og halli ríkissjóðs á árinu verður umtalsvert lægri en áður var reiknað með. Þegar þetta er ritað hillir undir að Icesavedeilan, sem hvílt hefur þungt á þjóðinni, verið leidd til lykta en með því verður lagður grunnur að endurnýjuðu trausti Íslands á alþjóðavettvangi.

Allt eru þetta ánægjuleg merki um að við séum á réttri leið og þrátt fyrir að fyrstu mánuðir ársins 2010 verði erfiðir teljum við að örlað geti á hagvexti að nýju strax upp úr miðju næsta ári. Ég vil nefna hér tíu atriði sem skipta miklu í þeim árangri sem náðst hefur á árinu og skila mun ávinningi á næstu misserum:

  1. Staðið hefur verið að endurreisn bankanna á þann hátt að hægt hefur verðið að koma til móts við lífvænleg fyrirtæki og bankastarfsemi hefur verið haldið gangandi. Hefði ríkið látið hina einkavæddu banka, sem tekið höfðu að láni sexfalda þjóðarframleiðslu Íslendinga, fara á hausinn án opinberra afskipta hefði það kallað yfir landsmenn miklar hörmungar. Þegar ný stjórn tók við voru kallaðir til verka innlendir og erlendir sérfræðingar til að stjórna viðræðum stjórnvalda við kröfuhafa. Sátt hefur náðst við kröfuhafana og mun eiginfjárframlag ríkisins til nýju bankanna nema135 milljörðum króna Upphaflega var gert ráð fyrir að þetta framlag yrði 385 milljörðar króna og er það því 250 milljörðum lægra en ætlað var. Skuldir ríkissjóðs munu lækka sem þessu nemur og ríkissjóður þar af leiðandi spara veruleg vaxtagjöld sem ella hefðu fallið til.
  2. Dregið hefur verið verulega úr skuldaukningu ríkissjóðs. Um síðustu áramót var hallareksturinn 218 milljarðar en fjárlög ársins 2010 gera ráð fyrir 99 milljarða halla. Fjárlögin sem Alþingi hefur samþykkt eru í fullu samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að skila afgangi árið 2013. Þá verður hafist handa við að greiða niður skuldir ríkissjóðs.
  3.  Samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu hefur batnað verulega og það hefur gefið sjávarútvegi, ferðaþjónustu og hátæknifyrirtækjum færi á að halda sjó og jafnvel sækja fram og afla mikilvægra gjaldeyristekna. En ávinningur af lágu gengi krónunnar er skammgóður vermir og á komandi árum þarf að tryggja atvinnulífi og heimilum efnahagslegan stöðugleika sem hægt er að reiða sig á. Umsókn Íslands að Evrópusambandinu er skref í þá átt.
  4. Ríkisstjórnin opnaði fyrir þann möguleika að fólk gæti tekið út séreignarsparnað sinn og nýtt hann í yfirstandandi þrengingum. Landsmenn hafa leyst til sín um 15 milljarða króna úr séreignarsparnaði eftir skatta. Þetta er um 1% af landsframleiðslu og er sambærileg fjárhæð og ríkisjóðir ýmissa annarra landa hafa veitt út í atvinnulífið til að örva hagkerfin.
  5. Ríkisstjórnin hefur beitt virkum vinnumarkaðsúrræðum þar sem m.a. hefur verið lögð mikil áherslu á að fólk noti tímann meðan spurn eftir vinnuafli er lítil til þess að endurhæfa sig og stunda bóknám eða starfsnám. Lánasjóður námsmanna hefur m.a. verið efldur í því skyni.
  6. Aðgerðir vegna skuldavanda heimila og fyrirtækja, ekki síst greiðslujöfnun, greiðsluaðlögun og frystingar á uppboðum hafa komið mörgum til góða. Enn er þó talið að um 12 % heimila eigi við erfiðan skuldavanda að etja. Framlög til vaxtabóta voru einnig voru einnig aukin um 4.5 milljarða króna á árinu.
  7. Seðlabankinn hefur  frá því í mars lækkað stýrivexti sína úr 18% niður í 10% og hafa þeir ekki verið lægri í fjögur ár. Líklegt er að vextir og verðbólga haldi áfram að lækka til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf. Skuldatryggingarálag á ríkið hefur á árinu fallið úr 1000 punktum niður í 400 og segir það sína sögu.
  8. Stöðugleikasáttmálinn frá miðju sumri hefur tryggt vinnufrið og markvissa samvinnu við úrlausn verkefna á vinnumarkaði, ekki síst til þess að auka vinnu og efla velferð.
  9. Skuldir Þjóðarbúsins út á við eru vissulega miklar að vöxtum eða um 320% af landsframleiðslu í lok ársins 2010. Þar af eru um 260% skuldir einkaaðila sem ekki eru á ábyrgð ríkisins. Erlendar skuldir ríkis og sveitarfélaga, sem nema um 60% af landsframleiðslu, munu fara hratt lækkandi á næstu árum og það ræður úrslitum.
  10. Skattabreytingar ríkisstjórnarinnar fela það í sér að snúið er frá forréttindastefnu fyrri ára og jöfnunaráhrif skatta- og bótakerfisins eru þess í stað aukin verulega. Óhjákvæmilegt er að hækka skatta samhliða því sem umsvif hins opinbera verða minnkuð til þess að ná tökum á vanda ríkisjóðs. Það er sláandi að auknar skattaálögur á einstaklinga nema sambærilegri upphæð og vextir og verðbætur af framlagi ríkissjóðs vegna þeirra mistaka sem gerð voru í Seðlabankanum í aðdraganda bankahrunsins.  Á stjórnartíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, frá 1995 til 2006, var skattbyrðin flutt í stórum stíl af hærri tekjuhópum yfir á lægri tekjuhópa og meðaltekjuhópa. Þetta, ásamt frystingu skattleysismarka og rýrnun barnabóta og vaxtabóta, dró stórlega úr tekjujöfnunarhlutverki skatta- og bótakerfisins og jók ójöfnuðinn í samfélaginu. Nú hefur stefnunni verið snúið við.


Ég þakka landsmönnum fyrir dugnað og þrautseigju á árinu 2009 og óska þeim árs og friðar. Megi árið 2010 verða ár uppgjörs, réttlætis og sátta, upphafsár nýrrar sóknar til sjálfbærra og stöðugra lífskjara eins og þau gerast best.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum