Hoppa yfir valmynd
22. október 2007 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Fundur Viðskiptaráðs og fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB gagnvart Íslandi og Noregi um Viðskiptastefnu Evrópusambandsins

Ágætu gestir,

Ég vil þakka Viðskiptaráði og fastanefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi kærlega fyrir að hafa frumkvæði að þessum fundi.

Tengsl Íslands og Evrópusambandsins eru ofarlega á baugi um þessar mundir, og fáum dylst að mikil nauðsyn er fyrir opinni og öfgalausri umræðu um framtíðarstöðu Íslands gagnvart nágrönnum sínum í Evrópu.

Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu er Ísland þátttakandi að stærstum hluta samstarfs Evrópusambandsríkja. Þó eru mikilvægir þættir samstarfsins utan samningsins að mestu leyti, svo sem landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, utanríkismál, efnahagsmál og peningamál. Rétt eins og hin EFTA löndin í EES (Noregur og Lichtenstein) er Ísland heldur ekki aðili að tollabandalagi Evrópusambandsins. Því miður hefur allt of lítið verið fjallað um þennan síðastnefnda þátt og því ber að fagna þessum fundi hér í dag sérstaklega.

Um viðskiptastefnu ESB

Evrópusambandið er öflugur talsmaður frjálsra viðskipta í heiminum. Eitt af aðalmarkmiðum stofnríkja Efnahagsbandalags Evrópu, auk þess að tryggja frið í álfunni, var að efla viðskipti meðal Evrópuríkja.

Viðskiptastefna Evrópusambandsins byggist á mörgum þáttum. Í Rómarsáttmálanum segir að viðskiptastefnan byggist á “opnu markaðskerfi og frjálsri samkeppni”. Viðskiptastefnan birtist einnig í sameiginlegum innri markaði og fjórfrelsinu. Þá er sameiginlegt tollabandalag gagnvart þriðju ríkjum einnig grundvöllur viðskiptastefnu sambandsins.

Evrópusambandið er stærsta viðskiptablokk heims, en sambandið og aðildarríki þess standa fyrir 20% heimsvöruviðskipta. Næst stærst eru Bandaríkin með 16% og Japan með 9%. Stærð Evrópusambandsins leiðir til yfirburða samningsaðstöðu og tryggir fyrirtækjum innan sambandsins almennt betri kjör í viðskiptum við þriðja ríki.

Markmið Evrópusambandsins hefur verið að tryggja að fyrirtæki frá aðildarríkjum sambandsins geti starfað á sanngjörnum grunni innan sem utan sambandsins. Undir viðskiptastefnu Evrópusambandsins falla m.a. vörur, þjónusta, hugverkaréttindi og fjárfestingar og hefur sambandið í skjóli stærðar sinnar og styrkleika stuðlað að auknum viðskiptum í heiminum.

Aukin alþjóðleg viðskipti eru almennt til góða fyrir bæði fyrirtæki og neytendur, þar sem þau leiða til aukins vöruúrvals og samkeppni á milli innflytjenda og innlendra framleiðenda. Ennfremur til lækkunar vöruverðs og aukinna lífsgæða.

Viðskiptastefna Evrópusambandsins er nátengd þróunarstefnu sambandsins. Þannig hefur Evrópusambandið heimilað flestum þróunarlöndum tollfrjálsan innflutning að einhverju leyti eða gefið þeim sérstakan aðgang að mörkuðum sínum. Þá hefur sambandið gengið enn lengra hvað varðar 49 fátækustu ríki heims, en á grundvelli verkefnis sem hófst árið 2001 njóta vörur frá þessum löndum, aðrar en vopn, tollfrelsis í Evrópusambandinu.

Staða íslands innan EES

Formlega séð skerðir EES-samningurinn ekki sjálfstæði Íslands til samningsgerðar á sviði alþjóðaviðskipta. Í formála EES-samningsins segir að samningurinn takmarki hvorki sjálfræði samningsaðila til ákvarðanatöku né rétt þeirra til að gera samninga að teknu tilliti til ákvæða samningsins og takmarkana sem leiða af reglum þjóðarréttar.

Í niðurstöðu EFTA-dómstólsins í MagLite (frb. maglæt) málinu frá 1997 kemur fram staðfesting á að EES-samningurinn felur ekki í sér sameiginlega viðskiptastefnu gagnvart þriðja ríki og að EES sé ekki tollabandalag. Þá kvað dómstóllinn upp úr um það að EFTA-ríkin hefðu ekki framselt vald til að gera samninga við þriðju ríki til yfirþjóðlegra stofnana og að þau væru því frjáls til að gera viðskiptasamninga við þriðju ríki.

Raunin er hins vegar sú að mörg ákvæði EES-samningsins valda því að efnislegu svigrúmi EES-ríkjanna til samningsgerðar við þriðju ríki á þeim sviðum sem samningurinn tekur eru takmörk sett. Byggist það á því að misræmi í stefnu EFTA-ríkjanna annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar getur haft neikvæð áhrif á viðskiptaumhverfi fyrirtækja í EFTA-ríkjunum.

Í samræmi við þetta hafa EFTA-ríkin þrjú innan EES lagt sig fram við að fylgja í kjölfar Evrópusambandsins í viðskiptasamningum við önnur ríki. Nýr fríverslunarsamningur EFTA við Kanada er þó undantekning frá þessu. Við gerð fríverslunarsamninga nýtur Ísland oftast góðs af samfloti með öðrum EFTA-ríkjum, en þó má nefna yfirstandandi fríverslunarviðræður við Kína sem dæmi um hið gagnstæða.

Framtíðarstefna fyrir Ísland

Stefna íslenskra stjórnvalda er að stuðla að sem mestu viðskiptafrelsi á heimsvísu. Markmiðið hlýtur að vera að fjarlægja sem flestar viðskiptahindranir og einfalda þannig líf neytenda og fyrirtækja, auka samkeppni, lækka vöruverð og fjölga valkostum. Þessi markmið nást m.a. með því að auðvelda inn- og útflutning á vörum og þjónustu og greiða fyrir hvers konar útrás fyrirtækja, með hvaða hætti sem það er gert.

Ljóst er að hagsmunir Íslands fara vel saman við grundvallarstefnu Evrópusambandsins á þessu sviði. Nánara samstarf sem fæli í sér þátttöku í tollabandalagi ESB myndi veita íslenskum fyrirtækjum enn betri aðgang að mörkuðum víða um heim.

Í nokkrum tilfellum hefur Ísland betri markaðsaðgang en lönd ESB og því ekki einhlýtt svar við þeirri spurningu, hvort aðild að Evrópusambandinu hefði jákvæð áhrif fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki. Til lengri tíma litið veltur svarið að miklu leyti á því, hversu mikið tillit yrði tekið til íslenskra hagsmuna í viðskiptastefnu Evrópusambandsins, kæmi til aðildar Íslands.

Ég vona svo sannarlega að við færumst eitthvað nær svörum við þessum spurningum á þessum fundi hér í dag. Í öllu falli er umræðan í góðum farvegi og fyrirsjáanleg gróska í umræðu hérlendis um Evrópumál.

 

 

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira