Hoppa yfir valmynd
29. mars 2004 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Kvöldverðarboð forseta Íslands

Ávarp forsætisráðherra í veislu forseta Íslands á Bessastöðum
fyrir erlenda stjórnarerindreka - 27. mars 2004

Forseti Íslands og frú. Virðulegir gestir, dömur og herrar.
Ég mæli örugglega fyrir hönd allra gesta á staðnum er ég þakka forsetahjónunum fyrir þetta góða gestaboð, þar sem allt er með hátíðarbrag og viðurgerningur allur eins og best verður á kosið.

Það var mikil undiralda í alþjóðamálum, þegar við hittumst hér í þessum ranni síðast við sama tækifæri. Þá lá Íraksstyrjöld í loftinu og diplómatískar bollaleggingar og mikil togstreita á milli hefðbundinna vinaþjóða og loft því lævi blandið. Sérfræðingar spáðu í spilin og fullyrtu flestir að átök myndu lengi standa og mannfall bandamanna yrði ógurlegt, ekki síst þegar barist yrði hús úr húsi í Bagdad við úrvalssveitir einræðisherrans. Ekkert af þeim fróðleik reyndist halda í raunveruleikanum.

Sú staðreynd breytir ekki því að Íraksstríðið er og verður umdeilt. Gereyðingarvopn hafa ekki fundist enn og ýtir það undir málstað efasemdarmanna. Í mínum huga er ekki vafi á að styrjöldin var í raun óumflýjanlegur endapunktur á þeim aðgerðum sem gripið var til 17. janúar 1991. Hvorki vopnahlésskilmálum né ályktunum hinna Sameinuðu þjóða hafði verið fylgt og ógnarstjórnin söm og áður. Og hvað sem deilum um lögmæti styrjalda líður er ekki vafi á að friðsamlegra er í þessum heimshluta nú en fyrir hana.

Deilurnar um innrásina í Írak reyndu meira á Atlantshafsbandalagið en nokkurt annað mál í sögu þess. Þær deilur og ágreiningurinn um varnir Tyrklands í aðdraganda stríðsins voru alvarlegt áfall fyrir bandalagið. Tengslin yfir Atlantshaf hafa þó styrkst aftur að því er virðist og vonandi kemur í ljós sem fyrr að þau hvíla á sameiginlegum grundvallarhagsmunum og eru ómissandi, ekki einungis fyrir Evrópu heldur veröldina alla.

Það er mikilvæg forsenda fyrir friði og stöðugleika að Atlantshafsbandalagsríkin standi saman. Engin alþjóðleg samtök eiga sömu möguleika og bandalagið til að taka á þeim hættum sem helstar eru uppi í heiminum. Vonandi tekst að nýta vel það tækifæri, sem gefst á leiðtogafundi bandalagsins í Istanbúl í júní næstkomandi, til að sýna með skýrum hætti að eining ríki um alla meginþætti meðal bandalagsríkjanna.

Deilur um forsendur í Íraksstríðsins mega ekki skaða uppbyggingu þar og möguleikann á að koma þar á heilsteyptu stjórnarfari og lýðræði. Skortur á lýðræði og mannréttindum á stóran þátt í margvíslegum óstöðugleika, sem eykur hættu á hryðjuverkum. Ógnaratburðirnir á Spáni fyrir rúmum tveimur vikum sýna þó einnig að fleira getur komið til í þeim efnum. Allir friðelskandi menn hljóta að fordæma þá hugleysingja, sem þar stóðu að voðaverkunum, sem eru eitt versta hryðjuverk sem yfir Evrópu hefur gengið. Við hljótum öll að hugsa til spænsku þjóðarinnar af hlýju og hluttekningu og heita leiðtogum hennar öflugum stuðningi í baráttunni við hermdarverkamenn. Sagan sannar að slíka baráttu verða allir að styðja. Þar má enginn skerast úr leik.


Herra forseti, góðir gestir.
Öryggismál, þótt af öðrum toga séu, hafa einnig verið fyrirferðarmikil í umræðu hér á landi eins og þið þekkið og uppi eru álitamál á milli góðvinanna Íslands og Bandaríkjanna um varnir landsins. Bandaríkin endurskoða nú fyrirkomulag hersins um heim allan til að mæta nýjum hættum og auðvitað er allt gott um það að segja. Íslensk stjórnvöld geta hins vegar ekki sætt sig við að sú endurskoðun leiði til þess að á Íslandi verði ekki lengur neinar varnarsveitir. Í Bandaríkjunum hafa því miður verið uppi hugmyndir um að leggja niður loftvarnir á Íslandi með því að taka héðan þær orustu þotur sem eftir eru.

Málið er enn í óvissu og þar með er framtíð varnarsamningsins og hins rúmlega sextíu ára langa varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna óljós. Við erum reiðubúnir til viðræðna um allar hliðar á varnarsamstarfinu í þeim góða anda sem verið hefur á milli landanna í rúma hálfa öld, en allir hljóta að skilja að við mundum ekki hafa áhuga á að halda því áfram, stæði það ekki undir mikilvægustu skuldbindingunni um að tryggja öryggi Íslands, með lágmarksviðbúnaði í landinu sjálfu.

Ísland á traust samstarf um víða veröld, við einstök ríki og samtök þeirra og samvinnuvettvang, svo sem í Norðurlandaráði, Evrópska efnahagssvæðinu og Atlantshafsbandalaginu. Við höfum eflt okkar utanríkisþjónustu á undanförnum árum, án þess að ætla okkur um of. Leyfi ég mér að þakka gott og árangursríkt samstarf við fulltrúa þeirra þjóða sem hér eru mættir í kvöld. Og fyrir þeirra hönd, sem og annarra gesta, ítreka ég þakkir okkar til gestgjafans og bið gesti að rísa úr sætum og drekka skál forseta Íslands og frúar hans.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum