Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2008 MatvælaráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Hádegisfundur LeiðtogaAuðar og FKA

Ágætu fundarkonur (og menn)

Hér er spurt hvernig fjölgum við konum í stjórnum og áhrifastöðum.

Flestir hljóta að vera sammála því að fjölga beri konum í stjórnum og áhrifastöðum. Þannig nýtist hæfni og þekking sem fyrirtæki fara annars á mis við og fyrirtækin hafa ávinning af fjölbreytileika sem leiðir af jafnari kynjahlutföllum í stjórnum og stjórnunarstöðum. Þá hefur verið sýnt fram á tengsl milli fjölda kvenna í stjórnum og bættra stjórnarhátta auk þess sem að nýlegar athuganir Creditinfo Ísland sýna að minni líkur er á að þau fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn lendi í alvarlegum vanskilum.

Í framhaldi af fréttum Creditinfo um minni vanskil fyrirtækja þar sem konur sitja í stjórn fékk viðskiptaráðuneytið fyrirtækið til að gera ítarlegri úttekt á því hvernig fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn standa sig í samanburði við fyrirtæki þar sem konur eru ekki í stjórn. Skoðuð voru 27 þúsund fyrirtæki og voru þau metin með tilliti til þess hve líkleg þau voru til að lenda í alvarlegum vanskilum, eiginfjárhlutfalli og arðsemi eigin fjár eftir stærð stjórnar og kynjahlutfalli í stjórn.

Niðurstaða úttektarinnar sýnir að fyrirtæki eru alltaf líklegri til að lenda í vanskilum þar sem engar konur eru í stjórn. Þau fyrirtæki sem einungis konur eru í stjórn og þar sem fjöldi stjórnarmeðlima eru þrír eða fleiri eru mun ólíklegri til að lenda í vanskilum í samanburði við fyrirtæki þar sem aðeins eru karlmenn í stjórn. Hins vegar hækkar hlutfall fyrirtækja í vanskilum ef skoðuð eru smærri fyrirtæki með eingöngu konum í stjórn og 1-2 stjórnarmönnum. Af niðurstöðunum má einnig sjá að fyrirtæki sem eru með svipað hlutfall kvenna og karla í stjórn eru síður líkleg til að lenda í alvarlegum vanskilum.

Þegar skoðuð eru fyrirtæki sem skiluðu ársreikningi fyrir tímabilið 2005 til 2006 kemur í ljós að eiginfjárhlutfall hjá fyrirtækjum þar sem eingöngu konur eru í stjórn er tölvuert minna en hjá fyrirtækjum þar sem aðeins karlmenn eru í stjórn eða 3,19% á móti 14,87%. Þegar á heildina er litið er eiginfjárhlutfall fyrirtækja í hlutafélagaskrá hæst þar sem fyrirtæki er með bæði konur og karla í stjórn. Ekki var munur á arðsemi eiginfjár fyrirtækja sem eingöngu höfð karla eða konur í stjórn. Hins vegar kom í ljós að meðalhagnaður er mestur hjá þeim fyrirtækjum sem eru með kynjablandaða stjórn. Fyrirtæki sem eingöngu hafa konur í stjórn skiluðu mun minni hagnaði en fyrirtæki sem eingöngu höfðu karla í stjórn.

Af þessu virðist helst mega draga þá áætlun að best sé að hafa bæði konur og karla í stjórn fyrirtækis. Staðreyndin er hins vegar sú að konur eru aðeins í litlum hluta stjórnarsæta. Ef litið er til skiptingar kynjanna í stjórnum 100 stærstu íslensku fyrirtækjanna árið 2007 kemur í ljós að konur skipa aðeins 8% stjórnarsætanna eða 32 af 408 stjórnarsætum. Árið 2005 var þetta hlutfall 12%. Engin kona er í stjórn 71% fyrirtækjanna. Tólf fyrirtæki á listanum eru með konur í þriðjungi stjórnarsæta eða meira. Konur voru í tæplega 8% stjórnarsæta af þeim fyrirtækjum á listanum sem skráð eru í OMX (Kauphöll). Engin kona gegndi stjórnarformennsku í þeim.

Konur eru 14% af æðstu stjórnendum fyrirtækjanna eða 46 konur af 328 forstjórum og framkvæmdastjórum. Árið 2005 var hlutfall þeirra um 10%. Í þremur fyrirtækjanna var stjórnarformaðurinn kona. Árið 2005 var kona stjórnarformaður í fimm fyrirtækjum á listanum.

Aðeins þriðjungur fyrirtækjanna var með skriflega jafnréttisáætlun, þrátt fyrir að lög kveði á um að fyrir tæki með 25 starfsmenn eða fleiri skuli hafa jafnréttisstefnu eða ákvæði um jafnrétti í starfsmannastefnu sinni.

Þegar tölur fyrir árið 2007 eru bornar saman við tölur frá 2005 verður að hafa í huga að mikil hreyfing hefur verið á markaðinum og innan við 40% af þeim fyrirtækjum sem voru meðal þeirra 100 stærstu á árinu 2005 eru á listanum yfir 100 stærstu fyrirtækin 2007.

Ef litið er á sambærilegar tölur erlendis frá má sjá að í Bandaríkjunum eru konur í rúmlega 17% stjórnarsæta í stærstu 100 fyrirtækjunum (Fortune 100 Boards). Í Bretlandi má segja að hlutirnir hafi þokast í rétta átt, en þar eru samt enn 24% fyrirtækja af 100 FTSE ekki með neina konu í stjórn. Þetta hlutfall var 36% fyrir átta árum.

Þessar tölur eru nokkuð sláandi þegar litið er til þess að konur eru helmingur af vinnuafli og mikilvægir neytendur bæði vöru og þjónustu.

Í Noregi þar sem gripið hefur verið til lagasetningar til að tryggja hlutfall kvenna í stjórnum hlutafélaga er hlutfall kvenna í stjórnum 42% eða 819 konur á móti 1.122 körlum. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var, en segir þó ekki alla söguna, eins og ég mun koma að síðar.

Til að hægt sé að vinna að fjölgun kvenna í stjórnum fyrirtækja og áhrifastöðum í þjóðfélaginu hljótum við að þurfa að komast að því hvaða ástæður liggja að baki því að fáar konur eru í slíkum stöðum. Ástæður þess eru væntanlega margvíslegar, en líklegt er að afstaða og viðhorf þeirra sem skipa í stjórnir skipti miklu máli. Þá hefur verið bent á að konur standi oft utan við hefðbundin tengslanet viðskiptalífsins og að þær séu því síður sýnilegar og njóti minna trausts þeirra sem skipa í stjórnir. Þá virðast konur síður fara fyrir fjármagni og eru þar af leiðandi sjaldan í hlutverki þeirra sem skipa í stjórnir.

Það virðist sem að jöfn staða kynjanna í stjórnunarstöðum og stjórnum fyrirtækja hafi almennt ekki verið á dagskrá hjá fyrirtækjum og hluthöfum að undanförnu. Þó að æskilegast sé að frumkvæði að breytingum á kynjahlutföllum í stjórnum komi frá fyrirtækjunum sjálfum virðist augljóst að grípa þarf til einhverra ráðstafana til að auka hlut kvenna í stjórnum og áhrifastöðum innan fyrirtækja.

Í viðskiptaráðuneytinu hefur verið unnið að þessum málum síðustu ár.

Vorið 2004 samþykkti Alþingi þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Samkvæmt áætluninni voru iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu falin verkefni er lúta að konum og stjórnun fyrirtækja, stuðningi við konur í atvinnurekstri og konur í atvinnurekstri. Hefur verið unnið að þessum málum í ráðuneytinu síðan og hef ég mikinn áhuga á að efla enn það starf.

Haustið 2004 skipaði þáverandi viðskiptaráðherra svokallaða Tækifærisnefnd sem falið var það hlutverk að ræða þau tækifæri sem aukin fjölbreytni í forystusveit íslensks viðskiptalífs skapar. Nefndin ákvað að beina sjónum sínum sérstaklega að hlutdeild kvenna í stjórnum fyrirtækja. Nefndin skilaði tillögum um aðgerðir sem miða áttu að því að efla fyrirtæki og atvinnulíf með því að fjölga konum í stjórnum og áhrifastöðum. Þær aðgerðir sem nefndin lagði áherslu á voru:

·       Að tryggja farveg fyrir umræðu og þekkingaröflun

·        Að birta reglulega lista með upplýsingum um fjölda og hlutfall kvenna í stjórnum

·        Að efla tengsl kvenna

·        Að víkka leitarskilyrði og sjóndeildarhring við skipanir í stjórnir

·        Að hvetja fyrirtæki til að setja konur á dagskrá

·        Að fá karlmenn í áhrifastöðum til að gera málið að sínu

Þá var í apríl 2006 undirritaður samstarfssamningur Viðskiptaháskólans á Bifröst og viðskiptaráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins, Félags kvenna í atvinnurekstri, Jafnréttisráðs og Jafnréttisstofu um samstarfsverkefni um Jafnréttiskennitölu fyrirtækja. Segja má að verkefnið sé þríþætt. Í fyrsta lagi felst það í kortlagningu mælikvarða á jafnrétti í fyrirtækjum, þ.e. almenn kortlagning á því hvernig unnt er að leggja mat á jafnrétti í fyrirtækjum. Í öðru lagi felst verkefnið í mótun jafnréttiskennitölunnar sem er hugsuð sem mælikvarði á árangur fyrirtækis í jafnréttismálum. Í þriðja lagi felur verkefnið í sér árlega birtingu upplýsinga um jafnrétti í fyrirtækjum, m.a. um fjölda kvenkyns stjórnarmanna og stjórnarformanna í hundrað stærstu fyrirtækjunum hérlendis auk upplýsinga um fjölda æðstu stjórnenda innan fyrirtækjanna, þ.e. forstjóra og framkvæmdastjóra.

Loks stóð ráðuneytið ásamt öðrum að ráðstefnunni Virkjum kraft kvenna í upphafi árs 2007 og er nú unnið að skipulagningu annarrar ráðstefnu sem ætlað er sama markmið, þ.e. að efla umræðu og þekkingu, efla tengl á milli kvenna og koma konum á dagskrá karla.

Að auki er rétt að vekja athygli á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem nú er til meðferðar á Alþingi, er í 15. gr. kveðið á um þá meginreglu að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Gert er ráð fyrir að sama regla gildi einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

Í frumvarpinu er lagt til að víkja megi frá meginreglunni þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.

Viðskiptaráðuneytið hefur unnið eftir sambærilegum reglum undanfarið við tilnefningar í nefndir og stjórnir. Þannig er ávallt óskað eftir því að tilnefnd séu bæði karl og kona til setu í nefndum og starfshópum og hefur ráðuneytið eftir fremsta megni leitast við að hafa fjölda karla og kvenna sem jafnastan í nefndum, ráðum og stjórnum.

Ofantalin atriði virðast ekki duga til að fjölga konum í stjórn fyrirtækja og því virðist ljóst að grípa verður til frekari aðgerða, en hvaða aðgerða er raunhæft að grípa til?

Mikið hefur verið fjallað um hina svokölluðu norsku leið, en með lagabreytingu sem tók gildi 1. janúar 2004 lögfestu Norðmenn kynjakvóta fyrir hlutafélög. Lögin tóku strax gildi fyrir opinber hlutafélög en almenn hlutafélög fengu tveggja ára aðlögunartíma, eða til 1. janúar 2006. Lögin taka til allra hlutafélaga sem skráð eru í Noregi, hvort sem hlutafélagið er í eigu Norðmanna eða að hluta eða öllu leyti í eigu erlendra fyrirtækja eða einstaklinga. Kvótinn gildir ekki um einkahlutafélög.

Í lögunum eru ítarlegar reglur um hlutföll kynjanna. Ef tveir eða þrír aðilar eru í stjórn verða bæði kynin að eiga fulltrúa. Ef fjórir eða fimm eiga sæti í stjórn verður hvort kyn að eiga minnst tvo fulltrúa. Í stjórn með sex til átta stjórnarmönnum verður hvort kyn að eiga minnst þrjá fulltrúa og í stjórn með níu stjórnarmönnum verður hvort kyn að eiga minnst fjóra fulltrúa og sitji enn fleiri í stjórninni verður hvort kyn að eiga minnst 40%. Það sama gildir fyrir varamenn.

Með lögum sem tóku gildi 1. janúar 2006, var frestur fyrirtækja til að uppfylla kynjakvóta framlengdur til 31. desember 2007. Eftir þann tíma höfðum stjórnvöld heimild samkvæmt þeim lögum til að hlutast til um slit á þeim hlutafélögum sem ekki uppfylltu kvótann. Ákvæði um slit á þeim félögum sem ekki uppfylltu kvótann þóttu mjög ströng og voru umdeild.  Í kjölfar mikillar gagnrýni var samþykkt breyting á viðurlagaákvæðum laganna sem tóku gildi 9. febrúar 2007. Breytingin fól í sér heimild fyrir ríkisstjórninni til að hindra slit á félagi, hafi sú aðgerð veruleg áhrif á þjóðarbúið. Þess í stað er gert ráð fyrir að hægt sé að leggja háar sektir á félögin.

Í janúar 2007 höfðu 38% hlutafélaga uppfyllt kynjakvótann en 28% höfðu ekki konu í stjórn. Nú er hlutfall kvenna í stjórnum norskra hlutafélaga orðið 42%. Hins vegar er aðeins 26,5% varamanna í stjórnum norskra hlutafélaga konur og er það skýrt brot gegn ákvæðum laganna.

Noregur er eina landið sem tekið hefur upp kynjakvóta í atvinnulífinu. Þar eru aðstæður einnig allsérstakar þar sem norska ríkið á 60% hlutafjár í fyrirtækjum í Kauphöllinni og ráðandi hlut í 7 af 10 stærstu fyrirtækjunum.

Þá hafa reglurnar í Noregi haft þær afleiðingar að á árinu 2007 hafa 138 af 640 hlutafélögum hafa breytt rekstrarformi sínu í einkahlutafélög. Til samanburðar breyttu um það bil 50 hlutafélög starfsemi sinni í einkahlutafélög á ári á árunum 2004 til 2006.

Einnig hefur Eftirlitsstofunun EFTA hafið rannsókn á ákvæðum norskra laga um kynjakvóta, en stofnunin telur að ákvæði laganna geti gengið gegn tilskipun nr. 76/207/EBE um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkunum, sem og varðandi starfskjör.

Hvaða úrræðum kemur til greina að beita?

Telja verður að virk umræða um kosti þess að auka hlut kvenna í stjórnum og áhrifastöðum í íslensku viðskiptalífi leiði smám saman til þess að hlutfall kvenna aukist. Þannig er mikilvægt að koma þeim skilaboðum til fyrirtækja að jöfn kynjahlutföll í stjórnum séu hluti af þeim gæðakröfum sem gerðar eru til fyrirtækjareksturs í nútímanum og efla þekkingu og vitund á því tækifæri sem felst í því að fjölga konum í stjórnum.

Þá má halda áfram að hvetja fyrirtæki til að taka afstöðu til fjölgunar kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum. Þetta má t.d. gera með að verðlauna fyrirtæki sem náð hafa árangri á þessu sviði, með því að birta auglýsingar þar sem fram kemur hvaða fyrirtæki standa sig vel og svo framvegis.

Einnig má höfða til neytenda með því að gera neytendur meðvitaða um það hvaða fyrirtæki gæta að kynjajafnrétti og hvetja til að neytendur beini viðskiptum sínum til þeirra.

Ég mun beita mér fyrir því að framangreindum úrræðum verði beitt og að umræðu um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja verði haldið vakandi. Það er hins vegar æskilegast að fyrirtæki sýni frumkvæði í að jafna kynjahlutföll í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda, en afskipti löggjafans eru þó ekki útilokuð sé ljóst að ekkert annað virki. Þá mundi ég telja að lögfesting á kynjakvóta væri ekki fyrsta skrefið heldur væri fyrst hægt að lögfesta upplýsingaskyldu fyrirtækja um nöfn, stöðuheiti og ábyrgðarsvið stjórnarmanna og æðstu stjórnenda fyrirtækja, en slík upplýsingagjöf þekkist víða erlendis. Slíkt stuðlar bæði að því að fyrirtæki verði í auknum mæli meðvituð um skipun í stjórnir og ábyrgðarstöður auk þess sem slíkt auðveldar öflun gagna um kynjahlutföll stjórnar og stjórnenda í fyrirtækjum. Ef ljóst þykir að ekkert annað dugar er ekki hægt að útiloka beitingu lögbundins kynjakvóta.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum