Hoppa yfir valmynd
15. október 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Munnleg skýrsla forsætisráðherra á Alþingi um stöðu bankakerfisins

Talað orð gildir

Virðulegi forseti.

Ég hef óskað eftir því að flytja Alþingi skýrslu um þá erfiðu og alvarlegu stöðu sem upp er komin í efnahagslífi þjóðarinnar. Örlagaríkir dagar eru að baki og gríðarleg áföll hafa dunið yfir okkur Íslendinga á stuttum tíma. Það er á slíkum stundum sem íslenska þjóðin sýnir úr hverju hún er gerð – æðruleysi hennar og yfirvegun andspænis þessum hamförum vekur hvarvetna aðdáun. Við kunnum að bogna tímabundið en buguð erum við ekki.

Við erum nú hægt og bítandi að komast út úr versta storminum og nú þegar hafa Landsbankinn og Glitnir tekið til starfa í breyttri mynd. Unnið er hörðum höndum að því að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf þannig að alþjóðleg viðskipti geti gengið eðlilega fyrir sig, fyrirtæki geti flutt gjaldeyri til landsins og Íslendingar erlendis fái öruggt aðgengi að gjaldeyri.

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn leggja allt kapp á að gjaldeyrisviðskipti færist í eðlilegt horf og í því augnamiði voru í gær hagnýttar lánsheimildir upp á 400 milljón evrur í seðlabönkum Danmerkur og Noregs. Við ætlum að styrkja gjaldeyrisvaraforðann verulega til viðbótar við þetta og nú standa yfir viðræður í Moskvu um hugsanlegt gjaldeyrislán, auk þess sem rætt hefur verið við Alþjóðagjaldeyris­sjóðinn um hugsanlega aðkomu sjóðsins að því endurreisnarstarfi sem framundan er hér á landi. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að skoða fordómalaust allt það sem getur orðið okkur að liði í þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Eftir atburði síðustu daga er útlit fyrir mikinn samdrátt í innlendri eftirspurn. Því er nauðsynlegt að hagstjórnartækjum ríkisins sé beitt til þess að örva efnahagslífið og þannig milda niðursveifluna.

Í morgun tilkynnti Seðlabanki Íslands um 3,5 prósentustiga lækkun stýrivaxta. Þessi lækkun stýrivaxta mun lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja og þannig hjálpa til við að koma hjólum efnahagslífsins aftur í dag.

Hæstvirtur forseti.

Undanfarin ár hafa stjórnvöld opnað íslenska hagkerfið fyrir flæði fjármagns, vöru, þjónustu og fólks. Þær breytingar hafa leitt af sér gríðarlega lífskjarabyltingu hér á landi og stuðlað að mikilli uppbyggingu í atvinnulífinu. Þessi opnun hefur aftur á móti þær hliðarverkanir að við erum mjög háð atburðum á alþjóðlegum mörkuðum án þess að við getum haft nein áhrif þar á.

Síðasta árið hefur hin alþjóðlega lánsfjárkreppa dýpkað hægt og bítandi. Upptök hennar voru í Bandaríkjunum vegna hinna svokölluðu undirmálslána, sem bandarísk fjármálafyrirtæki höfðu selt fram og til baka sín á milli. Þegar í ljós kom hve gölluð þessi lán voru tók að myndast tortryggni og vantraust á markaði, sem olli á endanum miklu meiri vandræðum en undirmálslánin ein og sér. Örlög íslensku bankanna eru besta dæmið um þetta, því þeir höfðu að langmestu leyti staðið utan við viðskipti með bandarísk undirmálslán en alkul á alþjóðlegum lánamörkuðum olli því að staða íslensku bankanna breyttist skyndilega til hins verra.

Íslensku bankarnir höfðu á nokkrum árum stækkað svo hratt að efnahagur bankanna var orðin margfaldur í hlutfalli við landsframleiðslu Íslands. Vöxtur bankanna var drifinn áfram af miklu aðgengi að ódýru lánsfé undanfarin ár. En öll lán þarf að greiða og það átti að sjálfsögðu við um bankana líka. Vitað var að árið 2008 yrði erfitt varðandi endurfjármögnun þeirra en lengst af var þó útlit fyrir að hún myndi takast. Komið hafði fram af hálfu stóru bankanna þriggja í sumar að endurfjármögnun þeirra væri tryggð vel fram í tímann og allt fram í september var ekki tilefni til að ætla annað en að áætlanir bankanna myndu ganga eftir.

Um miðjan september breyttist staðan til hins verra í kjölfar þess að bandaríski fjármálarisinn Lehman Brothers fór á hausinn auk margra annarra fjármálafyrirtækja og banka í Bandaríkjunum. Örvænting tók að myndast á mörkuðum og lánsfé þurrkaðist nánast upp. Upp var komin staða sem íslensku bankarnir náðu ekki að vinna úr, staða sem enginn óskar sér að vera í.

Skuldir bankanna voru orðnar of miklar fyrir íslenska þjóðarbúið og stjórnvöld stóðu frammi fyrir spurningunni hvort íslenska þjóðin ætti að borga þessar skuldir og skuldbinda þannig komandi kynslóðir.

Með þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin tók var slegin skjaldborg um innlenda hluta bankanna, um sparifé almennings og tryggt að grunnþjónusta bankanna við íslensk heimili og fyrirtæki gæti haldið áfram.

Á undanförnum vikum hafa tugir banka um allan heim þurft að játa sig sigraða og leita á náðir ríkisins í heimalöndum sínum. Vandinn sem ríkisstjórn Íslands stóð frammi fyrir þegar þessi atburðarás tók að ágerast var alvarlegri en vandi annarra ríkisstjórna vegna þess hvað íslenska bankakerfið var stórt í samanburði við hagkerfið. Það var því ljóst að hvorki var skynsamlegt né mögulegt fyrir íslenska ríkið að hlaupa undir bagga með öllu bankakerfinu. 

Þegar bankar sem eru kerfislega mikilvægir riða til falls annars staðar í heiminum er algengt að ríkisstjórnir þjóðnýti þá í heilu lagi. Ef ríkisstjórn Íslands hefði farið þessa leið hefði hún skuldbundið sig til þess að greiða mörg þúsund milljarða króna af erlendum skuldum bankanna. Slík skuldbinding hefði hæglega getað orðið þjóðinni ofviða. Ríkisstjórnin valdi því að fara aðra leið með langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda eru einhver róttækustu viðbrögð ríkisstjórnar við bankakreppu sem um getur.  

Ég ítreka þakkir mínar til þingmanna úr öllum flokkum fyrir að stuðla að því að neyðarlögin svonefndu náðu fram að ganga jafnhratt og raun ber vitni. Þeir atburðir sem urðu dagana á eftir tel ég að hafi sýnt að löggjöfin var nauðsynleg og bjargaði því sem bjargað varð.

Mikilvægasta verkefnið nú er að bjarga sem mestum verðmætum úr starfsemi bankanna til að takmarka það tjón sem hlýst af skipbroti þeirra. Um það verðum við öll að standa saman, stjórnvöld, þingmenn og aðrir þeir sem gegna forystuhlutverki. Í þeirri vinnu þurfum við á að halda kröftum allra þeirra sem vit og þekkingu hafa á málum bankanna. Við skulum ekki láta bollaleggingar um upptök eldsvoðans verða til þess að hindra og tefja slökkvistarfið.

Hæstvirtur forseti.

Á þessum erfiðum tímum er brýnt að koma í veg fyrir að ótti og kvíði sem skiljanlega grípur um sig meðal fólks verði að upplausn og örvæntingu. Hafa stjórnvöld því þegar gripið til og lagt á ráðin um umfangsmiklar aðgerðir í þesum efnum.

Um leið og þessi atburðarás hófst setti ríkisstjórnin upp starfshóp fjögurra ráðherra til að hafa yfirumsjón með aðgerðum. Undir honum starfar stýrihópur með fulltrúum helstu ráðuneyta og stofnana sem að málum koma og sér um að samhæfa aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda. Mikið starf hefur verið unnið síðustu daga og vikur við að miðla upplýsingum og leiðbeiningum til fólks og fjölmiðla.

 

Reykjavík 15. október 2008
Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira