Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í tilefni af birtingu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 12. apríl 2010

Ég fagna því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis skuli hafa verið birt. Fyrir réttum 16 mánuðum var nefndinni falið að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Skýrslan og sú yfirsýn sem hún miðlar mun hjálpa okkur sem þjóð til þess að vinna úr því áfalli sem hrun ofvaxinna banka hafði í för með sér. Það samhengi atburða, ákvarðana og þróunar sem hún birtir mun veita okkur fótfestu til þess að standa þannig að endurreisninni að slík glórulaus áhætta með þjóðarbúið að veði verði ekki tekin á ný.

Birting skýrslunnar boðar kaflaskil. Hún er þungur áfellisdómur yfir stjórnkerfi, stjórnmálum, eftirlitsaðilum og fjármálastofnunum en um leið áskorun um heiðarlegt uppgjör, breyttar leikreglur í stjórnmálum og nýja og skýrari starfshætti í stjórnkerfinu.

Ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega rannsóknarnefndinni og öllum þeim hópi fólks sem lagði nótt við dag við að ljúka þessu mikla verki.

Ég tel að hér sé um að ræða fyrstu ítarlegu rannsóknarskýrsluna sem birt hefur verið um fjármála-og bankakreppuna sem valdið hefur miklum búsifjum í okkar heimshluta.

Skýrsluhöfundar hafa fengið víðtækar heimildir til rannsókna og fengið einstæða yfirsýn um bæði stjórnkerfið og fjármálaheiminn.

Skýrslan er til sannindamerkis um að Ísland tekur á vandamálum sínum en lætur ekki reka á reiðanum. Ég er sannfærð um að bæði Alþingi og ríkisstjórn vilja af einlægni stuðla að nauðsynlegu uppgjöri og draga lærdóm af því sem úrskeiðis fór. Það eru mikilvæg skilaboð bæði innávið og útávið. Nú er það Alþingis og stjórnvalda að gaumgæfa efni skýrslunnar hvað sig varðar og átta sig vel á meginatriðum hennar, kjarnaatriðum í gagnrýninni sem fram kemur. Því sem varðar fjármálastofnanir og misgjörðir einstaklinga sem þeim tengjast verður væntanlega vísað áfram til sérstaks saksóknara.

Þjóðin hefur beðið þessarar skýrslu og eigum við það öll sameiginlegt að vilja fá svör við þeirri spurningu hvernig þetta gat gerst. Fólk er fullt réttmætrar reiði enda flestir orðið fyrir áföllum og tjóni. Heiðarlegt og sanngjarnt uppgjör er okkar sameiginlegi vilji.

Rannsóknarskýrslan verður okkur vonandi það verkfæri sem við þurfum svo mjög á að halda til að geta beint orku samfélagsins af meiri krafti að endurmati, uppbyggingu og úrbótum.

Til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig verðum við að axla þá ábyrgð og sýna þann kjark að horfast í augu við veruleikann og grafast fyrir um rætur hrunsins. Hér var gerð dýrkeypt samfélagstilraun þar sem græðgin var gerð að einu megin hreyfiafli þjóðfélagsins. Ljóst er af skýrslunni að pólitísk afskipti af einkavæðingu bankanna voru óheillaspor og að eigendur bankanna hugsuðu meira um eigin hag og sín krosseignatengsl en hagsmuni hluthafa, viðskiptavina og lánardrottna, sérstaklega eftir að á móti fór að blása.

Íslendingar bjuggu um árabil við svokallað góðæri sem reyndist þegar að var gáð vera meira í átt við óráðsíu í fjármálum. Neyslan var drifin áfram með skuldasöfnun fyrirtækja, einstaklinga, heimila og þjóðarbús á sama tíma og misskipting gæða í þjóðfélaginu óx hraðfara.

Rannsóknarskýrslan lýsir því að stjórnkerfi okkar og eftirlitsstofnanir réðu ekki við það hlutverk sitt að verja almenning gegn hættunni af ofvöxnu fjármálakerfi. Afdrifarík mistök voru gerð þegar bankar landsins voru einkavæddir árið 2002 í hendur reynslulítilla en áhættusækinna aðila.

Bankarnir fengu síðan óáreittir að vaxa stjórnkerfinu yfir höfuð á sama tíma og kynt var undir þenslu, eignabólu og frekara ójafnvægi með ítrekuðum mistökum við hagstjórn og stjórn peningamála. Með þessu var á fótunum á endanum kippt undan fjármálastöðugleikanum og þar með atvinnulífinu og heimilum í landinu.

Kraftar markaðarins verða ekki nýttir samfélaginu til framfara nema þeim séu settar skorður. Reynslan af hruninu sýnir að þeir geta ekki verið á sjálfstýringu heldur þarf samfélagið, lögin og eftirlitið með þeim að beina öflum markaðarins á uppbyggilegar brautir. Þau verða að vera undir faglegu óháðu eftirliti sem stöðvar misbeitingu þeirra.

Ekkert er samfélagi óhollara en samþjöppun valda og hagsmuna sem spannar viðskipti, stjórnmál og stjórnsýslu. Hver þessara þátta hefur sínu hlutverki að gegna og verða að starfa hver á sínu faglegu forsendum. Stjórnmálamenn sem hafa fyrst og fremst skyldum að gegna við almannahagsmuni mega aldrei leggja fjöregg þjóðarinnar í körfu sérhagsmuna og vænta þess að þar verði þeirra gætt án virks aðhalds og eftirlits.

Hrun bankakerfisins hefur kallað á grundvallarendurskoðun fjölmargra þátta í samfélagi okkar. Bankarnir brugðust, stjórnkerfið brást, stjórnmálin brugðust, eftirlitskerfið brást, fjölmiðlarnir brugðust, hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást. Árum saman bjó þjóðin við óheilbrigt samkrull valda og hagsmuna í stjórnmálum, viðskiptum og stjórnsýslu og oft ekki auðvelt að greina þar á milli.

Ýmsir, þar á meðal sú sem hér stendur, vöruðu ítrekað við þessu meini og nú glímir þjóðin við afleiðingarnar. Af þessu verðum við að læra. Á okkur öllum hvílir nú sú skylda að búa svo um hnútana við endurreisnina að slikt gerist ekki aftur.

Á þessu sameiginlega skipbroti okkar hef ég áður, sem forsætisráðherra, beðið þjóðina afsökunar.

Frá því að ný ríkisstjórn tók við í febrúar 2009 hefur markvisst verið unnið að endurbótum á lagaumhverfi og vinnubrögðum í gangverki samfélagsins, hvort sem litið er til ráðuneyta, eftirlitsstofnanna, fyrirtækja, fjármálastofnanna, fjölmiðla, stjórnmálaflokka eða stjórnskipunarinnar í heild.

Á vettvangi Stjórnarráðsins hefur því þegar verið tekið á ýmsu sem rannsóknarskýrslan finnur að. Í skýrslunni kemur fram að mikið hafi skort á að unnið hafi verið að viðbúnaðarmálum á skipulegan hátt. Kveðið er fast að orði og sagt að vinnubrögð yfirvalda að viðlagaundirbúningi á ögurstundu hafi verið ótæk og í engu samræmi við það hvernig þjóðir með þróaða fjármálamarkaði og stjórnsýslu skipuleggja almennt starfshætti sína.

Þetta eru stór orð sem okkur ber skylda til að taka alvarlega, bregðast við og breyta vinnubrögðum.

Við höfum þegar stigið mörg mikilvæg skref. Við höfum unnið að uppgjöri vegna hruns bankanna, endurreisn fjármálastofnana og atvinnulífs, nýskipan ráðuneyta og gagngerri uppstokkun á skipulagi og vinnubrögðum í stjórnsýslunni.

Ég hef þegar aukið á reglufestuna í forsætisráðuneytinu. Ég hef komið á formlegum ráðherranefndum að danskri fyrirmynd, sem fjalla m.a. um efnahagsmál og ríkisfjármál á föstum fundum þar sem formleg gögn eru lögð fram og formlegar fundargerðir haldnar. Ég á von á tillögum nefndar sem mun m.a. fjalla sérstaklega um kosti þess að ríkisstjórnin hér á landi verði fjölskipað stjórnvald eða vinni sem slík.

Jafnhliða hefur verið hafist handa við löngu tímabærar umbætur í lýðræðismálum og á vinnulagi í stjórnkerfinu. Stóraukinn kraftur var settur í uppgjörið. Framlag til rannsóknar sérstaks saksóknara var aukið, samið við Evu Joly, saksóknurum embættisins fjölgað um þrjá, tugir einstaklinga ráðnir til starfa og víðtækum rannsóknum á vegum Fjármálaeftirlits, Samkeppniseftirlits og skattyfirvalda hrundið á stað.

Skipt hefur verið um stjórnendur eftirlitsstofnana, uppstokkun stofnana ríkisins hafin og fyrir Alþingi liggur tillaga um róttæka uppstokkun á löggjöf um fjármálastarfsemi.

Rannsóknarskýrslan er 2300 síður í níu bindum auk fylgigagna sem birt eru á netinu. Hún myndi þykja ríflegt lesefni á heilli önn í háskóla. Það mun því taka tíma að melta efni hennar. Ég hef þegar haft forgöngu um skipan nefndar undir forystu Dr. Gunnars Helga Kristinssonar sem mun á næstu vikum fara ofan í saumana á skýrslunni með það sérstaka verkefni í huga að skoða þörf fyrir frekari stjórnsýsluúrbætur en þegar eru ráðgerðar.

Að fengnum tillögum hennar höfum við svigrúm á Alþingi til að ráðast tafarlaust í frekari breytingar strax á þessu vori eða í sumar.

Rannsóknarnefndin er hvorki dómstóll né stjórnsýslustofnun. Henni var falið með lögum að setja fram ábendingar um almennt andvaraleysi og vanrækslu eða mistök í starfi. Þessar ábendingar verður að taka alvarlega og Alþingi hefur nú það hlutverk að bregðast við þeim. Ég treysti því að það verði gert fumlaust og af öryggi.

Í þessu sambandi finnst mér sérstaklega virðingarvert að Björgvin G. Sigurðsson hefur þegar brugðist við og tekið sína ákvörðun.

Ég tel mikilvægt i ljósi umfangs þessara mála að öllum hlutaðeigandi verði nú gefið andrými til þess að íhuga sína stöðu, skoða alla málavöxtu og taka ákvarðanir um framhaldið. Ég hvet til yfirvegunar og aðgátar í allri umfjöllun. Við höfum beðið í 16 mánuði eftir þessari skýrslu og nú skulum við síst af öllu hrapa að ákvörðunum.

Á hitt vil ég benda að ríkisstjórnin hefur ekki hikað við að beita sér fyrir breytingum á lögum, skipta um forystu í stofnunum og bæta brotalamir í kerfinu ef það hefur verið talið óhjákvæmilegt til þess að ná fram umbótum og sanngjarnri leiðréttingu á því sem úrskeiðis hefur farið og ekki síður að endurreisa traust í samfélaginu. Ég mun ekki skirrast við það að beita mér fyrir því að tillögur rannsoknarnefndarinnar nái fram að ganga og mun fylgja ábendingum hennar eftir af festu.

Minn flokkur, Samfylkingin, átti aðild að ríkisstjórn þegar fjármálakerfið hrundi.

Við höfðum gagnrýnt það um árabil hvernig að einkavæðingu bankanna var staðið og það ójafnvægi sem hagstjórn síðustu ára hafði valdið.

Við trúðum hinsvegar því almenna stöðumati sem fram kom hjá opinberum eftirlitsstofnunum og í hagspám að fjármálastöðugleika væri ekki ógnað og að unnt væri að koma í veg fyrir brotlendingu í hagkerfinu eftir ofþenslu undangenginna ára. Samkvæmt rannsóknarskýrslunni hefði orðið að grípa til róttækra aðgerða þegar árið 2006 til þess að minnka fjármálakerfið, draga úr áhættu sem það skapaði þjóðarbúinu og forða falli bankanna.

Þegar komið var fram á árið 20007 og 2008 var samkvæmt skýrslunni orðið um seinan að bjarga bönkunum en stjórnkerfið hefði getað dregið úr skaðanum með markvissari viðbúnaði, afdráttarlausum viðbrögðum við upplýsingum um bága stöðu fjármálakerfisins og samhæfðum aðgerðum.

Sem stjórnmálaflokkur axlaði Samfylkingin ábyrgð með því að rjúfa óvirka ríkisstjórn og taka höndum saman við þá sem vildu svara kröfum um virka endurreisn. Síðan sóttum við umboð til kjósenda til þess að leiða endurreisnarstarfið á nýjum forsendum þar sem gert er upp við stefnu og mistök liðinna ára og byggt á grundvelli gilda sem löngum hafa einkennt norrænt velferðarsamfélag.

Það er hvorki létt verk né líklegt til skyndivinsælda að taka til og byggja upp eftir hrunið en því þarf að sinna af festu og úthaldi. Og Íslendingar munu ná sér á strik að nýju fyrr en varir!

Við skulum nýta vel þau kaflaskil sem orðin eru með birtingu rannsóknarskýrslunnar.

Við skulum bregðast við niðurstöðum hennar og ábendingum af auðmýkt.

Við skulum ganga hreint til verks, knýja fram heiðarlegt uppgjör og gera það sem okkur ber að gera og það sem þarf að gera.

Við skulum gera það heilt sem brotið er, hreinsa það sem sýkt er og nýta skýrsluna sem lækningatæki í samfélaginu.

Við þurfum að halda áfram veginn og setja samfélaginu ný og raunsæ markmið.

Látum vinnu rannsóknarnefndarinnar ekki verða unna fyrir gýg.

Höldum okkur við aðalatriði og kjarna máls og látum umræðu um skýrsluna leiða okkur til traustra og varanlegra umbóta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum