Hoppa yfir valmynd
25. september 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á fundi 20/20 sóknaráætlunar

Ávarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á fundi 20/20 sóknaráætlunar, föstudaginn 25. september kl. 09:00, á Hilton Reykjavík Nordica

Góðir fundarmenn

Í lífi einstaklinga og þjóða dynja yfir áföll og erfiðleikar af eigin tilstilli eða af ástæðum sem ekki verður við ráðið.
Þá reynir á hvernig úr erfiðleikunum er unnið og ræðst hvort sú glíma leiðir til nýs upphafs, endurmats og jafnvel betra lífs reynslunni ríkari.

Það tæpa ár sem liðið er frá banka- og gjaldeyrishruni hefur ríkisstjórnin unnið að því að lágmarka skaðann og vinna í samræmi við áætlanir um endurreisn bankakerfis og atvinnulífs. En samhliða þeim nauðsynlegu aðgerðum þarf einnig að leggja grunn að nýrri sókn í íslensku atvinnu- og þjóðlífi. Þess vegna höfum við sett af stað vinnu við gerð sóknaráætlunar til næstu tíu ára fyrir landið allt og landshlutana. Ætlunin er að ná breiðri samstöðu um markmið og leiðir í sókn til betra samfélags. 

Alveg eins og sá sem missir vinnuna skoðar sína stöðu og veltir fyrir sér möguleikum á því að bæta hana með viðbótarnámi, þátttöku í hópastarfi eða frumkvöðlastarfsemi, þarf þjóðin sem heild og stjórnvöld að skoða sína stöðu í samfélagi þjóðanna og tækifærin sem kunna að vera fyrir hendi að bæta hana.

Sagt er að samkeppnishæfni þjóðar ráði einna mestu um það hvernig tekst að tryggja verðmætasköpun, hagsæld og varanleg lífsgæði til lengri tíma litið. 

 Margir leggja ranglega að jöfnu samkeppnishæfni þjóða og frjálsa og óhefta samkeppni, helst án verulegra afskipta stjórnvalda.  En málið snýst þvert á móti um margvíslegar gæðakröfur og mælikvarða á mannlíf:

  • Strangar en skynsamlegar kröfur um umhverfismál, vörugæði og öryggi tryggja  að vörur og þjónusta séu samkeppnishæfari en ella væri.
  • Öflugt samkeppniseftirlit tryggir heilbrigða samkeppni innanlands og meiri styrk útávið Markaðmisnotkun viðskiptablokka grefur undan samkeppnishæfni landsins eins og dæmin sanna.
  • Íslendingar þurfa að berjast fyrir því að leikreglur í alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum séu
    sanngjarnar og virtar af öllum aðilum. Við ættum einnig að styðja viðleitni til þess að þjóðhagsreikningar meti sjálfbærni og lífshamingju ekki síður en magn og umsvif.

En hvernig  stöndum við í samkeppni þjóðanna? Samkvæmt mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins sem hér verða kynntar og ræddar ítarlega á eftir, er Ísland í 26. sæti af þeim 133 þjóðum sem mælingar ráðsins ná  til.  Þrátt fyrir áföll sem eiga sér enga hliðstæðu í sögu landsins föllum við aðeins um 6 sæti milli ára, en í fyrra höfðum við hækkað úr 23. sæti upp í það 20.

Þessi niðurstaða sýnir betur en margt annað að þótt við höfum orðið fyrir miklu áfalli, þá er svo sannanlega enn til staðar grunnur fyrir öflugt efnahagslíf á Íslandi.

Sterkar stoðir samkeppnishæfni á lykilsviðum munu greiða fyrir batanum og gera okkur kleift að vinna hraðar úr vandanum en ef grunnstoðirnar hefðu verið veikar.

  • Íslendingar geta reitt sig á fyrsta flokks menntunarkerfi á öllum sviðum.
  • Íslendingar geta byggt  á fyrsta flokks heilbrigðiskerfi.
  • Íslendingar búa að  tiltölulega háu þróunarstigi viðskipta, tækniþekkingar og nýsköpunar.
  • Íslendingar geta reitt sig á sveigjanlegan vinnumarkað, skilvirka innviði og  stofnanir sem mælast sterkar í alþjóðlegum samanburði.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að það sem helst dregur niður samkeppnishæfni Íslands er efnhagslegur óstöðugleiki, haldllítill gjaldmiðill og máttlaus fjármagnsmarkaður innanlands. 

Það er mikilvægt verkefni ríkisstjórnarinnar að vinna markvisst að því að bæta samkeppnishæfni landsins á þessum sviðum.  Efnahagsáætlunin til 2013 miðar að því en til lengri tíma litið getur umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu skipt sköpum.

Staða Íslands mun að mínum dómi styrkjast strax við að verða umsóknarríki að Evrópusambandinu í byrjun næsta árs. Sjálfsagt er að leita samvinnu við Evrópska Seðlabankann og Evrópska Myntsamstarfið um styrkingu íslensku krónunnar á grundvelli EES samningsins. Mikið er í húfi vegna þess að fullyrt hefur verið að stærsti hlutinn af þeim skaða sem orðinn er vegna áfallsins frá í fyrra sé vegna hruns íslensku krónunnar.

Ein leiðin til að til þessa að efla okkur í glímunni sem framundan er felst í því að stjórnvöld, fulltrúar samtaka atvinnulífsins og almenningur í landinu átti sig vel á því sem ræður samkeppnishæfni Íslands til lengri tíma.

Ég legg áherslu á í þessu sambandi að sjávarútvegs- landbúnaðar- og iðnaðarráðuneyti verði sameinuð á næsta ári í eitt atvinnuvegaráðuneyti sem tryggji heildarsýn á atvinnuþróun í landinu.  

 Brýna nauðsyn ber til að samræma markmið stjórnvalda, hagsmunafélaga og landshlutasamtaka í sameiginlegri sóknaráætlun til næstu tíu ára.  Slíkri sóknaráætlunþurfum við svo að fylgja fast eftir þannig að Ísland komist sem fyrst aftur í hóp 10 efstu ríkja í lífsgæðavísitölu Sameinuðu þjóðanna og skori hátt á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni þjóða.

Ég óska ykkur góðs gengis með 20/20 sóknaráætlun og fund ykkar hér í dag.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum