Hoppa yfir valmynd
29. mars 2004 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Góðar fyrirmyndir

Góðar fyrirmyndir - ávarp forsætisráðherra
Góðar fyrirmyndir - ávarp forsætisráðherra

Góðar fyrirmyndir
Ráðstefna um málefni fatlaðra 26. mars 2004. Hótel Nordica


Félagsmálaráðherra, ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir,
Það hefur óneitanlega verið grósku tíð á Íslandi á undanförnum árum og mörgu hefur miðað í rétta átt, sem betur fer. Reyndar má horfa lengra um öxl og segja að síðastliðin hundrað ár hafi verið heillatíð þótt á ýmsu hafi gengið um styttri skeið. Ísland hætti að vera lifandi vitnisburður um volæðisöld og skipaði sér í fremstu röð meðal þjóða. Þessi mynd sem ég hef þannig upp dregið er ekki gljáfægð glansmynd. Hún er í öllum megindráttum raunsönn og það er ekki einu sinni hægt að halda því fram að hún sé illilega ýkt, þegar sjónum er beint að einstökum afmörkuðum þáttum. Fyrst svo er, má þá ekki draga þá ályktun að nú sé kominn tími til að slaka á, horfa hreykin til hinnar fátæku fortíðar og nota dagana til að sökkva sér í mont og sjálfsánægju? Því fer þó fjarri að slíkt sé óhætt. Það er, svo margt enn ógert. Sumt má auðveldlega laga, en annað kallar á mikla athygli og öflugt átak. Það má jafnvel halda því fram, að Íslendingar hafi að undanförnu náð svo miklum efnahagslegum árangri, sem hagtölur sanna, að afsakanir fyrir því sem aflaga fer eða út af stendur í einstökum málaflokkum verði harla ótrúverðugar fyrir vikið.

Vissulega hefur sá málaflokkur sem er í öndvegi á þessari ráðstefnu, um málefni fatlaðra, ekki verið vanræktur á undanförnum árum. Fjöldi manna, félög þeirra og samtök, opinberir aðilar og einkarekstrarmenn eiga þakkir skyldar, enda hafa þeir náð svo miklum árangri, að allt öðruvísi er um að litast en var fyrir örfáum árum svo ekki sé miðað við áratugi. En þótt bæði sé rétt og sjálfsagt að gleðjast yfir hverjum góðum áfanga sem náðst hefur, og þakka hann, þá er samanburður við liðinn tíma ekki endilega hin rétta viðmiðun. Gríðar mörg tækifæri hafa skapast að undanförnu fyrir þá sem best skilyrðin hafa til að grípa þau og njóta. Til þess eigum við að horfa hrifin, en spyrja okkur um leið að því hvort bilið sé að breikka á milli þeirra annars vegar og hinna hins vegar, sem lakari skilyrðin hafa og missa því af tækifærum sem þeir gætu náð með dálitlum stuðningi. Höfum við staðið okkur í þessum efnum sem skyldi eða ekki verið nægilega vakandi á verðinum? Ég leyfi mér að halda því fram að dagskrá þessarar ráðstefnu sýni þó, svo ekki fari á milli mála, að það séu býsna margir bæði vakandi og viljugir til að þoka málum til betri vegar og inn á vænlegri brautir fyrir þá, sem hér eiga í hlut. Uppörvandi er að sjá þau fjölbreyttu álitaefni sem verið er að fást við í samfélaginu í tengslum við málaflokkinn. Þau eru góður vitnisburður um þau áhersluatriði sem borið hafa hæst á Evrópuári fatlaðra. Það er þó öllum mönnum augljóst að tiltekin ár eru ekki eyrnamerkt sérstöku efni í þeim tilgangi einum að taka sér tak þá 365 daga og svo geti menn sáttir hugað að öðru. Þá væri lítið gagn af tiltækinu. Slík ár eiga menn að nota til að gera úttekt, greina aðalatriði, læra af mistökunum og færa hluti í forgang áranna sem á eftir koma. Takist það hefur átakið varanleg áhrif og hið eyrnamerkta ár fær veglegan sess í sögunni sem upphafspunktur framfara, markvissra skrefa í átt til betra lífs þeirra sem í hlut eiga.

Mér sýnist augljóst, að þeir, sem hér hafa komið að málum, skilji hlutverk sitt þessum skilningi og þess vegna sé ástæða til að ætla að til góðs hafi verið unnið og við fáum uppskorið á næstu árum eins og til var sáð.

Ég leyfi mér að færa öllum þeim sem mest og best hafa unnið að málinu þakkir fyrir þeirra ágæta verk um leið og ég lýsi því yfir að ráðstefna þessi, um málefni fatlaðra, er sett.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira