Hoppa yfir valmynd
27. maí 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ræða forsætisráðherra við afhendingu hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2008

Það er mér ánægja að tilkynna niðurstöðu dómnefndar um val á handhafa hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2008. Í þetta sinn hlýtur verðlaunin dr. Ari Kristinn Jónsson tölvunarfræðingur. Ari starfar hjá Háskólanum í Reykjavík, þar sem hann er deildarforseti tölvunarfræðideildar háskólans. Ari er fæddur á Akureyri, árið1968. Hann lauk B.S. prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands 1990 og ári síðar B.S. prófi í tölvunarfræði. Hann fór til framhaldsnáms við Stanford University og lauk þaðan M.S. prófi 1995 og doktorsprófi 1997. Doktorsritgerð hans nefndist „Procedural Reasoning in Constraint Satisfaction“ og fjallaði um notkun gervigreindar við sjálfvirka áætlanagerð og ákvarðanatöku. Út úr því kom síðan þróun á aðferðum við sjálfvirka verkröðun í flóknum framleiðsluferlum eins og t.d. við smíði á farþegaflugvélum. Að námi loknu fór hann til starfa við Geimferðastofnun Bandaríkjanna, eða NASA. Þar starfaði hann fyrstu árin sem vísindamaður og vann meðal annars við þróun á „Remote Agent“ hugbúnaðinum sem stjórnaði Deep Space One geimfarinu í maí 1999 í vel heppnaðri tilraun til að láta gervigreind stjórna geimfari. Hann tengdi þessa þróun við sjálfvirka áætlanagerð og úr varð hugbúnaðurinn EUROPA, sem hefur verið mikið notaður innan NASA bæði í rannsóknum og við raunveruleg verkefni. Hugbúnaðurinn var nýlega gerður aðgengilegur vísindamönnum um allan heim. Eftir 2001 hóf Ari að stýra stórum þróunarverkefnum innan NASA, með allt að 50 manns í vinnu. Þar var um að ræða þróun á hugbúnaðinum MAPGEN, en hann varð hluti af þeim hugbúnaði sem notaður var á jörðu niðri við að stjórna könnunarjeppunum Spirit og Opportunity, sem lentu á Mars í ársbyrjun 2004. Leiðangurinn kostaði um einn milljarð dollara og það er mat þeirra sem stjórnuðu honum að MAPGEN-hugbúnaðurinn hafi aukið afköst jeppanna um 15-40%. Þessi árangur varð til þess að NASA lagði aukna áherslu á þróun gervigreindar og að gera hana áreiðanlegri, þannig að hægt væri að fá heildstæðar lausnir fyrir aukna sjálfvirkni í geimferðum og til að auðvelda rekstur til dæmis á Alþjóðlegu geimstöðinni. Báðum þessum verkefnum stýrði Ari. Ari hefur birt um 30 greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum, ráðstefnum og bókum og er einnig höfundur á fjórum einkaleyfum og uppfinningum. Hann hefur fengið margar viðurkenningar, til að mynda „Outstanding Research Paper Award“ á alþjóðlegri gervigreindarráðstefnu árið 2000 og hjá NASA fékk hann bæði „Space Act Award“ og „NASA Adminstrators Award“ fyrir MAPGEN hugbúnaðinn. Sum af verkefnum Ara hafa fengið stóra styrki úr samkeppnissjóðum þar sem innan við tíunda hvert verkefni fær framgang. Ari hefur haldið góðum tengslum við Ísland og kennt við HR, haldið fyrirlestra og staðið fyrir ráðstefnum og námskeiðum, til dæmis fyrsta gervigreindarnámskeiðinu sem hér var haldið 2001. Auk áframhaldandi samstarfs við NASA og við Evrópsku geimferðastofnunina þá hefur Ari, á sínu fyrsta ári hér heima, farið af stað með ný verkefni. Þar má nefna samstarf við Kaupmannahafnarháskóla um sjálfvirka stýringu mælitækja á Grænlandi; verkefni við þróun gervigreindar til stýringar á flóknum framleiðsluferlum hjá íslenskum fyrirtækjum; samstarf við Reiknistofu í Veðurfræði og fleiri um notkun á hermun og gervigreind til að meta og stýra áhrifum loftslags á framleiðslu, dreifingu og notkun orku. Hann er einnig að setja saman samstarfsverkefni margra innlendra aðila um þróun á sjálfvirkum mælitækjum fyrir haf- og umhverfisrannsóknir. Loks er hann, ásamt gervigreindarhópi tölvunarfræðideildar HR, kominn í samstarf við fyrirtækið CCP og fleiri um að þróa gervigreind til þess að vitverur í sýndarheimum hætti að láta eins og heilalausir kjánar en fari frekar að haga sér eins og menn! Það er augljós fengur fyrir okkur að fá menn eins og Ara aftur heim til starfa og hann uppfyllir viðmið valnefndarinnar og er verðugur handhafi hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2008. Ég vil biðja Ara um að koma hér og taka við hvatningarverðlaununum.

 

Reykjavík 27. maí 2008Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira