Hoppa yfir valmynd
28. mars 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ræða forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti í dag ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands. Þar sagði hann meðal annars:

„Allt bendir til að lokið sé að sinni mikilli uppsveiflu í íslensku efnahagslífi. ...Gangi spár eftir mun því augljóslega slá verulega á þenslu í efnahagslífinu og hagkerfið leita jafnvægis á ný eftir ár mikillar uppbyggingar... Hins vegar gerir það stöðuna flóknari að nú fara saman þær fyrirséðu innlendu aðstæður, sem ég hef lýst, og þær óvæntu breytingar á erlendum fjármálamörkuðum, sem enginn gat séð fyrir og við höfum ekki á okkar valdi.“

„Þegar horft er á staðreyndir í efnahagslífi okkar kemur í ljós að öllum hagtölum og hagspám ber í meginatriðum saman um að horfurnar séu góðar, staða efnahagsmála sé í meginatriðum sterk og staða bankanna traust. Þetta hefur verið rækilega staðfest af þekktum erlendum fræðimönnum...“

„Mikill hagvöxtur síðustu ár hér á landi ásamt velheppnaðri einkavæðingu hefur skilað sér í góðri afkomu ríkissjóðs sem meðal annars hefur verið nýtt til að greiða niður skuldir. Hreinar skuldir ríkissjóðs eru nú litlar sem engar og geta fá vestræn ríki státað af slíkri stöðu. Það þýðir að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan styrk og getur tekið að láni verulegar fjárhæðir ef á þarf að halda. Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu. Ég hef ítrekað verið spurður um þetta af erlendum aðilum á liðnum vikum og hef ávallt svarað því til að íslensk stjórnvöld muni við slíkar aðstæður hiklaust grípa til sömu aðgerða og ábyrg stjórnvöld annars staðar. Þetta vil ég árétta nú.“

Lokaorð forsætisráðherra voru:

„Íslenskt bankakerfi og íslensk efnahagsmál standa traustum fótum þótt á móti blási um þessar mundir. Kerfisbundið afnám ýmiss konar hafta í efnahagsstarfseminni á síðustu fimmtán árum eða svo, einkavæðing, markvissar skattalækkanir og alþjóðavæðing íslensks atvinnulífs hafa þegar skilað stórfelldum ávinningi og lagt grunninn að nýju framfaraskeiði á komandi árum. Við munum hiklaust halda áfram á þeirri braut þegar við höfum unnið okkur út úr þeim tímabundnu erfiðleikum sem nú steðja að.“

Ræða forsætisráðherra

Reykjavík 28. mars 2008

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum