Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2007 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Fákeppni og samkeppnishindranir á íslenskum lyfjamarkaði.

 

Góðir tilheyrendur.

 

Ég vil byrja á því að þakka fyrir tækifærið að ávarpa þennan fund um samkeppni á lyfjamarkaði. 

Lyfjamarkaðurinn er mjög flókinn markaður, en jafnframt er hann afar mikilvægur fyrir íslenska neytendur.  Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var söluverðmæti lyfja um 5% af útgjöldum heimilanna á árinu 2005. Það er því afar brýnt að samkeppnisaðstæður séu allar hinar ákjósanlegustu á lyfjamarkaði, þó þannig að ekki sé varpað fyrir róða mikilvægum öryggishagsmunum á þessu sviði.

Lyfjamarkaðurinn er ólíkur öðrum vörumörkuðum um margt. Neysla lyfja er að hluta ákveðin með ávísunum lækna á lyf og kostnaður við lyfjanotkun greiðist að hluta af hinu opinbera. Því er neytandanum ekki alltaf í sjálfsvald sett hvort hann kaupir tiltekna vöru eða velur aðra vöru í staðinn.

Nokkuð hefur verið fjallað um samkeppnisstöðu á smásölumarkaði vegna lyfja á undanförnum árum.  Á árinu 1996 var aukið frelsi til að setja á stofn lyfjabúðir. Ekki þurfti lengur forsetaleyfi til lyfjasölu og að reglur um stofnun apóteka voru rýmkaðar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var skylt að veita hverjum þeim umsækjanda sem uppfyllti skilyrði lyfjalaganna lyfsöluleyfi. Þegar þessar breytingar  gengu í gegn urðu miklar  breytingar á lyfsölumarkaðnum; fleiri aðilar stunduðu lyfsölu og samkeppni jókst.  Á síðustu missirum hefur hins vegar orðið mikil samþjöppun á markaðnum.  Svo mikil að Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu síðastliðið sumar að tvær lyfsölukeðjur hefðu sameiginlega markaðsráðandi stöðu.  Hefur það leitt til þess að samkeppnisyfirvöld fylgjast augljóslega grant með hegðun þessara fyrirtækja á markaði eins og má álykta af húsleit Samkeppniseftirlitsins hjá Lyfjum og heilsu í september síðast liðnum.

Í þessu samhengi er eðlilegt að spurt sé hvað stjórnvöld geti gert til að sporna við fákeppni á þessu sviði. Í því samhengi vil ég benda á að viðskiptaráðuneytið hefur að undanförnu haft til skoðunar ákvæði samkeppnislaga um samruna, en tilgangur þeirra er einmitt að koma í veg fyrir samruna sem eru skaðlegir samkeppni.  Nokkur reynsla er komin á gildandi ákvæði, sem hefur fært mönnum sönnur á að þau þurfi endurskoðunar við. Samrunareglugerð Evrópusambandsins hefur einnig tekið nokkrum breytingum og rétt því tilefni til að skoða hvort sambærilegar breytingar eigi erindi við íslenskt viðskiptalíf. 

Í drögum að frumvarpi, sem birt voru sl. föstudag á vefsíðu ráðuneytisins, er tekið er á ýmsum þeim spurningum sem komið hafa upp í framkvæmd og sem tekur mið af þróun Evrópuréttar á þessu sviði.  Verður í frumvarpinu t.d. kveðið á um að samruni skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um hann, til samræmis við löggjöf í nágrannaaríkjum okkar og hjá Evrópusambandinu. 

Nokkuð hefur verið rætt um að þau veltumörk sem gildandi lög tiltaka sem mælikvarða á það hvort samruni sé tilkynningaskyldur til Samkeppniseftirlitsins og hafa verið færð fram þau sjónarmið að þau mörk séu of lág, þannig að of margir samrunar séu tilkynningaskyldir. 

Í frumvarpinu er ekki lagt til að veltumörkum samrunaákvæða gildandi laga, sem eru mælikvarði á það hvort samruni sé tilkynningaskyldur til Samkeppniseftirlitsins, verði breytt. Byggir það á þeirri skoðun að á þeim smáa markaði sem á Íslandi er og þar sem samþjöppun er víða mjög mikil, sé ekki rétt að hækka umrædd veltumörk.  Nýleg dæmi sanna að við það myndu samrunar á mikilvægum mörkuðum ekki koma til kasta Samkeppniseftirlitsins og einokunaraðstaða gæti myndast, án þess að stjórnvöld gætu þar rönd við reist.

Hins vegar hefur það líka verið skoðað hvort ekki megi létta fyrirtækjum tilkynningaskyldu til Samkeppniseftirlitsins í tilteknum tilfellum.  Verður tekið mið af Evrópurétti í því sambandi.

Verður frumvarp til breytinga á samkeppnislögum væntanlega lagt fyrir þingið fyrir jól.

Einnig þarf að hafa í huga í sambandi við lyfjamarkaðinn sérstaklega að honum er í veigamiklum atriðum stjórnað af íslenskum stjórnvöldum. Þannig er t.a.m.kveðið á um það í lyfjalögum að innflytjendur lyfja, lyfjaframleiðendur og umboðsmenn þeirra skuli sækja um hámarksverð í heildsölu, greiðsluþátttöku almannatrygginga og allar verðbreytingar á lyfseðilsskyldum lyfjum til lyfjagreiðslunefndar. Ákveður nefndin að fenginni umsókn m.a. hámarksverð á lyfjum sem eru með markaðsleyfi bæði í heildsölu og smásölu og greiðsluþátttökuverð, en það er það verð sem almannatryggingar skulu miða greiðsluþátttöku sína við.

Í því skyni að ná markmiðum lyfjalaga um að halda lyfjakostnaði í lágmarki skal lyfjagreiðslunefnd sjá til þess að lyfjaverð hér á landi sé að jafnaði sambærilegt við verð í viðmiðunarlöndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Ber lyfjagreiðslunefnd að fylgjast með verðlagningu lyfja í heildsölu og smásölu og greiðsluþátttökuverði í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og taka mið af þeim athugunum við verðákvarðanir sínar.

Af því sem hér segir er ljóst að samkeppni á lyfjamarkaði, að því er varðar lyfseðilsskyld lyf, er þegar takmörkuð vegna opinberra reglna sem gilda um verðlagningu lyfja og greiðsluþátttöku almannatrygginga, þar sem leiða má að því líkum að ákvörðun um hámarksverð hafi áhrif almennt á verðmyndum. Því má velta því fyrir sér hvort huga þurfi að því að hvort ná megi markmiðum lyfjalaga, án þess að ákveða hámarksverð lyfja. Verðlagning lausasölulyfja er hins vegar frjáls.

Þegar skoðað er hvað hægt er að gera til að auka samkeppni á lyfjamarkaði má t.d. líta til nágrannalanda okkar. Í Danmörku og Noregi hefur sala lausasölulyfja utan apóteka verið heimiluð með ákveðnum skilyrðum og í Finnlandi var á árinu 2006 heimilað að selja nikótínvörur á þeim sölustöðum sem hafa heimild til að selja tóbak. Reynslan af þessum breytingum sem gerðar voru á árinu 2001 í Danmörku hefur almennt verið góð og er verð lausasölulyfja 5-10% lægra í stórmörkuðum en í apótekum. Þar hefur breytingin ekki leitt til aukningar í sölu þessara lyfja.

Önnur leið sem bent hefur verið á er að opna aðgang neytenda til að kaupa viðurkennd lyf erlendis frá. Rök fyrir því eru að lyf eru oft ódýrari erlendis og oft auðvelt fyrir neytendur að stunda slík viðskipti, t.d. með aðstoð netsins. Að heimila kaup á lyfjum með þessum hætti mundi auka vitund neytenda um verð, gæði og þjónustu og líklegt er að slík breyting mundi leiða af sér verðlækkun til neytenda.

Þá er mikilvægt að huga að þætti sveitarstjórna þegar kemur að samkeppni á lyfjamarkaði. Í lyfjalögum er kveðið á um það að ráðherra skuli senda umsóknir um ný lyfsöluleyfi til viðkomandi sveitarstjórna til umsagnar. Við mat umsóknar skal m.a. stuðst við íbúafjölda að baki lyfjabúðinni og fjarlægð hennar frá næstu lyfjabúð. Staðsetning lyfjabúða og fjarlægð á milli þeirra getur haft gífurleg áhrif á samkeppni, eins og dæmin sanna, því er rétt að skora á sveitarstjórnir að huga vel að þessum málum við veitingu umsagna um ný lyfsöluleyfi.

Í ljósi þess hvað lyfjakostnaður er mikill hluti af útgjaldahlið heimilanna, er brýnt að neytendur séu virkir á þessum mörkuðum sem öðrum.  Neytendur virðast ekki vera eins virkir hér á landi eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við.  Þessu vil ég breyta.  Í því skyni, og til þess að efla neytendarétt almennt, hefur viðskiptaráðuneytið gengið til samninga við hagfræðistofnun Háskóla Íslands, félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og lagastofnun Háskóla Íslands til að gera allsherjarúttekt á neytendamálum á Íslandi.  Markmið starfsins er að skapa réttindamálum og hagsmunum neytenda verðugri sess í samfélaginu. Ennfremur að vinna gegn háu verðlagi á Íslandi; auðvelda almenningi að takast á við breytta heimilis- og verslunarhætti; styrkja og auka vitund neytenda um rétt sinn; innleiða í auknum mæli upplýsingatækni í þágu neytenda og almennt styðja neytendur til virkrar þátttöku á vöru- og þjónustumörkuðum.  Þegar skýrslan liggur fyrir, sem áætlað er að verði í apríl á næsta ári, mun verða farið vandlega yfir þær tillögur sem þar munu birtast og farið í það af fullum krafti að framkvæma þær.

Það er því von mín og vissa að sú mikla vinna sem var hrundið af stað nú í haust muni koma neytendum til góða, jafnt á lyfjamarkaði, sem og öðrum mörkuðum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira