Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2008 MatvælaráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Aðalfundur SVÞ

Kæru gestir,

Það er mjög sönn ánægja að ávarpa aðalfund Samtaka verslunar og þjónustu. En frá því að ég tók við embætti sem viðskiptaráðherra, fyrir níu mánuðum síðan, hef ég átt mikil og góð samskipti við samtökin. Það hlýtur að vera forgangsmál stjórnvalda, á hverjum tíma, að tryggja góð samskipti og samvinnu á milli  atvinnurekenda og hins opinbera. Enda eiga atvinnulífið og stjórnvöld samleið í stefnumótun um aukna verðmætasköpun og velferð.

Ég vil sérstaklega minnast í þessu samhengi á þátttöku viðskiptaráðuneytisins í rekstri Rannsóknaseturs verslunarinnar sem hýst er af Háskólanum á Bifröst og hrint var af stað að frumkvæði SVÞ. Síðar í dag mun ég staðfesta nýjan samning við Rannsóknarsetrið um þjónustukaup og kostnaðarþátttöku í almennum verkefnum þess. Ég tel að reynslan af rekstri setursins lofi góðu og vænti mikils af starfi þess í framtíðinni.

Ég vil einnig nota tækifærið og þakka forsvarsmönnum SVÞ fyrir afar gott samstarf við útfærslu á viðbrögðum við tillögum starfshóps um gjaldtöku fjármálastofnanna um seðilgjöld. Niðurstaðan eru tilmæli sem ég gaf út fyrr í þessari viku, þess efnis að kröfuhöfum sem nýta sér innheimtuþjónustu verði ekki boðið að bæta seðilgjöldum eða sambærilegum fylgikröfum við aðalkröfu, nema slíkt sé sérstaklega samþykkt af neytendum.

Útrás og vöxtur verslunar og þjónustu á síðustu árum hefur verið ævintýralegur og hraður. Umbreyting íslensks atvinnulífs hefur meðal annars leitt til framrásar ýmiss konar alþjóðlegar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Mikilvægt er að slík starfsemi haldi áfram að vaxa hér á landi og sæki inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði.

Til að gera sér grein fyrir stærðunum má nefna að heil 57% af mannafla landsins starfar við þjónustu hverskonar, um 90.000 manns, og um 67% tekna þjóðarbúsins er af þjónustugreinum og verslun. Þjónustan ein nemur um 55% af landsframleiðslunni og hefur hlutdeild hennar aukist um 14% á 30 árum.

Það þarf að byggja undir þessar greinar með sama hætti og gert hefur verið um gömlu hefðbundu greinarnar og sjá til þess að þær vaxi áfram og dafni. Aukin áhersla á frjáls viðskipti með vörur og þjónustu á milli landa hefur eflt samkeppnina á mörgum sviðum. Í því samhengi má nefna að talið er að vægi þjónustu í útflutningi gæti numið allt að 50% eftir tíu ár.

Þá verður þjónustan sífellt mikilvægari í utanríkisviðskiptum og nam útflutningur þjónustu 12% árið 2005 og tekjur vegna þjónustuútflutnings voru 120 milljarðar sama ár eða tæp 30% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Að mínu mati þarf með markvissum hætti að bæta stöðu verslunar og þjónustu sem öflugra atvinnugreina sem munu áfram vaxa hratt í framtíðinni. T.d. með aukinni menntun í verslunar- og viðskiptagreinum, aukinni fræðslu á umfangi greinarinnar og útrásarmöguleikum.

Aukin útvistun ríkisins og jöfn tækifæri fyrirtækja

Útvistunarstefna ríkisins sem tók gildi í júní 2006 mótar nú starfshætti ráðuneyta og ríkisstofnana í vaxandi mæli þegar kemur að þjónustukaupum. Nokkur seinkun varð á framkvæmd stefnunnar, en óhætt er að fullyrða að um þessar mundir er mikil áhersla lögð á framkvæmd hennar í stjórnsýslunni.

Í þessu sambandi hafa Samtök verslunar og þjónustu og fleiri bent á að mikilvægt sé að tryggja sem best, jafna stöðu fyrirtækja á einkamarkaði innbyrðis í þjónustuviðskiptum við ríkið. Jafnframt að ekki séu skattalegir hvatir sem raska jafnvægi á milli útvistunar og innvistunar þjónustu fyrir ríkið, meðal annars með því að virðisaukaskattur sé ekki endurgreiddur af þjónustukaupum ríkisins á almennum markaði. 

Í síðustu fjáraukalögum kom inn heimild upp á rúmar 70 milljónir fyrir fjármálaráðherra til að endurgreiða virðisaukaskatt af aðkeyptri þjónustu tölvufyrirtækja. Eðlilegt er að óskað verði eftir sambærilegum heimildum í næstu fjárlögum fyrir önnur þjónustukaup ríkisins á almennum markaði ef reynslan af áðurnefndri tilraun er góð.

Viðskiptaráðuneytið hefur fullan skilning á áhuga SVÞ og aðildarfyrirtækja á þessu og vill fyrir sitt leyti styðja slíka ákvörðun við næstu fjárlagagerð.

EES

Frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks á EES svæðinu og hagræði Íslands af því að vera aðili að innri markaði ESB þarf að tryggja með því að Íslandi taki þátt í því að fjarlægja hindranir sem koma í veg fyrir þetta frjálsa flæði. Meðal slíkra þröskulda eru tollar og vörugjöld.

Það er ekki síst frjáls för vinnandi fólks innan EES svæðisins sem skiptir mestu máli í dag. Það er Íslendingum mikið happ að fjölmargir útlendingar kjósa að koma hingað til starfa til lengri og skemmri tíma. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig reka mætti verslun og margvíslega þjónustu með jafn blómlegum hætti og raunin er ef ekki væri fyrir krafta þessa fólks. 

Fjölgun útlendinga, sem að stórum hluta eru innflytjendur, gerir m.a. auknar kröfur um íslenskukennslu.  Reyndar er öll starfsmenntun einnig í mikilli endurskoðun og hefur tilkoma erlends vinnuafls síst dregið úr þýðingu hennar. 

Þjónustutilskipun ESB

Vaxandi þýðing þjónustuviðskipta bæði á neytenda- og fyrirtækjamarkaði kallar á viðurkenningu og stuðning stjórnvalda.  Þjónustutilskipun ESB, sem er málamiðlun eftir langt samráðsferli, er mikilvæg fyrir íslensk fyrirtæki að því marki sem þau skapa þeim möguleika til viðskipta við önnur lönd innan EES svæðisins á sambærilegum grundvelli og innlend þjónustufyrirtæki í viðkomandi löndum búa við.  Það sama gildir að sjálfsögðu um starfsemi útlendra þjónustufyrirtækja frá Evrópu á íslenskum markaði.  

Nú er unnið að innleiðingu á þjónustutilskipunarinnar og skal henni lokið eigi síðar en 29. desember 2009.  Í tilskipuninni er að finna metnaðarfull  áform sem miða að því að láta hinn sameiginlega innri markað í Evrópu á sviði þjónustuviðskipta gagnast neytendum betur  með því að einfalda og auðvelda fyrirtækjum að stofnsetja sig og veita þjónustu í hvaða aðildarríki sem þau kjósa að starfa í.

Í fyrsta lagi felur þessi tilskipun í sér að ríkar kröfur eru gerðar til stjórnvalda að fara yfir og einfalda allar reglur í stjórnsýslunni sem varða starfsleyfi fyrirtækja, útiloka að ekki sé gerðar kröfur að óþörfu . Í því felst einnig stjórnvöld eiga að tryggja atvinnulífinu aðgang að upplýsingahraðbraut þar sem þau geta lokið sínum samskiptum við stjórnvöld á einum stað með rafrænni afgreiðslu í gegnum Netið.

Þetta mál snýst ekki nema að litlu leyti um lagasetningu heldur er meginmálið grundvallarbreyting á vinnubrögðum og samskiptum opinberra aðila við fyrirtæki og almenning.  Rafræn stjórnsýsla  er því lykilverkfæri til þess að þessum markmiðum verði náð – og engar stjórnsýslustofnanir  geta komist hjá því að stórefla slíka þjónustu við fyrirtækin og almenning í.

Í öðru lagi felur þessi nýja þjónustutilskipun í sér að fyrirtæki og þeir aðilar sem stunda þjónustuviðskipti  verða að gera ráðstafanir til þess að efla traust neytenda til þess að stunda við þá viðskipti.  Þannig ber aðilum er selja þjónustu samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar að sjá til þess að fullnægjandi upplýsingar séu aðgengilegar fyrir neytendur um öll nauðsynleg atriði til þess að þeir geti treyst þeim aðilum er þeir eiga viðskipti við.

Fyrirtækin skulu þannig gera grein fyrir því með hvaða hætti unnt sé að leggja fram kvartanir þegar að eitthvað fer úrskeiðis í viðskiptum þeirra.  Þannig er mikilvægt að stórefla hér kvartana stjórnun og skilvirkni úrskurðarleiða en allt slíkt eykur traust neytenda og verður í framtíðinni forsenda þess að unnt sé að efla viðskipti yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hér er ekki unnt að rekja í smáatriðum þau margvíslegu áhrif sem þessi tilskipun mun hafa en það er alveg ljóst að hún felur í sér margvísleg ný tækifæri fyrir viðskiptalífið og neytendur með útvíkkun og dýpkun innri markaðar Evrópu.

Síðastliðinn sunnudag voru nýir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði til næstu þriggja ára undirritaðir. Samningarnir eru um margt lofsverðir. Með því að semja til þriggja ára í senn um tiltölulega litlar launahækkanir er mikilli óvissu um launaþróun eytt og forsendur skapaðar fyrir aðlögun hagkerfisins úr þeirri ofþenslu sem ríkt hefur undanfarin ár. Þar skiptir mestu máli að skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta skapist.

Um leið eru kjarasamningarnir merkilegir fyrir það hvað langt er gengið til hækkunar lægstu launa og að aðrar launahækkanir miðist einkum við þá sem farið hafa varhluta af launaskriði undanfarinnar missera. Um leið og ég fagna þessari niðurstöðu, sem jafnaðarmaður, hef ég skilning á því, sem viðskiptaráðherra, að niðurstaðan er að mörgu leyti óhagstæð fyrir verslun og sumar greinar þjónustu, þar sem búast má við hvað mestum launahækkunum næstu þrjú árin.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga miða að nokkru leyti við þetta. Auk almennra skattalækkana fyrir fólk og fyrirtæki heitir ríkisstjórnin því að beita sér fyrir aðgerðum til lækkunar vöruverðs, einkum á matvælum og að í því sambandi verðu einkum horft til vörugjalda og tolla.

Enginn kemst hjá því að verða var við vaxandi umræðu um gjaldmiðlamál hér á landi. Hugmyndafræðin að baki evrunni er í raun samofin innri markaðinum enda veldur gengisáhætta auknum viðskiptakostnaði og er því óbein viðskiptahindrun. Nú er hins vegar ljóst að Ísland mun ekki taka upp evru sem gjaldmiðil nema það gangi fyrst í Evrópusambandið.

Nú er mikil þörf fyrir yfirvegaða umræðu um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu  frá sem flestu sjónarhornum. Samtök verslunar og þjónustu hafa hér hlutverki að gegna og beinlínis nauðsynlegt að þau láti sig þetta mikla álitamál varða.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum