Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Opnunarræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra Hnattvæðingarþingið við Bláa lónið 26. februar 2009

Háttvirtu starfsbræður, ráðherrar, fyrirlesarar og aðrir gestir.

Eitt af mikilvægustu hlutverkum okkar stjórnmálamanna eru samskipti og samráð við almenning, sérfræðinga, fulltrúa atvinnulífsins og frjáls félagasamtök. Slíkt samráð er forsenda þess að við getum á hverjum tíma tekið réttar ákvarðanir á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga – öllum til hagsbóta. Það er kjarni hins lifandi lýðræðis að raddir sem flestra fái að heyrast.

Í norrænu samstarfi hafa samráð og opin skoðanaskipti alltaf verið höfð að leiðarljósi. Til þess erum við saman komin hér í dag. Við verðum að horfast í augu við hina raunverulegu stöðu í efnahagsmálum og greina hvaða svigrúm Norðurlönd hafa til framsækinna aðgerða í loftslagsmálum. Á sama tíma þurfum við að finna leiðir til að halda áfram að auðga atvinnulífið með nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Frá því að hnattvæðingarþing var haldið fyrir tæpu ári í Riksgränsen í Svíþjóð hefur hinn efnahagslegi raunveruleiki gerbreyst. Við Íslendingar tölum nú orðið um hið gamla og nýja Ísland. Fyrir fimm mánuðum upplifðum við efnahagslegt kerfishrun, hamfarir af mannavöldum sem snert hafa afkomu og velferð hverrar einustu fjölskyldu í landinu. Ég hef þó haldið því fram að ef eitthvað gott hefur komið út úr þessu hruni er það kröftug umræða um breytt gildismat og kröfur um réttlátara samfélag. Á það ber okkur að hlusta.

Fjármálakreppan hefur leitt okkur fyrir sjónir að hnattvæðingin og hið ótakmarkaða frelsi og flæði fjármagns hefur sínar skuggahliðar. Lítil opin hagkerfi eins og þau norrænu, sem byggja afkomu sína svo mjög á útflutningi, mega sín lítils í ólgusjó alþjóðlegra fjármálastrauma. Eftir margra ára hagvöxt horfa norrænu ríkin nú fram á samdráttarskeið með vaxandi verðbólgu og atvinnuleysi. Viðfangsefni okkar stjórnmálamannanna eru risavaxin um þessar mundir, ekki bara á Íslandi sem fyrst fékk yfir sig holskelfu fjármálakreppunnar heldur í flestum grannríkjum okkar. Því er sú þekking dýrmæt sem þið eruð hingað komin til að miðla.

Kjölfesta Norðurlanda í hnattvæddu viðskiptaumhverfi er velferðarkerfið og sá mannauður og sérþekking sem við búum yfir. Á þeim auði munum við áfram byggja okkar sterku samkeppnisstöðu. Stærsta verkefnið nú sem fyrr er því að standa vörð um grunngildin sem velferðarkerfið byggir á; samhjálp, jafnræði réttlæti og öryggi. En við verðum einnig að gera kröfu um að hagsmunum almennings og félagsauði verði ekki fórnað í nafni hnattvæðingar.

Hér á norrænu hnattvæðingarþingi verður m.a. leitað svara við því hvort fjármálakreppan muni torvelda Norðurlöndum að ná framsæknum markmiðum í loftslagsmálum. Í því samhengi vil ég benda á að hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun getur vísað veginn. Með því að setja fólk, félagsauð og sjálfbært samfélag í forgang– hvort heldur er á uppgangstímum eða á samdráttarskeiði – getum við unnið markvisst að því að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Sjálfbært samfélag sem samþættir markmið í efnahagsmálum og félags- og umhverfismálum, gengur hvorki freklega á náttúruna né spillir andrúmslofti jarðar.

Sköpunarkrafturinn er grunngildi í norrænni menningu, hann er undirstaða verðmætasköpunar og ein mikilvægasta auðlind okkar, ekki síst á samdráttartímum. Því þarf stöðugt að hlúa að frumlegri og skapandi hugsun, í skólakerfi og atvinnulífi og skapa frjóan jarðveg fyrir frumkvöðlastarf. Framsækin stefna í loftslagsmálum verður að byggja á hugviti og gildum sem hafa það að markmiði að allir hafi jafnan aðgang að gæðum náttúrunnar. Þar hafa Norðurlönd miklu að miðla.

Til þessa hnattvæðingarþings höfum við boðið sérfræðingum, fræðimönnum og frumkvöðlum úr atvinnulífi til að leiða umræðu um þau brýnu mál sem eru á dagskrá. Við biðjum ekki um fegraða mynd af ykkar hálfu heldur hreinskilnisleg skoðanaskipti um stöðu mála og horfur. Við stjórnmálamenn ætlum að þessu sinni ekki að vera boðberar pólitískra stefnumála heldur vera i hlutverki hlustandans. Ég vona að umræðan verði frjó og gefandi hvort heldur í sal, vinnuhópum eða í óformlegum samtölum.

Ég óska þess að Hnattvæðingarþingið verði okkur öllum uppspretta góðra hugmynda og að það leiði til nýbreytni og hagnýtra stjórnmála á sviði loftslagsmála og nýsköpunar til gagns fyrir komandi kynslóðir.

Velkomin til hnattvæðingarþings í Bláa lóninu!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum