Hoppa yfir valmynd
22. september 2008 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ræða Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra á ráðstefnu um fyrirtæki framtíðarinnar og nýtingu mannauðs í stjórnun fyrirtækja, Salnum í Kópavogi.

19. september 2008.

Góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu um fyrirtæki framtíðarinnar og nýtingu mannauðs í stjórnun fyrirtækja. Jafnframt vil ég nota tækifærið og óska Háskólanum á Bifröst til hamingju með 90 ára afmælið sem er á þessu ári.

Viðskiptaráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að málum er varða jafna stöðu kynjanna í stjórnunarstöðum og stjórnum fyrirtækja. Eitt af þeim verkefnum sem ráðuneytið hefur komið að er verkefnið um jafnréttiskennitöluna, sem byggir á samstarfssamningi ráðuneytisins, Háskólans á Bifröst og fleiri aðila og felur m.a. í sér að árlega verði birtar upplýsingar um hlutfall kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum stærstu fyrirtækja landsins auk þróunar jafnréttiskennitölu fyrirtækjanna, sem er ætlað að sýna hvaða árangri hvert fyrirtæki fyrir sig hefur náð í jafnréttismálum.

Í upplýsingum Rannsóknaseturs vinnuréttar við Háskólann á Bifröst um hlutfall kvenna í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda í 120 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi fyrir árið 2008 og nánari grein verður gerð fyrir hér á eftir, kemur fram að konur skipa 13% stjórnarsæta og eru æðstu stjórnendur fyrirtækja í 8% tilvika. Hlutfall kvenna meðal æðstu yfirmanna er 19%.

Af þessum tölum má sjá að það þokast í rétta átt, en árið 2007 var hlutfall kvenna í stjórnum aðeins 8%. Þrátt fyrir það hljóta allir að vera sammála um að þetta er ekki nóg, það er ekki ásættanlegt að konur sitji aðeins í 61 af 467 stjórnarsætum og að konur séu aðeins forstjórar eða framkvæmdastjórar í 10 af 120 fyrirtækjum. Þetta er hvorki ásættanlegt þegar litið er til jafnréttis kynjanna né þegar litið er til nýtingar mannauðs, en nú er mikilvægt að íslensk fyrirtæki hámarki nýtingu mannauðsins.

En hvað getum við gert til að breyta þessu?

Í niðurstöðum rannsóknar sem unnið hefur verið að í viðskiptaráðuneytinu síðustu mánuði, og Margrét Sæmundsdóttir hagfræðingur ráðuneytisins mun kynna hér á eftir kemur meðal annars fram að hvorki kvenkyns né karlkyns stjórnendur séu fylgjandi því að lögbundinn verði kynjakvóti í stjórnir fyrirtækja. Þetta er í samræmi við það sem ég hef áður sagt um að það sé æskilegast að fyrirtæki sýni frumkvæði í að jafna kynjahlutföll í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda, en ég vil hins vegar ítreka að afskipti löggjafans í formi lögbindingar kynjakvóta eru ekki útilokuð ef ljóst þykir að ekkert annað virkar.

Það er hins vegar mikilvægt að grípa strax til annarra og mildari úrræða til að ná markmiðum okkar, en ég tel það raunhæft að innan tveggja ára verði hlutfall kvenna í stjórnum orðið 20%, en það er hlutfall kvenna í stjórnum á Norðurlöndunum, fyrir utan Noreg þar sem að hlutfall kvenna er mun hærra eftir að kynjakvóti var lögfestur.

Ríkið verður að sjálfsögðu að ganga á undan með góðu fordæmi og hefur að mínu mati gert það, a.m.k. hvað varðar opinber hlutafélög, en á þeim hvílir lagaskylda til að hafa sem jöfnust kynjahlutföll í stjórnum. Samkvæmt lauslegri könnun ráðuneytisins eru 43% af stjórnarmönnum í opinberum hlutafélögum konur, en 57% karlar. Þá eru 29% forstjóra opinberra hlutafélaga konur og 71% karlar. Þá er nú kveðið á um það í jafnréttislögum að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en 3 fulltrúa er að ræða. Þetta gildir líka um stjórnir opinberra hlutafélaga og félaga sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

Eitt að því sem komið hefur í ljós við vinnslu verkefnisins um jafnréttiskennitöluna er að gífurlega erfitt og tímafrekt hefur reynst að afla nauðsynlegra upplýsinga um stjórnir og stjórnendur fyrirtækja. Við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að birta upplýsinga um hlutfall kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum og því tel ég vel koma til greina að festa í lög ákvæði um upplýsingaskyldu fyrirtækja um nöfn, stöðuheiti og ábyrgðarsvið stjórnarmanna og æðstu stjórnenda fyrirtækja auk upplýsinga um veltu og starfsmannafjölda. Slík upplýsingagjöf þekkist víða erlendis og stuðlar bæði að því að fyrirtæki verði í auknum mæli meðvituð um skipun í stjórnir og ábyrgðarstöður auk þess sem hún auðveldar öflun gagna um kynjahlutföll stjórnar og stjórnenda í fyrirtækjum.

Eins og ég sagði áðan tel ég að með jafnréttiskennitölunni og birtingu upplýsinga um hlutfall kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum hafi verið unnið gríðarlega mikilvægt starf og nú þegar þessu tveggja ára verkefni lýkur er mikilvægt að birtingu upplýsinganna verði ekki hætt og lýsir viðskiptaráðuneytið sig reiðubúið til samstarfs um að standa áfram að birtingu upplýsinga um hlutfall kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum, því að það er alveg ljóst að birting slíkra upplýsinga skilar sér inn í umræðuna í þjóðfélaginu.

Góðir gestir, hér er að hefjast áhugaverð ráðstefna og mikill fengur að fá virta fyrirlesara erlendis frá, eins og þær Eleanor Tabi Haller-Jordan og Marit Hoel og að fá breiðan hóp úr atvinnulífinu til að leggja álit sitt á umræðuna.

 

  

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira