Hoppa yfir valmynd
18. október 2007 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Frjáls verslun kynnir 300 stærstu fyrirtækin á Íslandi

Ágætu fundarmenn.

Eins og mönnum hér er kunnugt, hefur hraðinn og krafturinn í íslensku viðskiptalífi sjaldan verið meiri en síðustu ár. Einn þáttur þeirrar þróunar er sá að íslensk fyrirtæki skilgreina sig í auknum mæli sem alþjóðleg. Samfara því hefur yfirtökum og sameiningum fyrirtækja fjölgað verulega. Ekki síst á meðal skráðra fyrirtækja.

Þetta þýðir að sjálfsögðu að fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður eru mun stærri og öflugri en áður. Að vissu leyti er þetta mjög ánægjuleg þróun. Smæð íslensks heimamarkaðar hefur lengst af verið hemill á þróun íslenskra fyrirtækja. Tilkoma EES samningsins og aðlögun okkar að viðskiptaumhverfi nágrannalandanna hefur þó valdið straumhvörfum og gert íslenskum fyrirtækjum kleift að starfa óhindrað á árlendum vettvangi. Það eru viðurkennd fræði að stærðarhagkvæmni skiptir miklu máli í rekstri og aðgangur að gríðarstóru markaðssvæði skapar tækifæri á að nýta hana til fullnustu.

Þessi þróun getur þó skapað vandamál hér innanlands. Samþjöppun á vörumörkuðum hefur aukist og eignarhald margra lykilfyrirtækja hefur færst á fárra manna hendur.

Ráðuneytið hefur í þessu sambandi haft til skoðunar að undanförnu ákvæði samkeppnislaga um samruna. Nokkur reynsla er komin á gildandi ákvæði sem, sem hefur fært mönnum sönnur á að þau þurfi endurskoðunar við. Samrunareglugerð Evrópusambandsins hefur einnig tekið nokkrum breytingum og rétt því tilefni til að skoða hvort sambærilegar breytingar eigi erindi við íslenskt viðskiptalíf.

Í drögum að frumvarpi, sem nú er í vinnslu, er tekið er á ýmsum þeim spurningum sem komið hafa upp í framkvæmd og sem tekur mið af þróun Evrópuréttar á þessu sviði. Verður í frumvarpinu t. d. kveðið á um að samruni skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um hann. Þannig yrði íslensk löggjöf sambærileg við löggjöf í Evrópu. Samkvæmt gildandi rétti er hins vegar ekkert sem hindrar að fyrirtæki framkvæmi samrunann áður en Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um hann. Getur þá verið vandasamt verk að vinda ofan af öllum þeim gerningum sem átt hafa sér stað á grundvelli samrunans, komi í ljós að hann standist ekki samkeppnislög.

Nokkuð hefur verið rætt um að þau veltumörk sem gildandi lög tiltaka sem mælikvarða á það hvort samruni sé tilkynningaskyldur til Samkeppniseftirlitsins og hafa verið færð fram þau sjónarmið að þau mörk séu of lág, þannig að of margir samrunar séu tilkynningaskyldir.

Ráðuneytið hefur skoðað þessi mál sérstaklega. Það er skoðun ráðuneytisins að á þeim smáa markaði sem á Íslandi er og þar sem samþjöppun er víða mjög mikil, sé ekki rétt að hækka umrædd veltumörk. Nýleg dæmi sanna að við það myndu samrunar á mikilvægum mörkuðum ekki koma til kasta Samkeppniseftirlitsins og einokunaraðstaða gæti myndast, án þess að stjórnvöld gætu þar rönd við reist.

Hins vegar hefur það líka verið skoðað hvort ekki megi létta fyrirtækjum tilkynningaskyldu til Samkeppniseftirlitsins í tilteknum tilfellum. Verður tekið mið af Evrópurétti í því sambandi.

Þá verður í frumvarpinu kveðið á um með nánari hætti en gert er nú hvað beri að taka tillit til við mat á því hvort samruni sé andstæður samkeppnislögum. Er í því sambandi mjög horft til Evrópuréttar á þessu sviði.

Hagfræðingar hafa löngum gagnrýnt evrópskar reglur um samrunaeftirlit á þeim forsendum að ekkert tillit er tekið til hugsanlegrar hagræðingar í krafti stærðar- eða breiddarhagkvæmni við mat á áhrifum samruna. Ég tel eðlilegt að samkeppnisyfirvöld vegi saman neikvæð áhrif af samþjöppun á markaði og hugsanlegri hagræðingu af samruna og heimili samruna ef ávinningurinn vegur þyngra. Þó aðeins ef ljóst má vera að hann skili sér til neytenda.

Nokkrar aðrar breytingar verða í frumvarpinu sem verða kynntar betur þegar frumvarpið verður lagt fram.

Tengt þessu máli eru ákvæði laga um yfirtökur og skyldu aðila til að gera yfirtökutilboð, nái hlutur þeirra, eða tengdra aðila, í fyrirtæki á markaði yfir 40%. Komið hafa upp spurningar um hvort eðlilegt sé að aðilar "selji sig niður" eins og kallað er, þ. e. selja hlut sinn innan tiltekins tímamarks, þannig að ekki komi til tilboðsskyldu. Nokkrar skyldar spurningar hafa komið upp um gildandi rétt á þessu sviði. Til að fara heildstætt yfir regluverkið á þessu sviði, hef ég ákveðið að skipta nefnd hagsmunaaðila og hlutaðeigandi til að endurskoða þær reglur. Hef ég óskað eftir tilnefningum frá fjármálaeftirlitinu, samtökum fjármálafyrirtækja og yfirtökunefnd.

Ég vil nota tækifærið, hér á þessum fundi, til að hrósa Frjálsri verslun fyrir framlag sitt til jafnréttismála. Með því að birta árlega úttekt á stöðu kvenna í atvinnulífinu og viðtöl við konur sem komist hafa í áhrifastöður innan íslenskra fyrirtækja hefur Frjáls Verslun stuðlað að auknu jafnrétti með mjög jákvæðum hætti. Það er enginn vafi að slík umfjöllun er mjög hvetjandi, bæði fyrir konur en um leið fyrir fyrirtæki.

Það hafa ýmsir haldið því fram og fært fyrir því rök að fyrirtæki sem hafi á að skipa bæði konum og körlum í sínum stjórnum njóti jákvæðara viðhorfs og skili betri afkomu. Þetta er m.a. rökstutt með því að konur séu í mörgum ef ekki flestum tilfellum sá aðili innan heimilanna sem taki ákvarðanir um helstu innkaupin og hafi þess vegna betri sýn á hvaða framleiðslu eða þjónustu fyrirtækin ættu að bjóða.

Ég vil því eindregið hvetja eigendur og stjórnendur íslenskra fyrirtækja til að nýta sér kraft kvenna í stjórnum sínum.

Nokkur umræða hefur skapast hér á landi um það hvort taka eigi upp kynjakvóta í stjórnum hlutafélaga og binda í lög. Er þá talað um að hlutdeild hvors kyns verði ekki undir 40%. Norðmenn hafa lögfest kynjakvóta og hafa fyrirtæki frest til áramóta til að uppfylla skyldur laganna. Noregur er eina landið sem mér er kunnugt um sem tekið hefur upp kynjakvóta í atvinnulífinu með lögum. Þar eru aðstæður einnig allsérstakar þar sem norska ríkið á 60% hlutafjár í markaðsskráðum fyrirtækjum og ráðandi hlut í 7 af 10 stærstu fyrirtækjunum landsins.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur óskað eftir upplýsingum frá norsku ríkisstjórninni um lögin og er að skoða hvort lögin gangi gegn evrópurétti á þessu sviði.

Skoðanir um kynjakvóta eru mjög skiptar. Sumir vilja meina að slík lagasetning takmarki eðlilegt svigrúm fyrirtækja og rýri verðmæti þeirra, á meðan aðrir telja þær nauðsynlegar til að brjóta upp þröngan karlaheim stjórnarherbergjanna. Skoðanir meðal kvenna um gildi lagasetningar um kynjakvóta eru einnig mjög skiptar. Mín skoðun er sú að lagasetning sé þrautalending og fyrst beri að skoða allar aðrar leiðir að því sjálfsagða markmiði að jafna hlut kvenna og karla í stjórnum íslenskra fyrirtækja.

Viðskiptaráðuneytið hefur stutt vinnu Rannsóknaseturs vinnuréttar- og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst við s.k. jafnréttiskennitölu, þ.e. upplýsingar um jafnrétti í 100 stærstu fyrirtækjum á Íslandi. Þessi könnun hefur verið gerð fyrir árin 2005 og 2007 og sýnir að enn er verk að vinna til að ná fram jöfnuði.

Á síðasta ári tók viðskiptaráðuneytið þátt í ráðstefnu sem bar heitið Virkjum kraft kvenna, í samvinnu við Samtök atvinnulífsins og Félag kvenna í atvinnurekstri. Markmiðið með henni var að kynna konum ábyrgð og skyldur við stjórnarsetu og vekja athygli á konum sem komist hafa til ábyrgðarstarfa innan stórra fyrirtækja. Ráðstefnan var haldin fyrir fullu húsi og vakti verðskuldaða athygli.

Viðskiptaráðuneytið styður einnig heilshugar fyrirliggjandi hugmyndir fræðimanna frá Bifröst, Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík um vottun jafnlaunastefnu fyrirtækja. Slíkt frumkvæði er gott dæmi um jákvæða nálgun í jafnréttismálum sem leggja þarf miklu meiri áherslu á.

Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnunarstöðum á vegum ríkisins. Þetta hefur reyndar verið markmið fyrri ríkisstjórna um árabil en árangur hefur því miður ekki verið mikill.

Liður í þeirri stefnu er að við skipanir í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ráðuneyta er þess nú óskað að tilnefnd séu bæði karl og kona. Hér er markmiðið það sama og áður var nefnt að hlutur annars kynsins fari ekki undir 40% . Nokkur ráðuneyti hafa náð þessu markmiði og önnur vinna markvisst að því.

Á því hefur hins vegar borið að hagsmunasamtök sem ráðuneytið leitar til vegna tilnefninga hafi að engu óskir ráðuneytisins að tilnefna bæði karl og konu. Gjarnan er spurt hvort ráðuneytið sé að leita eftir sérfræðiþekkingu eða réttri kynjaskiptingu.

Þetta eru afar sorgleg skilaboð sem lýsa því viðhorfi, sem enn er því miður víða ríkjandi, að sérfræðiþekkingu sé ekki til að dreifa hjá báðum kynjum. Að við þurfum að velja á milli þess að hafa okkar besta fólk við stjórnvölin og að jafna vægi kynjanna í brúnni.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira