Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2008 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Afhending EDI verðlaunanna 2008

Mér er það sönn ánægja að ávarpa aðalfund Icepro nefndarinnar, og afhenda EDI verðlaunin fyrir árið 2008.

Eins og flestum hér er kunnugt á Icepro nefndin langan ferill að baki sem samráðsnefnd um rafræn viðskipti. Nefndinni er ætlað að vera samstarfsvettvangur atvinnulífsins og opinberra aðila um rafræn viðskipti.

Rafræn viðskipti hafa gjörbylt hefðbundnum viðskiptaháttum, þó svo byltingin sé í raun rétt nýhafin. Viðteknar viðskiptavenjur eru að breytast, milliliðum fækkar, viðskiptakostnaður minnkar, nánara samband ríkir á milli fyrirtækja og neytenda og nýir markaðir fyrir vörur spretta upp. Hver sá sem hefur aðgang að Netinu getur boðið fram sínar vörur eða þjónustu og náð til neytenda hvar sem er í heiminum. Með sama hætti getur neytandi keypt vörur og þjónustu á hinu sameiginlega markaðstorgi heimsins óháð tíma og stað. Rafræn viðskipti skapa ný sóknarfæri fyrir fyrirtæki og neytendur.

Almennt er talið að eftir nokkur ár muni hugtakið rafræn viðskipti hverfa, ekki vegna þess að viðskipti verði ekki stunduð á þennan hátt, heldur vegna þess að viðskipti milli fyrirtækja verði nánast eingöngu stunduð á þennan hátt. Þá verður ekki lengur gerður greinarmunur á viðskiptum og rafrænum viðskiptum.

Þróunin heldur áfram bæði hér og í allri Evrópu og verða Íslendingar að vera á varðbergi gagnvart því að dragast ekki aftur úr. Hagræðingin sem felst í rafrænum viðskiptum getur skipt sköpum í aukinni samkeppnishæfni Íslands. Með auknu flæði viðskipta milli landa er nauðsynlegt að samræma umhverfi rafrænna viðskipta. Til þess að rafræn viðskipti milli Íslands og annarra landa verði almenn og  skilvirk er mikilvægt  að nýta alþjóðlega og evrópska staðla í  íslensku umhverfi. Icepro hefur ætíð leitast við að taka þátt í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði til þess að gæta hagsmuna Íslands og miðla þekkingu til íslensks atvinnulífs og opinberra aðila.

Samstarf Ísland við NES (North European Subset) hópinn hefur verið töluvert síðastliðinn tvö ár. Markmið hópsins er að koma á sameiginlegum vettvangi rafrænna viðskipta. NES samstarfið leiddi af sér samnorrænt vinnulag þar sem tekið var tillit til þarfa Íslendinga í rafrænum samskiptum með reikninga, pantanir, verðlista, reiknireglu, virðisaukaskatt og fleira.  Í framhaldi af þessu samstarfi hefur Icepro gefið út handbók um rafræn viðskipti með það að markmiði að stuðla að sem víðtækastri innleiðingu rafrænna samskipta í innlendum og erlendum viðskiptum.

Ráðherraráðstefna Evrópusambandsins um rafræna stjórnsýslu var haldinn í Lissabon í september 2007. Á ráðstefnunni samþykktu ráðherrar aðildarríkja ESB og EFTA-ríkjanna yfirlýsingu sem ætlað er að fylgja eftir áætlun Evrópusambandsins fyrir upplýsingasamfélagið fram til ársins 2010. Samþykktin fjallar m.a. um notkun rafrænna skilríkja og rafrænna reikninga milli landa, einföldun á samskiptum borgaranna við hið opinbera, aðgengi allra að rafrænni stjórnsýslu og aukna þátttöku almennings í lýðræðislegum ákvörðunum.

Samþykkt ráðherranna felur í sér eftirfarandi atriði:

1.     Efla á samvinnu á milli Evrópu, fyrst og fremst varðandi rafræn innkaup milli landa og gagnkvæma viðurkenningu á rafrænum skilríkjum.

2.     Nota á rafræna stjórnsýslu til að einfalda samskipti hins opinbera við borgara og fyrirtæki í Evrópu og draga úr skriffinnsku almennt..

3.     Tryggja þarf að allir íbúar hafi hag af rafrænni stjórnsýslu.

4.     Nýta skal kosti upplýsingar- og samskiptatækni til að kanna nýjar leiðir til að auka þátttöku almennings í lýðræðislegum ákvörðunum og gagnsæi stjórnsýslunnar.

Ríkin munu leitast við að samtvinna þau markmið sem sett eru fram í yfirlýsingunni við eigin stefnur og áætlanir. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að móta nýja stefnu um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2008-2011 sem endurspegli nýjar áherslur ríkisstjórnarinnar og byggi m.a. á stefnuyfirlýsingu hennar og pólitískum áherslum stjórnarflokkanna. Ein af megin áherslum Viðskiptaráðuneytisins í stefnumótun ríkisins á þessu sviði er að setja fram markmið um samræmt og skilvirkt umhverfi rafrænna viðskipta sem byggt er á evrópskum og alþjólegum stöðlum á Íslandi.

Afhending Icepro verðlaunanna

Icelandair hefur á undanförnum árum þróað rafrænt umhverfi sitt með það að markmiði að bjóða viðskiptavinum heildstæða rafræna þjónustu. Viðskiptavinir geta  á heimasíðum félagsins leitað sér upplýsinga um flugáætlun og áfangastaði, bókað og greitt fyrir ferðir hvort sem er með kreditkorti eða rafrænum gjafabréfum, fengið útgefin rafrænan farseðil og valið sér flugsæti. Þá er viðskiptavinum boðið að innrita sig á einfaldan hátt í sjálfafgreiðslustöðvum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Félagið tekur fullan þátt í samvinnu innan alþjóðasamtaka flugfélaga IATA  um rafræna bókun og sölu á flugferðum og geta viðskiptavinir bókað sig á vef félagsins og ferðast á rafrænum farseðlum til áfangastaða langt út fyrir leiðakerfi þess.  Á heimasíðum félagsins geta viðskiptavinir einnig bókað sér aðra þjónustu, eins og hótel og bílaleigubíla.  Þessi þjónusta er í boði á öllum markaðssvæðum félagsins.

Í samstarfi við Google, hefur Icelandair unnið efni fyrir Google Earth, sem er nýstárleg leið til að skoða heiminn í þrívíðu umhverfi.

Þjónusta við félaga í Vildarklúbbi Icelandair hefur líka verið aukin og endurbætt og í dag geta meðlimir Vildarklúbbsins bókað vildarmiða á vefnum, skoðað punktastöðu sína og lagfært.

Fyrirtækjaþjónustan er nýjung þar sem fyrirtæki geta með sérsamningi við Icelandair bókað ferðir fyrir starfsmenn sína, skoðað skýrslur og fengið yfirlit.

Stöðug aukning er í notkun þessarar þjónustu og voru 45% allra keyptra  farseðla á Íslandi á árinu 2007 keyptir í gegnum heimasíðu félagsins.  Þá voru 80% allra útgefinna farseðla rafrænir, auk þess sem meðalnýting á sjálfafgreiðslu innritunarstöðvum á Keflavíkurflugvelli var orðinn um 30% í morgunflugum út úr Íslandi í desember 2007.

Það er til mikilla hagsbóta og þæginda fyrir viðskiptavininn að geta skipulagt ferðir sínar og keypt farmiða á netinu. Icelandair bjóða upp á einföld og þægileg rafræn viðskipti, sem eru til mikillar fyrirmyndar. Það er mér því sönn ánægja að afhenda Icelandair EDI-bikarinn til varðveislu árið 2008.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira