Hoppa yfir valmynd
23. mars 2004 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ársfundur Seðlabanka Íslands 2004


Ávarp forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar,
á ársfundi Seðlabanka Íslands 2004

Ágætu fundargestir,
Ársfundur Seðlabankans nú er sá þriðji í röðinni frá því að lögum var breytt og honum fengið fullt sjálfstæði. Ekki leikur vafi á því, að með lögum nr. 36 frá árinu 2001 um Seðlabanka Íslands var tekið mikilvægt skref í átt til varanlegs stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Megin markmið Seðlabankans er að halda verðbólgu innan settra marka og það hefur tekist með ágætum undanfarin ár. Við Íslendingar höfum ríka ástæðu til að fagna lágri verðbólgu, svo hart sem andhverfa hennar lék allt efnahagslífið árum og áratugum saman. En þótt lág verðbólga sé vissulega mikilvæg forsenda efnahagsstefnunnar er hún ekki takmark hennar. Megin markmið efnahagsstefnunnar eru aukin velmegun og kaupmáttur almennings. Skýrt er tekið fram í lögum um Seðlabankann, að stefna hans skuli styðja við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, svo lengi sem hún leiði ekki til verðbólgu umfram þau mörk, sem æskileg þykja. Mikilvægt er að hafa þetta í huga nú á fyrstu árum sjálfstæðs Seðlabanka. Þær vinnureglur og það verklag, sem nú er í mótun hjá bankanum, mun að öllum líkum hafa mikil áhrif á það, hvernig bankinn sinnir sínu mikilvæga hlutverki á komandi árum. Samspil peningastefnunnar og ríkisfjármála er eitt mikilvægasta viðfangsefni hagstjórnarinnar og takist okkur vel upp á þeim vettvangi mun efnahagslíf þjóðarinnar eflast og dafna.

Síðast, þegar við hittumst hér á ársfundi Seðlabankans, voru einungis tæpir tveir mánuðir til Alþingiskosninga. Óvissa þá um þróun efnahagsmála endurspeglaðist í þeirri óvissu sem ríkti um úrslit þingkosninganna. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir boðuðu lækkun skatta á kjörtímabilinu. Skattalækkanir voru taldar mögulegar meðal annars í ljós sterkrar stöðu ríkissjóðs og fyrirsjáanlegs hagvaxtar. Nokkuð var reyndar tekist á um hversu mikil áhrif stóriðjuframkvæmdir hefðu á íslenskt efnahagslíf. Einkum var deilt um hversu mikillar þenslu mætti vænta í kjölfarið. Niðurstaða þeirrar umræðu réði að nokkru afstöðu manna hvort skattalækkanir væru heppilegar eða ekki. Nú er í tísku að taka spár alvarlega, þótt þær séu oftast ekki annað en framreikningur á forsendum sem eru óvæntum breytingum háðar. Þrátt fyrir slíka fyrirvara er eðlilegt að orð Seðlabankans hafi meiri vigt en annarra sem reyna að skyggnast um gáttir og geta sér til um ókomna atburðarás efnahagslífsins. Í aðdraganda kosninga verður hann þó að fara fram af mikilli gát, svo að hann verði ekki dreginn of nærri hinum pólitísku átökum. Það er mikil freisting, bæði fyrir stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma, í hörðum kosningaslag að beita fyrir sig trúverðugleika Seðlabankans, sjálfum sér til framdráttar. Hlutleysi og sjálfstæði bankans er undir því komið að hann sé yfir allt slíkt hafinn. Því kann að vera rétt að stjórnendur bankans hugi að mótun vinnureglna um hvernig Seðlabankinn hagar málflutningi sínum og nauðsynlegri upplýsingagjöf í aðdraganda kosninga. Það er um að gera að ráðast í slíka vinnu með góðum fyrirvara, og í skjóli fyrir pólitískri taugaveiklun, sem gjarnan er fylgifiskur kosninga, hér á landi sem annars staðar.

Góðir gestir,
Íslensku efnahagslífi vegnaði vel á síðasta ári. Mælingar Hagstofunnar benda til þess að hagvöxtur síðastliðins árs hafi verið um 4% og því nokkuð umfram væntingar. Ef rétt reynist, þá er það myndarlegur vöxtur og góður viðsnúningur miðað við árið 2002, en þá gekk íslenska hagkerfið enn í gegnum nokkra aðlögun. Hversu vel tókst þá til sýnir mikla aðlögunarhæfni efnahagslífsins og gegnir íslenska krónan þar stóru hlutverki. Þó alltaf séu til einhverjir svefngenglar evrunnar er þessi staðreynd ljós öllum vel vakandi mönnum. Talið er að hagvöxtur á evrusvæðinu hafi verið rúmlega 0,5% á árinu 2003 og á næstu árum verði hann á bilinu 1,8 til 2,5%. Þetta er mun minni hagvöxtur en gera má ráð fyrir hér á landi. Mikilvægi öflugs og sjálfstæðs Seðlabanka, sem getur sett stýrivexti sína í samræmi við efnahagsástandið, ætti ekki að þurfa að vera deiluefni.

Kaupmáttur launa hefur nú vaxið jafnt og þétt í heilan áratug og er auðvitað mikið fagnaðarefni fyrir þjóðina. Kaupmáttur lægstu launanna hefur vaxið mest sem betur fer. Aukin kaupmáttur skiptir mestu fyrir launafólk og forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur á þessum tíma haft meira upp úr krafsinu fyrir sitt fólk en nokkru sinni fyrr. Vitanlega gengur verkalýðshreyfingin eins langt og hún getur og gerir ýtrustu kröfur. Við því er að búast. En það sem hefur breyst frá því sem áður var, er að nú fylgir ábyrgð festu og menn gera sér grein fyrir því að samningur um kauphækkanir umfram greiðslugetu atvinnuveganna er ónýtt efni. Slíkar hækkanir eru froða í fögrum búningi, ávísun á verðbólgu og rýrnandi kjör þeirra sem lægst hafa launin. Kjarasamningarnir, sem nú hafa verið gerðir á milli aðila vinnumarkaðarins, munu án efa reyna á þanþol íslensks atvinnulífs og getu þess til að standa undir meiri launahækkunum en gerist í helstu viðskiptalöndum okkar. En þrátt fyrir að nokkuð djarft sé teflt, þá má ætla að þessir kjarasamningar geti verið raunhæfir og þeir skili launafólki viðvarandi kaupmáttaraukningu. Miklu skiptir í því mati, að samningurinn er til fjögurra ára og þar með er kominn aukin festa í umhverfi íslensks atvinnulífs. Ríkisstjórnin kom að þessari samningagerð með yfirlýsingu þann sjöunda mars. Þar var kveðið á um þær aðgerðir sem ríkisvaldið myndi grípa til sérstaklega vegna kjarasamninganna. En mikilvægast er, hvað ríkisstjórnina varðar, að samningsaðilar gátu byggt á, að efnahagsumhverfið verði í jafnvægi á næstu misserum og árum. Án slíks trausts hefði verið mjög erfitt að semja til langs tíma. Óhjákvæmilegt verður, að horfa til þessara kjarasamninga þegar ríkið semur við sína starfsmenn á næstunni. Þau viðmið eru í samræmi við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fjögurra ára, en þar er á því byggt að launakostnaður ríkisins hækki ekki umfram önnur laun.

Nýgerðir kjarasamningar og betri skilningur á efnahagslegum áhrifum stóriðjuframkvæmdanna, gera stjórnvöldum nú auðveldara fyrir að skipuleggja ríkisfjármálin næstu árin. Nokkur umræða hefur verið um hvenær komi til þeirra skattalækkana sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar er kveðið á um að skattalækkanir verði ákveðnar í tengslum við kjarasamninga. Á vettvangi ríkisstjórnarinnar er því fjallað um þessa þætti; áfangaskiptingar, prósentubreytingar og annað það sem máli skiptir. Ríkissjóður stendur ágætlega að vígi þótt mjög sé á hann herjað eins og fyrri daginn. Sést það glöggt af því, að fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að heildarskuldir ríkissjóðs verði komnar niður undir 15% af landsframleiðslu árið 2006, en árið 1995 var þetta hlutfall yfir 50%. Það er styrkleikamerki, að hægt sé að ráðast í skattalækkanir, án þess að valda ríkissjóði óbærilegum vanda. Góð staða ríkissjóðs sker sig úr þegar litið er til helstu viðskiptalanda okkar, bæði austan hafs og vestan. Á evrusvæðinu virðast stjórnmálamenn hafa gefist upp á að vinna innan þeirra marka um ríkisfjármál sem sett voru, þegar evran var tekin upp sem sameiginlegur gjaldmiðill. Okkur Íslendingum gefast því góð tækifæri núna. Framundan er mikill hagvöxtur, ekki síst ef áform um stækkun Norðuráls ganga eftir. Skattalækkanir munu enn auka kaupmátt ráðstöfunartekna og um leið leggja grunn að meiri hagvexti á komandi árum.

Ágætu ársfundargestir,
Ég hef áður gert að umtalsefni, og tekið undir þær viðvaranir og athugasemdir sem Seðlabankinn hefur sent viðskiptabönkunum. Nauðsynlegt er að stjórnendur viðskiptabankanna taki þær til alvarlegrar skoðunar. Aukning erlendra skulda þjóðarbúsins hefur verið það mikil að undanförnu, að ekki fær staðist til lengdar. Erlendar skuldir bankanna jukust um 300 milljarða á síðasta ári eins og fram hefur komið, en sú aukning er meiri en þriðjungur allrar þjóðarframleiðslunnar á því ári. Erlend matsfyrirtæki munu fyrr en síðar líta til þessarar þróunnar við mat sitt á lánshæfi Íslands. Það er dýrt spaug ef matsfyrirtækin lækka lánshæfiseinkunnina og við verðum að koma í veg fyrir að slíkt gerist að óþörfu. Rétt er að horfa til nótu Seðlabankans og annarra aðvörunarorða í þessu ljósi. En ef ekki dregur úr skuldsetningunni og sjáist ekki breytingar á skammtímalánum í raunveruleg langtímalán hljóta forystumenn Seðlabankans að velta fyrir sér til hvaða aðgerða skuli grípa, þannig að ekki horfi til vandræða. Áminningarnótan er ekki plagg sem bankinn sendir til þess að vísa í, ef illa fer, og firra sig þar með ábyrgð. Opinn og frjáls fjármálamarkaður er forsenda fyrir góðu gangverki samfélagsins. Þeir, sem þar eru í forystu, eiga að vera framsæknir og djarfir en þeir verða líka að kunna sér hóf og gæta að langtímahagsmunum efnahagslífsins. Bankarnir eiga vissulega að sækjast eftir góðum hagnaði, en þeir geta ekki leyft sér að skara að sér skyndigróða á kostnað stöðugleikans í efnahagslífinu. Þeir eiga mest undir því sjálfir að stöðugleikinn sé varðveittur. Þýðingarmest er að stjórnendur bankanna sjái þetta sjálfir og ekki þurfi að koma til aðgerða Seðlabanka. En á hinn bóginn má enginn vafi ríkja um að Seðlabankinn tekur fast á málum ef ekki er farið að vinsamlegum tilmælum, sem hann sendir frá sér.

Góðir gestir,
Ég þakka stjórnendum Seðlabankans gott samstarf á liðnu starfsári. Ég vil einnig þakka starfsfólki bankans fyrir farsæl störf. Engum dylst mikilvægi þess starfs sem unnið er hér innan veggja. Ég vona að næsta starfsár bankans verði gæfuríkt og eigi sinn góða þátt í að skila þjóðinni fram til aukinnar hagsældar og velfarnaðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum