Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2008 MatvælaráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ávarp á SFF deginum 2008

Ávarp á SFF deginum 2008

10. apríl 2008

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra

Góðir gestir

I.

Íslenskir bankamenn og aðrir úr fjármálalífinu hafa oft hist við gleðilegri kringumstæður en þær sem blasa við í dag. Óhætt er að fullyrða að órói á alþjóðlegum lánamörkuðum hefur haft talsverð áhrif hér á landi sem og annars staðar. Þrátt fyrir íslenskar fjármálastofnanir séu almennt stöndugar og traustar hefur gríðarlegur hraði á uppbyggingu íslenska fjármálageirans gert það að verkum að íslenska fjármálakerfið er tiltölulega næmt fyrir kólnun á lánamörkuðum.

Ég ætla ekki að verja tíma mínum hér í dag til að fjalla um þessi margumtöluðu vandamál samtímans. Mikill tími og orka stjórnvalda og fyrirtækjanna fer nú í að tryggja okkur gegn alvarlegum áföllum. Hluti aðgerða í því skyni að tryggja fjármálastofnunum aðgang að lausafé  hafa þegar verið kynntar og fleiri eru í farvatninu. Í dag kynnir Seðlabanki Íslands nýtt hefti Peningamála þar sem vænta má nýrrar greiningar á ástandi og horfum og tilkynningar um frekari aðgerðir af hálfu Seðlabanka Íslands.

 

Ég hef aftur á móti áhuga á að ræða hér framtíðarhorfur í fjármálageiranum og hvort líklegt sé að okkur takist að halda áfram á sömu vaxtarbraut og við höfum verið undanfarin sjö ár. Síðasta fjórðung síðustu aldar reiknaðist fjármálastarfsemi vera um það bil 5 prósent af landsframleiðslu, samkvæmt framleiðsluuppgjöri Hagstofunnar. Hlutfallið hefur hækkað mjög hratt frá aldamótum og er, eins og margir vita, komið upp fyrir 10 prósent.

Sú staðreynd að fjármálageirinn er orðinn stærri en landbúnaðar og sjávarútvegur samanlagt segir okkur einfaldlega að afleiður og skuldabréf eru í dag okkar ær og kýr.

II.

En verður það svo um aldur og æfi? Auðvitað er ómögulegt að spá fyrir um það hverjar verða höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar á næstu öld. Sé horft til skemmri tíma er þó enginn skortur á spekingunum sem spá endalokum vaxtarskeiðs fjármálageirans og um leið útrásarinnar margumtöluðu.

Þó ólíklegt sé að jafn hagstæð lánskjör muni bjóðast á alþjóðavettvangi í bráð og hafa verið í boði undanfarin ár, er lítill fótur fyrir því að draga muni úr umfangi fjármálageirans á komandi árum. Ekki er ólíklegt að eitthvað dragi úr þeim mikla vexti  sem við höfum upplifað að undanförnu. Öll skilyrði eru þó fyrir áframhaldandi sterkri stöðu fjármálafyrirtækja og öruggum en þó hægari vexti þeirra.

Fullyrða má að aukin skuldastaða þjóðarbúsins í takt við alþjóðavæðingu fjármálakerfisins birtist með nokkuð ýktum hætti í opinberri tölfræði. Á það hefur verið bent að stór hluti þeirra erlendu eigna sem myndast hafa á móti erlendum skuldum er ekki uppfærður til markaðsvirðis með sambærilegum hætti og skuldirnar. Ennfremur vekur sérstaka athygli hve bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur aukist mikið síðan 2004, eða yfir 150 milljarða á ári að meðaltali árin 2005 og 2006. Á sama tíma er bein fjárfesting frá tveimur Evrópulöndum að aukast um svipaðar upphæðir, þ.e. Hollandi og Lúxemborg.

Líkur eru á að verulegur hluti þessarar fjárfestingar sé í raun ættaður frá Íslenskum aðilum, þó hún fari í gegnum erlend félög. Þetta undirstrikar tvo mikilvæga þætti. Annars vegar að mörkin á milli okkar hagkerfis og annarra geta oft á tíðum verið óljós og breytileg. Hins vegar er ljóst að við höfum ákveðið verk að vinna ef við ætlum okkur að standa okkur í alþjóðlegri samkeppni í umsýslu og miðlun fjármuna.

Í gagnmerkri skýrslu starfshóps undir forystu Sigurðar Einarssonar voru fyrir tveimur árum lagðar fram margar álitlegar hugmyndir sem miða að því að efla Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Margt hefur áunnist í þeim efnum síðan þá, en annað er ógert eða enn til skoðunar.

Sérstaklega eru lækkun tekjuskatts á lögaðila og breytingar á reglum um skattlagningu söluhagnaðar jákvæðar breytingar.

Mörg önnur jákvæð skref hafa verið stigin nú nýverið í því skyni að bæta starfsskilyrði fjármálaþjónustu á Íslandi. Ég vil einkum nefna ný lög um sértryggð skuldabréf, sem einkum er ætlað að auðvelda fjármögnun smærri lánastofnanna og nýtt frumvarp um rafræna eignaskráningu verðbréfa vegna uppgjörs innlends hlutafjár sem skráð er í erlendri mynt. Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um öruggan farveg fyrir fullnaðaruppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendri mynt. Þessi tilhögun skal háð samþykki Fjármálaeftirlitsins að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands.

III.

Mörg önnur mikilvæg mál eru ennfremur í farvatninu og vil ég síður tefja þennan fund um of með ítarlegri upptalningu. Mig lagar þess í stað til að ræða nánar eitt tiltekið mál á sviði vátrygginga sem mun án efa verða áberandi síðar á þessu ári.

Fyrr í þessari viku sendi viðskiptaráðuneytið SFF, FME og Húseigendafélaginu óskir um tilnefningu í nefnd sem fara skal yfir lagaumhverfi brunatrygginga og vinna að afnámi þeirrar skyldutryggingar sem húseigendur búa við í dag. Er stefnt að því að nefndin skili niðurstöðum sínum til ráðherra eigi síðar en 15. september n.k.

Segja má að tilefni þess að ráðist er í þetta verkefni nú sé það að nefnd sem fjármálaráðherra setti á laggirnar til þess að gera tillögur um fjármögnun reksturs Fasteignamats ríkisins, FMR, og lauk störfum s.l. haust komast að þeirri niðurstöðu að rétt væri að notendur þjónustu FMR greiddu fyrir hana.

Við kostnaðargreiningu hjá FMR hefur komið í ljós að utanumhald vegna brunabótamats nemur um fjórðungi heildarrekstrarkostnaðar, eða um 160 mkr.  Samkvæmt gildandi lögum skilar álagning umsýslugjalds - sem lagt er á fasteignaeigendur samhliða innheimtu vátryggingariðgjalds - hins vegar mun hærri fjárhæð til FMR, en það gjald er í dag  0,1 ? af brunabótamati. Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp í samræmi við niðurstöður nefndarinnar þar sem gerð var tillaga um að fasteignaeigendur greiddu 0,037 ? af brunabótamati til FMR fyrir matsgerðirnar vegna notkunar brunabótamatsins. Miðað var við að gjaldið færði FMR rúmar 100 milljón krónur í tekjur. Efnahags- og skattanefnd Alþingis var andvíg því að gjald þetta yrði lagt á  fasteignaeigendur en lagði til að kostnaður þessi skyldi borinni uppi af þeim sem hagsmuni hafa af notkun brunabótamatsins, þ.e.a.s. vátryggingafélögunum.

Af þessu tilefni metum við í viðskiptaráðuneytinu það svo að tímabært sé að taka til skoðunar hvort afnema eigi skylduvátryggingu vegna bruna húseigna. Skyldubrunatryggingar er ekki að finna í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Því fer fjarri að afnám vátryggingarskyldunnar þurfi að leiða til þess að slíkar vátryggingar leggist af. Stærsta breytingin - ef af yrði - er sú að vátryggingarfjárhæðin yrði samkomulagsatriði á milli fasteignaeiganda og vátryggjanda. Þar með yrði engin þörf á opinberu mati á vátryggingarverðmæti. Ennfremur má reikna með að lánveitendur mundu krefjast þess að lántakendur héldu veðum sínum brunatryggðum með viðunandi hætti, líkt og tíðkast til dæmis á sviði bílalána.

Óvíst er á þessari stundu hvaða hagræði yrði af afnám skyldu til að brunatryggja húseignir. Röksemdir fyrir opinberri forsjá á þessu sviði eru hins vegar augljósar og full ástæða til að skoða tækifæri til að auka frelsi í viðskiptum á þessu sviði, það er rétt fasteignaeigenda til að ákvarða sjálfir hvaða þjónustu vátryggingafélaga þeir kaupa.

IV.

Ágætu fundarmenn.

Mig langar til að nota þetta tækifæri og þakka Samtökum fjármálafyrirtækja fyrir afar gott samstarf að undanförnu. Sérstaklega ber að þakka þátttöku SFF við úrlausn vandasamra ágreiningsmála er varða ýmsa gjaldtöku fjármálastofnanna fyrir eigin reikning og annarra. Að sjálfsögðu geta hertar reglur með starfsemi fjármálafyrirtækja verið þeim baggi og því ber að fara varlega á þessu sviði.

Það ber þó sérstaklega að viðurkenna þann mikla skilning sem SFF hefur sýnt mikilvægi þess að skýra rétt neytenda á sviði fjármálaþjónustu og einfalda samskipti þeirra og fjármálafyrirtækja sem mest.

Ég óska ykkur öllum hjartanlega til hamingju með daginn. SFF daginn.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum