Hoppa yfir valmynd
01. júní 2006 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Ávarp Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra á málstofu Hafréttarstofnunar Íslands

Það er vel við hæfi að efna til þessarar málstofu í tilefni af því að 30 ár eru í dag liðin frá lokum landhelgismálsins. Við ættum að vera betur í stakk búin nú til að leggja yfirvegað og raunsætt mat á þorskastríðin en áður þegar við stóðum nær hinum tilfinningaþrungnu átökum í tíma.

 

Lausn landhelgismálsins tryggði okkur Íslendingum full yfirráð yfir fiskimiðunum kringum landið og ekki er ofmælt að þar með hafi verið lagður grunnur að efnahagslegu sjálfstæði og velmegun þjóðarinnar. Margir lögðu hönd á plóg til að sigur ynnist í landhelgismálinu, meðal annars sjómenn, varðskipsmenn, fiskifræðingar, embættismenn og stjórnmálamenn úr öllum flokkum. Almenningur í landinu lét málið einnig mjög til sín taka sem kunnugt er. Þótt menn hafi oft greint á um leiðir hér innanlands og þeir verið misjafnlega herskáir eða samningsfúsir er óhætt að segja að þjóðin hafi sameinast í baráttunni við andstæðingana, svo og um það lokamarkmið að öðlast ein yfirráð yfir auðlindunum í hafinu umhverfis landið. Margir þeirra sem áttu þátt í að þetta mikilvæga markmið náðist eru látnir og minnumst við þeirra með virðingu og þakklæti á þessum tímamótum. Sumir þeirra eru enn á lífi og eru á meðal okkar hér í dag og færi ég þeim þakkir ríkisstjórnarinnar.

 

Tekist var á um útfærslu fiskveiðilögsögunnar á margvíslegum vettvangi; á miðunum sjálfum þar sem átök urðu stundum mjög harkaleg, einkum í þriðja og síðasta þorskastríðinu, á stjórnmálavettvangi hér innanlands þar sem einnig var hart deilt þótt með öðrum hætti væri. Ég man vel eftir þeim átökum þar sem ég settist á Alþingi árið 1974.  Ekki síst var tekist á í tvíhliða viðræðum Íslendinga við Breta og Vestur-Þjóðverja, og loks á alþjóðavettvangi, meðal annars á þremur hafréttarráðstefnum Sameinuðu þjóðanna.           

Ég geri ráð fyrir að í fyrirlestrum fræðimannanna hér á eftir verði meðal annars leitað svara við þeirri spurningu hvernig á því stóð að Íslendingar unnu að lokum fullnaðarsigur í landhelgismálinu á margfalt stærri og öflugri ríkjum. Svörin eru eflaust margþætt en ég vil nefna fjögur atriði í þessu sambandi. Í fyrsta lagi var andstæðingum okkar væntanlega ljóst að veiðar skipa þeirra undir vernd herskipa í sérstökum hólfum innan íslensku fiskveiðilögsögunnar voru óhagkvæmar til lengri tíma litið. Þetta varð enn ljósara þegar leynivopnið, togvíraklippurnar frægu, kom til sögunnar á áttunda áratugnum en það gerði varðskipsmönnum kleift að gera hinum erlendu togurum skráveifu án þess að þurfa að fara um borð í þá.

 

Í annan stað ber að hafa í huga að landhelgisdeilurnar áttu sér ekki stað í tómarúmi, heldur var tekist á um sama efni við samningaborðið á hafréttarráðstefnunum. Þróunin á þriðju hafréttarráðstefnunni, sem hófst árið 1973, var Íslendingum mjög hagstæð og stuðlaði að lausn landhelgismálsins. Snemma varð ljóst að flest ríki myndu sættast á 200 mílna efnahagslögsögu og æ fleiri ríki lýstu stuðningi við þá lausn þar til ráðstefnunni lauk með samþykkt hafréttarsamningsins árið 1982. Í fararbroddi fyrir íslensku sendinefndinni á fundum ráðstefnunnar var Hans G. Andersen, þjóðréttarfræðingur og sendiherra, sem hafði mikil áhrif á þróun samningstextans. Ég tók sem utanríkisráðherra þátt í athöfn á vegum Hafréttarstofnunar Íslands til að heiðra minningu Hans G. Andersen hér í þessum sal á fullveldisdaginn árið 2001 og það er ánægjulegt að sjá að ekkja hans, frú Ástríður Andersen, skuli vera með okkur hér í dag.    

 

Þriðja og ein helsta skýringin á sigri okkar í landhelgismálinu lýtur að hernaðarmikilvægi Íslands á tímum kalda stríðsins. Bretar urðu að taka tillit til þýðingarmikillar stöðu okkar á þessum tíma og þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir gætu ekki beitt okkur takmarkalausu valdi til að hafa betur í fiskveiðideilunum. Fullyrða má að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafi haft mjög jákvæð áhrif og að staða landsins hefði verið mun veikari hefði það verið hlutlaust og utan bandalagsins. 

 

Síðast en ekki síst er rétt að hafa í huga að við höfðum góðan málstað að verja og það skiptir máli í samskiptum þjóða á milli. Erlend skip höfðu áratugum saman veitt um helming alls botnfisks á Íslandsmiðum og á áttunda áratugnum jókst sóknargeta þeirra verulega. Ef Íslendingar hefðu ekki brugðist við og gripið til einhliða neyðarráðstafana til að vernda auðlindina hefði það getað haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir land og þjóð. Sem betur fer áttuðu fulltrúar Breta og Vestur-Þjóðverja sig að lokum á sanngirni málstaðar okkar Íslendinga og stöðu málsins í heild og gengu til samninga við okkur um tímabundinn og takmarkaðan veiðirétt innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar gegn viðurkenningu á henni.

 

Þeim fullveldisréttindum innan efnahagslögsögunnar, sem við börðumst fyrir í þorskastríðunum þremur og viðurkennd eru í hafréttarsamningnum, fylgja skyldur til skynsamlegrar, sjálfbærrar nýtingar fiskstofnanna sem þar er að finna. Best fer á því að strandríki fari með stjórnun fiskveiða innan lögsögu sinnar og að svæðisbundnar fiskveiðistofnanir annist það hlutverk á úthafinu, en við hljótum hins vegar að hafna öllum tilraunum til að koma á hnattrænni fiskveiðistjórnun sem nokkuð hefur borið á undanfarin ár. Vænlegasta leiðin til þess að koma í veg fyrir slíkt er að halda áfram ábyrgri stjórn fiskveiða innan efnahagslögsögunnar og virkri þátttöku í starfi svæðastofnana að því er úthafið varðar, enda er það í þágu framtíðarhagsmuna okkar sjálfra.

 

Þannig minnumst við ennfremur best þeirrar miklu baráttu sem háð var fyrir framtíðarhagsmunum þjóðarinnar. Þar komu margir við sögu og ég kynntist best hinni stjórnmálalegu hlið. Hér meðal okkar er Matthías Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, en þeir stjórnmálamenn sem liðnir eru og eru mér ofarlega í huga, og ég minnist sérstaklega, eru Ólafur Jóhannesson, Einar Ágústsson, Geir Hallgrímsson og Þórarinn Þórarinsson. Af þessum mönnum lærði ég mikið og er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með þeim.

 

Guð blessi minningu þeirra og allra annarra sem stóðu fast á málstað lands og þjóðar.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira