Hoppa yfir valmynd
24. september 2008 MatvælaráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ávarp Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra, við setningu ráðstefnunnar: Evra á Íslandi

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra

23. september 2008

Ávarp við setningu ráðstefnunnar: Evra á Íslandi 

[Talað orð gildir]

Kæru gestir,

Verið öll velkomin á ráðstefnu viðskiptaráðuneytisins, Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík undir yfirskriftinni: Evra á Íslandi – Hvar, hvernig, hvenær?

Tilefni þessarar ráðstefnu er að kynna rannsóknir fjögurra háskólastofnanna sem viðskiptaráðuneytið hefur styrkt til rannsókna á áhrifum aukinnar notkunar erlendrar myntar á vörumarkað, fjármálamarkað og samfélag á Íslandi almennt. Ennfremur að skoða áhrif mismunandi tenginga við evru á ofangreinda þætti. Hvort heldur það er með einhliða ákvörðun, tvíhliða samkomulagi, fullri aðild að Myntbandalaginu og Evrópusambandinu eða sjálfvirkri upptöku evru samhliða krónunni

Meginspurningarnar sem lagt var upp með voru tvær: 1) hvort á Íslandi sé að verða til evruvætt hagkerfi og ef svo er, hvaða áhrif það hefur á markaði og samfélag og 2) hvaða afleiðingar ólíkar tengingar við evru hafa á íslenska vörumarkaði, fjármálamarkað og fjármálastöðugleika.

Hér á eftir fáum við kynningu á helstu niðurstöðum í rannsóknum stofnananna fjögurra: Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, Evrópufræðaseturs við Háskólann á Bifröst, Rannsóknarstofnunar í fjármálum við Háskólann í Reykjavík og Rannsóknaseturs verslunarinnar við Háskólann á Bifröst.

 Yfirskrift ráðstefnunnar: Evra á Íslandi: Hvort, hvernig, hvenær? lýsir vel hversu margbrotin spurningin um evruna er.

Spurningunni hvort við eigum að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi er æ oftar varpað fram. Fjölmargar skýrslur, greinar og jafnvel bækur hafa verið gefnar út af því tilefni. Af þeim skrifum að dæma virðist flest benda til þess helst séu aðeins tveir gjaldgengir kostir í boði. Óbreytt fyrirkomulag og upptaka evru með inngöngu í Efnahags- og myntbandalag Evrópu.

Spurningin hvernig snýr svo að því á hvaða hátt, ef á annað borð, æskilegt er að tengja íslenskt efnahagslíf evrunni.  

Fram hafa komið hugmyndir um að hugsanlegt sé að Ísland tengist Efnahags- og myntbandalaginu án formlegrar inngöngu í Evrópusambandið sjálft. Viðbrögð Evrópusambandsins, nú síðast stækkunarstjóra ESB Olli Rehn, benda þó til þess að slík leið sé afar torfær. Að sumra mati er hún þó ekki ómöguleg, enda hefur Evrópusambandið oft sýnt mikinn sveigjanleika gagnvart nýjum aðildarríkjum ef pólitískur vilji hefur verið fyrir hendi. Ef endanleg svör við þessum bollaleggingum fást ekki nema sviði stjórnmálanna er þó ekki eftir neinu að bíða að ganga eftir þeim.

Það er svo ekki síður mikilvæg spurning, hvenær evra verður tekin upp á Íslandi. Þó formleg aðild að myntbandalaginu er vissulega í nokkurri tímafjarlægð – a.m.k. fjögur ár – eru vísbendingar um að raunveruleg innleiðing evru í íslenskt efnahagslíf sé ferill sem þegar er hafin. Þess sjást vissulega víða merki, svo sem á fjármálamarkaði en nú í auknum mæli á vinnumarkaði og á vörumarkaði. Erindin á þessari ráðstefnu munu að stórum hluta fjalla um þá mikilvægu spurningu. 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum