Hoppa yfir valmynd
27. desember 2007 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Afhending viðskiptaverðlaunanna 2007

Góðir gestir. Það er mér sönn ánægja að afhenda hér í dag hin árlegu Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins. Rétt eins og blaðið sjálft hafa þessi verðlaun unnið sér verðugan sess í samfélaginu og eftir því er tekið hverjir fá þau hverju sinni. Allt frá 1996 hafa þessi verðlaun verið veitt þeim athafnamönnum og frumkvöðlum sem skarað hafa framúr í íslensku atvinnulífi á viðkomandi ári.

Óhætt er að segja að árið 2007 hafi við viðburðarríkt í Íslensku viðskiptalífi. Við mat á árangri í viðskiptum er gjarnan gripið til þess ráðs að skoða þróun markaðsvirðis viðkomandi fyrirtækja. Það er gert með tilvísun til þess að raunverulegt viðskiptaverð er hinn eini sanni mælikvarði á verðmæti.

Eins og við þekkjum hefur árið verið sannkölluð rússíbanareið í því tilliti og því erfitt um vik að dæma um árangur í því tilliti. Þar einsog svo oft áður er spurt að leikslokum þó að í einhverjum tilfellum hafi paradís verið skotið á frest.


Markaðsverðmæti er þó ekki aðeins mistækur mælikvarði þegar ytri áföll skekja fjármálakerfið, líkt og hin alþjóðlega lausafjárkreppa gerir nú. Hann hefur einnig reynst vera afar kvikull og óáreiðanlegur þegar andrúmsloftið er jákvætt og bjartsýni ríkir.

 

Sem betur fer, kennir reynslan okkur að sviptingar á hlutabréfamörkuðum hafa oft lítið að gera með þróun efnahagslífsins almennt. Alan Greenspan lýsir þessu ágætlega í ævisögu sinni og nefnir hrunið á mörkuðum 1987 sem gott dæmi. Svarta mánudaginn, 19. október 1987, varð mesta hrun á hlutabréfamörkuðum í sögunni. Heimsbúskapurinn lét þó lítið á sjá og hagvöxtur í Bandaríkjunum var meiri árin 1987 og 1988 en árið þar á undan.

 

Í þessu samhengi er viðeigandi að verðlaunin sem veitt eru hér í dag: Viðskiptaverðlaunin 2007 og Frumkvöðull ársins, skuli falla til einstaklinga sem þekktir eru fyrir atorku og árangur á fjölbreyttu sviði atvinnustarfsemi og þjóðfélagsmála, þar sem áherslan hefur fyrst og fremst verið lögð á grunnþjónustu samfélagsins. Ekki aðeins hér á íslandi heldur víða um heim.

 

Að þessu sinni hefur Viðskiptablaðið ákveðið að heiðra Björgólf Thor Björgólfsson, stjórnarformann Novators og veita honum Viðskiptaverðlaun ársins 2007 og er hægt að fullyrða að þau séu verðuskulduð, svo varlega sé mælt.

 

Undanfarið ár hefur Björgólfur selt margar af þeim fjárfestingum sem hann hefur viðað að sér á síðastliðnum árum. Síðasta árið hefur félag hans, Novator, losað um eignarhluti sína í tékkneska fjarskiptafélaginu CRa, búlgarska símafyrirtækinu BTC og búlgarska bankanum Eibank.

 

Heildarvirði þessara viðskipta er um 3,5 milljarðar evra eða nálægt 315 milljörðum króna. Auk þess er vert að geta velheppnaðrar útgöngu Novators úr breska netuppboðsfyrirtækinu Tradus plc. Sem átti sér stað nú í síðustu vikunni fyrir jól.

 

Um leið og Novator seldi af fjárfestingum sínum í Austur-Evrópu réðst félagið í skuldsetta yfirtöku á Actavis, sem er stærsti fjármálagerningur af því tagi sem sést hefur á Íslandi. Sömuleiðis er yfirtakan á Actavis ein af stærstu, skuldsettu yfirtökum Evrópu, þegar horft er til þess að aðeins einn fjárfestir kemur að málum.

 

Í dag er Novator í lykilstöðu í mörgum áhugaverðum fyrirtækjum og hefur sýnt að það er ekki síður fært um að selja en kaupa, sem setur það vissulega í öfundsverða aðstöðu í kjölfar þeirra lausafjárerfiðleika sem nú ríkja á mörkuðum. Björgólfur Thor hefur þannig reynst vera framsýnn, djarfur og farsæll fjárfestir.

 

Segja má að hann hafi ekki aðeins skotist fram úr íslenskum keppinautum sínum á vettvangi viðskiptanna þetta árið, heldur í raun og veru hlutabréfamarkaðinum öllum. Björgólfur Thor Björgólfsson er því vel að Viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins kominn.

 

Það er ekki síður ánægjulegt að heiðra frumkvöðla í íslensku viðskiptalífi og fá þannig tækifæri til að vekja athygli á því mikla frumherjastarfi sem unnið er hér á Íslandi. Óhætt er að segja að frumkvöðull ársins komi úr óvæntri átt að þessu sinni. Úrvalsmenntun er forsenda þess að þjóðinni farnist vel í framtíðinni og eru fjárfestingar í fjölbreyttri menntun á öllum skólastigum stærsta einstaka verkefni okkar sem þjóðar í nánustu framtíð.

 

Þjóðfélagið allt hefur um nokkurt skeið fylgst með vexti og viðgangi Hjallastefnunnar undir forustu Margrétar Pálu Ólafsdóttur og baráttu hennar fyrir betra og fjölbreyttara menntakerfi á Íslandi.

 

Vöxtur starfsins þar hefur verið með ólíkindum. Á aðeins 18 mánuðum hefur orðið gríðarleg aukning á skólastarfi undir merkjum Hjallastefnunnar sem rekur nú 13 skólaeiningar með átta stórum leikskólum, og tveimur smábarnaskólum, fyrir börn 18 mánaða og yngri.

  

Þessu til viðbótar hefur Hjallastefnan hafið rekstur þriggja grunnskóla fyrir börn á yngsta skólastiginu, sex, sjö og átta ára.

 

Í öllum þessum skólum eru á milli 11 og 12 hundruð nemendur og starfsmenn eru um 270. Fyrir 18 mánuðum voru skólarnir aðeins þrír. Það er ekki hægt annað en að hrífast af eldmóði og áhuga frumkvöðulsins, Margrétar Pálu, sem hefur nánast upp á eigin spýtur tekið að sér að breyta rekstrarskilyrðum skólastarfs og plægja akurinn fyrir aukinni fjölbreytni í fyrirkomulagi skólamála og undirstrikar rækilega þörfina á því að auka valfrelsi í skólamálum og breikka flóru grunnskólanna til muna.

 

Hún er því sannur frumkvöðull að mati Viðskiptablaðsins og er það mér sérstök ánægja sem áhugamanni um skólamál að afhenda henni þessi verðlaun fyrir fágætan árangur sinn og takmarkalitla fórnfýsi við uppbyggingu skóla sinna með hugsjónina eina að leiðarljósi.

 
Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira