Hoppa yfir valmynd
31. desember 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótagrein forsætisráðherra

Áramótagrein forsætisráðherra
í Morgunblaðinu 31. desember 2003


I

Liðna árið bar allt mjög merki alþingiskosninganna í maí síðastliðnum. Umræður og átök á þingi og í þjóðfélagi drógu dám af því með vaxandi þunga fyrri partinn og síðari hlutinn litaðist síðan af úrslitunum. Augljóst var að stjórnarandstaðan var langþreytt orðin á því hlutverki og forystumenn hennar margir hverjir valdþyrstir mjög og tilbúnir til að kosta miklu og í einstaka tilviki svo til öllu, til að fá þeim þorsta svalað. Ein afleiðing þessa varð pólitísk upplausn í stjórn höfuðborgarinnar fyrir réttu ári síðan, sem lauk með miklum vandræðagangi og sér raunar enn ekki fyrir endann á þeirri uppákomu. Bætist það við önnur óhöpp við stjórn borgarinnar en níu ára lausatök hafa komið höfuðborginni í afar veika fjárhagslega stöðu og er skuldasöfnun hennar nú orðin mikið áhyggjuefni öllum sem eitthvað til þekkja. Engar skynsamlegar skýringar hafa fengist á þessum mikla viðsnúningi enda hafa tekjur borgarinnar vaxið, bæði vegna uppgangstíma og aukinnar skattheimtu hennar sjálfrar. Ríkið hefur á sama tíma greitt hratt niður skuldir sínar og sett til hliðar stórfellda fjármuni til að standa á móti margvíslegum framtíðarskuldbindingum, en áður höfðu menn í þeim efnum látið hverjum degi nægja sína þjáningu.

Vegna þeirrar fyrirhyggju sem ríkt hafði við stjórn efnahagsmála, þótti flestum flokkum óhætt að lofa fyrir kosningar verulegum skattalækkunum á því kjörtímabili sem í hönd fór. Þar sem stjórnarflokkarnir héldu velli er ljóst að við skattalækkunaráformin verður staðið, þótt útfærsla þeirra og tímasetningar hljóti að taka mið af almennri stöðu efnahagsmálanna á kjörtímabilinu. En við lok þess verður skattaumhverfið gjörbreytt. Þá ætti að sjást að svokallaður hátekjuskattur er horfinn, eignaskattur er horfinn, matarskattur er aðeins þriðjungur þess sem hann fór hæst (var 24,5% verður 7%), erfðafjárskattur hefur verið lækkaður um helming (og stundum raunar meira) og tekjuskattsprósenta um allt að fjögur prósentustig. Ef við er bætt þeim breytingum sem áður hafa verið gerðar á sköttum fyrirtækja, sem komnir eru úr 50% í 18%, verður ekki ofmælt að segja að bylting til hins betra hafi orðið í íslenskum skattamálum á einum áratug. Tekjuskattar og útsvar sem í upphafi þessa tímabils fóru hæst í 47% verða þá 34% og hefur hlutdeild sveitarfélaganna í þeirri prósentu vaxið en ríkisins minnkað. Það er ánægjuefni að fært skuli vera að hrinda slíkum breytingum í framkvæmd án þess að stefna stöðu ríkissjóðs í óefni. Þvert á móti. Skuldir hans minnka, lánstraust eykst og vaxtakostnaður ríkissjóðs dregst hratt saman af báðum ástæðum.

 

II

Aðeins viku fyrir kosningar var forystumönnum ríkisstjórnarinnar tilkynnt að varnarviðbúnaði í Keflavíkurstöðinni myndi verða gjörbreytt innan mánaðar. Kom sú tilkynning mjög á óvart. Sú ákvörðun olli ekki aðeins vonbrigðum og áhyggjum vegna efnis hennar, heldur einnig vegna aðferðarinnar sem beitt var og þótti mjög úr takti við trausta og góða samvinnu Íslands og Bandaríkjanna um langt skeið. Sem betur fór tókst að koma því máli öllu í eðlilegri farveg og fella það inn í almenna endurskoðun á viðbúnaði og herstöðvarrekstri Bandaríkjahers um heim allan. Og eins gafst færi á, sem er mikilvægast, að setja hina sérstöku stöðu varnarsamnings þjóðanna í fyrirrúm. Ástæða var til að fagna því að þetta mál fór í betri farveg en í stefndi um skeið. Hitt var þó undirstrikað af íslenskum yfirvöldum að þeirri jákvæðu niðurstöðu fylgdi þó ekki að lausn væri fengin og Bandaríkin hefðu ekki fallið frá sínum sjónarmiðum í málinu, þótt orðið hefði að samkomulagi, að huga vel að hagsmunum og sjónarmiðum beggja og með hliðsjón af öðrum breytingum. Málið er því enn í mikilli óvissu og niðurstaða sem okkur væri að skapi er enn fjarri því að vera fyllilega tryggð. Menn verða að gera sér grein fyrir þessu. Enn sem fyrr treysta íslensk stjórnvöld þó því, að gagnkvæmir hagsmunir verði í heiðri hafðir og ekki verði brugðist mikilvægustu skuldbindingunni um að tryggja öryggi Íslands með fullnægjandi varnarviðbúnaði í landinu.

 

III

Sú ákvörðun að skipa Íslandi í bandalag hinna staðföstu þjóða í Íraksstríðinu varð mjög umdeild eins og vænta mátti. Eftirleikurinn hefur fremur rennt stoðum undir þá ákvörðun en að veikja forsendur hennar. Stjórn Saddams Husseins var ógn sem alþjóðasamfélagið mátti ekki búa lengur við nema bíða alvarlegan álitshnekki. Sú skoðun Sameinuðu þjóðanna að hætta stafaði af Íraksstjórn lá fyrir í fjölda ályktana samtakanna sem og ítrekaðri kröfu þeirra um að Saddam Hussein afvopnaðist og sýndi fram á að brölt sitt heyrði sögunni til. Það hafði hann ekki gert með trúverðugum hætti þegar látið var til skarar skríða gegn honum. Það er athyglisvert að í kjölfarið hafa stjórnvöld bæði í Íran og Líbýu játað að hafa haft óhreint mjöl í pokahorninu en segjast nú hafa iðrast. Þau hafa nú gengist undir skuldbindingar um að hætta þróun gereyðingarvopna og fallast á alþjóðlegt eftirlit með þeim loforðum. Staðfesta bandamanna í Íraksmálinu og örlög harðstjórnarinnar í Bagdad höfðu vafalítið rík áhrif á þessa stefnubreytingu ríkisstjórna Írans og Líbýu. Af þessum sökum er nú friðvænlegra í heiminum en ella.

 

IV

Ekki verður um það deilt að bilið á milli ríkra þjóða og fátækra fer ekki minnkandi. Þvert á móti. Milljarður manna hefur minna en 2.500 krónur á mánuði til framfærslu. Ríkari þjóðirnar hafa vissulega leitast við að bera smyrsl í fátæktarsárin með ýmsum hætti. Uppgjöf skulda og lengri greiðslufrestir, hjálp í tengslum við tiltekin neyðartilvik og þróunarhjálp má nefna til sögunnar. Sú viðleitni öll er jákvæð. Þó verða menn að átta sig á að slíkar aðferðir ná skammt og í sumum tilvikum drepa þær niður sjálfsbjargarviðleitni þiggjendanna. Þróunaraðstoð í sinni bestu mynd er auðvitað mikilvæg, en þó er hún og verður mjög takmarkað svar við vanda fátækustu þjóðanna. Þær munu fara mjög halloka áfram meðan þeim er haldið utan við múra markaðarins og njóta svo takmarkaðs eða öllu heldur skammtaðs viðskiptafrelsis eins og þær gera nú. Bent hefur verið á að markaðshlutdeild þriðja heimsins í frjálsum, alþjóðlegum viðskiptum þyrfti aðeins að aukast um eitt prósent til að losa 130 milljónir manna úr fátæktargildru. Þessar þjóðir mæta hvarvetna verðstilbúningi, verðsamráði og einokunartilburðum. Við þekkjum það vel af okkar eigin reynslu að fornu og nýju að slíkir viðskiptahættir eru ávísun á laka lífsafkomu. Sem betur fer bendir margt til að yngri kynslóðirnar í ríku löndunum hafi næmari skilning en þær eldri á því að núverandi misskipting veraldargæða, sem stafar af því að fátækir fá ekki tækifæri, verður að lokum öllum til bölvunar.

 

V

Tilburðir voru uppi til að gera „fátækt“ að einu megin máli síðustu kosninga. Var sá tónn snemma sleginn og margvíslegum staðhæfingum, misvel grunduðum, haldið hátt á lofti. Reyndu ólíklegustu menn að tilefnislausu að sýnast öðrum betri í umræðunni. Eftir kosningar datt botninn undarlega fljótt úr þeirri umræðu. Og ekkert hefur bólað á töfralausn á fátæktarvandanum á Alþingi, sem svo margir virtust búa yfir síðastliðið vor. En einmitt nú ætti því að vera ágætur umræðutími fyrir þetta mál, þegar von um þingsæti, ráðherradóm eða aðra upphafningu truflar ekki rökræðuna. Talnagrunnur hefur ekki passað vel, svo varlega sé talað, við sumt af því sem kynnt hefur verið sem ótvíræðar staðreyndir og er þarft að fram fari fræðileg og trúverðug úttekt á þessu viðfangsefni. Við vitum að kaupmáttur hefur aldrei í sögunni verið hærri. Kaupmáttur bóta, hverju nafni sem nefnast, hefur ekki verið hærri. Kaupmáttur öryrkja hefur meira en tvöfaldast á fáeinum árum. Atvinnuleysi fer minnkandi og er hér minna en í flestum nálægum löndum. Framlög til heilbrigðismála hafa aukist gríðarlega á undanförnum tíu árum. Vextir hafa farið lækkandi. Barnabætur hafa aukist. Húsaleigubætur hafa komið til. Minni vanskil eru hjá einstaklingum á lánamarkaði en oftast áður og svo mætti áfram telja. Þessir þættir liggja fyrir. Hvernig rímar þetta við háværar fullyrðingar manna um að fátækt sé að aukast? Ástæðulaust er að gera lítið úr slíkum fullyrðingum fyrirfram, en þetta hlýtur að vera áleitið athugunarefni, ekki síður fyrir þá sem hæst hafa haft og notað hafa sterkustu litina til að lýsa sjónarmiðum sínum. Hljóta menn að fagna því ef virtir fræðimenn verða fengnir til að komast til botns í málinu, og hefja umræðuna á hærra plan.

 

VI

Á undanförnum árum hefur viðskiptalíf Íslendinga þróast hratt í átt til þess sem best gerist með öðrum þjóðum. Heilbrigð viðskipti milli þjóða draga ekki einungis björg í bú, þau bera með sér nýja þekkingu og fagmennsku og eyða heimóttarskap. Íslendingar eru nýjungagjörn þjóð sem er fljót að tileinka sér nýjar hugmyndir og tækni, í því felst mikill styrkur. Um það er fjármálamarkaðurinn okkar ágætt dæmi. Hann var áratugum saman lítt þroskaður og óhagkvæmur, pólitísk afskipti landlæg og kerfið allt staðnað. Frelsi á fjármagnsmarkaði og einkavæðing ríkisbankanna leysti úr læðingi mikið afl. Íslensku bankarnir hafa verið ötulir við að styrkja sig og efla jafnt innanlands sem utan. Þessi kappsfulla útrás hefur nú þegar skilað íslensku samfélagi miklum verðmætum. En kappi verður að fylgja forsjá. Ella kann illa að fara. Við þurfum að gæta þess, að gera ekki þau mistök sem við sjáum að öðrum hefur orðið á. Ástæðan til þess að á þetta er minnst er sú að borið hefur á því að stjórnendur nokkurra fyrirtækja hér á landi hafa gert samninga um kaup og kjör sem gefa tilefni til að staldrað sé við. Í Bandaríkjunum og einnig í Bretlandi, urðu s.k. valréttarsamningar við forstjóra algengir á síðasta áratug síðustu aldar. Reynslan af þessum samningum hefur verið tvíbent í besta falli. Ef vel er að málum staðið og hófsemi gætt er þetta ágætt fyrirkomulag til að tengja saman hagsmuni eigenda fyrirtækjanna og æðstu stjórnenda þeirra. En ef óvarlega er farið þá geta slíkir samningar valdið miklum skaða í efnahagslífinu. Hætta er á því að stjórnendur fyrirtækja reyni að blekkja markaðinn, jafnvel freistist til að hagræða bókhaldi þannig að afkoma virðist betri en varfærið mat gæfi til kynna. Eins er hætt við því að fyrirtækjum sé síður stýrt með langtímahagsmuni hluthafanna að leiðarljósi heldur sé fyrst og fremst horft til þess tíma sem valréttarsamningarnir ná til. Má þá einu gilda hvað verður um hag hins almenna hluthafa í kjölfarið – sá í neðra hirðir þann sem síðastur er út eins og hjá Sæmundi forðum í Svartaskóla. Um þetta eru mörg dæmi af erlendum vettvangi. Óhóflegir og glannalegir launasamningar áttu að minnsta kosti nokkurn þátt í falli fyrirtækja eins og Enron og WorldCom og skemmst er þess að minnast er stjórnarformaður kauphallarinnar í New York varð að segja starfi sínu lausu, vegna launasamninga sem þóttu ekki vera í nokkrum takti við það sem siðlegt þykir. Þessir atburðir hafa rýrt traust manna á fyrirtækjum og markaðinum og gefur auga leið hversu dýrkeypt það er. Það er engin ástæða til þess að við Íslendingar föllum ofan í þá pytti sem aðrir eru nú með erfiðismunum að koma sér upp úr.

 

VII

Síðastliðinn tíu ár hefur kaupmáttur launa vaxið meira en dæmi eru um á lýðveldistímanum. Sérstakt ánægjuefni er að kaupmáttur lægstu launa hefur vaxið mest og hefur í þeim efnum náðst mikill og góður árangur. Þessi þróun mála er mjög athyglisverð. Sé litið til áranna 1980 til 1990 sést að laun hækkuðu tuttugufalt en kaupmáttur þeirra óx einungis um 4,5%. Frá 1995 hafa laun hækkað 1,8-fallt en kaupmátturinn hækkað um 34%. Þessi árangur er ekki sjálfgefinn. Hann er afrakstur festu í efnahagsstjórninni og ábyrgra kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Ekki er hægt að gefa sér að kaupmáttur haldi áfram að vaxa ár frá ári nema það takist að tryggja hagvöxt og stöðugleika í efnahagslífinu. Framundan er lota kjarasamninga. Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur sýnt í senn framsýni og ábyrgð á undanförnum áratug og átt drjúgan hlut í tilurð hinnar miklu kaupmáttaraukningar sem orðið hefur. Það vakti þó nokkra undrun hvernig verkalýðsforystan hagaði málflutningi sínum þegar Alþingi afgreiddi nýverið lög um lífeyrisréttindi forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Það er einungis hægt að líta á þetta atvik og þau ótrúlegu stóryrði sem felld voru þá að lítt athuguðu máli, sem eitthvert dularfullt minni frá löngu liðinni tíð, sem verður öllum óskiljanlegt þegar fram líða stundir. Það var einsog yfir þeirri umræðu allri lægi einhver hörmulegur klaufadómur og var dapurlegt fyrir flesta að verða vitni að. Engin ástæða er hins vegar til að ætla að með þessu hafi upphafstónn í samningaviðræðum á vinnumarkaði verið sleginn. Samningar um kaup og kjör eru allt of mikið alvörumál fyrir almenning á Íslandi til þess að menn nálgist þá af léttúð eða flumbrugangi. Það er brýnt hagsmunamál þjóðarinnar, að í þeirri samningalotu, sem framundan er, hafi þeir sem þar ráða för, gæfu og þrek til að leiða mál til lykta með jafn heilladrjúgum hætti og áður. Þannig yrði lagður traustur grunnur að auknum kaupmætti næstu árin, öllum til hagsbóta. Þeir sem gerst þekkja til efnahagsmála halda því fram að við Íslendingar getum vænst þess að hagvöxtur verði umtalsverður á næstu árum en þó einvörðungu ef rétt er á haldið. Okkar er því að grípa tækifærin, sem nú gefast, til að efla hag þjóðarinnar enn frekar. Þau eru mörg. Framlög til menntamála og vísinda, heilbrigðismála og félagsmála hafa verið stóraukin. Skattar hafa lækkað og munu lækka enn frekar, skuldir ríkissjóðs hafa lækkað og munu lækka enn frekar og lífeyrissjóðskerfið okkar hefur styrkst, meðan slík kerfi standa á brauðfótum víða. Bjartsýni við þessar aðstæður má áhættulítið flokkast undir raunsæi. Það er á mörgu að taka og margt óunnið. Vaxandi fiskistofnar, álver og virkjunarframkvæmdir á Austurlandi, framsækin líftækni- og lyfjafyrirtæki, öflugir bankar og vel menntað og dugandi starfsfólk, allt eru þetta sóknarfæri fyrir íslenskt atvinnulíf sem okkur ber að nýta til fulls. Þó syngi í rá og reiða er ekki ástæða til að slá af. Gæfan er þeim gjarnan hliðholl sem sækja djarft og af krafti. En sókndirfska er eitt og fífldirfska annað og ástæða til að gæta vel að öllum veðrabrigðum. Á árunum 1999 til 2001 fóru margir mjög geyst og kapp réð stundum meiru en forsjá. Forráðamönnum íslenska bankakerfisins er rétt um þessar mundir að horfa til baka til þessara ára. Þá var gengismálum okkar til að mynda þannig háttað að Seðlabanki Íslands bar ábyrgð á því að gengi íslensku krónunnar héldist innan ákveðinna vikmarka og freistandi var að flytja inn í landið fjármuni umfram það sem vöxtur hagkerfisins þoldi. Það hrikti mjög í á árinu 2001 þegar efnahagslífið þurfti að vinna á viðskiptahallanum sem myndast hafði. Margir sem höfðu tekið mikla áhættu með óhóflegri erlendri lántöku töpuðu umtalsverðu fé þegar krónan féll. Erlend lántaka er að aukast umfram það sem heppilegt getur talist og sérstaklega veldur taumlaus erlend lántaka bankanna nokkrum áhyggjum um þessar mundir. Ríki og Seðlabanki hafa vissulega bætt erlenda lánastöðu sína svo um munar og m.a. af þeim ástæðum er mat á lánsfjárhæfni Íslands afar traust. Erlendar skuldir annarra hafa á hinn bóginn aukist mjög mikið og er óhjákvæmlegt að hvetja til aukinnar varfærni í þeim efnum og munu yfirvöld fylgjast náið með þróun mála á næstu mánuðum og misserum.
Verð íslensku krónunnar ræðst nú alfarið á markaði og reynslan sýnir að varhugavert er að spá fyrir um þróun á gjaldeyrismörkuðum. Þar geta hlutirnir gerst hratt og sveiflurnar orðið miklar. Ekki er hægt að ganga að því gefnu að Seðlabankinn eða ríkisvaldið fari í slag við markaðsöflin um gengið þótt staða beggja sé sterk. Seðlabankinn hefur nú það markmið að tryggja stöðugt verðlag og til þess getur hann fyrst og fremst beitt stýrivöxtum sínum. Mikið mun reyna á bankann á næstu misserum. Hann þarf að ná markmiðum sínum án þess að drepa allt í dróma með of miklum vaxtahækkunum. Ríkisvaldið stendur einnig frammi fyrir erfiðum hagstjórnarverkefnum. Þar skiptir mestu að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sé skýr og að henni sé fylgt eftir af festu. Langtímastefna í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin lagði fram við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2004 er stórt skref í þá átt að gera hagstjórn á næstu árum markvissa. Auðveldara verður fyrir Seðlabanka Íslands að vinna að langtímastefnumótun sinni, þegar ríkið hefur sett fram sína stefnu og markmið með skýrum hætti. Við það aukast mjög líkurnar á að þessi tvö helstu efnahagsstjórntæki hins opinbera vinni saman eins og til er ætlast. Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa að undanförnu lýst því yfir að horfur í íslensku efnahagslífi séu góðar. Markviss hagstjórn og skynsamlegir kjarasamningar munu án efa tryggja aukinn kaupmátt og áframhaldandi efnahagslega velmegun þjóðarinnar. Um það þarf að sameinast.

 

VIII

Nefnd sem ríkisstjórnin fól menntamálaráðherra að skipa, vinnur nú að athugun á samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, en einsog kunnugt er skortir hér slíkan lagaramma öfugt við það sem gerist í flestum þeim löndum sem við þekkjum til. Lög, sem á niðurstöðum nefndarinnar yrðu byggð, myndu auðvitað ekki verða afturvirk. Aðilum, sem þau kynnu að taka til, yrði gefin hæfilegur tími til að laga sig að hinu nýja lagaumhverfi. Þessar aðstæður minna á að Samkeppnisstofnun taldi sig ekki á sínum tíma hafa lagaskilyrði til að stemma stigu við tiltekinni ákvörðun sem leiddi til samþjöppunar á matvörumarkaði. Úr þeim lagaannmörkum hefur nú verið bætt. Það þýðir, með öðrum orðum, að slíkur samruni sem nú er orðinn, hefði ekki náð fram að ganga miðað við þau lög sem gilda í landinu. Nauðsynlegt virðist að bregðast við þessu og vaxandi hringamyndunum á ýmsum sviðum með nýrri löggjöf sem gefa myndi þeim sem í hlut ættu tiltekinn aðlögunartíma að breyttu lagaumhverfi. Öll merki benda til þess að samruni fyrirtækja og einokunartilburðir í kjölfarið sé að verða meinsemd í íslensku viðskiptalífi. Við því er sjálfsagt og eðlilegt að bregðast.

 

XI
Enginn veit með öruggri vissu hvernig hið nýja ár mun dúka sitt borð. Reynslan sýnir að spár frómustu sérfræðinga og sprenglærðra spekinga um gengisþróun, álverð, aflabrögð, veðurfar, hlutabréfaverð, svo ekki sé talað um hernaðarmál, hryðjuverk, jarðelda, snjóflóð og aðra vá, eru einatt ekki mikið áreiðanlegri en það sem völvur tímaritanna láta frá sér fara. Enda hafa spakvitringarnir auðvitað fjölmarga fyrirvara á spám sínum sem vísa má til ef þær bregðast. Og það er ekki einu sinni víst að okkur liði neitt betur, þótt við værum ekki svona hræðilega nærsýn eins og við erum þegar við reynum að rýna inn í framtíðina. En sumt vitum við með nokkuð öruggri vissu. Það mun vora eftir vetur. Grös munu vakna til lífs. Kynslóðir koma og fara. Og á hverju sem veltur verður manneskjan sem slík söm við sig. Í febrúar verða 100 ár frá því að við fengum heimastjórn og 17. júní næstkomandi fögnum við 60 ára lýðveldisafmæli. Töluverð tilefni hvoru tveggja til nokkurra hátíðarbrigða. En að flestu öðru leyti rennum við blint í sjóinn einsog endranær. En ætli Guð okkur stór eða smá hlutverk á árinu sem í hönd fer, þökkum við fyrir það með því að lofa að gera okkar besta.

Ég þakka Íslendingum samfylgdina á árinu sem er að líða og óska þjóðinni gleðilegs árs.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira