Hoppa yfir valmynd
08. mars 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp Jóhönnu Sigurðardóttur í móttöku Stígamóta 8. mars 2010 í tilefni 20 ára afmælis samtakanna

Ágætu Stígamótakonur,
Ágætu gestir.

Það  var sannarlega brotið í blað í baráttunni gegn kynferðisofbeldi þegar Stígamót voru stofnuð fyrir nákvæmlega tuttugu árum. Frá upphafi var tilgangurinn tvíþættur: Að byggja upp ráðgjafarþjónustu fyrir þolendur kynferðisofbeldis og veita þeim vettvang til að vinna sigur á hörmulegum afleiðingum þess. Líka mörkuðu Stígamót sér hlutverk grasrótarhreyfingarinnar til að rjúfa þá þöggun sem umlukti ofbeldið, koma því á dagskrá í umræðunni og vinna að hvers kyns úrbótum jafnt á löggjafarsviðinu sem í meðferð þessara mála í samfélaginu  í heild. 

Ég man vel þessi tímamót. Ég man vel þann múr afneitunar og fordóma í garð fórnarlambanna – og Stígamóta - sem virtist svo þykkur og alltumlykjandi sem ókleyfur væri. Ég man vel reiðina og vantrúna sem blossaði sumsstaðar upp þegar leyndarhjúpurinn var rofinn. Ég man vel hvernig mörgum virtist ógnað þegar draga átti sannleikann um ofbeldið fram í dagsljósið.

Á þessum tuttugu árum hef ég fylgst með Stígamótum og þeim árangri sem náðst hefur.  Og ég hef fyllst aðdáun á þeirri eljusemi sem hefur einkennt allt starf og alla framgöngu talskvenna samtakanna. Ekki síst hef ég dáðst að þeim sigurvegurum sem hafa stigið fram og greint frá reynslu sinni af viðurstyggilegu ofbeldi. Hér kemur nafn Thelmu Ásdísardóttur fyrst upp í hugann. Bók hennar olli straumhvörfum í umræðunni fyrir nokkrum árum og hafði mikil áhrif til vakningar í samfélaginu öllu. 

En baráttan við gömlu leyndarmálin stendur enn, hérlendis og um veröld víða. Við höfum sjálf núna á allra síðustu árum þurft að horfast í augu við að íslensk börn voru misnotuð gróflega á heimilum og stofnunum sem störfuðu í skjóli barnaverndaryfirvalda. Núna um nokkurra ára skeið hefur heimurinn staðið á öndinni yfir afhjúpun á kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar í hverju landinu á fætur öðru. Við spyrjum okkur í forundran – hvað kemur næst? Og þó fréttirnar séu sárar, þá fylgir þeim líka léttir – léttir yfir því að fórnarlömbin neiti að sitja áfram ein að sársauka sínum heldur krefjist reikningsskila, ábyrgðar og sannleika.

Stígamót hafa ávallt haldið því sjónarhorni á lofti að skýringanna á kynferðisofbeldi sé fyrst og fremst að leita í samfélagsgerðinni, í valda- og stöðumismun milli karla annars vegar og kvenna og barna hinsvegar. Á heimasíðu Stígamóta segir að markmið ofbeldisins sé ávallt að hafa taumhald og vald yfir þeirri manneskju sem ofbeldinu er beitt og að vitundin um þetta form ofbeldis hafi áhrif á upplifun allra kvenna á því hvað það er að vera kona. Þess vegna er baráttan gegn kynferðisofbeldinu líka jafnréttisbarátta, líka barátta fyrir kvenfrelsi og um leið barátta fyrir heill allra kvenna og allra barna í okkar samfélagi- og í reynd einnig heill karla. Þess vegna hafa Stígamót líka haldið því á lofti að í baráttunni gegn kynferðisofbeldi þurfum við að beina sjónum að gerendunum. Hvað er það í menningu okkar, arfleifð og samtíma, sem býr til ofbeldismenn? Hver einasti drengur, sem fæðist mæðrum sínum og feðrum í okkar samfélagi, á það skilið af okkur öllum, að honum verði ekki mörkuð sú lífsbraut að verða gerandi, verða ofbeldismaður. Hann þarf að fá sterkari skilaboð samfélagsins alls, hann þarf fræðslu í uppvextinum, hann þarf vernd fyrir því að verða ofbeldinu að bráð sem gerandi.

Í rannsókn Hrefnu Ólafsdóttur frá árinu 2002 kom fram að 23% stúlkna og 8% drengja hafi verið beitt kynferðisofbeldi sem börn, það er fyrir 18 ára aldur. Það er merkilegt að vaxandi hópur þeirra sem njóta aðstoðar Stígmóta eru karlar, en þeir eru núna um 10%. Í tölum Stígamóta hefur komið fram að ofbeldið hefjist hjá flestum á aldrinum fimm til fjórtán ára, en að það líði oftast um það bil 15 ár þangað til fórnarlambið leiti sér hjálpar hjá Stígamótum. Þetta segir okkur að úti í samfélaginu séu á hverjum tíma fjöldamargt ungt fólk, ungar konur í miklum meirihluta sem líða miklar þjáningar og glíma hjálparlaust og einar við afleiðingar ofbeldisins. Við vitum að oft er um mannslíf að tefla. Sýnileiki samtaka eins og Stígamóta og öll umræða í samfélaginu stuðlar að því að stytta þennan tíma þannig að fórnarlömbin fái fyrr hjálp.

Svo gæti virst sem kynferðisofbeldið sé ekki á undanhaldi. Svo gæti virst sem klámvæðing síðustu ára hafi ýtt undir það, gert það á einhvern hátt venjulegt. Tíðar fréttir af málum sem rata til lögreglu og dómstóla gætu verið til vitnis um það. Við vitum að það er lítill minnihluti mála sem ratar alla leið. En ég vil þó leyfa mér að trúa að hindranirnar fyrir því að fórnarlömbin stígi fram, annað hvort með kæru eða með því að leita sér hjálpar, hafi látið undan síga. Að miklu fleiri útréttar hendur séu á lofti fyrir fórnarlömb að grípa í. Við vitum að þar eru samtök eins og Stígamót fremst í flokki, en líka Barnaverndarstofa, Barnahús og fleiri. Það var til dæmis merkur áfangi í baráttunni þegar Neyðarmóttaka vegna nauðgana var stofnuð 1993, aðeins þremur árum eftir stofnun Stígamóta. Ég held að mikil og jákvæð vitunarvakning hafi einnig átt sér stað meðal ýmissa faghópa, svo sem lögreglu og innan dómskerfisins, þótt enn sé við hindranir að etja.

Baráttan gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi er ofarlega á dagskrá ríkisstjórnarinnar, eins og kemur fram í samstarfsyfirlýsingu flokkanna. Unnið er af fullum krafti að innleiðingu aðgerðaáætlunar gegn mansali. Kaup á vændi hafa þegar verið gerð refsiverð.  Í undirbúningi er að innleiða svokallaða austurríska leið í baráttunni gegn heimilisofbeldi og sömuleiðis að afnema lagaákvæðið sem gerir nektarstöðum fært að starfa á undanþágum. Það eru víða uppi metnaðarfullar hugmyndir um hvernig við getum eflt baráttuna enn frekar. 

Í þessu samhengi er það dýrmætt að núna um þessar mundir er unnið að nýjum Evrópuráðssamningi gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, þeim fyrsta sinnar tegundar. Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins samþykkti að hefja vinnu að samningnum einmitt í tíð Steingríms J. Sigfússonar á formannsstóli í nefndinni. Stefnt er að því að hann liggi fyrir til undirritunar hjá aðildarríkjunum um næstu áramót eða í byrjun næsta árs. Samningurinn verður mjög víðtækur og nær yfir margvíslegar skyldur stjórnvalda til að vernda konur gegn hvers kyns ofbeldi, herða ákvæði hegningarlaga, þjálfa fagstéttir og aðra til að takast á við ofbeldið, veita fórnarlömbum margvísleg úrræði, efla meðferð gerenda, auka rannsóknir og söfnun tölfræðilegra upplýsinga og margt fleira. Meðal annars verður að öllum líkindum lögð sú skylda á herðar stjórnvalda að koma upp nokkurs konar Ofbeldisvarnarráði með víðtækt umboð.  Þá verður skapaður vettvangur fyrir aðhald og eftirlit Evrópuráðsins með framkvæmd samningsins.

Á föstudaginn var samþykkti ríkisstjórnin, að tillögu Árna Páls Árnasonar félags- og tryggingamálaráðherra, að endurskoða aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi  sem samþykkt var 2005 og móta nýja sem gilda skal fyrir tímabilið 2011 til 2015. Með gildandi áætlun hefur okkur tekist að stíga stór skref framávið, sérstaklega með rannsóknum á kynbundu ofbeldi á Íslandi og útgáfu vandaðra fræðslurita fyrir margskonar fagstéttir sem leiðbeinir þeim um hvernig ber að greina ofbeldið, bregðast við því og aðstoða þolendurna.

Ríkisstjórnin ákvað að í nýrri aðgerðaáætlun verði sérstök áhersla lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu. Auk þessa þarf að endurskilgreina verkefni í aðgerðaáætluninni með hliðsjón af væntanlegum Evrópuráðssáttmála. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og dóms- og mannréttindamálaráðuneytis, en líka verður kallað eftir þátttöku lögreglu, ríkissaksóknara, samtaka íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtaka.

Vinna að nýrri aðgerðaáætlun hófst í dag, 8. mars og er stefnt að því að kynna fullbúna aðgerðaáætlun 24. október næstkomandi, á 35 ára afmæli kvennafrídagsins.

Þessi heildstæða endurskoðun á málaflokknum á að mínu mati að stefna að því að Ísland geti orðiði eitt af fyrstu ríkjunum sem fullgildir væntanlegan Evrópuráðssamning.

Góðir gestir
Dagurinn í dag er fyrst og fremst dagur fögnuðar og dagur þakklætis. Fögnuðar yfir öflugu og árangursríku starfi Stígamóta - þakklætis  - vegna þeirra 5347 fórnarlamba sem Stígamót hafa deilt sigri með á tuttugu ára starfsferli – og líka vegna allra kvenna og allra barna sem hafa í gegnum þessa baráttu fengið rödd sem hljómar af meiri krafti en nokkru sinni áður í samfélagi okkar. Megi sú rödd áfram verða þróttmikil og sterk.

Stígamótakonur, velunnarar – til hamingju með daginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum