Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2008 MatvælaráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ávarp á ráðstefnu um stöðu UT-iðnaðar á Íslandi

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra

Ávarp á ráðstefnu um stöðu UT-iðnaðar á Íslandi

22. apríl 2008, klukkan 13:00

Grand hótel Reykjavík

 

Góðir gestir,

 I.

Það er mér mikil ánægja að fá að opna þessa áhugaverðu ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins um framtíð upplýsingatækniiðnaðar á Íslandi.

 Ýmsum stórum og mikilvægum spurningum hefur verið varpað fram í aðdraganda þessarar ráðstefnu. Í mínum huga er spurningin, hvort Íslandi hafi glatað forskoti sínu í á sviði upplýsingatækni sérstaklega áhugaverð. Hún er áhugaverð ekki síst fyrir þær sakir að henni er í raun hægt að svara bæði játandi og neitandi.

 Til eru þeir sem efast um sannleiksgildi fullyrðingarinnar sem í spurningunni felst, og telja að uppgangur í upplýsingatækni hérlendis í kringum aldamótin síðustu hafi einungis verið bóla sem nú sé horfin. Einföld skoðun á skiptingu landsframleiðslu á Íslandi eftir atvinnugreinum leiðir í ljós að sú er ekki raunin. Hlutdeild þjónustu upplýsingatæknifyrirtæki af landsframleiðslu lækkaði aðeins lítillega árið 2002 en hefur hækkað síðan og er meiri nú en nokkru sinni fyrr.

 Engu að síður er hægt að svara þeirri spurningu játandi, að Ísland hafi tapað ákveðnu forskoti á sviði upplýsingatækni. Þar skiptir mestu máli hve hratt þessi atvinnugrein hefur umbreyst úr staðbundinni þjónustustarfsemi í alþjóðlega. Í raun má segja að upplýsingatækni sé sú atvinnugrein sem hvað mest hefur umturnast við hnattvæðinguna. Sífellt betra internet og nýjar leiðir til að nota það til samskipta, viðskipta og flutnings á upplýsingum gera það að verkum að á sviði bita og bæta er heimurinn í rauninni aðeins eitt markaðssvæði.

 Að sjálfsögðu leiðir þessi þróun til þess að samkeppnisstaða veikist í löndum þar sem laun eru tiltölulega há miðað við gæði og styrkist þar sem laun eru tiltölulega lág. Tækniþekking er á háu stigi víða í þriðja heiminum og sérstaklega á Indlandi. Það er útilokað að íslenskt fyrirtæki geti keppt við hugbúnaðarfyrirtæki í Bangalor í þróun á almennum hugbúnaðarlausnum. Að þessu leyti til hefur samkeppnisstaða íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja versnað.

 En hún hefur á sama tíma styrkst á öðrum sviðum, eins og umsvifin bera með sér. Það er því einnig hægt með að svara spurningunni neitandi. Styrkleikar íslenskra fyrirtækja í upplýsingatæknigeiranum liggja í markaðsþekkingu, miklu öryggi og ábyrgð, og háu þjónustustigi. Með því að virkja þá betur hefur tekist að efla atvinnugreinina þrátt fyrir sívaxandi alþjóðlega samkeppni. Vafalaust má gera enn betur og því er ég ekki í nokkrum vafa að íslensk upplýsingatæknifyrirtæki muni áfram vaxa og dafna.

 

II.

 Raunverulegur og viðvarandi hagvöxtur í framtíðinni byggir á að við nýtum auðlindir okkar sem allra best. Flestar okkar auðlindir eru í takmörkuðu magni og fórnarkostnaður frekari nýtingar náttúruauðlinda fer faxandi. Vaxtarbroddurinn felst í þeirri auðlind sem óþrjótandi er, mannauðinum.

 Frekari uppbygging menntakerfisins og rannsóknarsamfélagsins, ekki síst á háskólastigi er því lykilatriði fyrir velsæld þjóðarinnar í framtíðinni. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stórefla samkeppnissjóði á sviði rannsóknar og þróunarstarfsemi á kjörtímabilinu. Ennfremur er nú til meðferðar alþingis nýtt frumvarp um framhaldsskóla sem mun leiða til verulegrar eflingar þess skólastigs. Í heildina litið er því um verulega eflingu mennta- og rannsóknastarfs að ræða.

 Slík fjárfesting skilar ekki arði án fyrirhafnar. Það er mikilvægt að þessir fjármunir nýtist sem allra best. Frá sjónarhóli upplýsingatæknigeirans í hnattvæddu markaðshagkerfi er langmikilvægast að þessi aukna menntasókn skili sér í eflingu þeirra þátta þar sem styrkur okkar liggur. Ofuráhersla á tækniþekkingu eina og sér skilar takmörkuðum árangri þegar hinn skapandi þátt vantar. Vandinn og um leið lausnin felst í því að flétta sem best saman sköpun og tækniþekkingu. Það er áskorunin til okkar blómlegu framhaldsskóla og háskóla.

 III.

 Góðir fundargestir,

 Dagskrá þessarar ráðstefnu í dag er afar fróðleg. Hér mætist þekking úr háskólasamfélaginu og atvinnulífinu. Aðeins með virku samstarfi á milli þessara aðila og stjórnvalda getum við náð varanlegum árangri í efnahagslegu tilliti.

 Með þeim orðum lýsi ég þessa ráðstefnu hér með formlega opna.

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum