Hoppa yfir valmynd
17. júní 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á hátíðardagskrá á Austurvelli 17. júní 2010

Góðir Íslendingar, nær og fjær.
Í dag, á þessum fagra sumardegi fögnum við þjóðhátíð okkar um land allt. Við fögnum sjálfstæði okkar og við fögnum því að búa í þessu landi og á þessari gjöfulu eyju.

Náttúrufegurðin, fallvötnin, jarðhitinn, fiskurinn, vatnið og frjósöm fósturjörðin fela í sé verðmæti sem verða dýrmætari með hverju árinu sem líður. Á þessum gjöfum náttúrunnar byggjum við Íslendingar okkar efnahagslega grundvöll. Það er sameiginlegt viðfangsefni okkar að standa um þær vörð svo að komandi kynslóðir muni njóta þeirra.
Í þeim erfiðleikum sem þjóðin hefur gengið í gegnum á liðnum misserum höfum við ítrekað verið minnt á þá staðreynd, að það er ekki sjálfgefið hvernig með þessi verðmæti okkar er farið. Þar takast á miklir hagsmunir sem ekki þurfa að vera ósamrýmanlegir; hagsmunir nýtingar og verndar, einkahagsmunir og hagsmunir þjóðar, stundarhagsmunir og langtímahagsmunir. Þegar kreppir að er ekki óeðlilegt að fastar sé tekist á um þessa miklu hagsmuni en þá er jafnframt enn mikilvægara að menn hafi í huga þýðingu þessara verðmæta fyrir þjóðina alla. Auðlindirnar eru þjóðarinnar allrar og með því hugarfari ber okkur að umgangast þær og nýta og vernda í senn.

Á þessu ári höfum við verið minnt alvarlega á tilvist náttúruaflanna sem skópu þetta land. Að þessu sinni höfðu þau ekki aðeins áhrif hér innanlands heldur einnig á alþjóðlegar samgöngur og þar með almenning víða um heim. En náttúruöflin leystu ekki einungis úr læðingi kraft úr iðrum jarðar heldur einnig mikinn kraft meðal þjóðarinnar. Það sem mér er efst í huga nú á þessum hátíðisdegi er sá samtakamáttur sem þjóðin sýndi þegar eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli vöknuðu úr dvala.

Með viðbrögðum sínum sýndi þjóðin enn og aftur hvað í henni býr. Allir okkar bestu eiginleikar og kostir komu í ljós við þessar erfiðu aðstæður. Þeir sem að málum komu og gosið snerti sýndu samstöðu, yfirvegun, fagmennsku, kjark, dugnað og ósérhlífni.
Þetta eru eiginleikar sem eru dýrmætir, eiginleikar sem við eigum að kappkosta að rækta og færa yfir á sem flest svið samfélagsins.

Góðir Íslendingar.
Eldgosin hafa minnt okkur á mikilvægi þess að sýna samstöðu innanlands en um leið á það að við erum hluti af alþjóðasamfélagi. Fréttir frá Íslandi urðu yfirgnæfandi í útbreiddustu fjölmiðlum heims og almenningur í mörgum heimshlutum fylgdist með okkur frá degi til dags. Umfjöllun fjölmiðla um landið okkar hafði þegar áhrif á ferðamannastraum hingað til lands og óvæntar aðstæður blöstu við þeim mikilvæga og vaxandi geira sem ferðaþjónustan er.

Í stað þess að leggja árar í bát tóku fyrirtæki í ferðaþjónustu, hagsmunaaðilar, stjórnvöld og almenningur höndum saman og með samstilltu og kröftugu átaki er nú spornað gegn samdrætti og vörn hefur nú verið snúið í sókn. Það er von okkar að til lengri tíma muni þessi umfjöllun jafnvel gera Ísland að enn áhugaverðari áfangastað en landið hefur verið fram til þessa.

Okkur Íslendingum hefur auðnast að skapa hér góða afkomu þrátt fyrir áföll, harðindi og náttúruhamfarir og ég er sannfærð um að við munum einnig sigrast á tímabundnum efnahagserfiðleikum með samtakamætti, seiglu og æðruleysi.

Alþjóðasamfélagið hefur svo sannarlega tekið eftir sameiginlegu átaki þjóðarinnar við að bjóða gesti velkomna til landsins og það er líka eftir því tekið hvernig okkur á undraskömmum tíma er að takast að hefja nýja sókn eftir efnahagsleg áföll sem eiga sér fá ef nokkur fordæmi í sögu vestrænna þjóða.

Á þjóðhátíðardegi okkar fyrir ári síðan sagði ég að glíman við efnhagsvandann snérist um efnahagslegt sjálfstæði landins. Vegna stöðunnar í efnahagsmálum væri þjóðin í raun að heyja nýja sjálfstæðisbaráttu. Verkefnin eru enn óþrjótandi og margslungin en skrefin sem stigin hafa verið framávið á liðnu ári eru mörg og stór.

Segja má að aðrar þjóðir séu nú að hefja það verkefni sem við Íslendingar erum nú komnir langt á veg með og nefni ég þar Þýskaland og Bretland sem hafa nýlega kynnt viðamikil aðhaldsmarkmið í ríkisrekstri og áætlanir í efnahagsmálum. 

Í sameiningu hefur okkur tekist að tryggja frið á vinnumarkaði, halda atvinnulífinu gangandi og verja velferðarþjónustan eins og kostur er. Okkur hefur tekist að endurreisa fjármálakerfið og móta því heilbrigðan fjárhagslegan og lagalegan grundvöll. Endurskipulagning stórra samfélagslega mikilvægra fyrirtækja er hafin.

Okkur hefur tekist að efla gjaldeyrisforðann með þeim hætti að mögulegu greiðslufalli þjóðarbúsins hefur verið forðað. Okkur hefur tekist að koma böndum á ríkisfjármálin, hallinn á ríkissjóði er umtalsvert minni en spáð var og við stefnum ótrauð í átt að sjálfbærum rekstri í samræmi við áætlanir okkar. Krónan hefur styrkst um rúm tíu prósent frá áramótum og verulega hefur dregið úr verðbólgunni. Þegar ríkisstjórnin tók við, mældist hún 18.6% en verðbólga er í dag sjö og hálft prósent og hefur ekki verið lægri í um tvö ár. Á sama tíma hafa vextir einnig lækkað um meira en helming og eru í dag lægri en þeir hafa verið í rúm fimm ár.

Landsframleiðslan er meiri en spáð var og samdrátturinn minni.  Jafnvel má gera ráð fyrir því að hagvöxtur hefjist síðar á þessu ári og verði 2-3% strax á næsta ári.  Mörg jákvæð teikn eru því á lofti.

Enda þótt við getum glaðst yfir þeim góða árangri sem náðst hefur á liðnu ári ber okkur að hafa hugfast hve miklum erfiðleikum og sársauka þessar efnahagslegu hamfarir hafa valdið. Flest heimili landsins glíma við afleiðingar hrunsins með einum eða öðrum hætti og mörg heimili fást nú við mjög erfiðar fjárhagslegar aðstæður.

Samfélag okkar hlýtur að eiga að byggja á því að koma þeim til hjálpar sem eru hjálpar þurfi við þessar aðstæður. Ég hef í mínum fyrri störfum kynnst fjölskyldum sem búið hafa við bág kjör og það er sárt að horfa á slíkar aðstæður, ekki síst þegar þær bitna á börnum og unglingum. Úrræðin sem mótuð hafa verið til þess að mæta þessum fjölskyldum eru fjölmörg og mismunandi og við munum einskis láta ófreistað að fjölga þeim og breyta þannig að þau gagnist sem flestum. Þau úrræði sem raunverulega bæta aðstæður fjölskyldna eru þó til lengri tíma fyrst og fremst atvinna og heilbrigt efnahagslegt umhverfi.

Sú jákvæða efnahagsþróun sem ég hef áður rakið mun styrkja atvinnulífið og gera okkur kleift að vinna enn frekar gegn atvinnuleysi sem mælist nú rúmlega átta prósent. Það hefur undanfarna tvo mánuði lækkað og hefur ekki orðið jafn mikið og spár gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir það megum við ekki og munum ekki una því að það haldist svo hátt hér á landi.

Við verðum með öllu móti að berjast gegn því að atvinnuleysi festist hér í sessi og tryggja að verðmæt störf skapist um land allt.

Góðir Íslendingar.
Undanfarnar vikur og í dag, 17. júní,  eru menntastofnanir að útskrifa nemendur um land allt. Nemendur grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla hafa þúsundum saman streymt út í sumarið og hlotið vitnisburði um frammistöðu í skóla. Flestir hafa staðið sig vel, nokkrir afburða vel en aðrir hefðu getað gert betur og þurfa nú að taka sig á.

Við sem störfum á vettvangi stjórnmálanna hljótum okkar vitnisburð meðal annars og ekki síst í lýðræðislegum kosningum. Nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar voru að ýmsu leyti sögulegar. Það er afar mikilvægt að okkur stjórnmálamönnum og stjórnmálahreyfingum auðnist að lesa í þau skilaboð sem almenningur sendi, ekki síst þar sem ný framboð hlutu mikinn stuðning.

Vitnisburður okkar í framtíðinni mun að mínu mati fyrst og fremst ráðast af því hvernig okkur, kjörnum fulltrúum og stjórnmálahreyfingum, tekst að vinna úr þessari stöðu.

Ég fagna þeim liðsauka sem bæst hefur í hóp stjórnmálamanna í sveitarfélögum, bæði sunnan og norðan heiða og bind vonir við að nýir straumar og nýtt fólk muni bæta stjórnmálin og okkar lýðræðislegu vinnubrögð. Það má taka undir með þeim sem segja að stjórnmálin séu orðin föst í hjólförum vanans og þar undanskil ég engan stjórnmálaflokk. Við þurfum að taka upp ný vinnubrögð og samskipti hvort sem er á vettvangi Alþingis eða sveitarstjórna.

Viðamikil skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis liggur nú fyrir og eru flestir sammála um að þar hafi verið mjög vel vandað til verka. Úrvinnsla á grundvelli skýrslunnar er nú hafin á vettvangi stjórnvalda, Alþingis og innan réttarkerfisins og á öðrum sviðum og er sú vegferð rétt að hefjast.  Á komandi misserum og árum er afar mikilvægt að okkur auðnist að vinna vel úr þeim ábendingum og upplýsingum sem fram koma í skýrslunni og drögum raunverulegan og áþreifanlegan lærdóm af því sem miður fór.

Ég bind miklar vonir við stjórnlagaþing sem Alþingi hefur samþykkt að kosið verði til á þessu ári. Ég tel að hér sé á ferðinni eitt merkasta mál sem samþykkt hefur verið á Alþingi og að með samþykkt þess sé stigið afar stórt skref í lýðræðisátt.  Stjórnlagaþingi er ætlað það mikilvæga og veigamikla hlutverk að semja tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir Íslendinga og verður það fyrsta stjórnarskráin sem samin verður frá grunni fyrir þessa þjóð.

Stjórnlagaþing verður afar merkileg samkoma með beinni aðkomu almennings á mörgum stigum og með tilkomu þess verður beitt hér vinnubrögðum sem ég vil sjá að við innleiðum á fleiri sviðum. Í aðdraganda stjórnlagaþings er mikilvægt að efnt verði til kröftugrar og lifandi umræðu um grundvallarlög þjóðarinnar óháð hagsmunum hefðbundinna stjórnmálaflokka.

Efnt verður til 1000 manna þjóðfundar í þessum tilgangi og efnt verður til persónukjörs meðal allrar þjóðarinnar um hvaða tugum einstaklinga verður falið það ábyrgðarmikla verk að semja nýja stjórnarskrá. Þjóðin mun síðan hafa síðasta orðið um nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu um þær tillögur sem stjórnalagaþingið leggur fram.
Það er einlæg von mín að í nýrri stjórnarskrá verði tekið á ýmsum grundvallarspurningum og álitaefnum sem okkur hefur ekki auðnast að leiða til lykta fram til þessa.

Að mörgu leyti getur þetta markað upphaf nýs kafla í stjórnmálum og stjórnskipan landsins. 

Góðir Íslendingar.

Við Íslendingar eigum merka sögu ekki síst þegar litið er til sjálfstæðisbaráttu okkar og lýðræðisþróunar. Á næsta ári munum við minnast þess að 200 ár verða liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, sem var einn helsti baráttumaður okkar Íslendinga fyrir sjálfstæði. Þeirra tímamóta verður minnst með margvíslegum hætti þannig að ungir jafnt sem aldnir geti notið og fræðst um þetta  tímabil í sögu okkar þjóðar.  Jón Sigurðsson var víðsýnn maður og framsýnn. Á sama tíma og hann stóð vörð um Ísland og Íslendinga og sjálfstæði þjóðarinnar gerði hann sér fulla grein fyrir mikilvægi og þýðingu samskipta við aðrar þjóðir.

Nú sem þá tel ég það engum vafa undirorpið að fullveldi Íslands og sjálfstæði sé best tryggt með virkri þátttöku í samstarfi við önnur sjálfstæð og fullvalda ríki. Sá sem leitar eftir samstarfi við aðra stendur sterkari eftir og getur fengið miklu áorkað.

Góðir Íslendingar.
Í dag fögnum við þjóðhátíð og fjölskyldur og vinir um land allt koma saman og gera sér glaðan dag. Það er full ástæða til þess að horfa björtum augum fram á veginn 17. júní árið 2010. Við höfum staðist mikla þolraun. Okkur miðar vel og okkur er að takast að snúa vörn í sókn.

Við gleðjumst yfir birtunni og gróskunni í náttúrunni og þeirri gleði sem fylgir íslensku sumri í hjörtum okkar allra. Mér er minnisstæð myndin af Ólafi bónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum þegar hann handlék nýslegið grasið á jörðinni sinni. Við sáum þar mann sem höfðu um hríð fallist hendur vegna áhrifa náttúraflanna en upplifði þennan dag uppskeru erfiðis síns, uppskeru sem fór fram úr hans björtustu vonum. Í mínum huga er þessi góði búmaður táknmynd Íslendinga sem hafa sigrast á búsifjum, sigrast á náttúröflum og sigrast á tímabundnu mótlæti. Bóndinn á Þorvaldseyri er hetja í mínum huga eins og svo margir Íslendingar sem hafa tekist á við afleiðingar þeirra efnahagslegu hamfara sem á okkur hafa dunið af æðruleysi.

Við ykkur segi ég í dag. Við erum á réttri leið. Við munum sigrast á erfiðleikunum.

Góðir Íslendingar.
Ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum