Hoppa yfir valmynd
30. október 2007 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ný heildarlöggjöf um verðbréfaviðskipti og kauphallir, helstu breytingar og nýmæli

Góðir fundarmenn.

Umbreyting íslensks atvinnulífs á undanförnum árum hefur meðal annars leitt til framrásar ýmiss konar alþjóðlegar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem nýtekin er til starfa, hefur lýst vilja sínum til þess að slík starfsemi haldi áfram að vaxa hér á landi og sæki inn á ný svið og fleiri markaðssvæði.

Í árslok 2006 má áætla að hlutdeild fjármálafyrirtækja hafi numið um 10% af landsframleiðslu og verðmæti útflutnings þekkingar og þjónustu um 60 milljörðum. Í fyrra komu um 52% af tekjum viðskiptabankanna erlendis frá og þótt erlendar tekjur vátryggingafélaga séu enn ekki svipur hjá sjón miðað við viðskiptabankanna stefnir þróunin þar í sömu átt. Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að útrás fjármálageirans hefur afgerandi þýðingu í okkar efnahagslífi.

Innganga Íslands í Evrópska efnahagssvæðið 1994 og innleiðing Evrópureglna í íslenska löggjöf gerðu EES-svæðið allt að heimamarkaði íslenskra fyrirtækja. Þeir möguleikar sem sameiginlegar reglur sköpuðu hafa síðan verið nýttir með myndarbrag. Það skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli að á leikreglum viðskiptalífsins sé gagnkvæm þekking og skilningur, og að fjármálakerfi og fjármálamenning á Íslandi njóti trausts og góðs álits. Það er sameiginlegt verkefni markaðarins og opinberra aðila að viðhalda góðu orðspori.

Á fimmtudaginn taka ný lög um verðbréfaviðskipti og ný lög um kauphallir gildi á Íslandi, ásamt breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki. Með lögunum er innleidd hér á landi Evróputilskipun um markaði með fjármálagerninga (frá 2004), eða MifID eins og hún er nefnd – eða MISSA VIT, eins og þau sem unnu í ráðuneytinu við innleiðinguna voru farin að kalla hana þegar frumvarpsvinnan var á lokasprettinum!!

Megin markmið MiFID tilskipunarinnar er að stuðla að og tryggja skilvirkni evrópsks fjármálamálamarkaðar ásamt því að auka yfirsýn og tiltrú fjárfesta á markaðnum.

Lögunum er jafnframt ætlað að innleiða hér á landi tilskipun ESB um gagnsæi (frá 2004) sem mælir einkum fyrir um samræmingu reglna um birtingu upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem viðskipti eru með á skipulegum verðbréfamarkaði og um birtingu upplýsinga um stærri breytingar á hlut atkvæðisréttar í slíkum útgefendum.

Í nýjum verðbréfaviðskiptalögum eru gerðar auknar kröfur til fjármálafyrirtækja með leyfi til verðbréfaviðskipta, hvernig þau skipuleggja rekstur sinn og til viðskiptahátta þeirra gagnvart viðskiptavinum. Er kveðið á um auknar kröfur til upplýsingagjafar fjármálafyrirtækja til viðskiptavina sinna og skyldu þeirra til að meta hvort verðbréfaviðskipti séu við hæfi viðskiptavina.

Lögin hafa að geyma ítarlegar reglur um kvaðir á fjármálafyrirtæki að ná bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína. Kveðið er á um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um tilboð og viðskipti, bæði gagnvart markaðnum og fjármálaeftirliti. Þá er í lögunum að finna nýjar reglur um markaðstorg fjármálagerninga. Einnig eru gerðar auknar kröfur um upplýsingagjöf útgefenda verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og auknar kröfur um flöggun í kjölfar breytinga á verulegum hlut atkvæðisréttar.

Af lögunum um kauphallir leiðir aftur á móti að skipulegur tilboðsmarkaður verði lagður af og hugtakið kauphöll er notað yfir hlutafélag sem rekur skipulegan verðbréfamarkað. Skýr greinarmunur er gerður á opinberri skráningu verðbréfa og töku fjármálagerninga til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Í lögunum er jafnframt gerð tillaga að nýjum reglum um gagnsæi á skipulegum verðbréfamarkaði. Þá leiðir af lögunum að Fjármálaeftirlitið muni eftirleiðis veita og afturkalla starfsleyfi skipulegra verðbréfamarkaða. Loks er kveðið á um að hægt verði með tilteknum skilyrðum að taka verðbréf til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda.

Í lögunum um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki er meðal annars kveðið á um að fjárfestingarráðgjöf og rekstur markaðstorgs fjármálagerninga sé starfsleyfisskyld starfsemi. Gerðar eru mismunandi eiginfjárkröfur til verðbréfafyrirtækja með hliðsjón af ólíkum starfsheimildum þeirra. Gerðar eru breytingar á undanþágum frá starfsleyfisskyldri starfsemi.

Kveðið er á um að Fjármálaeftirlitið veiti kauphöll leyfi til að reka markaðstorg fjármálagerninga. Þá er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með tilteknum þáttum varðandi starfrækslu erlendra útibúa á sviði verðbréfaviðskipta og hafi heimildir til að grípa til tiltekinna úrræða vegna eftirlitsins. Loks eru í lögunum fyllri ákvæði varðandi hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og tilkynningarskyldu fjármálafyrirtækja um breytingar á skipan slíkra aðila.

Framkvæmdastjórn EB setti í framhaldinu tæknilegar reglur sem útfæra lagareglurnar á fyrsta stigi til samræmis við þróun verðbréfamarkaða. Í fyrsta lagi var sett tilskipun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2006/73/EB um framkvæmd MiFID tilskipunarinnar að því er varðar skipulagskröfur og rekstrarskilyrði fjármálafyrirtækja og hugtök sem eru skilgreind að því er varðar þá tilskipun. Þessi tilskipun verður innleidd í íslenskan rétt með Reglugerð um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.

Þessi reglugerð hefur að geyma reglur um nánari framkvæmd II. kafla laga um verðbréfaviðskipti, m. a. um skipulagskröfur á fjármálafyrirtæki, verndun eigna viðskiptavina, flokkun viðskiptavina og skriflega samningsgerð, upplýsingagjöf gagnvart viðskiptavinum og skilyrði sem gilda um veitingu upplýsinga, bestu framkvæmd, tilkynningar til viðskiptavina og meðferð fyrirmæla viðskiptavina.

Í öðru lagi hefur verið sett reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1287/2006 um framkvæmd MiFID tilskipunarinnar að því er varðar skyldur fjármálafyrirtækja varðandi skýrsluhald, tilkynningar um viðskipti, gagnsæi á markaði, töku fjármálagerninga til viðskipta og hugtök sem eru skilgreind að því er varðar þá tilskipun.

Þessi reglugerð verður innleidd í reglugerð með tilvísun. Sú reglugerð hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar. Reglugerðin geymir m.a. nánari ákvæði um:

Skýrsluhald fjármálafyrirtækja vegna fyrirmæla og viðskipta viðskiptavinar.

Samstarf og upplýsingaskipti eftirlitsaðila innan Evrópu.

birtingu upplýsinga og aðgengi fjárfesta að upplýsingum um viðskipti á fjármálamarkaði

Tilkynningarskyldu um viðskipti, sbr. 30. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Þá er ráðherra heimilt að setja í reglugerð ákvæði um að tilkynningar fjármálafyrirtækja á grundvelli 30. gr. laga um verðbréfaviðskipti skuli innihalda upplýsingar um auðkenni viðskiptavina fjármálafyrirtækja.

Drög að reglugerð um tilkynningar um viðskipti skv. 30. gr. laga nr. 108/2007 voru send hagsmunaaðilum til umsagnar og birt á vefsíðu viðskiptaráðuneytisins. Samkvæmt drögunum skal "Auðkenningin (...) vera sérkennandi fyrir viðskiptavin, þannig að hún vísi einungis til viðkomandi viðskiptavinar, og (...) notuð í öllum tilkynningum til Fjármálaeftirlitsins um viðskipti hans."

Fjármálaeftirlitið hefur lagt áherslu á að auðkennið verði kennitala. Persónuvernd lagði á hinn bóginn áherslu á að auðkennið yrði ekki kennitala, í umsögn sinni um drögin. Einnig hefur SFF lagst gegn því að kennitala verði notuð í þessu samhengi. Málið er nú í nánari skoðun í ráðuneytinu.

Þetta nýja regluverk sem hér er til umfjöllunar á sviði fjármálamarkaðar mun hafa í för með sér aukna vernd fjárfesta, aukið gagnsæi, aukna samkeppni á fjármálamarkaði yfir landamæri og meðal markaða og eflingu samstarfs eftirlitsaðila innan Evrópu. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir markaðinn í heild og mikilvægt að vel takist til við alla innleiðingu.

Þessi fundur verður vonandi til að vekja athygli á þeim miklu breytingum sem í þessu regluverki felast. Hann er liður í þeirri stefnu ráðuneytisins að kynna með kröftugri hætti en áður þá frumvarpa- og reglugerðasmíð sem fer þar fram. Enda ekki vanþörf á í jafn umfangsmiklu regluverki og hér um ræðir.

Þakka ykkur fyrir.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira