Hoppa yfir valmynd
10. september 2007 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ársskýrsla ársins 2007

Heiðruðu gestir.

Franski heimsspekingurinn Voltaire sagði eitt sinn: "Paradís er þar sem ég er". En í hvaða paradís erum við nú? Jú, Listasafni Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara.

Í ávarpi forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, í þessu safni 30. ágúst 2003 sagði hann um listamanninn:

"Sigurjón var í senn rótfastur í íslenskum veruleika og heimsborgari í túlkun sinni og tjáningu. Hann var fulltrúi nýrra strauma og verk hans sóma sér vel í samanburði við það besta sem erlendir meistarar voru að skapa."

Ég ætla ekki að tala hér um myndverk Sigurjóns heldur annars konar myndverk sem ýmis athafnaskáld standa að með útgáfu myndskreyttra ársskýrslna en þær eru hluti ársreikninga fyrirtækja.

Það er til siðs í heiminum að veita ýmiss konar viðurkenningu. Allir þekkja t.d. friðarverðlaun Nóbels en fæstir vita að til eru a. m. k. um eitt hundrað önnur friðarverðlaun. Í dag er veitt viðurkenning fyrir ársskýrslu ársins 2006, valda úr ársskýrslum markaðsskráðra fyrirtækja sem eru nú um 25 talsins. Er því ekki verið að dæma um ársskýrslur allra hlutafélaga í landinu sem eru hátt í 1000 eða allra einkahlutafélaga sem eru yfir 20.000. Að viðurkenningunni standa OMX-kauphöllin og Stjórnvísi. Þetta er í þriða sinn sem viðurkenning er veitt fyrir "Ársskýrslu ársins." Markmiðið er að vekja athygli á því hversu mikilvægar ársskýrslur eru. "Góð ársskýrsla er hornsteinn í upplýsingagjöf fyrirtækis og fjallar um öll helstu atriði sem máli skipta í rekstri fyrirtækisins."

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 23. maí 2007 segir á einum stað: "Mikilvægt er að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja tryggi vöxt þeirra og laði að starfsemi erlendis frá." Ársskýrslur eru ein leiðin til að laða að starfsemi erlendis frá. Jafnframt segir í stefnuyfirlýsingunni að ríkisstjórnin vilji skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja. Jafnframt segir þar m.a. að ríkisstjórnin stefni að því að tryggja að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Æskilegt væri ef fulltrúar hinna stóru fyrirtækja, sem markaðsskráð eru, líkist Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara í því að vera rótföst í íslenskum veruleika, þ.e. góðir ríkisborgarar, en jafnframt heimsborgarar, svo og fulltrúar nýrra strauma.

Ég vil nota þetta tækifæri til að beina því jafnframt til fulltrúa fyrirtækja að huga að stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi jafnrétti og stefna að því að jafna stöðu kvenna og karla í stjórnum og nefndum, svo og leitast við að fjölga störfum á landsbyggðinni en ýmis störf er unnt að vinna án tillits til staðsetningar. Loks kunna einhver fyrirtæki að vilja íhuga það hvort þetta ágæta Listasafn Sigurjóns Ólafssonar eigi öðru hverju við fjárhagsörðugleika að etja. Öll viðleitni í þessa veru merkir að viðkomandi fyrirtæki leiti ekki aðeins fram á við í fjárhagslegum skilningi heldur fram á við almennt og jafnvel upp á við. Af því geta fyrirtækin vaxið í áliti hérlendis sem erlendis. Er tækifærin gefast þarf aðeins aðeins að ausa úr brunni hugmyndaauðginnar sem þið standið öll við í daglegum störfum ykkar.

 

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira